Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Á beinu brautinni.

Ætli United sé ekki bara að hrökkva í gang... hafa ekki verið að spila sérlega vel í vetur en eru samt í 2. sæti. Eiga enn mikið inni finnst mér.

Sá ekki allan leikinn þar sem ég horfði líka á Frakkland - Króatía, en sá þó nóg af fótboltaleiknum til að sjá að United var betri aðilinn og verðskuldaði öruggan sigur, spiluðu mjög vel í dag.

Nani kom á óvart og átti sinn besta leik með United hingað til, a.m.k. af þeim sem ég hef séð.

Fullkominn íþróttadagur, Ísland með bronsið í handboltanum og svo þessi góði sigur United á Arsenal.

.


naniflipping
.

 


mbl.is United hafði betur á Emirates
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrogn og lifur.

Ég vaknaði í morgun
nokkuð hress
Rúmið mjúka kvaddi
og sagði bless
Ég hló að mínum
hugsunum he he
læddist fram í eldhús
og fékk mér te

Úti var smá frost
en alveg logn
mig langaði í
lifur, ýsu og hrogn

Ég og ég við erum góðir saman
við skemmtum okkur vel
og höfum gaman
Þú ættir bara að prufa það Sveinn
að vera með mér þegar ég er einn.

Úti er smá frost
en alveg logn
Nú langar mig í
lifur, ýsu og hrogn
.

%C3%9Dsa

.

 


Allar grýlur dauðar !

Það er frábært að sjá og heyra að strákarnir hafa trú á verkefni morgundagsins. Held að Frakkarnir séu frekar sigurvissir og það er bara gott fyrir okkur.

Mikið rosalega er búið að vera gaman að fylgjast með þessum samstillta hópi sem landsliðið er.
Ekki má heldur gleyma þjálfurunum og öllum þeim sem að liðinu standa.

Danskir dómarar dæma leikinn... svo Danir laumuðu sér bakdyramegin í undanúrslitin eftir allt Smile

Gaman að vera eina Norðurlandaþjóðin sem kemst þetta langt.

Svíagrýlan er löngu dauð sem og sú norska og danska.

Það er að öllum líkindum bara eitt lið sem er einhver grýla í dag og það er Franska liðið.

Á morgun er komið að því að fella síðustu grýluna.
.

 180px-Grylan1.svg

.


mbl.is Stóra prófið eftir gegn Frökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maggi litli

Ég heyrði litla sögu um daginn og þessi er sönn.

Maggi litli var í stærðfræðiprófi. Eitt dæmi var : 2 + 2   = ___ ?

Maggi litli var búinn að skrifa svarið 4 á blaðið þegar kennarinn labbar framhjá.
Kennarinn segir við Magga litla; ertu nú alveg viss um þetta ?

Síðan gengur kennarinn áfram um stofuna og fylgist með. Hann kemur aftur að borðinu hans Magga litla og sér að hann er búinn að stroka út svarið 4 og er búinn að skrifa 5 í staðinn !
.

 Mathematic%20Numbers

.

 

 


Yfirlýsing og gáta

Jæja, þá er ég byrjaður í líkamsræktinni.

Ég gerði 30 magaæfingar milli jóla og nýárs og komst í stuð við það.

Nú hef ég ákveðið að gera eina magaæfingu á dag út veturinn og sjá hverju það skilar.
Hvaða tími dags ætli sé nú bestur til að gera magaæfinguna ?

Markmiðið er að ná af sér 5000 grömmum fyrir sumarið.

Ég hef líka ákveðið að hætta að borða allt nema ristað brauð með osti, kleinur, tebollur með súkkulaði, kanilstykki og Freyju staur... og kannski lambalæri með sósu, grænum baunum, sultu, brúnuðum kartöflum og rauðkáli.

Að lokum ein gáta.

Hver er það sem er 5 kílóum of þungur... ekki gamall og ekki ungur... notar skó númer 43 og er nýkominn úr sundi ?
.

 Swimming

.

 


Þetta verður góð vika.

Strákarnir okkar senda mann ýmist niður í kjallara eða langt upp á himininn.

Held þeir eigi eftir að vinna fleiri leiki í vikunni.

Þessi mynd frá því í gær er svo skemmtileg þó maðurinn á henni sé það kannski ekki alveg.
.

Billede

 


mbl.is Alexander: Hljótum að stefna á undanúrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gungan

Einu sinni var maður sem var hræddur við allt. Hræddur við veðrið, hræddur við sólina, hræddur við tunglið, hræddur við vatnið og eldinn.

Hann var hræddur við öll dýr. Kóngulær, ljón, ánamaðka, sæhesta og hænur.

Hann var því alltaf kallaður Gungan. 

Gungan bjó ein í fallegu húsi fyrir utan þorpið við hliðina á ánni.

Einu sinni var hún á gangi meðfram árbakkanum. Hinumegin við ána voru börn að leika sér með bolta... allt í einu sér Gungan að boltanum er sparkað út í ána.

Eitt barnanna reynir að teygja sig í boltann en dettur út í. Gungan sér þegar straumurinn tekur barnið með sér, það sekkur en skýtur upp neðar. Gungan byrjar að hlaupa meðfram árbakkanum og reynir að fylgja barninu eftir með augunum.

Áður en hún veit sjálf af stekkur Gungan út í ána og hugsar ekkert út í það að hún kann ekki að synda. Kraflar ofan í vatnið með höndunum og hjólar með fótunum af öllu afli. Hún nálgast barnið og nær að grípa í hettuna á rauðri úlpunni, heldur höfði barnsins upp úr vatninu og lætur sig reka með straumnum.  Allt í einu eru Gungan og barnið komin út úr straumnum í lygnt vatn. Hún finnur fyrir botninum og nær að standa upp og ganga í land með barnið í fanginu.

Þau leggjast í grasið og barnið grætur. Það er lifandi hugsar Gungan... og ég, ég bjargaði því... ég er engin Gunga ég er hugrakkur. Maðurinn finnur fyrir mikilli og óvæntri hamingju. Hjarta hans er að springa af gleði.

Allt í einu heyrast hróp og köll. Gungan sér hvar hópur fólks kemur hlaupandi og lögreglan fremst í flokki. Lögreglan kastar sér á hann, grípur um úlnlið hans, veltir honum á grúfu og handjárnar.

Fólkið hrópar ókvæðisorðum að Gungunni; barnaníðingur, aumingi, morðingi, GUNGA.

Svo er hann leiddur í handjárnum að lögreglubílnum. Hann sér hvar móðir barnsins situr í grasinu og faðmar barnið. Hún lítur upp og horfir á hann. Það er hatur í augum hennar.
.

 

 tree-of-life-river-of-life-05-08

.

 


Ronni

Við Ronni lentum í smá ævintýri í nótt. Ronni er gestur á heimilinu, grár feitlaginn köttur.

Þar sem nokkuð er um ketti í húsinu þarf hver og einn að finna sér pláss og helga sér land.

Ronni hefur valið baðherbergið. Þar hefur hann fundið sér fleti hjá ofninum þar sem hann lætur sig dreyma um sól og sumar og hagamýs.

Ronna þykir sopinn rosalega góður. Hann stekkur upp í baðkarið þegar hann verður þyrstur og sleikir dropana sem þar hafa orðið eftir þegar einhver hefur verið í sturtu.

Í nótt vaknaði ég og rölti fram á baðherbergi. Ronni var hálf sofandi, reyndi að mjálma en það kom bara svona hljóð út úr honum eins og úr falskri ryðgaðri munnhörpu, djúpu tónarnir.

En svo vaknaði hann og stökk upp í baðkarið og bað um vatn... mjáaááaááááa...

Ég, varla vakandi, teygði mig í kranann og skrúfaði frá... en sturtan fór þá í gang og bleytti okkur báða verulega mikið... ég varð alveg hundblautur... en ég get varla sagt það um Ronna þar sem hann er köttur... en hann varð semsagt alveg eins og ég hundblautur og stökk með látum upp úr baðkarinu og þaut fram.

Í morgun hefur Ronni alveg forðast mig og tekur alltaf smá sveig framhjá mér þegar við mætumst. En ég held að hann hafi nú samt haft lúmskt gaman af þessu þar sem ég blotnaði meira en hann... það er glott á kattarkvikindinu sem virðist bara ekki ætla að fara af í bili.
.

 

.Kitty


Að kúra

Að kúra er sjálfsagður siður
Það má ekki leggja hann niður
Gott með sér sjálfum
og böngsum og álfum
En þó sérstaklega með yður
.

27525

.

 


Ég og baunagrasið.

Ég vaknaði upp við það að ég var að klifra upp baunagras... ég var ekki lengur ég heldur Jói.

Af því að ég var búinn að gleyma sögunni um Jóa og baunagrasið vissi ég ekkert hvað ég átti að gera.

Ég ákvað samt af einskærri forvitni og þrátt fyrir að ég væri lofthræddur, að halda áfram að klifra upp grænt baunagrasið.

Það hlyti að vera spennandi að sjá hvar það endaði og hvað væri þarna uppi.

Mér datt í hug að þarna væri allt morandi í englum og kannski Lykla Pétur og Jesús sjálfur... sá yrði nú glaður að sjá mig.

Ég klifraði í gegnum skýin og furðaði mig á því hvað það væri heitt... allt í einu heyrði ég hlátur, hlátur í börnum ... ég var greinilega að nálgast toppinn... það var eitthvað skemmtilegt í gangi þarna uppi...

Baunagrasið teygði enda sinn inn um dyr sem voru á himninum. Ég togaði mig áfram og yfir þröskuldinn, lagðist á bakið og dæsti.

Þegar ég rankaði við mér stóðu tveir litlir englar yfir mér og horfðu á mig.
.

 072

.

Hvað ert þú að gera hérna skrítni maður... ég veit það ekki svaraði ég og brosti... en þið, hvað eruð þið að gera hérna ???

Við eigum heima hérna en erum á leiðinni til jarðarinnar sögðu englarnir, stelpa og strákur... við eigum bráðum að fara að fæðast... já, sagði ég, það líst mér vel á...

Megum við koma með þér þegar þú ferð aftur niður baunagrasið, spurðu litlu englarnir. Já, það megið þið svo sannarlega, svaraði ég.

Ég tók stelpuna í fangið en strákurinn hoppaði upp á bakið. Síðan renndum  við okkur niður baunagrasið.

Þegar niður var komið vorum við stödd á akri. Það var sól og golan var hlý. Neðan við akurinn var skógur. Skringilegir fuglar í öllum regnbogans litum flugu um loftin og sungu af hjartans list.
Ekkert hús var sjáanlegt og engin mannvirki.

Litlu englarnir gengu að mér og kysstu mig á sitthvora kinnina. Takk fyrir farið góði maður. Bless.

Svo hlupu þau hlægjandi eftir akrinum í átt að skóginum og hurfu úr augnsýn.

Bless hvíslaði ég út í hlýja goluna... bless.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband