Færsluflokkur: Ljóð

Hver á sér fegra föðurland?

... búinn að vera að skrifa um hvalveiðar og pólitík síðustu daga... best að hvíla það aðeins með stemmingsmyndum úr Borgarfirðinum...

.

 BF

.
.

 BF-VEGUR

.

Hver á sér fegra föðurland
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

(Höf:Hulda/Unnur Benediktsdóttir Bjarklind)


Draumurinn

Í algjöru tímaleysi
lá ég hjá þér
Hvísluðum orðum sem hvort öðru gáfum

Ég elskaði allt sem að 
sagðir þú mér
Í faðmlögum vöktum og sváfum

Andlit þitt fríða,
augun þín skær
Og ilmandi dökkir lokkar

Aldrei mátt hverfa
sem ert mér svo kær
Úr fallega draumnum okkar

.

M104-SombreroGalaxyVLT

.


Nóttin og ég

Sú nótt
Svo stjörnubjört var
Ég hvíslaði
til hennar
og fékk lítið svar.

Ég geymdi svarið
og nóttin var mín
Bjartar stjörnurnar
leiddu mig
beint heim til þín.

Alla nóttina
sátum við undir
himni sem okkar var
Ég færði þér næturinnar
litla fallega svar.
.

stars_background_hg_blk 

.

 


Ég þarf ekkert (Jólalag)

Úti grimmur vetur
ógnar kalt
frost og hríðarblá.

Í húsi mínu
hef ég allt
sem gleður mína sál .

Þar malar köttur
hrýtur tík.
Og fegurð þín
er engu lík.

Ekkert þarf ég fyrir jól
Nema hlýju þína og skjól.
.

Christmas_house_welcome_sign_winter_scene
.

 


Uppáhalds liturinn

Öll sú litadýrð sem Guð oss gaf 
Grænu túnin og dimmblátt haf
Bleikan himinn og  fjöllin gráu
Tunglið gula og blómin bláu

Hann gaf mér þig, sem ert mér góð
Eins og sólin bjarta, falleg, rjóð
Í hjarta mínu ást ég heita finn
Þú ert uppáhalds liturinn minn
.

Moonshadow_zoom%20copy

.


Uppáhalds ljóðið mitt

Tárin hrynja.

Senn dimmir hér skerinu á
og svanirnir fljúga á brott
Króknuð og köld verður þá
kinn mín, það er ekki gott

Ég engan get yljað mér við
er alein með ískaldar tær
Í hjarta mér hef engan frið
hjálpið mér, komið þið nær

Ég sakna það nær engir átt
ég man enn þinn síðast koss
Ég titra og tala svo fátt
og tárin hrynja sem foss

.

waterfall-23

.


Próf

.

 lefton_lefton_figurines_no_box_P0000014627S0077T2

.

Nú ætla ég að segja ykkur söguna af því þegar ég var lítill drengur og átti að fara í lestrarpróf.
Ekki veit ég hvernig þessi próf eru gerð í dag, en í þá daga var lagt fyrir blað sem átti að lesa af og kennarinn var með skeiðklukku... svo var lesið eins hratt og maður gat og helst rétt þar til tíminn var búinn...  þetta var hrikaleg keppni við klukkuna og spenna í loftinu...

Próf

"Farið þið með faðirvorið
drengir mínir
þá gengur ykkur vel"

Svo mælti mín guðhrædda amma.

Lestrarpróf  í skólanum
og við með í maganum

krakkarnir kölluð inn í skólastofuna
í stafrófsröð.

Faðir vor þú sem ert á himni...

Þér rétt blað
í sveitta lófa.
Ógnvaldurinn á borðinu:

Skeiðklukkan.

... því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu am...

BYRJA!

En faðir vor
breytti litlu.
Okkur gekk ekkert betur.
Vorum svona
fyrir ofan og neðan
miðjumenn.

En helvítið hún Pálína
efst eins og alltaf.

Ekki vissum við til
að hún færi með bænir.

 


Ljóðavíma

... nú er ég í einhverjum ljóðaham... mér finnst gaman að taka mér ljóðabók í hönd og fletta henni... oft rekst maður á miklar perlur, svo fallegar að maður fer í vímu... ljóðavímu...

... mér finnst gömlu skáldin flottust... Steinn Steinarr í uppáhaldi, Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Jónas Hallgrímsson og já, Halldór Laxness sem var betra ljóðskáld en skáldsagnahöfundur að mínu mati...

Hér er kvæði eftir einn sem ég nefndi ekki hér að ofan... einhverjir kannast kannski við það aðrir ekki eins og gengur... um hann var sagt;

Hann var mikill persónuleiki, harður og viðkvæmur í senn, opinskár
og meinfyndinn í skáldskap sínum. Hann hafði alltaf mikla samúð
með öllum minni máttar hvort sem það voru dýr eða menn.
Ljóð hans eru  mælsk og ljóðræn og orðfærið er auðskilið.

.

 

 þorsteinn_erlingsson

.

Hér er ljóðið: (reyndar bara fyrra erindið)

Sólskríkjan.

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein -
ó ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

Vitið þið eftir hvern þetta er, án þess að googla?

.

2527861855_6a6ef86dfd

.


Fiðrildið

Eins og fiðrildi
þú flögraðir
inn í líf mitt

Ég hafði aldrei
fundið slíka ást
því brosið þitt

það lýsti
upp allan heiminn
eins og bál

Ó, ástin mín
þú gleður
mína sál

.

 adc-6-butterflies-small

.


Afi

Afi gamli fylgdist vel með veðrinu eins og flestir Íslendingar gerðu og margir gera enn.
Hann og amma áttu 10 börn. 
Þegar þau voru hætt að vinna, þá bjuggu þau heima hjá foreldrum mínum. Afi vildi passa upp á okkur strákana og var iðulega úti á kvöldin að leita að okkur til að segja okkur að koma heim.
Klukkan er langt gengin í níu, sagði hann, þegar hún var rúmlega átta. Aðrir krakkar kölluðu hann afa á hlaupum vegna þess að hann var alltaf á fullu að leita að okkur.

Heima hjá okkur var lítið barómet sem sá gamli sló fyrnafast í til að sjá hvort breytingar á veðri væru í nánd... við vorum alltaf dauðhrædd um að hann myndi brjóta það, svo fast var slegið.

Afi 

Mig undraði styrkur
glersins í barómetinu
þegar þú þrumaðir
í það með hnúunum

Regn - breytilegt - bjart

Við strákarnir
sáum á svip þínum

að líklega myndi
hann bresta á
að norðaustan

með kvöldinu

.

 2066940

.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband