Vöðludansinn

Ég bjó til nýjan dans í veiðiferðinni í vikunni. Vöðludansinn. Það var þannig að ég óð stríðan streng út í Maríuhólma. Þar er góður veiðistaður. Maríuhólmi var hinsvegar á kafi í vatni. En þó ekki nema svona fet þar niður á botn. Fljótlega setti ég í fisk. Ég gat ekki geymt fiskinn í hólmanum, af því að hann var á kafi í vatni (líklega er það þá ekki hólmi lengur) Ég nennti ekki að vaða strauminn til baka aftur með fiskinn, vildi veiða meira á þessum stað.

Ég var með plast inn á bakinu á veiðivestinu. Og þá hófst dansinn. Nokkur fjöldi áhorfenda streymdi að til að fylgjast með. Þar voru 3 aðrir veiðimenn, nokkrar húsendur og tveir óðinshanar. Til þess að komast í plastið á bakinu á veiðivestinu, var ég fyrst að fara úr regnjakkanum sem ég var með utanyfir. Úti var þónokkur rigning svo ég varð að vera fljótur að athafna mig til þess að verða ekki hundvotur í úrhellinu. Mér tókst að smokra mér úr regnjakkanum eftir langan tíma og vefja honum um hálsinn, því ekki gat ég haldið á honum og veiðistönginni og fiskinum, öllu í einu. Ég var með veiðistöngina á milli hnjánna og fiskinn í annarri hendi. Með lausu hendinni varð ég að klæða mig úr flíkunum,þarna í miðri ánni. Meðan ég var í þessu brasi þá einhvernvegin sneri ég alltaf í hringi, þið vitið, eins og maður gerir þegar maður klæðir sig úr peysu án þess að nota hendurnar.

Þegar regnjakkinn var kominn utan um hálsinn þá þurfti ég að komast úr hálfu vestinu! Þýðir, að ég þurfti ekki að fara úr því öllu, bara helmingnum, þ.e. annarri erminni, svo ég komi þessu nú út úr mér. Þá loksins gat ég teygt mig í rennilásinn að hólfinu sem geymdi plastpokann. Ég stakk fisknum í pokann og batt fyrir og kom honum fyrir í hólfinu og klæddi mig í vestið. En þá datt regnjakkinn sem hafði verið vafinn um hálsinn í ánna. Ég dró hann gegnblautan úr ánni og hafði engin önnur ráð en að klæði mig í hann aftur og hefja veiðar að nýju. Þeir veiðimenn sem voru í landi og fylgust með sögðu að ég hafi verið a.m.k. hálftíma í þessu brasi. Líklega hefði ég bara verið 10 mínútur að fara í land og til baka aftur. En það var erfitt að hætta þegar dansinn var byrjaður. Einnig sögðu þeir félagar mínir hafa haldið að ég væri að reyna að klæða mig úr vöðlunum í miðri á án þess að blotna.

Hvaða lærdóm getur maður svo lært af þessu; ég held engan... ég verð alltaf sami kjáninn...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þú klikkar ekki Brattur.

Halldór Egill Guðnason, 25.8.2007 kl. 22:38

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Nú hef ég hvorki reynslu né skilning á málinu til að taka undir eða mótmæla þessu síðasta. Þessu með lærdóminn. En kona verður að spyrja sig; afhverju í ósköpunum var plastið geymt á bakinu ?  

Jóna Á. Gísladóttir, 25.8.2007 kl. 22:47

3 Smámynd: Brattur

... eina nógu stóra plássið í veiðivestinu, Jóna... hinir vasarnir bara pínulitlir fyrir lítil flugubox og smádótt, en allir fullir af einhverju smáræði sem þarf að fylgja veiðimanninum... næstum eins og konuveski.... (ekki það að ég sé mjög kunnugur þeim að innan)...

Brattur, 25.8.2007 kl. 22:51

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú getur samt dregið lærdóm af þessu !

Enginn er verri þótt hann vökni. 

Anna Einarsdóttir, 25.8.2007 kl. 22:58

5 Smámynd: Brattur

... kórrétt Anna... ég vissi að það var eitthvað við þetta og nú er það komið

Brattur, 25.8.2007 kl. 23:01

6 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Vöðludansinn vel ég stíg,varla er mál að linni....................vinsamlegast botnið

Vilborg Traustadóttir, 26.8.2007 kl. 01:20

7 Smámynd: Brattur

Vilborg... þetta var ekki auðvelt... hér kemur þó eitt stykki hnoð:

Vöðludansinn vel ég stíg,
varla er mál að linni
eins og fugl til himins flýg
frjáls í hugsun minni

Brattur, 26.8.2007 kl. 12:25

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Vöðludansinn vel ég stíg

varla er mál að linni

ansans,  síðan á mig míg

mál var ekki inni !

Anna Einarsdóttir, 26.8.2007 kl. 12:55

9 Smámynd: Brattur

... Anna... þú ert miklu betri í þessu en ég....

... ábyggilega margur sem lendir í vandræðum með þetta út í miðri á... hef heyrt sögur af mönnum sem losa loft í vöðlur snemma morguns... en gasið kemst ekkert út (þröngt belti um mittið)... fyrr en um miðjan dag þegar komið er heim í pásu... þá yfirleitt deyr allt kvikt sem er í kringum þessa menn og líður jafnvel yfir þá sjálfa... enda er til spray sem heitir vöðluspray sem mildar þessi áhrif verulega, er mér sagt...

Brattur, 26.8.2007 kl. 13:01

10 identicon

Er það ekki sama spreay-ið, bróðir og ég notaði óvart á þurr-flugurnar um daginn? Sem sukku svo allar eins og grjót.

Björn Valur (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 13:07

11 Smámynd: Brattur

Já, stóri Björn... mundu svo að nota það í vöðlurnar næst... og þurrflugusprey á þurrflugurnar...

Brattur, 26.8.2007 kl. 16:02

12 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Vöðludansinn vel ég stíg

varla er mál að linni.

Samt ég síðar niður hníg

sæll í huga og sinni.

Magga

Hulda Margrét Traustadóttir, 26.8.2007 kl. 16:36

13 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Fínir botnar ætla að reyna sjálf núna.-Vöðludansinn vel ég stíg,-varla er mál að linni.-Upp í vindinn einatt míg,-eftir þessi kynni.-

Vilborg Traustadóttir, 26.8.2007 kl. 21:36

14 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Mér finnst botn Bratts bestur enn sem komið er þó hinir séu skondnir, en hvers vegna kemur allt í belg og biðu þó ég reyni að hafa línubil???  Er þetta eitthvað' copy-paste dæmi???

Vilborg Traustadóttir, 26.8.2007 kl. 21:37

15 Smámynd: Brattur

... já, Vilborg, þetta er eitthvað svoleiðis... skrifaðir þú þetta ekki beint í athugasemd?

Brattur, 27.8.2007 kl. 00:01

16 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

.......

Vilborg Traustadóttir, 27.8.2007 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband