Hænsnabúið

... einu sinni rak ég hænsnabú...

Það  var þannig, að þegar ég var strákur, þá vorum við alltaf að byggja kofa. Skemmtilegast af öllu var að kaupa lás á kofann þegar hann var tilbúinn.
Þá fórum við vinirnir í Mummabúð og keyptum okkur fallegan gylltan hengilás. Einu sinni keyptum við lásinn fyrst, áður en við byrjuðum að byggja. En það hefðum við ekki átt að gera, því þá var allur spenningurinn farinn úr málinu og kofinn var aldrei byggður.

En við þurftum að hafa not fyrir alla þessa kofa. Í eitt skiptið þá notuðum við kofa í tilraunaskini. Einn af okkur fór inn í kofann með tjörupappa og kveikti í honum þar. Við vildum komast að því hvað maðurinn þyldi reyk lengi. Ég held að enginn okkar sem þetta prufuðum hafi reykt sígarettur um ævina að neinu gagni, fengum okkar skammt þarna.
.

 childrenhouse2

.

En svo ákváðum við að skaffa björg í bú og fá okkur hænur til að geta fært mæðrum okkar egg á hverjum degi. Við keyptum gamla hænu fyrir lítið af bónda einum. Eitthvað var hún treg að verpa. Þá föttuðum við það að hún þurfti hana. Við fórum og keyptum okkur glæsilegan hana. Eggjaframleiðslan jóks ekki mjög mikið við þessa fjárfestingu. Við prufuðum ýmiss húsráð, eins og að setja sítrónubelg undir hænuna. Einhver gárunginn hafi logið því að okkur að þá myndi hænan verpa mörgum eggjum á dag.
.

 lemon

.

Við horfðumst því í augu við það að hænu greyið var bara orðin alltof gömul til að standa í því að bera heilt hænsnabú uppi.

Þá var farið á hjólum fram í sveit þar sem við keyptum okkur unga hænu. Nú skildi sko fyrirtækið fara að ganga.

En þessi unga var bara ungi og það kom ekki eitt einasta egg undan henni. Stóra hanann misstum við út og vorum heilan dag að ná honum aftur. Náðum honum loks í holu sem við höfðum grafið í kirkjugarðinum sem var bílskúrinn okkar þegar við vorum í bílaleik.

Svo leið tíminn... gamla hænan verpti einu eggi á viku og vorum við strákarnir mjög spældir yfir því.
Sú unga engu.

Enda kom það í ljós löngu síðar, að unga hænan var hani.

Svona endar þetta sannsögulega ævintýri um hænsnabúið sem samanstóð af tveimur hönum og einni gamalli hænu.
.

 chickens

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Rosalega hafið þið vinirnir verið duglegir. Var einmitt að pæla í að fá mér hænur í vor. Búbót í harðærinu. Og eitt egg er betra en ekkert

, 4.1.2009 kl. 10:30

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahahah þessi saga minnir einna helst á Fanney í Einholti ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 10:42

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Skemmtileg saga 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.1.2009 kl. 17:06

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hann hændi að zér hænur, haninn ...

Steingrímur Helgason, 5.1.2009 kl. 00:28

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

He..he..ha...HA!

Þetta er mikil eðal-færsla Brattur bróðir.

Takk fyrir þetta!

Og kveðja frá Sverige

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.1.2009 kl. 20:35

6 Smámynd: Gulli litli

Þú ert flottur..

Gulli litli, 6.1.2009 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband