Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Heiðarleikinn
17.6.2008 | 20:17
Heiðarleikinn er hollur ferðafélagi.
Rakst á nokkrar tilvitnanir um heiðarleikann.
Hér eru sýnishorn af því sem mér fannst best.
Engin manneskja er með nógu gott minni til að ná góðum árangri sem lygari. (Abraham Lincon)
Ef þú segir alltaf satt þarft þú ekki að muna neitt. (Mark Twain)
Öll lifum við aðeins einu sinni; ef við erum heiðarleg, þá er nóg að lifa einu sinni. (Greta Garbo)
Segðu alltaf sannleikann. Ef þú getur ekki alltaf sagt sannleikann, ekki ljúga. (NN)
.
.
Vertu heiðarlegur við sjálfan þig, þá mun lífið strjúka þér um vangann. (Brattur)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Orðatiltæki
17.6.2008 | 10:45
Þættinum hefur borist bréf.
Hvað þýðir orðið orðatiltæki og hvaða tæki er það sem verið er að tala um?
Orðatiltæki er ansi hentug græja þegar fólk er að halda ræðu. Sama hvort er á aðalfundi Seðlabankans, í afmæli sægreifa, eða í brúðkaupi Bubba byggis.
Þú setur orðatiltækið á öxlina á þér og í miðri ræðu hvíslar þú; hvað á ég að segja núna?
Og orðatiltækið svarar að bragði; Margur verður af aurum api.
.
.
Ekki er blessað tækið gallalaust. Ef gestir koma í heimsókn og þú færð spurninguna; hvað segir þú gott? ...og maður svarar náttúrulega; allt fínt... þá á tækið það til að grípa fram í og segja; Nei, hann segir ekki allt gott... hann er að drepast í öxlinni, er með hausverk og hefur ekki klippt neglurnar á tánum lengi, hvernig getur hann sagt allt gott?
Því er best að geyma orðatiltækið í orðatiltektaskápnum meðan gestir eru í heimsókn, því það er ekki hægt að slökkva á því.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Spjall
16.6.2008 | 22:42
Heyrðu, hvað heldur þú að það séu eiginlega margar stjörnur í himingeimnum?
Ég held þær séu ekki óteljandi, það hlýtur að vera hægt að telja allt sem til er.
Þú segir það.
Já.
En heldur þú að það sé líf á öðrum hnöttum?
Já, ég er alveg viss um það.
Nú, hvað hefur þú fyrir þér í því?
Þig, þú ert svo furðulegur að þú hlýtur að vera frá Mars eða Snickers eða eitthvað svoleiðis.
Þú ert sjálfur stór skrítinn... ég held að þú sért frá plánetunni Apríkósu.
Æi... við skulum ekki þrasa, verum vinir og þegjum smá stund saman.
Já, satt segirðu, lífið er alltof stutt til að vera að eyða tímanum í það að nöldra.
OK - einn tveir og sjö - þögn, vinur.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Geisp
15.6.2008 | 14:37
Það er ekki nýtt að fólk velti vöngum yfir tímanum.
Hvernig við notum hann... það er bruðl að sofa finnst mér... en algjör nauðsyn, því miður... en það fer ansi mikill tími í þá athöfn. Við getum svo sem ekki mikið gert í því hvað við gerum sofandi en heilmikið í því hvað við gerum vakandi.
Hef stundum hugsað út í það hvernig það væri ef við þyrftum aldrei að sofa.
Úff.. já pælið í því maður, baka pönnukökur á nóttunni, skúra gólfin klukkan fimm á morgnanna, verða aldrei syfjaður og þreyttur... og það sem versta væri... maður geispaði aldrei... ég myndi sakna þess...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þráðurinn
14.6.2008 | 11:14
Einu sinni var maður sem hét Þráður. Hann langaði svo mikið til að vera persóna í sögu... hann vissi að neðar í götunni ,við Mávastell 33 bjó rithöfundur, sem leit góðlátlega út.
Hann ákvað því að fara að heimsækja hann.
Þráður klæddi sig í uppáhalds rauðu buxurnar sínar og rauðu peysuna, setti svo á sig rauða derhúfu.
.
.
Á leiðinni gelti á hann reiður bolabítur. Bolabíturinn var fastur í kveðju svo Þráður gelti bara á móti, en þá varð hundurinn öskuillur og stökk að Þráði. Prikið sem hélt keðjunni þaut upp úr jörðinni eins og flugeldur og bolabíturinn var laus.
.
.
Skelfingu lostinn hljóp Þráður undan kvikindinu. Bolabíturinn var fljótur að hlaupa, gelti ógurlega og froðufelldi. Þráður fann hvernig hann glefsaði í buxnaskálmarnar á uppáhalds rauðu buxunum hans.
Maðurinn í rauðu fötunum stökk yfir næstu girðingu en bolabíturinn varð eftir fyrir utan spólandi vitlaus.
Þráður áttaði sig fljótlega á að hann var staddur í garðinum hjá rithöfundinum, sem sat þarna á veröndinni og reykti pípu eins og alvöru rithöfundar gera.
Það sem Þráður áttaði sig hinsvegar ekki á var að hann var þegar orðinn sögupersóna í þessari sögu.
Rauði Þráðurinn í sögunni.
Fegurðasamkeppni
13.6.2008 | 21:12
Hestar bera Kvíðboga þegar þeir hafa áhyggjur....
.
Hér er indíánahöfðinginn Kvíðbogi glaðbeittur á baki gamla sorrý Grána.
En svo eru aðrir sem bera Kviðboga og hann lítur svona út:
.
.
Hvor er fallegri, Kvíðbogi eða Kviðbogi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Örsaga um svið
12.6.2008 | 18:41
Tveir karlar sátu til borðs og átu svið... viltu heilann? sagði annar, nei, bara hálfan sagði þá hinn...
... svo borðuðu þeir sitthvorn hálfan heilann... karlgarmarnir...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fyndinn draumur?
11.6.2008 | 20:27
Mig dreymdi að vekjaraklukkan mín væri biluð... í draumnum var hún svona gamaldags, dökkblá sem argar þegar hún hringir... (á ekki svona klukku í raunveruleikanum)...
Nema hvað, í draumnum hringdi ég í klukkuviðgerðarmanninn... hann kemur og skoðar gamla klukkuverkið og kveður svo upp sinn dóm.
.
.
"Hún er biluð", sagði klukkuviðgerðamaðurinn... og hvað kostar að gera við spurði ég þá...
Fjórtán þúsund og sexhundruð krónur, svaraði geðþekki viðgerðamaðurinn... en hvað kostar þá ný klukka, spurði ég til að finna út hvort það myndi ekki bara borga sig að kaupa nýja.
Ný klukka kostar fimmtán þúsund krónur, svaraði klukkukarlinn.
Ég ætla að fá nýja, sagði ég þá... en þá móðgaðist viðgerðamaðurinn (því þá fékk hann ekki að gera við klukkuna og það er jú hans vinna og áhugamál) og sagði með þjósti... allt í lagi, en þú mátt ekki nota hana fyrr en eftir mánuð...
.
.
Og þá byrjaði það, ég skellti uppúr og hló, féll á gólfið og hreinlega grét úr hlátri... þvílíka vitleysu hafði ég aldrei heyrt... ég emjaði og veinaði... ógeðslega fyndið hahahaha... viðgerðamaðurinn lét sig hverfa og skildi mig einan eftir í þessu mikla hláturskasti...
Og þannig endaði draumurinn... ég vaknaði skellihlæjandi í rúminu og fannst þetta ennþá voða fyndið... svo fór ég að segja frá draumnum en þá virkaði þetta bara ekkert fyndið...´
Var þetta fyndið ha?
Ég hef greinilega öðruvísi húmor sofandi heldur en með fullri meðvitund.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hann skar ömmu
10.6.2008 | 18:45
svona líta þeir nú út...
.
.
eru þetta ekki flottir hann skar?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Melónustígurinn
9.6.2008 | 07:04
Þetta kvöld vorum við félagarnir í skrítnu ástandi... við gengum eftir melónustígnum, stoppuðum hjá grenitrjánum og dæstum... getur það gerst að þær komi ekki aftur? spurði vinur minn... já, sagði ég við verðum að búa okkur undir það vinur, svaraði ég þungt... við vorum ansi niðurlútir og veittum fallegum kvöldhimninum enga athygli...
Hugur okkar var bundinn morgundeginum... við höfðum áhyggjur...
Við dæstum stöðugt, töluðum fram og til baka um hvað gæti gerst... á meðan tók himinninn á sig ýmsar myndir, varð fyrst ljósblár... svo rauðgulur... svo dimmblár og svo eldrauður... fuglar sungu á trátoppum og hunangsflugur suðuðu af ánægju...
Við gátum bara ekki tekið eftir þessari yndislegu stemmingu... við höfðum áhyggjur...
Morguninn eftir kom í ljós að allar bréfadúfurnar okkar höfðu skilað sér í hús, hver og ein einasta... mikið var ég feginn að sjá hana Djásn aftur.
Vildi við hefðum ekki haft svona miklar áhyggur af þeim... þá hefðum við getað átt notalega stund á Melónustígnum, kvöldið áður.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)