Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Ægir sendi mér bréf

Þá er komið að honum Ægi bloggvini mínum í þættinum "AT-kvæði, ort upp í bloggvini"... nenni ekki að útskýra út á hvað málið gengur núna, en svona lítur þetta út frá kappanum.

 

Ég er alsekki matvandur maður
þó verð ég að viðurkenna
að ég borða sjaldan fisk

einu sinni ætlað ég að bæta úr því
og keypti mér skötusel

sminkaði hann með hvítlauksolíu
og henti á grillið

konan hljóp til vara út í búð
og keypti pylsupakka

svo borðuðum við grillaðar pylsur
og drukkum hvítvín með

sátum þétt saman og horfðum
á skötuselinn malla á grillinu

Kveðja Ægir,


Skrítið fólk

Ég hef gaman af skrítnu fólki, enda sjálfur stór dularfullur. Eitt af því sem ég hef haft gaman að gera, er að semja lög við textana mína og syngja inn á disk. Sá sem hefur séð um að útsetja lögin og spilar undir í þeim öllum og syngur bakraddir, er enginn annars en Jón nokkur Víkingsson, kannski betur þekktur sem Johnny King. Ég er stórskrítinn, segir Johnny oft við mig og ég kinka kolli, ekki mótmæli ég því. En þú ert helvítis snillingur, segi ég þá. Þú ert sjálfur helvítis snillingur, hreytir Johnny út úr sér á móti.

Þegar ég fer í upptöku til Johnny, þá er ég bara með texta og laglínu í farteskinu og stundum eina vatnsflösku; aldrei mjólkurkex... maður syngur ekki vel með mjólkurkex í hálsinum. Síðan setjumst við niður við skemmtarann hans Jóns Víkingssonar og byrjum að raula og útsetja. Það tekur okkur svona 3 klukkutíma að útsetja búa til undirleik og syngja lagið inn, allt klárt þá, svo einfalt er þetta.

Ég samdi texta sem heitir Tréð og lag við... ég vildi ná fílingnum að við píanóið sætu tvær fyllibyttur á bar, það er komið undir morgun og allir aðrir löngu farnir heim... þeir eru orðnir tregafullir og slompaðir.

Við Johnny King erum því að þykjast vera fullir þegar við sungum þetta... við hefðum kannski betur verið fullir!???

Lagi er á spilaranum hér að neðan.

Tréð.

Má ég alltaf þér
vera eins og tré
sem er ætíð á sama stað 
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þegar úti er regn
allt er þér um megn
viltu koma ég verð þitt skjól
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þú ert falleg og blíð
renna tárin þín stríð
ég verð að eilífu hér fyrir þig
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þegar sólin skín
þú ert brosmild og fín
þá er tré svo skínandi grænt
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

 


Veiðiferð með vini

Var að koma úr veiði í kvöld. Ég og vinur minn fórum eldsnemma í morgun inn í  Svartárdal í Húnavatnssýslu á Silungasvæðið. Þar höfðum við aldrei komið, en vorum með kort af ánni og veiðistöðum... þreifuðum fyrir okkur á neðstu stöðunum og svo upp eftir ánni... veiddum nokkrar bleikjur og einn urriða nánast allt á sama staðnum...

Í hvíldinni þá borðuðum við nesti, hjá mjög stórri hestarétt... eða svo ályktuðum við... því það var hestaskítur út um allt, ályktuðum við, því við erum engir sérstakir sérfræðingar að þekkja skít, þótt við séum sleipir veiðimenn.

Síðan eftir matinn, eins og í leikskólanum,þá lögðum við félagarnir okkur... vinurinn inni í bílnum, en þar sem ég get ekki sofið sitjandi... þá lagðist ég í skjól við réttina... klæddi mig í regnstakkinn minn stóra og lambhúshettu á hausinn og síðan handklæði sem koddi... og ég sveif inn í dagdraumalandið...
...hálf vankaður vaknaði ég og jú, þetta var hestaskítslykt... fór ekki milli mála...nefið fullt af henni...... rétt fyrir ofan réttina voru tveir köflóttir hestar (er ekki alveg klár á litunum á þeim blessuðum)... eða svona indíánahestar... svo þetta var alveg klárt...


Þótt áin væri nú ekkert sérstaklega spennandi var gaman að koma í Svartárdal, en þangað inn hef ég aldrei komið... nokkur eldgömul hús að hruni komin vöktu athygli okkar... flott myndefni, þessi hús... svo hittum við skemmtilega kind með fimm lömb, já fimm lömb... greinilega góðhjörtuð kind sem búin var að taka nokkur vegalaus lömb að sér... við spjölluðum lítillega við hana og gáfum henni kleinu...

Síðan röbbuðu við vinirnir saman um heima og geima, svona karlamál, en karlamál a.m.k. okkar er ekki eins og konur halda að karlar tali saman... nei, nei, við erum að bera saman bækur okkar varandi hin ólíklegustu mál og tölum um persónulega reynslu okkar... erum sem sagt mjög opinskáir... enda í næstum því eyðidal þar sem aðeins skemmtileg kind með fimm lömb og köflóttir hestar gætu heyrt...

Við veltum líka fyrir okkur harðri lífsbaráttu fólksins sem eitt sinn bjó í þessum dal og öðrum svipuðum um allt Ísland... og þökkuðum fyrir að hafa rétt sloppið við að hafa fæðst á þeim tíma... en það er hæg að loka augunum og ímynda sér hvernig þetta var...

Grasið vex

Og
grasið vex

umlykur tóftirnar
tófugrösin fótsporin

yfir lífsbaráttu ykkar
grúfir þögn

fullt af röddum
ef maður hlustar

 


Málshættir um konur

Brattur er mikil jafnréttissinni og finnst stundum að við karlarnir sjáum stundum ekki út fyrir
löngutöngina á okkur þegar um jafnrétti kynjanna er að ræða,. 

Ég rakst á nokkra málshætti um konur og var að velta fyrir mér hvort þeir
hafi allir verið gerðir af karlmönnum, hvað haldið þið?

Spegúlasjónir og orðaskýringar Bratts fylgja á eftir hverjum málshætti.

Oft eru flögð undir fögru skinni.  
Brattur: Þessi fór í fýlu þegar sæta skvísan yfirgaf hann. 

Betra er að vera góðs manns frilla en gefin illa.
Brattur : Það mætti hugsanlega taka undir þetta, en er þetta þá góður maður?

Ekki eru allar konur eins að kyssa.  
Brattur : Þetta vissi ég. 

Já er meyjar nei.    
Brattur : Þetta vissi ég ekki.

Köld eru kvenna ráð.    
Brattur :Einu köldu ráðin sem ég hef fengið frá konu var frá konunni í ísbúðinni.

Sá á konu sem kaupir.    
Brattur :Nei, bíði nú við... Can´t by me love... var það ekki svoleiðis?

Kona er karlmanns fylgja.   
Brattur :Þetta hlýtur að hafa verið samið í hesthúsinu.

Sá á þarfan hlut sem á þrifnað konu.  
Brattur : Hvaða vitleysingur sagði nú þetta, letihaugur?

Oft er karlmannshugur í konu brjósti.  
Brattur : Sammála þessu.

Þrætugjörn kona er sem sífellur leki.  
Brattur : Karlpungar geta líka lekið, hef séð það.

Þunnt er móður eyrað.    
Brattur : Hvað er hér á seiði...þynnist eyrað þegar maður eignast börn huh?

Þögn er kvenna kostur.    
Brattur : Já, það er nú það... þegar maður er rökþrota... þá er best að það tali enginn við mann

Kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn. 
Brattur : Þetta samdi nú bakaragrey sem þurfti að borga konunni lélegu launin hennar.


Ég segi nú ekkert annað eftir þennan lestur en úppss.... voru þetta ekki bara karlarnir í gamla daga, sem svona töluðu, þessir í moldarkofunum... ekki erum við svona enn, íslenskir karlmenn????

 


Brattur og Einstein

220455

Smella á mynd til að stækka...


Þegar ég varð næstum því frægur

Einu sinni sendi ég ljóðasamkeppni listahátíðar 1996... það komst í bók sem heitir Blánótt, ljóð listahátíðar 1996... ég fékk 5.000 kall ávísun senda í pósti og keypt mér koníak fyrir... síðan hef ég ekki afrekað neitt...

Brúðkaupsdagur

Viltu
horfa á mig
eins og í dag

viltu
vernda mig
eins og í dag

viltu
hlusta á mig
eins og í dag

viltu
skilja mig
eins og í dag

viltu elska mig
eins og í dag

viltu
alltaf

eins og í dag?


Where do you go to

... man ekki einhver eftir þessu... góður texti... flott lag... eina lagið sem ég held að hann þessi, Peter Sarstedt, hafi gert frægt... skemmtilega sungið... einu sinni var ég með svona yfirvararskegg!!!

 

 


Dansað á bombólum

... ég var að koma frá Húsavík... var þar í dag að vinna... þar standa yfir Mærudagar, en Mæra er orð sem þýðir sælgæti á þessum slóðum....

... það minnir mig á það, að þarf sem ég ólst upp voru notuð orð sem ekki þekktust annars staðar... dæmi:

Blink = spúnn - ég heyrði ekki orðið spúnn fyrr en ég var orðinn unglingur

Bombólur = það voru svona bomsur sem var hægt að óla að ofan og þrengja svo ekki færi t.d. snjór ofan í þær.

... þegar ég var á Bifröst fyrir langalöngu... þá gáfum við út ljóðabók ég og vinur minn... bókin sú hlaut nafnið: Dansað á bombólum.

Hún var gefin út í einu eintaki og ég held að vinurinn eigi hana ennþá.

Ég held ég muni ljóði:(þetta er nokkurs konar skólaljóð)

Snigill bjarmans
leggur rúllutertuna í einelti
fór afi þinn í berjamó?
 

 


Af hverju er ekki alltaf sumar?

... var að koma heim eftir hálfs dags veiðiferð í Eyjafjarðará... veiðin ekkert sérstök, 2 bleikur og 1 vænn urriði... tók bleikjurnar á Bloody Mary... uppáhalds púpuna mín í bleikju... ein besti ráðgjafi minn rálagði  mér að nota bleikt í bleikju, líkur sækir líkan heim, sagði þessi góði ráðgjafi... nú sendi ég honum aðra bleikjuna og helminginn af urriðanum í pósti á morgun... og kannski nýjar kartöflur með, aldrei að vita... hann (ráðgjafinn) á alltaf svo mikið inni hjá mér...

... en þrátt fyrir frekar dræma veiði var dagurinn góður, Eyjafjörðurinn fallegur í sumarblíðunni... og krían, uppáhalds fuglinn minn heimsótti mig og var með einhver látalæti, en þetta var bara í nefinu á henni eins og venjulega... skjattagrey sat á þúfu rétt hjá og því þurftu foreldrarnir að passa hann...

... á leiðinni heim þegar ég keyrði í gengum þetta magnaða sumarkvöld hugsaði ég; af hverju er ekki alltaf sumar... sumarið er einhverskonar frelsi... maður kemst miklu meira um... sefur minna, verður kærulausari, hamingjusamari... og æskuminning kemur upp í hugann...

Við Kleifarhorn

Það er júní
það er nótt

vakan klukkan fjögur
klæða sig í skyndi

fram í þvottahúsi
bíður veiðistöngin
klár í slaginn
stinga sér í strigaskó
hnýta reimar
rjúka út

hnusa út í loftið
veiðilykt í andvaranum

Þú vinur minn
tilbúinn við hliðið
eins og um var samið
ekkert talað
báðir æstir
báðir ungir

hjólað á fullu
út í Kleifarhorn
hlaupið á fjörusteinum
út að klettunum

háflæði
sjórinn útblásinn
eins og ófrísk kona
fullur af lífi

og við báðir
þráðum að kast út
finna silunginn
taka blinkið
kippa í
sveigja stöng
strekkja línu


sjá´ann stökkva
draga að landi
blóðga
rautt kalt blóð
litar hendur
ilmar betur
en nokkur rós

og við svo sælir
og við svo ungir
og við
svo mikli veiðimenn

 


Er farinn að veiða...


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband