Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Arfi - gátusaga -

... illgresi er það kallað sem vex á stöðum þar sem það á ekki að vaxa á... arfi er dæmi um jurt sem kölluð er illgresi... hann hefur slæmt orð á sér og er reittur upp úr beðum af grimmum grænum höndum um land allt...

... en ekkert er alslæmt, arfinn lumar á sér... hann er betri en við höldum...

Þetta las ég mér til um arfann á netinu:

Arfinn er lækningajurt. Gott að vita af honum ef einhver skyldi meiða sig og hlaupa upp með bólgur. Þá má leggja kælandi og sefandi arfabakstur á auma staðinn og ekkert er meira frískandi en arfaflækja til að leggja í nýveiddan fisk meðan hann bíður þess að komast í pottinn eða á pönnuna.

Næsta vor er ég því að spá í að vera með arfabeð við hliðina á kartöflugarðinum.

Mér dettur í hug í lokin sagan um manninn sem hét Arfi. Ekki nokkur manneskja myndi skíra barnið sitt þessu nafni í dag. En foreldar hans voru þau Farði og Arða sem þekkt voru fyrir ósmekklegheit allt sitt líf.

En Arfa kallinum honum var aldrei boðið í veislur og mat... fólk gat ekki hugsað sér að segja; ég er að fá Arfa í mat.
Hann gerðist samt oft boðflenna og tróð sér inn í veislusali án þess að nokkur tæki eftir því í upphafi. En þegar fólk sá til hans var honum umsvifalaust hent út.

.

hh13544

.

Margir myndu nú halda að þessi saga endaði illa, en svo er nú aldeilis ekki.

Hann kynntist góðri konu sem var alveg sama þótt hann héti Arfi... hún var arfavitlaus í hann og elskaði hann afar heitt... þau rugluðu saman reitum, giftust og lifðu hamingjusömu lífi upp frá því.

Arfi kallaði hana alltaf "Puntustráið" sitt".

Þá kemur spurningin; hvað hét konan?


Verður fínn vetur

... ekkert sérstakur leikur kannski, en sýnir manni þó að United verða sterkir í vetur og ekki síðri en á síðasta tímabili... vantar enn Rooney og Ronaldo, Anderson og fleiri... held samt að "við" verðum að kaupa framherja... Berbatov efstur á óskalistanum hjá mér...
Ferguson ætlar reyndar að kaupa senter fyrir tímabilið... gæti komið á óvart hver það verður... kannski Eiður???

Hermann heppinn að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu þegar hann faðmaði kálfann á Tevez...

Mikið væri nú Nani betri ef hann gæfi tuðruna einstaka sinnum

... og United farnir að vinna vítaspyrnukeppnir, það er nýung...

.

14manchester-uniteds-nani

.


mbl.is United vann Samfélagsskjöldinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ryskingar hættulegir

... það er ekki hollt að borða of mikið af ryskingum, áhrifin af þeim eru svipuð og af berserkjasveppum... maður verður ruglaður í hausnum og allt að því kolbrjálaður... ekki nema von að menn fái gistingu hjá löggunni eftir svona máltíð...

... vona að löggan gefi þeim bara Cocoa Puffs í morgunmat...

.

 2438_funny_fish_taking_photographs_with_a_camera_underwater

.


mbl.is Tveir gistu fangageymslur eftir ryskingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég á mér draum

Einmitt þegar manni finnst dagurinn aldrei ætla að taka enda er í morgun orðið í gær.

Svo mælti hann Earl Wilson blaðamaður. Las þetta í spakmælabók.

Mig dreymir um það að einhver spekin sem ég hef sagt eða á eftir að segja verði sett í svona tilvitnanabók.
Þá held ég að ég hverfi sæll og glaður yfir móðuna miklu þegar þar að kemur.

Hvernig er t.d. þetta.

Þegar haninn hættir að gala á morgnana sofa hænurnar út.

.

 hani

.

 

 


Óvissa með mig.

... jæja, þá er komið að því að fylgjast með handboltanum á Ólympíuleikunum... leikurinn við Rússa er um miðja næstu nótt... það er að vísu pínulítil óvissa með sjálfan mig hvort ég verði orðinn klár í slaginn eftir malarmoksturinn í gær... strengir í baki og einnig smá í sitjandanum...

... ég óttaðist um tíma að ég væri alveg úr leik, en með heitu baði og heilsunuddi ætti ég að verða orðinn góður fyrir leikinn við Rússa...

Áfram Ísland!

.

CB005737

.


mbl.is Guðjón líklega á leikskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimspeki

... ég missti þessa setningu út úr mér í dag...

Ég hef gaman að heimspeki, þótt ég viti varla hvað heimspeki er.

Svo fór ég að spá í orðið heimspeki, hélt reyndar fyrst að það orð væri skrifað með tveimur essum... heimsspeki... þ.e. speki heimsins... en ég er hvort eð er ekkert góður í stafsetningu.

Heimspeki er svona meira fyrir mér spekin heima fyrir. Hvað maður er að hugsa og segja yfir grjónagrautnum.

Svo fór ég að hugsa hvað gera heimspekingar? Kenna þeir bara öðrum heimspeki? Ja ekki veit ég.

.

 532px-Poincare_disc_hyperbolic_parallel_lines.svg

.

Ég las mér aðeins til um heimspekina og sé að hún er full af spurningum, eiginlega svakalega erfiðum spurningum eins og þessum:

1) Hver eru tengsl hugar og líkama?
2) Í hverju er hið góða líf fólgið?
3) Af hverju eigum við að breyta rétt?
4) Hvað er að vera maður sjálfur?
5) Hvernig vitum við að aðrir hugsi?

Nú ætla ég að reyna að svara þessum spurningum af bestu getu:

1) Það er þegar líkaminn æðir eitthvað út í buskann og hugurinn neyðist til að fara með.
2) Það er að sitja við sjónvarpið með ástinni sinni með kaldann bjór í hendi og horfa á United vinna.
3) Af því að annars værum við að svindla og Guð myndi hvort sem er alltaf komast að því.
4) Það er að hafa augun inni í hausnum á sér og horfa niður eftir líkamanum og niður á tær án þess að sjá sjálfan sig í framan.
5) Þeir bara eru þannig á svipinn.

Ég er ekki viss um að alvöru heimspekingar myndu svara þessu betur, er það nokkuð?

.

 thales

.

 

 

 

.

Skóflur, sár og strengir

... úff nú er ég þreyttur...

Vorum að moka og dreifa úr möl sem trailer sturtaði í heimkeyrsluna hjá okkur... náttúrulega að okkar beiðni... þetta voru heilir fimmtán rúmmetrar af möl... hvað ætli það séu mörg kíló?

Ég reyndi sem best ég gat að hafa við betri helmingnum sem er þvílíkur dugnaðarforkur að maður verður bara smá kettlingur í sandkassa við hliðinni á henni.

Ég er með blöðrur á höndunum og strengi í öllum vöðvum... meira að segja er ég með strengi í eyrnasneplunum... og því hef ég ekki lent í áður...

Magavöðvarnir eru helaumir og ég sem var búinn að gleyma því að ég er yfirleitt með magavöðva.
En það er bara gaman að sveifla skóflum og slétta möl með hrífu, svona annað slagið.

Man þegar ég var að grafa skurði í bæjarvinnuni heima í gamla daga... það þótti mér frekar leiðinlegt og ákvað í miðjum djúpum skurði að gera það ekki að ævistarfi mínu.

.digging


Kál

... væntanlega hefur forsætisráðuneytið lagt blessun sína yfir það að íslenski fáninn sé límdur á spergilkál, hvítkál, sveppi og jafnvel kínakál... þessar vörur eru merktar með einhverskonar afbrigði af íslenska fánanum sem er hið besta mál...

... sé kannski ekki alveg muninn á því að þessar vörur megi vera merktar með íslenska fánanum en nærbuxur og inniskór ekki...

 .

 broccoli

.

 


mbl.is Nærbuxur í fánalitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jimi

Mér datt í hug í atvik í skóla þegar ég var unglingur og varð leiður á náminu og ætlaði að hætta í skóla. Skólastjórinn minn var Kristinn G. Jóhannsson myndlistamaður með meiru sem nú er búsettur á Akureyri.
Oft geta lítil atvik haft varanleg áhrif á mann og verið manni gott veganesti út í lífið.

Hann spjallaði við piltinn og sagði m.a. við hann þessi orð;

Ætlar þú að verða einn af þeim sem alltaf gefst upp?

Ég hrökk við og spurði mig sömu spurningar... og svaraði sjálfum mér í hljóði;

Nei ég ætla ekki að verða einn af þeim.

Þetta ljóð varð svo til löngu síðar:

Veganestið.

Hann horfði íhugull
yfir gleraugun sín
litli skólastjórinn
með upprúllaða skeggið
og spurði lífsleiða nemandann sinn
með Jimi Hendrix hárið

Ætlar þú að verða einn af þeim sem alltaf gefst upp?

Það færist glott
yfir reynsluríkt andlit mannsins
sem eitt sinn var lífsleiði nemandinn
þegar hann rifjar þetta upp

Hann veit að þessi orð
fengu hann til að þrauka

lengur en
Jimi

.

 lulu_hendrix

.
 


Get

Nú hefst þátturinn Íslenskt mál:

Hef oft pælt (slettuorð) í litlum orðum... gaman að taka þau og skoða frá ýmsum sjónarhornum.

Í dag tökum við fyrir orðið "get". Hvað get ég gert?  Það er bara lítið saklaust orð... getur ekki gert mikinn óskunda, skyldi maður halda.

En svo fara skrítnir hlutir að gerast þegar við förum í þátíðina. Hvað gat ég gert. Þarna er allt í einu komið gat, hola í málið.

Og hvað er gat? Jú, hola eða jarðgöng til dæmis. Hvernig gat þetta eiginlega gerst? Við vorum bara í sakleysi að ræða orðið get og allt í einu erum við komin ofan í jarðgöng... og þegar maður talar um jarðgöng, hvað dettur manni fyrst í hug, jú Árni Johnsen og draumur hans um göngin til eyja. Og þá erum við komin til Vestmannaeyja og þá dettur maður fyrst í hug Lundi. Og hver er léttur í lundi hmm ég get verið léttari en lundi... en sjáið þið bara hvað gerðist, nú er get komið aftur í umræðuna löngu eftir að við vorum hætt að hugsa um það...

Þetta leiðir að þeirri niðurstöðu; að allt fer í hringi... byrjar á sama stað og það endaði.

get ég ekki meira að þessu sinni... þættinum er lokið.

.

large_HEARTRUN1

.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband