Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Inni
30.1.2008 | 22:45
... einu sinni fyrir langa löngu... var ég lítill... þá voru engar leikjatölvur til á Íslandi... já, það er svona langt síðan...
... hvað gerðum við krakkarnir þá, í staðinn fyrir að vera í tölvuleikjum eða á netinu?
... jú t.d. fórum við, ég og besti vinur minn í "Tindátaleik"... eiginlega er þetta svipað og tölvuleikur, nema hann er leikinn á gólfi en ekki í tölvu...
... við stilltum tindátunum upp við gólflista í sitt hvorum endanum á herberginu... í hvoru liði voru kannski 15-20 tindátar...
... síðan vorum við með legukúlu sem við rúlluðum eftir gólfinu og reyndum að skjóta niður eins marga tindáta hjá hvor öðum eins og við gátum...
...eftirfarandi er svona frásögn af þessu... í einhverskonar ljóðrænni framsetningu:
.
.
Inni.
Svo kom demba, alveg mígandi
og við fórum ekki út úr húsi
þú komst til mín með tindátana
mér fannst þínir fallegri
þeir voru líka dýrari
enda þið ríkari
pabbi þinn skipstjóri
minn bara stýrimaður.
En það var ekki útlitið
sem skipti máli
þegar stríðið skall á.
Mínir voru mestu harðjaxlar
og möluðu lið þitt
þegar legukúlan skall
á sundurskotnum gólflistanum
féll megni af liði þínu
dó
Ég blístraði brúðarmarsinn
hátt og snjallt
þér til hrellingar
hélt hann væri
hergöngumars.
Þá reiddist þú
sagðir að það mætti
ekki skjóta svona fast
og fórst heim til þín.
Svo héngum við inni
í sitthvorri fýlunni
þar til stytti upp.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Gömlu vinkonurnar
29.1.2008 | 21:41
...Hún Jóhanna Gunnfríður bauð vinkonum sínum heim til sín um daginn... Jóhanna Gunnfríður er 83 ára og er enn í fullu fjöri eins og sagt er...
Það voru fjórar bráðhressar vinkonur sem runnu í hlaðið á leigubíl eitt þriðjudagskvöldið...
...það voru þær...
Kristjana Alvilda, Hulda Sæunn, Svanfríður Björt og Rannveig Storm... allar um og yfir áttrætt...þetta var eiginlega nokkurskonar spilaklúbbur... en þó hittust þær ekkert reglulega, bara svona af og til...
...þær kölluðu sig... Stormsveitina í höfuðið á Rannsý Storm... sem var foringi þeirra...
... þær komu sér fyrir í stofunni hjá henni Gunnfríði og byrjuðu að spjalla... margir myndu halda að þær hefðu hellt Sherrý í staup, nei ekki aldeilis... Það var Whiskey on the Rocks... sem fór í glösin og skál í botn... síðan var hellt meira í glösin...
.
.
... svo settust þær við spilin og spiluðu vist... ein sat hjá og passaði að glösin yrðu aldrei tóm...
...eftir nokkra hringi þá rauk Kristjana Alvilda upp úr stólnum og öskraði; þú svindlar, Svanfríður Björt... og kastaði spilunum í aumingja Svanfríði sem er eiginlega sú saklausasta í hópnum... en þetta lét hún Svanfríður Björt ekki bjóða sér, heldur stóð upp úr stólnum og hljóp til Kristjönu Alvildu og sló hana á kjaftinn... og síðan klóruðu þær hvor aðra og öskruðu eins og vitleysingar... Rannsý Storm kom askvaðandi og reyndi að skilja þær að... Hulda Sæunn og Jóhanna Gunnfríður stukku líka til og fyrr en varði logaði allt í slagsmálum...
.
.
Þær duttu um gólfin og köstuðu glösum og öðru lauslegu út í loftið... einhver rak sig í takkann á græjunum og Elvis Presley var líka farinn að öskra...
... allt í einu var hurðinni hrundið upp og hópur lögreglumanna ruddist inn... eftir smá stund hafði tekist að koma ró á samkomuna...
Löggregluþjónarnir voru hálf sposkir á svipinn þegar þeir sáu slagsmálahundana... þær gömlu voru tiltölulega fljótar að jafna sig og brostu sínu blíðasta..., kannski örlítið skömmustulega...
.
.
... það síðasta sem fréttist af atburði þessum var að Elvis var farinn að syngja Love me Tender og fimm kátar konur svifu um gólfið í fanginu á lögregluþjónunum....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hamingjusama hjartað
28.1.2008 | 21:07
... um helgina var ég í pípulagningavinnu... sem tók meiri tíma en tilefni stóð til... en allt endaði þetta vel eins og í fallegu ævintýri...
... í dag fór ég hinsvegar og lét skoða pípurnar í sjálfum mér... á línuriti hafði nefnilega komið í ljós að það var eitthvert flökt á litlu pumpunni minni, sem stundum er kölluð hjarta... reyndar hef ég alltaf vitað að litla hjartað er ekkert lítið... það er bara nokkuð stór og hefur sinnt sínu hlutverki vel frá því ég kynntist því fyrst...
.
.
... jú línuritið var ekki í þessum hefðbundna takti sem flestir hafa... það komu svona nokkur hopp inn á milli og línuritið varð ekki reglulegt... mér fannst reyndar línuritið mitt bara flott... það var ekki eins fyrirsjáanlegt og þessi venjulegu...
.
.
... nema hvað... línuritaútskýringamaðurinn (hjartalæknirinn)... sagði mér að þetta væri allt í himnalagi með mig, því upptök aukaslaganna væri í sama hólfi og upptök aðalslaganna...
... já, það skýrir náttúrulega allt saman...
... hinsvegar kom svolítið annað í ljós... pípurnar (æðarnar) í mér reyndust 10 árum yngri en ég sjálfur...
jahá... hvernig í ósköpunum gat það hafa gerst?
... þegar ég er búinn að setja þessa færslu inn, ætla ég að hringja í mömmu og ræða þetta aðeins við hana... kannski var ég bara 7 ára þegar ég tók bílprófið???????????
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bankastjórinn
27.1.2008 | 18:52
... jæja...
einu sinni var bankastjóri... hann var þessi venjulegi sem við könnumst svo vel við... um fertugt... kominn með smá kúlu og var með bollukinnar... hann notaði gleraugu, umgjörðin á þeim var svört og þykk...
... hann átti konu sem var ljóshærð...
Börnin voru tvö og svo áttu þau kínverskan hund sem leit út eins og köttur...
.
.
Það var ekki alltaf auðvelt að skilja bankastjórann, því hann var þvoglumæltur, hann talaði svipað og Megas væri að tala færeysku... með allri virðingu fyrir færeyingum, þeim góðu frændum okkar...
Bankastjórinn átti sér leyndarmál... hann hafði alltaf dreymt um að verða ballettdansari...
Í fallegu silfurlituðu boxi inn á skrifstofunni hans heima, átti hann ballettföt... þetta voru reyndar ekki hefðbundin ballettföt, heldur gamaldags, prúsknesk ballföt...
.
.
... þegar konan hans fór á fund hjá Fondú systrum á hverju fimmtudagskvöldi, leyfði hann börnunum að taka mynd á leigu og keypti handa þeim bland í poka, þrjú kíló...
Síðan þegar börnin voru sokkin ofan í myndina og sælgætið, fór hann inn á skrifstofuna sína og náði í ballettkassann...
Kæddi sig í gallann og setti músík á spilarann...
Skemmtilegst þótti honum að dansa við "Die Geschöpfe des Prometheus op.43" eftir Beethoven.
.... svo dansaði hann á parkettlögðu gólfinu eins og engill...
... og gleymdi gjörsamlega stýrivöxtunum sem hann hafði haft svo miklar áhyggjur af, fyrr um daginn...
Pípari í basli
26.1.2008 | 17:52
... ég komst að því í dag að ég er lélegur pípulagningarmaður... ég keypti tvenn blöndunartæki í morgun... önnur áttu að fara í eldhúsvaskinn og hin í þvottahúsið...
... ég er eiginlega ekki þessi handlagna týpa...
... jú, jú... þetta byrjaði mjög vel... ég skreið inn í eldhúsvaskaskápinn og byrjaði að skrúfa gömlu tækin í sundur... ég mundi til allrar lukku eftir því að skrúfa fyrir vatnið... inn í skápnum var þröngt að athafna sig og maður allur í einni beyglu...en eftir að hafa ná öllu gamla draslinu í sundur, þá tók við að setja það nýja í staðinn...
.
.
Gekk í raun betur en ég þorði að vona og það var rosalega stoltur strákur sem kom út úr skápnum eftir að hafa verið þar í einn klukkutíma eða svo... horfði á nýju tækin og skrúfaði frá... unun að horfa á heita og kalda vatnið renna og svo var hægt að blanda og fá volga bunu...vá, hvað ég var klár...
.
.
... þá var að taka næsta blöndunartæki sem átti að fara í þvottahúsið... tók það upp úr kassanum, en viti menn... þetta var þá tækið sem átti að fara í eldhúsið... urrggggggg.... ég þurfti því að fara í annað sinn inn í vaskaskápinn og taka röngu tækin í burtu og setja þau réttu í staðinn... ég var sem sagt kominn í kuðung inn í skápinn aftur...
... en eftir puð og streð tókst að skipta um þessi tæki...
... og aftur kom ég aðeins minna stoltur út úr skápnum... og skrúfaði frá... en... sjitt... kalda vatnið bunaði út þar sem kraninn var merktur rauður...
... í þriðja skiptið skreið ég inn í þennan litla skáp og breytti köldu vatni í heitt og öfugt...
... ég er að spá í að setja blöndunartækin í þvottahúsið bara á morgun...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hvert skal haldið?
26.1.2008 | 12:36
... ég hef síðustu daga verið að birta smásögur sem ég hef samið jafn óðum og ég skrifa þær hér á bloggið... þær hafa komið áreynslulaust og ég bara bærilega sáttur við þær...
... nú er ég að spekúlera hvert ég eigi að halda með þetta blogg mitt... nenni ekki að skrifa um fréttir, nógu margir í þeirri deildinni... á ég að skrifa smásögur áfram, á ég að skrifa dagbók, hvað ég er að gera á hverjum degi, á ég að fara að skrifa um pólitík... á ég bara að halda mínu striki eins og ég hef verið að gera... eða á ég bara að fara að hætta þessu?
... hér kemur örsaga að lokum...
... einu sinni var maður sem var gráhærður, hann langaði til þess að láta lita á sér hárið, kolsvart eins og það var í gamla daga... hann dreif í þessu og fór á hárgreiðslustofu...
... þegar búið var að lita á honum hárið, var honum réttur spegill, hann horfði í spegilinn og viti menn...
.
.
... hann var bara ánægður með útkomuna...
... gekk út í sólina og söng "What a wonderful world" í huganum...
....ég hef ekkert heyrt af honum síðan...
... hafði þið nokkuð séð hann?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Berjamaðurinn
25.1.2008 | 20:30
... einu sinni var maður sem hafði yndi af því að fara í berjamó...
Berjatíminn á Íslandi er stuttur... kannski fjórar vikur eða svo...
Í ágúst og fram í fyrstu frost í september..
Yfir vetrartímann skoðaði hann myndir af ferðum sínum í berjamó frá
árinu áður, borðaði bláberjasultu með ostum og drakk berjasaft...
Berjasaftin var samt ekki venjuleg berjasaft eins og þú og ég þekkjum hana...
Berjamanninum hafði tekist að búa til eðalvín úr krækiberjum og bláberjum...
17% sterkt vín...
.
.
Hann var því oft rallhálfur að skoða myndirnar sínar og merkja inn á GPS
staðsetningartækið sitt hvar bestu staðirnir voru... hann passaði sig alltaf
á því að leggja bílnum langt frá þeim stað þar sem hann tíndi berin...
Enginn mátti vita hvar besta berjalandið var...
Hann notaði ekki berjatínu, það var glæpur, sambærilegur við það hjá
veiðimönnum og að húkka laxinn... menn sem húkka lax eru ekki hátt
skrifaðir hjá öðrum veiðimönnum...
Kvöld eitt þegar okkar maður var búinn með fulla flösku af berjavíni og var
orðinn rjóður í framan, var bankað á útidyrnar... berjamaðurinn stakk upp í
sig Carr's tekexi og ostbita með sultu ofaná... hélt á flösku númer tvö í hendinni
og tappatogara og fór til dyra...
.
.
Fyrir utan voru tveir snyrtilegir ungir menn að selja Jesúblöð... viljið þið
ekki koma inn strákar og fá ykkur berjavín með mér; sagði berjamaðurinn
Ungu mennirnir skildu ekkert í íslensku, en gátu þó sagt; "fimmhundruð krónur"...
Nei, nei, sagði okkar maður... það kostar ekki neitt... komið þið bara inn á
skónum og smakkið á þessu víni með mér... drengirnir skildu bendingar mannsins
og gengu inn í stofu... berjamaðurinn hellti í glös fyrir þá og sagði;
Skál, drengir!
Síðan sýndi hann þeim myndirnar úr berjamónum og þeir sýndu honum á móti Jesúblöðin.
.
.
Þið eruð frábærir, strákar, sagði berjamaðurinn við trúboðana... nú komið þið
bara next autumn og pikkið nokkur berries with me... but you may only use
your naked hands...nó machines!
If you promies me to come next year, then I can sell Jesus papers for you... OK?
Þannig er sagan um það hvernig berjamaðurinn gerðist trúboði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Harðfiskurinn - sönn saga
24.1.2008 | 22:06
... nú kem ég hér með sanna sögu... sem getur þó aðeins verið færð í stílinn...
... eins og allir vita má hvergi reykja innanhúss í dag... fólk hímir í ýmsum skotum og húsasundum að sjúga rettuna, eða fer út á svalir heima hjá sér til að fá sér smók...
... nú er í uppsiglingu nýtt vandamál... HARÐFISKUR...
Kunningi minn er í vanda... honum þykir harðfiskur góður, en hann má ekki borða hann heima hjá sér!
Af hverju ekki? ... jú, konan hans þolir ekki harðfisklykt... á þessu heimili er því ekki borðaður harðfiskur... nema í laumi...
Um daginn fór konan hans í saumaklúbb. Vinurinn hugsaði sér gott til glóðarinnar og keypti sér harðfiskpakka og smjör...
Hann klæddi sig í kuldagallann, tók með sér stól, bjór, harðfisk og smjör... og settist út á svalir... hann naut þess að háma í sig harðfiskinn með miklu smjöri og sötraði bjórinn með... ummm hvað þetta var gott...
.
.
Þegar hann var búinn að éta eitt kíló af harðfiski og smjörið var búið og þrír kaldir bjórar lágu í valnum... Þá henti hann kuldagallanum í þvottavélina, peysunni, nærbuxunum og sokkunum... síðan fór hann í sturtu og þvoði hárið með Nivea sjampói... tannburstaði sig fjórum sinnum með Colgate Sensitive... og skvetti á sig gömlum rakspíra...
... hann sat í sófanum og drakk kaffi og las Moggann þegar konan opnaði dyrnar...
..hæ, skan... sagði hann hlýlega og horfið rannsakandi á hana... hún svaraði ekki kveðju hans, heldur fitjaði upp á nefið og öskraði;
Varstu að éta harðfisk hérna inni, Þrööööstur??????
....úpps, nú missti ég nafnið á manninum út úr mér... þar fór í verra,
þar sem þetta er sönn saga... vonandi lesa hjónin ekki þessa færslu...
... síðan var Þröstur greyið barinn andlega eins og harðfiskur það sem eftir lifði kvölds...
... og eitt er víst, vinur okkar mun aldrei borða harðfisk heima hjá sér framar... hvar endar þetta eiginlega???
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Maðurinn sem missti minnið
23.1.2008 | 07:59
Einu sinni var maður sem missti minnið... hann hélt á því í höndunum og ætlaði að setja það í körfu, en rann þá til á bananahýði og missti það...
... það skall í götuna og hoppaði eins og fótbolti... rann niður grasbrekku og hvarf úr augnsýn...
Ég man ekki alveg hvað þessi maður heitir og ekki man ég heldur hvar þetta gerðist...
En hvað gera menn þegar þeir hafa misst minnið... það er rosalega misjafnt... Okkar maður fór beint í bakarí og keypti sér tebollu með rúsínum ...
Hann settist við lítið borð í bakaríinu og beit í tebolluna... honum fannst hún vond, rúsínurnar voru sérlega vondar...
.
.
Þá mundi hann það, hann hafði bara ekkert minni og gat ekki munað hvað var gott og hvað var vont...
Og hvað gera menn þegar þeir átta sig á að þeir vita ekkert...
Okkar maður henti tebollunni með rúsínunum ofan í ruslatunnu á leiðinni út úr bakaríinu, en snéri svo við og sótti hana... hann langaði að fara niður á tjörn og gefa öndunum... þær borða áreiðanlega rúsínur, hugsaði hann...
.
.
Svo hélt hann af stað niður að tjörn... en þegar hann var búinn að ganga töluverða stund... mundi hann allt í einu að hann hafði ekkert minni, hann hafði misst það í götuna... og þegar menn hafa ekkert minni, þá vita þeir ekki hvar tjörnin er... en maðurinn rölti áfram án þess að vita hvert hann væri að fara...
... hann rambaði inn á tún í miðjum bænum... hann var þreyttur og lagði sig í
fallega laut sem þar var... og sofnaði... sólin skein framan í hann og honum
var heitt... hann vaknaði kófsveittur og settist upp... en viti menn, rétt fyrir
framan hann lá minnið hans, grænt og gljáandi...
...það fór ekkert á milli mála... þetta var minnið hans...
.
.
Hann gekk að því og tók það varlega upp og þá mundi hann allt...
Hann hljóp í næsta bakarí og keypti sér tebollu með súkkulaði, því það
var í sérstöku uppáhaldi hjá honum...
Síðan keypti hann stórt franskbrauð og hljóp niður að tjörn...
Okkar maður sat þarna sæll og glaður með minnið sitt og kastaði brauðmolum til fuglanna...
Engum sem sá þennan mann þarna á tjarnarbakkanum í sólinni gat dottið í hug
að þessum manni þættu tebollur með rúsínum vondar...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Milljón rottur
21.1.2008 | 18:24
... misjafnt hversu fólk er ánægt með þann stað sem það býr á...
Hér er gott að búa sagði maður við mig í dag, hér hefur aldrei sést rotta...
Ég var náttúrulega alveg sammála manninum, það hlýtur að vera gott að
búa á stað þar sem aldrei hefur sést rotta...
.
.
Þetta minnti mig á söguna af kallinum sem var þekktur fyrir að ýkja...
... hann var kallaður Siggi...
Ég kom á öskuhauga einu sinni og þar voru milljón rottur... sagði Siggi...
... nei, Siggi, sagði sá sem var að spjalla við hann, það getur ekki verið,
milljón rottur, það bara passar ekki...
ja, þær voru að minnsta kosti 500 þúsund... svarði Siggi...
500 þúsund, nei, Siggi, nú ertu að skrökva...; ja, þær voru örugglega
100 þúsund, hélt Siggi áfram...
og svona lækkaði Siggi sig smátt og smátt með töluna eftir því sem
samtalið varð lengra...
... þetta voru tvær rottur sagði Siggi og var orðin heldur daufur...
Siggi, var þetta ekki bara ein rotta? spurði félagi hans þá.
Jú, svaraði Siggi snöggt, en hún var líka STÓR!
.
.