Færsluflokkur: Ljóð

Tevez og Alexandra

Sofandi kisur-a

 

Dagurinn er lofandi
gott er að vera sofandi
Njóta að hrjóta
og sofa til fóta
eða þá bara standandi 


Júní blues

Ég á ekki fyrir salti í grautinn minn
Á ekki fyrir salti í grautinn minn
Á ekki fyrir salti
Og hvað þá Egils Malti
Á ekki fyrir salti í grautinn minn.

Ég á ekki fyrir bót á rassinn minn
Á ekki fyrir bót á rassinn minn
Á ekki fyrir bót
Og brókin hún er ljót
Á ekki fyrir bót á rassinn minn

Ég á ekki fyrir hettu á hausinn minn
Á ekki fyrir hettu á hausinn minn
Á ekki fyrir hettu
Og ekki sígarettu
Á ekki fyrir hettu á hausinn minn

Ég á ekki saltkjöt og baunir né túkall
Á ekki saltkjöt og baunir né túkall
Á ekki saltkjöt
Og engin spariföt
Á ekki saltkjöt og baunir né túkall

Nú einmana ég geng um stræti og torg
Einmana ég geng um stræti og torg
Einmana ég geng
Skakkur og  í keng
Einmana ég geng um stræti og torg
.

 blf2009

.


Himnaríki

Þetta nótt skildi hann
Hvernig alheimurinn hefði orðið til
Stórihvellur
Stjörnuþokurnar
Og allir litirnir
sem höfðu kurlast út í geiminn
Við fæðinguna

Hann gekk út á veröndina
dró að sér svalt næturloftið

Honum fannst hann hafa stigið
Inn fyrir hlið Himnaríkis
Þar sem rósir og túlípanar
breiddu úr sér
Dökkrautt og gult
Svo langt sem augað eygði

Inni sá hann skugga hennar
dansa á panilveggnum

Í útvarpinu
söng engill
himneskan sálm.
.

 universe

.


Þjóð vega ljóð

Samdi þetta fallega ljóð í blíðunni í dag þar sem ég ók eftir þjóðveginum og naut útsýnisins.

Girðingastaurar
og gaddavír

Girðingastaurar
og gaddavír

Gadda gadda gadda gadda gadda gadda gadda 

Vír og staurar

Dýr og Maurar

.


gaddavir
.


Veislan

Lífið sjálft er veisla, sjónarspil
sæll þú ert en stundum finnur til
Þú þraukar eftir þinni mjóu braut
þrekið eflist er þú sigrar hverja þraut

Hamingjunni þú halda vilt að þér
og hlúa að því  sem best í heimi er
Þú gengur um í mold, í slitnum skóm
Er sólin skín þú vökvar öll þín blóm

Þá hjartað syngur lag og hefur hátt
Þú höndlar fegurð sem aldrei hefur  átt
Á koddann leggstu við  kvöldins mjúka klið
og kyssir vangann sem liggur þér við hlið

Góðar gjafir þú ætíð geyma skalt
eftir góða tíð þá getur orðið kalt
Njóttu lífsins þó tilveran sé snúin
því  fyrr en varir er veislan góða búin

.

 boy%20fishing2_0

.


Upprifjun

Ég var að skoða hvað ég hefði verið að skrifa fyrir ári síðan á blogginu... fann þá þetta og fannst það bara eiga vel við núna ári síðar; 

 ... það er blankalogn úti núna, vorilmur í loftinu... Skógarþröstur syngur af innlifun á toppi hæsta trésins í götunni... vorið er yndislegt... boðar betri tíð með blóm í haga... en þó þessi vetur hafi verið grimmur... með miklum snjó og hrikalegum hvassviðrum, þá er búið að vera vor hjá mér í allan vetur...

...fallegt, hlýtt, yndislegt vor...

Vor í vetur.

Vindurinn bankaði 
kalt á gluggann

inni í hitanum slógu
hjörtun í takt

það skipti ekki máli
hvort það snjóaði
endalaust

raunar áttu þau
enga ósk heitari

en að hús þeirra
fennti í kaf 

.

 Spring_Romance-157x153

.


Tvær sálir

Svo undarlegt er sálir mætast tvær
sem þekkjast síðan einhvern tíma fyrr
þar birtist sanna ástin, alveg tær
og hugurinn er sáttur, glaður, kyrr 

Svo ferðast þær um friðsæl ókunn lönd
og fá að njóta samvistar um hríð
þær ganga alltaf saman, hönd í hönd
og hjörtun slá í takti alla tíð

Að endingu þá skiljast þeirra leiðir
þær horfast  lengi í augu, fella tár
að kveðja vin sinn, gamlar sálir meiðir
þær sakna og finna til í þúsund ár

Höf: AE/GG
.

 ShosonTwoSwans

.

 


Reynir

Hver er þessi Reynir sem á svona mikið...

Enginn veit fyrr en Reynir á hvort vini áttu þá.

Þegar Reynir okkur á og erfiðleikar magnast þá.

Reynir.

Hann Reynir á rennandi á
Hann Reynir á allt sem má sjá
Hann Reynir á mig
Hann Reynir á sig
Hann Reynir á Reynir Á.
.

me+&+hat+'72

.

 


Í svörtum sandi

Ég er að vinna fjarri heimili mínu í dag.
Sendi konunni minni þetta ljóð í tilefni konudagsins. 

 

Djúpt  í hjarta mínu finn ég fyrir þér
Því það dýrmætasta af öllu gafstu mér
Alltaf þrái ég að vera þér við hlið
Ekki ég og ekki þú, heldur við

Þú ert gullið  sem að glóir eins og sól
Þú ert gjöfin sem mér Guð í hendur fól
Þú ert sú sem alltaf verður ástin mín
Þú er perlan sem í svörtum sandi skín

.

Rós1

.

 


Óðurinn til ostsins

Ostur finnst mér rosalega góður
Til hans er þessi glæsilegi óður

Ég borða svo mikið
að ég passa ekki lengur í fötin
ég borða allan ostinn og líka götin

.

 Mouse_Cheese

 .

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband