Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Upp á hól og bak við stól.

Það eru nokkrir hlutir sem mig vantar en þó vantar mig ekki neitt.

Ég hef verið að leita að búð sem selur ról en það virðist bara engin vera með þetta.

Þegar ég klæddi mig í morgun og var kominn á mitt ról þá tók ég eftir því að það var komið gat á það. Það er ekki nema von að rólið manns slitni með tímanum. Maður fer á það á hverjum einasta drottins degi. Það er bara rétt um blánóttina sem maður fer af því og leggur það við rúmgaflinn.

Ef einhver veit um búð sem selur ról þá má hann láta mig vita.

En ég vil bar eitt ról því það getur farið illa fyrir þeim sem eru gráðugir og vilja eiga mörg ról... við skulum muna hvernig fór fyrir henni Grýlu...

Nú er hún Grýla gamla DAUÐ gafst hún upp á rólunum.
.

hronn1

.

Annað sem ég er í smávandræðum með er látúns hálsgjörð. Eins og alþjóð veit þá eigum við kött sem heitir Snati. Mig langar svo rosalega að gefa honum látúns hálsgjörð í jólagjöf.

Í jólastússinu á heimilinu finnst okkur voðalega notalegt að spila jólalög.

Eins og alþjóð veit þá er Snati ekki eini kötturinn á heimilinu... nei við eigum líka Kötlu, Tevez, Alexöndru, Tígra, Freknu, Gretti og Hróa Kött. Ég var næstum því búinn að gleyma Depli gamla en hann er svo sjaldan heima.

Köttunum finnst líka rosalega gaman að hlusta á jólalögin. Í leiðinni eru þeir að æfa sig í því að fella jólatréð. Þeir ráðast á blóm sem er svona einn metri á hæð og skella því í gólfið. Þeir iða í skinninu og hlakka rosalega til jólanna. Geta varla beðið eftir því að við setjum jólatréð upp. Við vorum að hugsa um að skreyta það ekki neitt, hafa bara toppinn á því þessi jólin.
.

 hangir

.

Það er þó eitt jólalag sem kettirnir þola ekki og eru reyndar skíthræddir við og það er náttúrulega;

"Út með jólaköttinn"

Ég get nú stundum verið stríðnari en púkinn á fjósbitanum og á það til að syngja ÚT MEÐ JÓLAKÖTTINN... hann hefur unnið heljarmikið tjón... út með jólaköttinn... kvikindið er loðið eins og ljón...  svona upp úr þurru. Þá tvístrast kattahjörðin og skýst á bak við sófa og stóla... það er svakalega gaman.

En það er best að enda þetta jólaguðspjall á þessum heimsþekkta jólasálmi.

Úti grimmur vetur, ógnarkalt
Frost og hríðarbál.
Í húsi mínu hef ég allt.
Sem gleður mína sál.
Þar malar köttur, hrýtur tík
og feg
urð þín er engu lík
Ekkert þarf ég fyrir jól
nema hlýju þína og skjól.
.

 

tvíburar

.

 


Mennirnir hennar Grýlu.

Það voru einhverjir menn að tala um Grýlu í útvarpinu í morgun.

Ég keyrði eftir þjóðveginum snemma í morgun. Það var niðdimmt en stjörnurnar voru þó komnar á fætur og vísuðu veginn. Nei, ég segi nú bara svona til að vera skáldlegur. Auðvitað lýstu bílljósin mér veginn.

En áfram með söguna.

Í þessu útvarpsspjalli kom ýmislegt í ljós sem ég hafði ekki vitað um áður.

Grýla var tvígift. Fyrri maður hennar hét víst Boli en sá seinni Leppalúði. Vissulega kannaðist ég við Leppalúða en á Bola hef ég aldrei heyrt minnst.

Í útvarpinu kom fram að Leppalúði var ekki pabbi jólasveinanna, hann var bara fósturpabbi þeirra. Ég held að Boli hafi heldur ekki verði pabbi neins.

Nei, Grýla var víst svona lauslát. Hún átti jólasveinana einn og átta og þrettán með fullt fullt fullt af mönnum.
.

 grylaogfelagar

.

Þegar heim var komið um kvöldið sagði ég konunni frá því hvað ég hafði heyrt í útvarpinu. Konu minni fannst ótúlegt hvað Grýla hafi haft mikinn séns miðað við útlitið.

Nú er ég að spá í það hvaða gæjar þetta voru sem áttu jólasveinana með henni Grýlu.

Það þarf ég að rannsaka... læt ykkur vita um leið og ég hef upplýsingar um það.

 

 

 

 

Nú er ég búinn að rannsaka og niðurstaðan kemur á óvart.

Grýla var þrígift. Fyrst giftist hún Bola, næsti hét Gusti og svo giftist hún Leppalúða sem er samkvæmt mínum heimildum, pabbi jólasveinanna. Nú er ég ánægður. Hef alltaf kunnað svo vel við Leppalúða.

Grýla át víst bæði Bola og Gusta.

Þessi saga endar því vel.


Pósturinn - allur pakkinn

Ég fór með pakka á pósthúsið í morgun.

Það er greinilega langt síðan ég hef sent pakka. Ég fékk nefnilega spurningu frá afgreiðslukonunni sem ég hafði aldrei fengið áður.

Viltu rúmfreka sendingu eða skráða sendingu ? spurði hún.

Ég hafði ekki hugmynd hvora gerðina ég vildi og spurði á móti hver væri munurinn.

Eftir langa útskýringu afgreiðslukonunnar komst ég að því að ég gæti valið um það hvort að pakkinn týndist eða þá að hann kæmist örugglega á leiðarenda.

Ég valdi þann kost að kaupa undir pakka sem týndist ekki... en það var töluvert dýrara en að kaupa undir pakka sem átti að týnast.

Fór svo í framhaldinu að velta fyrir mér hvers konar fólk velji þann kostinn að borga undir pakka sem á að týnast ???
.

package

.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband