Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Á skammdegisbrún

... seinnipartinn í gær keyrði ég leiðina Akureyri - Húsavík... sem ég hef gert ótal sinnum áður... bæði í vinnuferðum sem og sem ferðamaður.... eða veiðimaður... klukkan var eitthvað á milli 16:00 - 17:00 og það var byrjað að skyggja...

... stoppaði aðeins og teygði úr mér við Ljósavatn og smellti mynd...

.

LjósavatnA

. 

Á skammdegisbrún

Dofnar dagur
fölblátt
verður blátt
blátt verður dimmblátt
dimmblátt svart

lýsist máni
kvikna stjörnur
dansa norðurljós
á himni

dönsum við
inní myrkrið

 


Orðin krufin

Sælir, kæru hlustendur og velkomnir að viðtækjunum... þetta er þátturinn "Orðin krufin"... annar kapítuli...

... þekkt er að fólk notar dýrategundir sem annaðhvort uppnefni á annað fólk, eða hrós...

... þú ert nú meiri asninn er líklega mest notaða orðið þegar einhver er hálfgerður sauður... svo eru orð eins og asnaprik... þar sem búið er að tálga asna úr spýtu... og sá er ekki eins mikill asni og sá sem er úr holdi og blóði...

... eru kindur heimskar; sagði konan við manninn sinn,... já lambið mitt svaraði maðurinn hugsunarlaust... svona menn eiga náttúrlega ekki að hafa bílpróf... það finnst mér... jafnréttissinnanum a.m.k.

... þá er api sérstaklega vinsælt orð í þessu samhengi... ég myndi vilja uppfæra þetta og segja... þú ert nú meiri Órangútinn Gunni... þá gæti Gunnar í sjálfu sér verið allt í einu : asni - sauður - asnaprik - lamb og api... Gunnar ekkert meint til þín... bara notaði nafnið þitt í þessu dæmi af því ég veit þú ert ekki viðkvæmur... þó þú sért kannski heldur ekkert lamb að leika sér við....

... Páfagaukurinn er alltaf ofarlega... skarfur... spói,en aldrei t.d. Blesönd...get alveg séð fyrir mér ákveðna tegund af konum sem þetta orð mætti hafa yfir... ekkert neikvætt.... klæðaburðurinn bara svolítið spes....

Svo eru það sjávardýrin... ég er syndur eins og selur, frekar jákvætt... en mætti alveg vera blöðruselur, ... þá er maður orðinn fitubolla.... svo er einhver annar algjör þorskur... af hverju hættum við ekki að segja "þorskhaus"...  og segjum frekar... þú ert nú meiri "Skötuselshausinn", það er miklu áhrifameira...því flestir þekkja forljótan hausinn á þeirri skepnu...

... svo þegar við förum að segja eitthvað fallegt, þá erum við komin í jurtaríkið, elsku blómið mitt, elsku rósin mín...

... ekki víst að það félli í jafn góðan jarðveg að segja... elsku Biðukollan mín, elsku Gulmaðran mín... þú ert algjör Götubrá...  ég dýrka þig elsku Garðabrúðan mín.... það finnst mér sætt...

... konur gætu síðan notað orð við karlmenn eins og...

... elsku Hanakamburinn minn... dásamlegi Helluhnoðrinn minn.... eða jafnvel helv... Haugarfinn þinn... ef að illa liggur á...

... kæru hlustendur, hættið að skamma skammdegið, það er búið að skamma það nóg í gegnum tíðina...

og munið... það blæðir ekki inn á það sem ekki er til...


Hálf hola

... margt er flókið í lífinu... og ekki er alltaf einfalt svar við einföldum spurningum...

... eins og það að grafa hálfa holu... ég hef prufað það... fór í gær út í ausandi rigningu með nýlega malarskóflu, í þeim tilgangi að grafa hálfa holu... ég gróf einn metra ofan í jörðina og mokaði svo aftur ofan í helmingnum af mölinni og moldinni... og þá var eftir hálf hola... ég vissi það, af því að ég hafði í upphafi mokað heila holu og svo minnkað hana um helming rétt á eftir... en þetta vissu náttúrulega ekki aðrir... þeir héldu örugglega að þetta væri bara venjuleg hola... ég varð því að gera tilraun...

... gömul kona gekk hjá, ég kallaði á hana og spurði; hvað er þetta? og benti á hálfu holuna... farðu nú heim til þín vinur og láttu renna af þér; sagði sú gamla. Ég er ekki fullur, svaraði ég að bragði... jæja, vinur allt í lagi... viltu kannski koma inn til mín, ég á heima hérna í græna húsinu hinum megin við götuna.. ég skal hella upp á lútsterkt kaffi og gefa þér kleinur með... nei, nei... ég þarf ekki neitt, nema hvort þú getir sagt mér hvað þetta er; sagði ég örvæntingarfullur og benti á hálfu holuna. Þetta, sagði sú gamla, þetta er hálf hola... ég horfði á hana eins og hún væri frelsarinn sjálfur... stökk á hana og faðmaði... Já! hrópaði ég, þetta er rétt hjá þér gamla kona; en hvernig vissir þú þetta????

... jú, ef þetta væri hola þá væri hún helmingi dýpri... sagði sú gamla, snéri við mér baki og rölti yfir götuna í átt að græna húsinu...

... elding lýsti upp blásvartan himininn, rigningin buldi á mér og rann úr hárlubbanum niður kinnarnar... ... ég tók skófluna, og setti hana upp á öxlina og hélt af stað heim...

... kulda og ánægjuhrollur hríslaðist niður bakið um leið og þrumuhljóðið klauf næturhimininn....


Melrakkinn

... ég var eiginlega að uppgötva það í kvöld að ég er ekki týpískur karlmaður... held ég, hef svosum ekki gert neinar rannsóknir á því... ég t.d. hef aldrei haft áhuga á bílum, eins og langflestir karla hafa... bílar hjá mér heita ekki nöfnum eins og Subaru... Toyota eða eitthvað slíkt... ég hef ekki hugmynd um hvernig svoleiðis bílar líta út... ég þekki bíla af því að þeir eru rauðir eða bláir eða hvítir... ég er t.d. spurður; hvernig bíl átt þú... og þá segi ég auðvitað; ég á hvítan bíl... svo er kannski spurt um hestöfl... eru kannski ekki hestöfl í bílum í dag? ég hef náttúrulega ekki hugmynd um það...

...ég hef hinsvegar átt góða spretti í bílaumræðunni... fór einu sinni með bilaðan bíl á verkstæði... hafi heyrt eitthvað hljóð í nokkra mánuði þarna fram í þar sem vélin er, held ég... karlinn í bláa samfestingnum á verkstæðinu  spurði bísperrtur ; hvað er svo að góurinn... þá mundi ég æðislega flott orð; altanitor... hafði heyrt á tal manna um bíla og þeir töluðu um altanitor... reyndar hljómar þetta eins og söngvari; tenór og alt... "Ég held það sé helv... altanítórinn sagði ég kokhraustur og rétti honum lyklana...

... sá í bláa samfestingnum tók mig á orðinu... þegar ég náði í bílinn aftur... þá var rukkað fyrir nýjum altanitor... en hljóðið þarna fram í þar sem vélin er... það var ekki horfið...

... ég hef heldur ekkert gaman að því að smíða, eða mála, eða nota skrúfjárn og rörtangir... rörtangir, t.d. ná alltaf að klípa mig þegar ég held á þeim... eftir að hafa notað hamar, þá er ég oftar en ekki með bláar neglur... not my cup of tea...

Melrakkinn.

Ég er ekki góður smiður
Ég kann ekki að bora í vegg
Ég er eins og mjúkur viður
Oft með þriggja daga skegg

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki

Ég er oft í hvítum sokkum
Og svörtum buxum eins og kol
Ég skarta ekki ljósum lokkum
Mér finnst ég flottur í rauðum bol

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki

Ég þarf mörgu og miklu að sinna
Og dunda mér við flest
Reyni úr ullinni að spinna
Allt sem fínast er og best

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki


Arfadallur -sunnudagshugvekja

... það er vita mál að ég er hálfgerður rugludallur... skemmtilegt orð rugludallur... hvað er rugla... gæti þessi dallur ekki eins heitið ugludallur?... þ.e. dallur þar sem uglur koma saman til að ugla...hmm?

... svo er talað um að vera arfaruglaður... af hverju eru arfar ruglaðir... ??? mér finnst þetta vera hálfgerð árás á þessa annars fallegu plöntu, sem ég held talsvert uppá... stundum er ég svo kátur að mér finnst ég vera arfaru-glaður... eins og núna... ég er ofboðslega arfaru-glaður í morgunsárið....

... sumir myndu segja að ég væri alvöru rugludallur... ég er samt eiginlega kominn á þá skoðun að ég sé svona sambland af því að vera arfaruglaður og rugludallur; sem sagt, ég er arfadallur

... konur eru auðvitað ekki rugludallar, þær eru náttúrulega rugludollur... til hamingju með það, konur...

... fleiri orð eru til í þessum anda, dettur t.d. í hug orðið kolgeggjaður, hvernig verður maður kolgeggjaður...hmm...

ég held að þetta sé komið úr grillheiminum... allir að grilla blindfullir út um allt Ísland... hausinn fyllist af reiknum frá kolunum... og bingó... menn verða kolgeggjaðir...  

... svo er til fólk sem er snarruglað... ég hef aðeins verið að spá í þetta orð og tilurð þess... og komist að þeirri niðurstöðu að sjá sem fer á hestbaki til að snara kálf, en snarar svo sjálfan sig í staðinn, af því að hann þekkti ekki muninn á sér og kálfinum, hann er snarruglaður...

... þetta var nú bara sunnudagshugleiðing í nýjum þætti mínum; "Orðin krufin"

... ég er nú meiri þöngulhausinn... þöngulhaus... hvernig orð er það nú einginlega... hmm... nei, nú er nóg komið, bíður næsta þáttar...

 


Sandalar

... orðaröð skiptir vissulega máli....

.... t.d. aumingja Brattur.... eða Brattur aumingi...  það er stór munur á... orð skipta líka máli... mér skilst að það séu a.m.k. 20 mismunandi meiningar með orðinu "jæja"...

jæja, best að fara að leggja sig... jæja, viltu slást!... jæja, eigum við að fara að koma... jæja, drífum okkur... jæja, þú segir það...jæja þá ég gefst upp...

... mér finnst sum orð líta illa út og furðulegt að einhverjum skildi hafa dottið í hug að búa til orð eins og berrassaður... freknur... svið... kleinur... sandalar...  ekki myndi ég vita hvað þessi orð þýddu, ef ég kynni ekki íslensku...

... talandi um sandala, þá geta þeir verið gersemar eins og eftirfarandi saga vitnar um... ég reyndar keypti mér inniskó í dag, handgerða... á eftir að fara í þá og sjá hvort þeir virka eins og sandalarnir í þessari sögu...

Það  var einu sinni maður sem fór og ætlaði að kaupa sér skó. Hann fór á Laugarveginn og fann þar skóbúð sem hann hafði aldrei séð áður. Þegar inn var komið tók á móti honum Indverji sem klæddur var í týpíska múnderingu, kufl og allt. Indverjinn segir "Góður dagur." "Góðan dag" segir maðurinn, ég er kominn til að kaupa kuldaskó.

"Nei, nei þú kaupa sandalar" segir Indverjinn.
"Nei, hva, það er að koma vetur, ég hef ekkert að gera við sandala. Mig vantar kuldaskó", endurtekur maðurinn.
"Þú vantar sandalar, sandalar gera þig æstan", segir Indverjinn og hneigir sig.

"Gera sandalar mig æstan? hváir maðurinn. "´Já", segir Indverjinn og réttir honum sandala. Maðurinn hugsar með sér að hann geti nú alveg prufað þetta og tekur við sandölunum. Eitthvað gekk honum nú illa að setja á sig sandalana, enda aldrei farið í sandala áður, en um leið og þeir voru komnir á fætur hans verður hann ógurlega æstur, hann ræður ekkert við þörfina og ríkur á Indverjann og kippir upp kuflinum.

Þá argar Indverjinn upp yfir sig "nei, nei þú vera í krummafótur".

 


Hangikjötsilmur

... ég hef ekki bloggað sé ég síðan 7. október... búinn að flakka mikið um allt land á þessum tíma... hlakka mikið til þegar þessi törn er búin og ég get farið að skrifa meira aftur... fer á þriðjudaginn að vinna á Þórshöfn og verð fram á miðvikudag... 

... nú þegar farið er að dimma, kemur einkennileg tilfinning í ljós hjá mér... ég er farinn að hlakka til jólanna... enda ekki nema rúmir tveir mánuðir þangað til þau koma... ég hef nú aldrei verið neitt jólabarn... en þegar ég borðaði hangikjöt um helgina, með grænum baunum og uppstúf... þá kviknaði einhver tilhlökkun í mér... og ég sem vil helst ekki að forleikur jólanna byrji fyrr en í byrjun desember... jólaskraut... jólalög o.þ.h.

... ég ætla samt ekki neitt að fara að syngja jólalög í vinnunni á morgun... en kannski ég kaupi mér góðan pott til að búa til uppstúf... það er það eina sem mig vantar fyrir jólin...

 

Aðfangadagur. 

 

Mikið
var mjöllin mjúk
í firðinum forðum
alvöru jólasnjór

í stofunni var allt klárt
gervitréð
bómullarkirkjan

allir pakkarnir
Prins Valiant
til: þín
frá: mér
 
Fimm á Fagurey
pakkar með slaufum

tryllingslegur ilmurinn
úr eldhúsinu
blindfullir kökudunkar
hálfmánar
vanilluhringir
laufabrauð

svindl - og
kornflekskökubirgðir
minni en mamma hélt

klukkan sex
heims um ból
helg eru jól

heilagt

tíu mínútum síðar
bein
á hátíðarborðinu

etinn heimatilbúinn ís
smyglað Machintosh
drukkið jólaöl
framundir morgun
með bóklestrinum

ó, hver dýrðlegt var
að sofna þá

 


Stjörnurnar mínar

... jæja... tíminn heldur áfram að líða og við sandkornin reynum okkar besta til að njóta þess sem í boði er...ótrúlegt að við skulum yfirleitt eyða tímanum í að þrasa við annað fólk, jafnvel og kannski oftast við fólk sem okkur þykir vænt um... ekki það að ég sé eitthvað betri í þeim málum en aðrir... en mikið held ég að við getum öll horft í eigin barm... og reynt á hverjum degi að hafa það bara ósköp notalegt með þeim sem við elskum... stundum held ég að það sé ótrúlega létt að láta sér líða vel... bara slaka á og njóta...

Stjörnurnar mínar.

Um nóttina gengum við
út í niðdimmt myrkrið  
vissum ekkert hvert
við ætluðum
héldumst í hendur
og dáðumst að
stjörnunum

þær blikuð á
dimmbláum himninum 
eins og þær vildu
vísa okkur veginn

ég horfði í augun þín
stjörnurnar mínar

og var tilbúinn
að fylgja þér
á heimsenda


Sundlaugin í Varmahlíð lokuð

... held hér áfram með smá stemmingu frá unglingsárunum...

...vinur minn kom oft mikið við sögu... hann var alltaf að gera eitthvað skemmtilegt... enda var hann mjög skemmtilegur og uppátækjasamur... aldrei með nein illindi eða svoleiðis... en yfirvaldið var samt ekki alltaf sátt við það sem þessi góði vinur tók uppá... hann var til dæmis alltaf að sulla í vatni og fór oft í sundlaugar, þó þær væru lokaðar, jafnt að degi til sem og að næturþeli... ýmist í öllum fötunum, eða kviknakinn...

... við fórum á böll í Húnaveri og einnig í Miðgarði... rétt hjá Miðgarði var sundlaug....

 

Sundlaugin í Varmahlíð lokuð.

Þú varst sæll eins og
Adam í Paradís
þegar löggurnar
leiddu þig nakinn
á milli sín
með þetta fræga bros
og afslappaða augnaráð
gegnum mannfjöldann
sólskynið og rykið
inn í Svörtu Maríu

allt sem þú hafðir
unnið til saka
var að synda alsber
frjáls og pínulítið fullur
í sundlauginni

þvílíkur glæpur
þessir skagfirsku
laganna verðir
höfðu greinilega
aldrei heyrt
minnst á
Woodstock

 


Johnnie Walker

... já, ég geng með það í maganum að gefa út 2 ljóðabækur einhvertíma á næstunni... ég á efnið nokkuð klárt í aðra bókina, en það er einhverskonar þema um æskuna... um vin minn í barnæsku og svo um annan vin á unglingsárunum... og um það sem við vorum að bralla saman á þessum árum... sú bók á að vera myndskreytt...

... seinni ljóðabókin sem ég er að hugsa um að gera, er gjörsamlega í Guðshúfu ennþá, þ.e. ekki komið að getnaði og ekkert líf að fæðast, en sem komið er... en það verður einhverskonar þemabók... kannski sjálfsæfisaga í ljóðum og ekkert dregið undan!

... nú er ég búinn að setja pressu á mig með því að segja hér frá því hvað mig langar að gera í ljóðaútgáfu... á næstu 2-3 árum...

... ég hef áður birt einhver örfá ljóð frá unglingaárakaflanum... hér kemur eitt;

 Johnnie Walker.

Fyrsta fylleríið var mest ímyndun
sonur Ringsteds á brekkunni
gaf okkur sitthvorn sopann
af Johnnie Walker
við veltumst um og hlógum
eins og hálfvitar
þóttumst ekkert skilja
í okkar haus

Gjóuðum þó augunum í laumi
til stelpnanna
til að athuga hversu mikið
við hefðum unnið okkur
í álit á þeim bæjunum

Og það var ekki laust
við aðdáunarblik
í dreymnum augum meyjanna
sem hafði þau áhrif
að við urðum ennþá fyllri
lögðumst niður í götuna
með lappirnar upp í loft
augun stjörf
og lafandi tungu
 

Dóum;
Svona bráðabirgðadauða
í þeirri fullvissu
að Flórens Næturgali
veitti okkur hjúkrun

En þegar engin skipti
sér að okkur
stóðum við upp
þegar lítið bar á
dustuðum af okkur rykið
og röltum heim
reynslunni ríkari
fóstbræðurnir;

Johnnie og Walker

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband