Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Sjóveikur að blogga

... þegar ég blogga, þá er ég oftast með litla eða óljósa hugmynd um það hvað ég ætla að segja... skemmtilegast finnst mér að skrifa smásögur, eða örsögur... sem ég kalla "Instant" sögur...

... ég er þá aðeins með þessa litlu hugmynd í farteskinu og veit ekkert hvert hún leiðir mig... stundum tekst mér vel upp, stundum ekki eins og gerist... þær sögur sem ég er hvað ánægðastur með, fá yfirleitt ekki mörg komment...Blush... líklega hef ég svona skrítinn smekk.... hmmm...

Yfirleitt blogga ég ekki um fréttir... það eru nógu margir í því... en þó geri ég undantekningu á þeirri reglu, sérstaklega þegar innlitin verða fá... þá þarf egóið smá búst... en þó er það ekkert gaman heldur, því þegar maður bloggar um frétt, þá koma margir inn en eru ekkert að tjá sig... fullt af heimsóknum, en engin segir neitt... púðurskot...

... skemmtilegast finnst mér þegar bloggvinir mínir segja mér að skrif mín hafi glatt þá... þá eflist ég allur og vil gera enn betur næst...

... svo þegar ég er búinn að blogga og vista, en ekki enn búinn að birta... þá kemur þessi setning upp í blogginu... "Þessi færsla er uppkast"... mér verður alltaf hálf óglatt og sé grænt þegar ég les þessa setningu... og ég er ekki að djóka...

... væri ekki betra að segja bara... "Þessi færla er "kastanía"...

... þá kannski verður mér ekki svona óglatt þegar ég er að blogga...

.

hermit_sick

.

 


Uppgjöf stjórnmálamanna

... ástandið á landsbyggðinni er löngu hætt að vera grafalvarlegt... það er komið miklu lengra en það... ég er fæddur og uppalinn á landsbyggðinni... í vinnu minni í dag ferðast ég mikið um landsbyggðina, kem í bæi og þorp, þar sem einu sinni var allt iðandi af mannlífi... nú á sumum stöðum er jafnvel ekki búið í nema helmingi húsanna í bænum... auðar blokkir standa eins og fólk hafi flúið undan eldgosi eða einhverju álíka...

Stjórnmálamenn eru löngu búnir að gefast upp á ástandinu og vinna jafnvel að því að leggja niður mannlíf á landsbyggðinni... þeir hafa löngum talað um að "færa störf út á landsbyggðina"... en vinna svo þvert ofan í það sem þeir segja... ekki er langt síðan að Fasteignamat ríkisins lagði niður 2 störf í Borgarnesi og 1 á Egilsstöðum... ekki mörg störf kannski, en tákrænt fyrir það sem er að gerast... mörg svipuð dæmi má finna um flutning starfa af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins...

... mér finnst pólítíkusar, jafnvel þeir sem kalla sig landsbyggðapólítikusa, bara yppa öxlum yfir þessari þróun og eru gjaldþrota með hugmyndir...

jæja, nú hætti ég þessu rausi... það er farið að síga í mig...

.

 SmileyAngryDevil

.

 

 


mbl.is Björk ætti frekar að syngja gegn fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlaun í boði

... þegar maður drekkur brennivín, þá er sagt að maður sé ýmist fullur, eða hálfur... hífaður, slompaður, góðglaður... blindfullur... sauðdrukkinn...

en þegar maður drekkur ekki brennivín, þá er maður bara edrú... ekki hálf edrú, ekki blindedrú, eða edrúglaður... eða jafnvel sauðedrú... en maður jú getur verið bláedrú, en sjaldan bláfullur... uss... hvað þetta er allt skrýtið...

... en þarna finnst mér íslenskan sem sagt halda með þeim fulla...

Auglýsi ég því hér með eftir fleiri orðum yfir það ástand að vera edrú.

Besta tillagan hlýtur vegleg verðlaun... vísa, ljóð eða örsaga um vinningshafann... og 1 lítri af íslensku ísköldu blávatni... hik...

.

 feature-water2LG

.

 


Innhverf íhugun

... í kvöld er hausinn á mér tómur... maginn er fullur og sjálfur er ég blá edrú... ég ætlaði að blogga eitthvað sem ég var að hugsa um í nótt þegar ég vaknaði klukkan hálf þrjú... það var svo ofboðslega fyndið í nótt að ég hristist allur úr hlátri og hélt honum niðri í mér til að vekja ekki heimilisfólkið...

... en svo í morgun mundi ég ekkert hvað ég var að hugsa í nótt og af hverju ég hló svona mikið...

... ég fór því í innhverfa íhugun a la Brattur... og hvernig gengur hún fyrir sig, kunna einhverjir að spyrja...

.

 law-of-attraction-treasury-meditation.gif

.

jú, sko, ég fer fyrst úr inniskónum og er bara á táslunum... sest upp í rúm og stari á tærnar... virkilega fast... eftir nokkur augnablik... þá hætti ég að sjá á mér tærnar... sálin á mér skrúfast inn í hausinn og líður ljúflega um heilann... leitar að hugmyndum, leitar að því sem ég hef gleymt... í öll skúmaskot sem fyrirfinnast í þessum skrítna haus... svo kemur hún aftur út og gefur mér skýrslu...

... réttir mér yfirleitt blað þar sem á stendur það merkilegasta sem hún fann á rúntinum um heilann...

... í morgun fékk ég hinsvegar autt blað frá sálinni... hún hafði ekki fundið neitt... ekki baun, ekki örðu ekki heystakk í títuprjóni...

... heilinn á mér er semsagt tómur... ég er ekki að grínast, sko...

... bara í fullum trúnaði að lokum... ég veit ekkert í minn haus...

... ég finn ekki einu sinni inniskóna mína...

.

 Kung%20Fu%20Slippers

.

 


Fiskisaga fyrir unga.

Flýgur fiskisagan... hvaða saga er það hu?

Einu sinni var fiskur. Hann var öðruvísi en allir aðrir fiskarnir í sjónum, hann var gulur og þybbinn, með fjólublá augu. Hann vissi ekki sjálfur hvernig fiskur hann var. Hann átti líka við annað vandamál að glíma. Hann var nefnilega oft sjóveikur í vondum veðrum. Þá varð honum flökurt og gubbaði grænu.

En hann vildi mikið vita hvernig fiskur hann væri og hvort hann ætti mömmu og pabba eða aðra ættingja.

Hann synti því um sjóinn á milli hinna fiskana og spurði; er ég ýsa? Fiskarnir hristu sporðinn, en það þýðir nei á fiskamáli. Er ég karfi, er ég þorskur, er ég ufsi  er ég marhnútur, er ég lax?

En allir fiskarnir hristu bara sporðana sína og vissu ekkert hvernig fiskur þetta var.

Að lokum hitti litli guli sjóveiki fiskurinn gamlan steinbít. Hann var aðeins með þrjár stórar tennur uppi í sér, mógular.

Þú er svokallaður Korpulafi, en þeir eiga sko heima í Suðurhafi, sagði steinbíturinn og hélt áfram; þú hefur villst að heiman, því nú ert þú langt norður í Atlantshafi. Þú ert sjóveikur af því að þú þolir illa þennan kalda sjó, lítli Korpulafi. Þú verður að vera í hita.

Guli fiskurinn varð mjög glaður að heyra hver hann væri. Kærar þakkir gamli steinbítur sagði hann. Í hvaða átt er Suðurhaf? Steinbíturinn benti í hina áttina með stærstu tönninni, þarna sagði hann. Þú þarf að synda í þrjár vikur og þrjá daga, þá kemur þú heim til þín. Drífðu þig nú af stað og passaðu þig á hákörlunum.

 

Að vera fiskur

er sko enginn leikur

sérlega ef maður

er sjóveikur

.

 fish2

 


Talandi steinar

Er hægt að segja þeim sem aldrei segir neitt að þegja?

Við segjum oft, steinþegi þú, eða grjóthaltu kj...

Einu sinni rakst ég reyndar á steinvölu sem talaði... ég var á gangi í fjöru og tók hana upp... ætlaði að fleyta kerlingar með henni... var kominn í fleytikerlingastellinguna og var að fara að henda þegar hún hrópaði...

Ekki henda mér, ekki henda mér... ég hætti snarlega við í miðri sveiflu... og leit á svartan steininn í hendi mér... furðu lostinn... og sagði; hva... talandi steinn...

Já, sagði steinninn, ég tala... allir steinar tala... það eru bara ekki allar manneskjur sem geta heyrt í okkur...

Ó, sagði ég... hvernig fólk er það sem getur heyrt ykkur steinana tala...

Það er bara fjólublátt fólk sem getur heyrt í okkur... sagði litla steinvalan...

En ég er ekki fjólublár... sagði ég hálf hneykslaður... jú, vinur minn, þú ert sko fjólublár...

Ég leit á hendur mínar og hrökk við... þær voru fjólubláar... ég stakk steininum í vasann og hljóp að bílnum... móður og másandi settisti ég í bílstjórasætið og leit í spegilinn... var þetta ég?... fjólublátt skelkað andlit... svitastorkið...

...ég vaknaði við það að kötturinn sleikti mig í framan... úff, hvað ég var feginn, þetta var bara draumur...

Ég rölti fram í eldhús á móti rjúkandi kaffiilminum... þar sat ástin mín og drakk morgunkaffið sitt og las blað... horfði á mig og sagði; æi... ertu þá loksins vaknaður kallinn minn, ég vildi ekki vekja þig...

... þú svafst eins og steinn...

.

 Stone-Sets

.

 


G

Skrítið í seinni tíð hvað stafurinn G hefur verið notaður á undan ýmsum nöfnum.

G-mjólk
G-rjómi
G-8 (einhver alþjóðleg karlasamtök)

Má ekki fara búast við G-bjór, G-brennivíni og G-rabarbarasultu?

Vinur minn heitir Gísli, hann benti mér á þetta og sagði jafnframt að hann vildi skíra landið okkar upp á nýtt.

Og hvað vildi hann svo að landið myndi heita?

Jú, auðvitað:

G-Ísland

.

letter-g

.

 

 

Smáa letrið: Gísli vinur minn er nú ekki með háan húmorstandard. Ég vildi bara að þið vissuð það.


Óþekktur höfundur

Öll þekkjum við höfundinn sem kallar sig "Óþekktur höfundur"... hann hefur samið marga spekina og mörg stórfengleg ljóðin.

Hér kemur ein spekin eftir þennan geðþekka höfund. Bara ansi gott hjá kappanum.

Mér hefur alltaf fundist augnablikið, þegar maður vaknar á morgnana, vera unaðslegasta augnablik sólarhringsins. Þótt þreyttur sé veit maður að hvað sem vera skal getur gerst.
Það, að það gerist að heita má aldrei, er aukaatriði. Möguleikinn er fyrir hendi.

.

wisdom

.


Verð að slá Önnu

Lenti í ýmsu undarlegu um helgina í garðvinnunni...

... við Anna vorum að mæla með málbandi... svona málbandi sem skýst inn í sig þegar maður sleppir... stórhættulegt verkfæri... nú, nú þegar við vorum búin að mæla hvað mölin átti að vera breið... þá sleppi ég endanum eins og kjáni, málbandið þeyttist með svaka afli inn í sjálft sig og gataði lófann á þessari elsku.

Nú, er hún slösuð, blessunin svo ég get ekki mælt með Önnu lengur.

Svo bar Anna 100 kíló af þörungaáburði á moldina áður en þökurnar voru lagðar... eitthvað fauk á húðina á henni af áburðinum svo líklega fer að vaxa gras á henni.

Nú dugar ekki lengur að slá bara lóðina í kringum húsið.

Nú verð ég að slá Önnu líka.

.

 756409643_b02695708b

.

 

 


Gaman að lifa

Svakalega góð helgi að verða búin og vinnan framundan í vikunni... verður brjálað að gera alla vikuna, en svo er stefnan fljótlega sett norður á Tröllaskagann í heimahagana...  á fótboltamót... Nikulásarmót... skrítið nafn á fótboltamóti... en það er saga á bak við það sem ég segi vonandi síðar.

Kannski keyrum við Fljótin, sem er ein fallegasta leið sem ég keyri... við stoppum líklega á há Lágheiðinni og teygjum úr okkur... á þeirri leið er hús, Miðbær, sem einu sinni var í miðjum heimabæ mínum, Ólafsfirði... í þessu húsi fæddist ég... er semsagt af svokallaðri Miðbæjarætt.

.

677772968_4c4b03f921

.

Það er alltaf eitthvað til að hlakka til í þessu lífi... en svo má ekki gleyma að njóta daganna sem líða þar til það sem maður hlakkar til rennur upp... þeir geta verið svo frábærir líka...

Við tökum með okkur veiðistangir og reynum að veiða þorsk, ýsu eða ufsa á bryggjunni... á þeim stað hékk ég öllum stundum ungur strákur með vinum mínum... veiddum þessar tegundir og þar að auki rauðmaga, steinbít, lúðu, kola og náttúrulega þann skrautlegasta marhnút... en maður hirðir ekki marhnútinn... heldur skyrpir upp í hann og biður hann um að gefa sér vænan fisk og svo er honum sleppt í sjóinn aftur...

.

marhnutur

.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband