Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
Í nógu að snúast
14.8.2007 | 08:59
... þessi vika verður viðburðarík hjá mér... nú um hádegið er ég að fara af stað með veiðidótið mitt í skottinu... meiningin er seinnipartinn í dag að syngja inn eitt veiðilag með stóra bróður, sem þó er töluvert yngri en ég... síðan í fyrramálið rennum við inn í Fljót og köstum flugu fyrir silung... á fimmtudaginn ætla ég svo að heimsækja nokkra félaga sem eru að veiða í Fnjóská og kannski taka nokkur köst þar og reyna við lax... á föstudaginn er svo planað að ganga upp á Múlakolluna í Ólafsfirði með gömlum bekkjarfélögum og sprella svo með þeim alla helgina...
... þegar maður er í veiði þá er ekki alltaf stutt í klósett....
Syndin
Ég horfi á lækinn
liðast hjá
langt upp í fjalli
þar má sjá
yrðlinga hlaupa og leika sér
og krumma tína krækiber
Börnin á bænum hlægja hátt
hófdynur hests í fjarska lágt
af eintómri ánægju
og það er syndin
spræni ég sperrtur
upp í vindinn
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fjörkálfurinn Anna
12.8.2007 | 22:34
Hin lífsglaða og síkáta Anna Einarsdóttir, bloggvinur minn numero uno, er að fara í svaðilför á morgun... eitthvað svo helvíti líkt henni... ég ætla að nota tækifærið og þakka henni fyrir alla skemmtunina í sumar... það er ekki hægt annað en að kútveltast um úr hlátri þegar Anna er í essinu sínu... hún er ótrúlega fljót að hugsa... held að hún sé með tvo stóra heila, en ekki eins og ég bara með einn lítinn... og svo koma vísur og ljóð í fossum frá henni... Gullfossum....
... Anna er mikið náttúrubarn... held hún hafi verið (fjör-) kálfur í fyrra lífi...
... Anna, þetta er engin minningargrein... bara svona góða ferð sending til þín....
Einu sinni þegar ég var
að sækja beljurnar
upp í hólf
þá brast á þessi svarta þoka
ég var rétt komin að
gömlu trébrúnni
þegar allt varð blint
ég sá ekki handaskil
og beljurnar bauluðu órólegar
neituðu að fara lengra
þá birtist við hlið mér huldumaður
með ljóst hrokkið hár
og leiddi mig yfir brúna
kýrnar gengu hljóðlega
yfir á eftir okkur
kveðja, Anna
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Austfjarðarþokan
11.8.2007 | 20:26
KristJANA heitir ung kona fyrir austan...yfirmáta geðgóð og bóngóð ung kona... hún hefur allt til brunns að bera til að verða okkar næsti snillingur á erlendri grundu... hún á t.d. stutt í það að verða okkar fremsti skákmaður fyrr og síðar... á að vísu eftir að fara í gegnum mikla þolraun áður en það kemur í ljós, þ.e. að tefla við mig... Eskifjörður var fallegur fyrir, en eftir að Jana flutti þangað, hefur sólarlagið þar aldrei verið rauðara, rómantískara, já og bara fallegra... ég sé mína góðu bloggvinkonu fyrir mér....
Ég á garð
hef aldrei átt garð áður
nú læt ég drauma mína rætast
set niður fjölær blóm
og haustlauka
horfi út um gluggann
allan veturinn
á hvítan snjóinn
þyrlast upp
og veit að næsta
vor blómstrar
allt hjá mér
Kveðja, Kristjana
Í Miðgarði
5.8.2007 | 21:05
... auðvitað fór ég á nokkrar útihátíðir um verslunarmannahelgar... man vel eftir einni árið 1969 þegar við strákarnir leigðum kálf og fórum alla leið frá Ólafsfirði í Húsafell... þá var ég bara 15 ára rétt að verða 16... man mest eftir Trúbrot og Rúnari Júl. á sviðinu... ótrúlega flottir... og góð músík... man ekki eftir slagsmálum eða einhverju veseni... of fullir krakkar voru látnir sofa úr sér í einhverjum kjallara þarna rétt hjá svæðinu... man eftir að fólk sat í grasinu og spila á gítara og söng... þetta var bara gaman... man einnig eftir samskonar skemmtunum seinna í Húnaveri, í A-Húnavatnssýslu og Miðgarði í Skagafirði... Einn besti vinur minn var sætur og mikið kvennagull... hann fór oft á kostum á svona hátíðum... þetta samdi ég löngu seinna um ævintýri okkar eina ágústnótt á tjaldstæði í Skagafirði...
Í gulu tjaldi.
Ég hafði ekki
náð mér í dömu
þetta svarta ágústkvöld
samt var allt troðfull
af sætum skvísum
en þær sáu mig ekki
Það var eins og ég væri
ósýnilegur
það var annað með þig
þær voru á þér
eins og kókós á bollu
ég tölti því dapur í bragði
heim í tjald
sofnaði fljótt
aleinn
um nóttina vaknaði
ég við hnoðið í pokanum þínum
við hliðina
aftur og aftur
fékk ég stuð í bakið
frá taktföstum hreyfingum ykkar
ég sofnaði
fljótlega aftur
og missti af hamingjusömum
endalokunum
morguninn eftir
þegar við snæddum morgunverð;
Vodka og sviðakjamma
spurði ég;
"hver var hún?"
"veit ekki
sá aldrei framan í hana"
svaraðir þú
glottir við tönn
og bættir við;
það er fallegt
myrkrið
í honum Skagafirði
finnst þér það ekki?
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Veganesti
3.8.2007 | 22:58
Nú um miðjan ágúst ætlum við gamli gagnfræðaskólabekkurinn, árgerð 1953 ,að hittast í okkar gamla heimabæ, Ólafsfirði... það verður náttúrulega til þess að maður fer að rifja ýmsa hluti upp, gramsa í gömlum koffortum og blása rykið og kóngulóarvefi af myndum og pappírum... mér gekk ágætlega í skóla, en þegar unglingurinn blés upp í mér... þá fór ýmislegt úrskeiðis um tíma...
...ég vildi einu sinni hætta í skóla, man ekki hvort ég var 15 eða 16 ára... það fór allt á annan endann, mamma og pabbi kölluðu til prest til að ræða við strákinn og reyna að snúa honum!... en hann hélt við sinn keip... eða svona næstum því... skólastjórinn hans var lítill og snaggaralegur náungi, mikill listamaður og sterkur persónuleiki, gat alveg verið mjög strangur... sá ungi leit upp til hans... litli skólastjórinn kallaði nemandann sinn sem vildi hætta í skóla, á sinn fund.
Þetta atvik og þessi fundur snertu mig mjög mikið og ég í miðjum unglingnum fór að hugsa hvort ég væri virkilega að gera rétt... auðvita snéri hann mér aftur inn í skólann og er ég honum ævarandi þakklátur fyrir það... og það veganesti sem ég fékk út í lífið frá mínum gamla skólastjóra...þetta ljóð lýsir því sem gerðist.
Veganestið.
Hann horfði
Íhugull
Yfir gleraugun sín
Litli skólastjórinn
Með fallega upprúllaða skeggið
Og spurði lífsleiða
Nemandann sinn
Með Jimi Hendrix hárið:
Ætla þú að verða
Einn af þeim
sem alltaf gefst upp?
Það færist glott
Yfir reynsluríkt
Andlit mannsins
Sem eitt sinn var
Lífsleiði nemandann
Þegar hann rifjar þetta upp
Hann veit
Að þessi orð
Fengu hann
Til þess að þrauka
Lengur en
Jimi
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Pjattrófan ég
2.8.2007 | 21:27
.... jæja, kominn ágúst, einhvertíma á ég afmæli í þessum mánuði, þarf stundum að slá inn í reiknivélina hvað ég er orðinn gamall... einu sinni hljóp ég eins og vitleysingur út um allar jarðir til að halda mér í formi... þá hafði ég að mottói að vera "að eilífu fit"... en maður ræður nú ekki öllu... Guð sem ég trúi bara svona mátulega á, greip í taumana og sagði við mig "hættu þessari vitleysu maður, og eyddu tíma þínum í eitthvað annað og gagnlegar"... eina nóttina vaknað ég upp með þennan sko ekki lítinn sársauka í hnénu... og þar með var hlaupaferillinn á enda... það tók mig nokkur ár að jafna mig á því að geta ekki hlaupið... þá fann ég sundið... nú syndi ég eins og selur alla daga og styrki mig andlega og líkamlega... þegar ég var að synda í dag, þá fór ég að hugsa, líklega get ég bara verið "nokkuð" fit það sem eftir er, ef ég ákveð það bara og Guð verði sáttur við það... hugarfarið maður, hugarfarið maður, ég stappaði í mér stálinu, já ég ætla bara að synda minn kílómetra á hverjum degi þangað til ég verð nýræður... kannski þarf ég þá að ráða mér aðstoðarmann til að snúa mér við eftir hverja ferð... en hvað með það, ég skal...
... ég get nú stundum verið pjattaður þegar að útliti mínu kemur; mér finnst ég nú vera frekar ljótur, en þegar maður hittir vinkonur sínar á sama aldri, sem maður hefur ekki séð lengi og þær segja... n.b. ég hitti tvær í gær á sitthvorum staðnum og báðar sögðu þær; mikið er þú slank, brúnn og flottur... vááá... hvað það var gott... ég dró inn magann og spennti út brjóstið... labbaði út í bíl og horfði í spegilinn, en þar var bara ljótur gráhærður kall... þá allt í einu heyrði ég rödd sem kom ofan frá himnunum og sagði mildum, djúpum rómi;... vertu bara ánægður með þig gamli minn... og syntu kílómetra á dag þangað til þú verður nýræður og þá munu þér dyr himnaríkis opnast...
... ég ætla sko að taka Hann á orðinu... ég ætla að synda og synda frá mér allt vit... og aldrei að fara í kirkju nema þegar ég verð jarðaður...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Hringvegurinn - löng saga
1.8.2007 | 22:43
Ég var að vinna á Siglufirði í gær. Með mér voru tveir ungir, tvítugir strákar, hörkuduglegir og skemmtilegir. Annar þeirra sagði mér góða sögu af sjálfum sér á leiðinni:
Hann var fyrir tveim árum staddur á Akureyri, þar sem hann býr, og var að vinna við garðyrkjustörf. Hann þurfti að skreppa að Laugum í Reykjadal snemma á laugardegi. Þetta er venjulega svona 40 mín. keyrsla, eða svo. Hann stökk af stað í vinnugallanum. Á leiðinni tók hann túrista uppí sem var að ferðast um landið á puttanum. Sá, var á svipuðu reki og bílstjórinn og var á leiðinni í Mývatnssveit. Okkar maður sagði að hann mætti fljóta með til Lauga. Frá Laugum væri svo stutt í Mývatnssveit. Þegar að Laugum kom og okkar maður var búinn með sitt erindi, þá hugsaði hann með sér að hann hefði nú ekkert mikið að gera á þessum laugardegi og gæti alveg skutlað þessum erlenda strák upp í Mývatnssveit, sem og hann gerði. Þegar þangað var komið, þá kom í ljós að túristinn var bara með 5-6 þúsund krónur á sér og átti ekki fyrir gistingu, sem var dýr þarna við Mývatn, eða um 15 þúsund krónur nóttin á hóteli, sem hann átti ekki fyrir. Sjá útlenski sagðist þá myndu ganga til Egilsstaða og hélt af stað. Okkar maður var eitthvað áhyggjufullur um að útlendingurinn myndi komast til Egilsstaða, enda um tveggja tíma akstur frá Mývatni til Egilsstaða. Íslendingurinn hélt því akandi á eftir túristanum og náði honum fljótlega og var hann þá allur útataður í mýi og bar sig illa. Þeim samdist þannig um að útlendingurinn myndi splæsa hamborgara á Íslendinginn þegar til Egilsstaða kæmi. Á Egilsstöðum fengu vinirnir sér síðan að borða. Þá segir túristinn; ef þú keyrir mér til Reykjavíkur þá skal ég borga bensínið alla leið. Ungi íslendingurinn hugsaði sér smá stund um, kærastan hans var í Reykjavík og því ekki að skella sér til hennar og hafa það gott? Þeir héldu því af stað. Einhversstaða rétt hjá Djúpavogi, keyrðu þeir á kind og beygluðu bílinn, en það sást ekkert á kindinni, sagði vinurinn, hún haltraði bara smá! Þegar til Hafnar í Hornfirði kom var komið miðnætti og einhver útiskemmtun í gangi. Þeir skelltu sér í fjörið og skemmtu sér þar um stund. Síðan var haldið áfram, tekið smávegis bensín, en tankurinn ekki fyllur. Verið að spara! Íslendingurinn hringdi þarna í í kærustuna í Reykjavík. Eitthvað varð þeim sundurorða í símtalinu, skötuhjúunum og lauk samtali þeirra í miðju rifrildi þar sem rafhlaðan í gemsanum var orðin tóm. Svo kom þar að sögu að útlendingurinn rak upp stór augu þegar við blasti risastórt hvítt fjall. Hvað er þetta? hrópaði hann. Þetta er Vatnajökull sagði sjá íslenski stoltur, "biggest glacier in Europe." Túristinn vildi komast út af þjóðveginum og skoða þennan risa jökul nánar. Þeir fundu einhvern off road eins og sjá ungi íslenski kallaði svoleiðis vegi, og keyrðu nær jöklinum. Þeir þurftu að fara yfir á og festu bílinn í ánni, en tókst að mjaka honum upp á bakkann aftur. Túristinn myndaði í gríð og erg hugfanginn af jöklinum. Þegar þeir héldu svo af stað frá þessum stað, þurftu þeir að bakka smávegis og þá heyrðist, krass... myndavélin! Hún hafði verið skilin eftir uppi á bílnum og datt og varð undir bílhjólunum . En hún virkaði áfram, var bara pínu skökk! Einhversstaðar stuttu síðar þegar þeir voru komnir upp á þjóðveginn, þá voru þeir stöðvaðir af löggunni. Íslenski vinur okkar sagði löggunni alla söguna, en löggan trúið honum ekki, lét hann blása í blöðru og tók blóðsýni. Ungi vinur okkar var náttúrulega alveg hreinn og lögreglan gaf þeim fararleyfi. Bensínljósið var búið að loga lengi áður en þeir komu að Vík, en náðu þó að bensínstöð þar. Íslendingurinn var stöðugt að hugsa um kærustuna sína og var miður sín að hafa verið að rífast við hana. Hann vildi því bæta úr því og færa henni eitthvað. Um áttaleitið á sunnudagsmorguninn komu þeir í Hveragerði og ætlaði vinurinn að fara í Eden og kaup blóm handa sinni ástkæru. Eden var ekki opið klukkan átta á sunnudagsmorguninn. Vinurinn dó þó ekki ráðalaus, heldur stoppaði af og til á leiðinni og tíndi blóm út í náttúrunni handa kærustunni (er þetta ekki mest hraun og mosi á leiðinni hmm?). Síðan leggur hann bílnum á bílastæðinu við Smáratorg og labbar til kærustunnar sem býr þar stutt frá. Útlendinginn skildi hann eftir sofandi í bílnum. Vinurinn ungi læddist svo inn og upp í rúm til kærustunnar með blómvönd í hendi og steinsofnaði strax. Kærastan vakti hann tveim tímum síðar, þar sem hann lá við hliðina á henni í vinnugallanum og hélt ennþá á blómvendinum. Ekki fer frekari sögum um samskipti þeirra skötuhjúa á þessum morgni. Nema að stuttu síðar fer íslendingurinn út á bílaplanið þar sem hann hafði skilið bílinn og útlendinginn eftir. Þar var túristinn, kominn út úr bílnum og var mjög ringlaður. Vissi ekkert hvar í heiminum hann var. Útlendingurinn segir þá; heyrðu ég er búinn að spara mér svo mikinn tíma, af því ég var svo fljótur að fara hringinn með þér að ég er að hugsa mér að skella mér aftur til Akureyrar með þér! Jú, það var í lagi, sá íslenski, var hvort sem er á leiðinni heim til sín norður til Akureyrar. Á leiðinni spurði sá útlenski hvort þeir ættu ekki að skella sér smá túr um vestfirði! En, nei nú var nóg komið. Um áttaleitið á sunnudagskvöldið komu þeir síðan til Akureyrar, einum og hálfum sólarhring eftir að vinur okkar ætlaði í smá skottúr frá Akureyri til Lauga. Segið svo að ævintýrin gerist ekki enn á Íslandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tilraun
1.8.2007 | 19:56
... jæja, nú er ég að prufa smá nýjung, en það er upplestur á ljóðum... fyrir valinu var ljóðið Kexmylsnuljóðið, sem nýverið hlaut verðlaun í ljóðasamkeppninni, "Versta ljóðið heima hjá Halldóri"
... ég er sem sagt búinn að lesa það inn og setja á spilarann hérna að neðan... njótið vel...
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)