Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Á tindinum

Fátt er skemmtilegra en að sigra sjálfan sig. Nema þegar að maður teflir við sjálfan sig og vinnur, þá er eins og það hafi orðið jafntefli. En að ganga á fjöll og ná tindinum er nautn. Það getur verið erfitt, en þegar upp er náð, þá verður maður voða kátur.

Þann 17. ágúst sl. gekk ég með vini mínum á Múlakolluna í Ólafsfirði. Þetta var erfitt, en mjög gaman, ekki síst þar sem við höfum ekki sést lengi, ég og vinurinn. Og hér eru félagarnir uppi á kollunni, bara ánægðir með sjálfa sig.

... annars er ég rokinn í veiði o.fl. og kem ekki aftur fyrr en á sunnudaginn...

Múli-SiggogGísli


Henti járnkarlinum

... jæja, þá er ég loksins búinn að henda járnkarlinum og ekkert smá glaður að vera laus við hann... eins og ég hef sagt ykkur, kæru bloggvinir þá er ég varla í lit lengur, en vil þó taka fram að þetta er samt litmynd... vonandi verðið þið ekki alltof hrædd við Bratt þegar þið sjáið hann eins og hann er.... og haldið áfram að tala við migBlush... þið sem komið á skákmótið getið síðan verið búin að jafna ykkur að mestu leiti þegar á hólminn verður komið...

GisliBloggari_0693


Gott fyrir nóttina

... ég er allur að róast, tókst ekki að vera eins vondur í dag og ég hafði vonast til... kannski ég sætti mig bara við mig eins og ég er... þetta er gott fyrir nóttina...


Ég verð að vera harðari

... Já, já, ég veit alveg hvað sum ykkar hugsa, en á þessari síðu er ekkert undirbeltistal stundað...

... vandamálið er, eins og fram hefur komið áður hjá mér, að ég er að verða alltof meyr með aldrinum og er bara alls ekki nógu grimmur...

... margir vita að ég er svokallaður fluguveiðimaður... áður fyrr var mikill æsingur í manni þegar fiskurinn tók og maður dró hann að landi, rotaði og blóðgaði, ekkert mál... núna þá bærist eitthvað í brjósti mér við sömu aðstæður, aumingja fiskurinn, mikið vildi ég nú að hann dytti af, því nú ætlar vondi kallinn ég að fara að drepa hann... þetta er náttúrulega ekki hægt urrr...

... ég varð fyrir árás um verslunarmannahelgina, grimmilegri árás geitunga... ég var að velta við steini í garðinum hjá mér, það var farið að rökkva og ég sá ekki vel til, sé ekkert of vel þó bjart sé, nema hvað að ég finn að eitthvað stingur mig í báðar hendur, hélt ég hefði rekið mig í glerbrot eða eitthvað slík, dreg þó hendurnar upp að andlitinu og eru þær þá löðrandi í geitungum sem eru illúðlegir í framan og eru að borða mig... ég fékk sex geitungastungur á þessari hálfu mínútu sem þetta stóð yfir... og vitið þið hvað, ég var ekkert reiður við blessaða geitungana, þeir hafa sinn rétt til að lifa greyin, þarna hafði ég komið og eyðilagt heimilið þeirra og ekki nema von að þeir vildu verja sitt... þetta er náttúrulega ekki í lagi... urrr

... svo í gærmorgun fór ég í sveppatínslu, það finnst mér mun skemmtilegra en að tína ber... maður er með hníf með sér og sker sveppinn í sundur eins neðarlega og maður getur... og hvað haldið þið, í miðju kafi hikaði ég við að skera einn sveppinn, því... aumingja sveppurinn... maður er ekki  í lagi...urrr

... framundan er skákmót hjá mér og hvernig á ég að vinna einu einustu skák ef ég tek ekki á þessu vandamáli... t.d. myndi ég hugsa; "aumingja Ægir hann hefur ekki unnið skák ennþá, ég ætla nú ekkert að vera að reyna neitt á móti honum"... urrr

... nei, nú hefst tímabil grimmdarinnar, ég ætla að fara að æfa mig í að vera harðari, hvassari og gjörsamlega miskunnarlaus... kannski ég byrji á því að slíta vængi af flugum...Devil

 


Stóra skákmótið - reglur

Já, það styttist í Stóra skákmótið... keppendur verða að öllum líkindum átta og ekki seinna vænna en að dómarinn kynni þær reglur sem verða í gangi á mótinu.

Ef væntanlegir keppendur hafa einhverjar athugasemdir, þá eru þær leyfðar, en ekki endilega teknar til greina. Skal athugasemdum komið á framfæri við undirritaðan, sem er dómari mótsins, eigi síðar en á miðnætti, þriðjudaginn 28. ágúst

1. Hver keppandi fær 10 mínútur á skák

2. Dragdrottningin = þegar teflt er við Kristjönu þá er eigin drottning dregin út af borðinu, hún kysst og lögð nett til hliðar

3. Falli keppandi á tíma þá fær hann hraðnámskeið út í horni í "Time manager"

4. Bannað er að rymja meira en einu sinni í hverri skák

5. Snertur maður er færður, nema að það hafi verið óvart og ber þá að segja "fyrirgefðu"

6. Í hvert skipti sem biskup er notaður, þá skal berja hann og segja "og hafðu þetta skömmin þín"

7. Ægir, skal mæta í Skotapilsi... má vera í pilsi af konunni sinni, ef erfitt reynist að finna Skotapils
 (best væri að það væri köflótt eða freknótt)

8. Keppendur mega bara borða nesti og fá sér drykk eftir að hafa hreyft hrókinn

9. Ætlast er til þess að keppendur séu sæmilega hreinir undir nöglunum... dómari og aðstoðardómari taka það út áður en keppnin hefst

10. Sá sem vinnur skák, skal eftir fremsta megni hugga andstæðinginn, taka utan um hann og segja; þetta var alveg óvart, "ég skal aldrei gera þetta aftur"

 


Fyrirhyggjumaðurinn

Ég hef alltaf öfundað fyrirhyggjufólk... fólk sem hugsar hvernig það ætlar að komast til baka úr þeirri ferð sem það leggur upp í... fólk sem er til fyrirmyndar og með allt sitt á hreinu...

... ég er ekki beint þessi manngerð... ég get verið óskipulagður og göslast stundum í gegnum hlutina... en ég er oft heppinn í því sem ég geri... hlutirnir ganga vel þrátt fyrir að ég hugsi ekki í upphafi fyrir öllu... og oft er ég líka hálfgerður klaufi... eins og t.d. í veiðinni, það eru ekki margir sem hafa verið með fisk á og staðið upp á bakkanum og stigið í holu og farið kollhnís afturábak út í á og landað svo fiskinum á eftir... (ég sem get varla farið venjulegan kollhnís)... eða verið á bakkanum og stigið út í vatn sem sýndist vera grunnt, en var svo hyldýpi þegar ég ég steig út í vatnið og gjörsamlega hvarf á bólakaf... en svo var fiskur á hjá mér þegar ég steig upp aftur...

... ég rakst á gamlan texta um þetta sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um svona fyrirmyndarmann... en þegar ég fór að skoða hann betur, þá sá ég að ég stend líklega bara undir öllu því sem ég skrifaði um þennan mann, nema einu... og hvað skyldi það nú vera? (síðast erindið undanskilið)

Finnbogi fyrirmynd.

Þetta er maður
sem bakkar alltaf inní stæði
fyrirhyggjumaður

Þetta er maður
sem mætir alltaf á réttum tíma
stundvís maður

Þetta er maður
sem skuldar engum neitt
skilvís maður

Þetta er maður
sem er alltaf þveginn og strokinn
snyrtilegur maður

Þetta er maður
sem syndir á hverjum morgni
líkamsræktarmaður

Þetta er maður
sem nagar

samvisku mína


Vöðludansinn

Ég bjó til nýjan dans í veiðiferðinni í vikunni. Vöðludansinn. Það var þannig að ég óð stríðan streng út í Maríuhólma. Þar er góður veiðistaður. Maríuhólmi var hinsvegar á kafi í vatni. En þó ekki nema svona fet þar niður á botn. Fljótlega setti ég í fisk. Ég gat ekki geymt fiskinn í hólmanum, af því að hann var á kafi í vatni (líklega er það þá ekki hólmi lengur) Ég nennti ekki að vaða strauminn til baka aftur með fiskinn, vildi veiða meira á þessum stað.

Ég var með plast inn á bakinu á veiðivestinu. Og þá hófst dansinn. Nokkur fjöldi áhorfenda streymdi að til að fylgjast með. Þar voru 3 aðrir veiðimenn, nokkrar húsendur og tveir óðinshanar. Til þess að komast í plastið á bakinu á veiðivestinu, var ég fyrst að fara úr regnjakkanum sem ég var með utanyfir. Úti var þónokkur rigning svo ég varð að vera fljótur að athafna mig til þess að verða ekki hundvotur í úrhellinu. Mér tókst að smokra mér úr regnjakkanum eftir langan tíma og vefja honum um hálsinn, því ekki gat ég haldið á honum og veiðistönginni og fiskinum, öllu í einu. Ég var með veiðistöngina á milli hnjánna og fiskinn í annarri hendi. Með lausu hendinni varð ég að klæða mig úr flíkunum,þarna í miðri ánni. Meðan ég var í þessu brasi þá einhvernvegin sneri ég alltaf í hringi, þið vitið, eins og maður gerir þegar maður klæðir sig úr peysu án þess að nota hendurnar.

Þegar regnjakkinn var kominn utan um hálsinn þá þurfti ég að komast úr hálfu vestinu! Þýðir, að ég þurfti ekki að fara úr því öllu, bara helmingnum, þ.e. annarri erminni, svo ég komi þessu nú út úr mér. Þá loksins gat ég teygt mig í rennilásinn að hólfinu sem geymdi plastpokann. Ég stakk fisknum í pokann og batt fyrir og kom honum fyrir í hólfinu og klæddi mig í vestið. En þá datt regnjakkinn sem hafði verið vafinn um hálsinn í ánna. Ég dró hann gegnblautan úr ánni og hafði engin önnur ráð en að klæði mig í hann aftur og hefja veiðar að nýju. Þeir veiðimenn sem voru í landi og fylgust með sögðu að ég hafi verið a.m.k. hálftíma í þessu brasi. Líklega hefði ég bara verið 10 mínútur að fara í land og til baka aftur. En það var erfitt að hætta þegar dansinn var byrjaður. Einnig sögðu þeir félagar mínir hafa haldið að ég væri að reyna að klæða mig úr vöðlunum í miðri á án þess að blotna.

Hvaða lærdóm getur maður svo lært af þessu; ég held engan... ég verð alltaf sami kjáninn...


Unginn flýgur úr hreiðrinu

Það kemur alltaf sá tími að ungarnir fljúga úr hreiðrinu. Ungarnir mínir flugu burtu fyrir löngu, eða þannig. En þeir fóru ekki langt. Búa stutt frá okkur svo við sjáum þá af og til með litlu ungana sína og það er gott.

Þegar dóttir mín var að slíta sig að heiman var ekki laust við að manni þætti það erfitt, enda finnst manni börn aldrei nógu stór til að fara undan verndarvængnum og fljúga út í víðáttuna þar sem margskonar hættur bíða, en veit samt innst inni að það er einmitt það sem þau þurfa að gera.

Þetta ljóð fann ég í dóti hjá mér um daginn.

 

Skórinn

Þegar ég kom út
í morgun

fann ég strigaskó
á stéttinni

þú hafðir
yfirgefið hreiðrið
kvöldið áður
með dót þitt
í poka

ég tók slitinn
skóinn
og hélt honum
að mér

kannski
kæmir þú seinna
að vitja hans

 


Púkkið

... jæja, kominn heim úr velheppnaðir veiðiferð... góð veiði, frábærir veiðifélagar, uppáhaldsráðskonan á staðnum... svo maður kemur heim saddur og sæll og töluvert hamingjusamari en áður... en ofboðslega þreyttur, já jafnvel ég, Brattur, er bara nokkuð framlágur núna... enda kallinn 54 ára í dag!

... en það eru nokkur augnablik sem maður gleymir ekki úr þessari ferð... þegar ég setti fluguna á bólakaf í fingurinn (það var heilbrigða löngutöngin - ekki þessi beyglaða sem ég sýndi ykkur mynd af í sumar) ég reyndi að rykkja flugunni út úr puttanum, en ekkert gekk, svo ég keyrði niður á heilsugæsluna á Húsavík þar sem skera þurfti pödduna úr... svo fór ég aftur upp í dal (Laxárdal) og hélt áfram að veiða... um kvöldið var svo settur gúmmíhólkur utan um putta greyið (ráðskonurnar hugsuðu svooo vel um mig)...

... síðan kynntum við bróðir veiðilagið og 15 kallar fengu diskinn og textann og sungu með okkur... síðan var sungið fram á nótt og endað á laginu "Dvel ég í draumhöll og dagana lofa" Ég hef sjaldan heyrt eins fallega útgáfu af því lagi... 15 mjúkir veiðimenn sungu þetta angurvært og sumir sofnuðu undir söngnum með sælubros á vör...

Púkkið

Allt sem þú í púkkið leggur

og allt sem þú gerir í dag

það vex upp og verður þinn veggur

og þitt líf

það verður, það verður

það verður þitt líf


Brattur og bróðir hans

... jæja, þá er ég kominn heim og verð í einn dag heima!... það er búið að vera mikið at á mér og ofboðslega gaman... er búinn að vera í veiði í tveim ám, fara í fjallgöngu með gömlum skólabróður og syni hans og yndislegri 16 ára frænku minni sem ég var nú bara að kynnast í fyrsta skiptið... Við gengum sem sagt upp á Múlakolluna í Ólafsfirði, sem er fjallið þar sem jarðgöngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur fara í gegnum... minn gamli skólabróðir og vinur sem var með mér er búinn að búa í Svíþjóð síðan árið 1981... sonur hans, tvítugur strákur, sem með okkur var heitir því skemmtilega nafni Magnús Múli,og þess vegna var þetta fjall fyrir valinu... við fórum þessa fjallgöngu á föstudeginum, en þá um kvöldið og síðan daginn eftir var síðan bekkjarmót á Ólafsfirði... við vorum líka að sýna okkar gömlu bekkjarfélögum að það er ýmislegt hægt að gera þó aldurinn færist yfir og vorum gríðarlega stoltir af okkur þegar til byggða var komið aftur... ég ætla nú ekki að fara út í nein smáatriði um það sem síðan gerðist um helgina, en mikið rosalega skemmti ég mér vel...

... annað sem ég gerði í vikunni var að taka upp á disk veiðilagið "Fílhraustir drengir" með honum bróður mínum... við sömdum lag og texta saman bræðurnir og er það í fyrsta skipti sem við höfum lagt saman í púkk hvað þetta varðar og vonandi gerum við meira af því í framtíðinni... við erum með þessum boðskap að reyna að leiðrétta þann misskilning að það að vera í veiði sé bara glens og grín og fyrir hvern sem er... formlegur útgáfudagur lagsins verður á morgun og athöfnin fer fram á bökkum Laxár í Laxárdal þar sem diskurinn verður áritaður meðan birgðir endast, en við erum einmitt að fara á morgun að veiða í þessari perlu og verðum fram á fimmtudag...

... lagið er vals svo hægt sé að dansa við ráðskonurnar í veiðihúsunum og veiðifélagarnir geta tekið undir í viðlaginu... við bræður syngjum fyrstu tvö erindin til skiptis og blöndum svo því síðasta saman... sumir segja að raddir okkar séu líkar...

... en sem sagt, smá forskot á sæluna, hér er textinn og lagið er komið á spilarann hér fyrir neðan...

Fílhraustir drengir


Fólk heldur að það sé frí
Að fara í veiði
Lúxus leti líf
Upp á heiði
En ekki er þar allt sem sýnist vera
Og alla daga meira en nóg að gera

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Á morgnanna við vöknum
Stundum snemma
Klukkan átta og jafnvel fyrr
Þeir sem nenna
Í nesti tökum orkuríkan lager
Kassa af góðum bjór og flösku af Jager

Því það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Trítlum eins og dvergar sjö
Að ánni
Með stöng og flugubox
Og með í tánni
Köstum flugum fimlega í strauminn
Í dag við látum rætast drauminn

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Já, það er streð og puð
Að stríða vaða strengi
Og aðeins fyrir hrausta drengi
Já, fílhrausta drengi


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband