Færsluflokkur: Dægurmál

Bleikur fíll

... hvað gerir flugfreyjan í eldhúsinu... hún flugeldar... hahahahah

... hvernig fór þegar tannburstarnir kepptu við tennurnar í fótbolta?... þeir burstuðu tennurnar.... hahahahah...

... hvernig á að skjóta bláfíl?... svar: með bláfílabyssu.... já, rétt... en hvernig á að skjóta bleikfíl, svar: með bleikfílabyssu... Nei, kjáni... bleikfílabyssa er ekki til, það á að binda fyrir ranann á honum, þar til hann verður blár í framan og þá á að skjóta hann með bláfílabyssu...

..........hahahahahahah... úpps þessi var rosalegur... get ekki skrifað meira, er í krampa....

.

 05_mmi_vls

.


Fallegt um vetur

... rosalega getur verið fallegt um að litast þegar vetur konungur ræður ríkjum...

... hér er mynd sem ég tók í Mývatnssveit fyrir einhverju síðan...

... læt hér flakka með gamla vísu eftir Þingeying... þetta er í flokki vísna sem enda snögglega og hafa óvæntan endi... vek sérstaka athygli á því að það er ekki prentvilla í síðasta orðinu í vísunni...

Þar er sumar og sól og sandkassaveður
það kom gríðarlegt frost eftir gleðileg jól
ég fékk gæsahúð meður.

.

Hverfell

 

.


Fótbolti - leyndarmáli ljóstrað upp

 

... eina kalda minningu á ég frá fótboltaleik heima á Ólafsfirði... það var komið haust og Völsungur frá Húsavík var kominn í heimsókn að spila leik, líklega í þriðja flokki... við Leiftursmenn áttum enga búninga þá... en við strákarnir komum okkur saman um að vera í hvítum skyrtum... eina hvíta skyrtan sem ég átti var nælonskyrta... við mættum á malarvöllinn okkar, grófa, sem stundum var uppnefndur "Hraunprýði"...

... það var nístingskuldi og slydda... leikurinn hófst og okkur gekk vel... skoruðum nokkur mörk en fengum ekkert á okkur, vörnin var feiknagóð... ég var í vörn og fannst við reyndar vera óvenju fjölmennir þarna bakatil... ég fór því að telja leikmennina og komast að þeirri niðurstöðu að við Ólafsfirðingar værum 12 á vellinum... en eins og allir vita eru leikmenn í einu liði bara 11... ég sagði félaga mínum í vörninni frá þessu og ákváðum við að grjóthalda kj... um þetta...

.

fotbolti2

.

... leikurinn vannst 4-0... dómarinn sá ekki neitt athugavert...

... nú sem sagt uppljóstra ég þessu mikla leyndarmáli... enda ekki hægt að kæra lengur... held ég...

... en mikið rosalega var mér orðið kalt í nælonskyrtunni í slyddunni... það fer enn hrollur um mig þegar ég hugsa um það....

 


Hvar er besti veiðistaðurinn?

... á þessum tíma árs er ekki óalgengt að veiðimenn fari að hugsa um veiði og rifa upp veiðisögur til að stytta biðina...

... einu sinni var bóndi einn sem skrollaði mikið, spurður til vega, hvar best væri nú að henda flugu fyrir urriða...

... uRRiða, segið þið... hmm...

Þið skuluð Rölta eftiR Rollustígnum þaRna

þaR til þið komið að gRein sem slúttiR út yfiR fRussið

þá skuluð þið taka stReameR, gRænan eða Rauðan

og kasta honum út yfiR stRauminn

þá kemuR uRRiðinn og hRemmiR hann...

.

urridi3 

.

 


Aðfangadagur

... í október bloggaði ég um það, að það eina sem mig vantaði fyrir jólin væri pottur til að búa til uppstúf í fyrir jólin... nú á ég hann... og búinn að æfa mig á honum... hann reynist mjög vel og ef eitthvað klikkar með jafninginn þá get ég ekki kennt pottinum um frekar en fótboltamaðurinn skónum, ef hann brennir af í dauðafæri....

... en sem sagt, þarna í október... borðaði ég hangikjöt í góðum félagsskap í sumarbústað...
... ógleymanleg helgi reyndar... en hennar saga verður ekki rakin frekar...

... hef ekki borðað hangikjöt síðan og hlakka mikið til að  borða það á jóladag... verið að sjóða það núna og ilmurinn er vægast sagt ljúfur... held að maður eigi ekki að troða sig út af hangikjöti á jólahlaðborðum og öðru slíku í desember... þá er hætt við að manni hlakki ekkert til að borða það þegar kemur að jólum...

... þetta ljóð um jól æsku minnar birti ég í október, en endurtek það hérna vegna þess að það munaði litlu að ég fengi áskorun um það....

.

 hh-xmascat

.

Aðfangadagur.

Mikið var mjöllin mjúk
í firðinum forðum
alvöru jólasnjór
í stofunni var allt klárt
gervitréð bómullarkirkjan
allir pakkarnir

Prins Valiant
til: þín
frá: mér

Fimm á Fagurey
pakkar með slaufum
tryllingslegur ilmurinn
úr eldhúsinu
blindfullir kökudunkar
hálfmánar vanilluhringir
laufabrauð svindl -
og kornflekskökubirgðir
minni en mamma hélt

klukkan sex
heims um ból
helg eru jól
heilagt
tíu mínútum
síðar bein á hátíðarborðinu
etinn heimatilbúinn ís
smyglað Machintosh
drukkið jólaöl
framundir morgun
með bóklestrinum

ó, hver dýrðlegt var að sofna þá


Að bíða eftir jólunum

... jólin alveg að detta inn... ég bara ligg afturábak og bíð eftir þeim... allt klárt... pakkarnir, maturinn...þrifin... fallegt og hlýlegt heimili, með margbreytilegu jólaskrauti, sumt gamalt skraut, persónulegt og sérlega fallegt... sem gefur því sérstakt gildi... öllu komið fyrir á afar smekklegan hátt... jólaljósin mild og róandi,ótrúlega góð tilfinning sem fylgir því að sjá hvernig allt þetta myndar jólastemmingu... og maður sjálfur hrífst með... og fyllist jólaandanum... og ég þakka fyrir mig...

... þakka yndislegri vinkonu fyrir að búa til þessa fallegu umgjörð...

Gleðileg jól!

.

 .Jólagluggatjöld

.

.

Kirkja 

.

.

StelpamGleraugu       

 

.

PSokkaráVegg 

 


Slappaðu af Tími

... það er alltaf jafn skrítið að hugsa um tímann... það eru að koma jól... dimmasti tími ársins... en samt er svo stutt í janúar... og dag tekur að lengja hægt, en bítandi... og svo áður en maður veit af eru komnir Páskar... og svo sumar og svo haust og svo aftur jól... ja hérna... vá, hvað tíminn flýgur...

... og svo koma stundir þar sem tíminn virðist standa kyrr, og maður vill innst inni að hann sé bara kyrr og slappi af... já, af hverju tyllir þú þér bara ekki niður Tími hérna hjá mér og við skulum eiga góða stund saman? Mér líður vel og ég vil ekkert að þú sért að draga mig áfram... tökum því bara rólega, kæri vinur...

... en allt er breytingum undirorpið og allt er í heiminum hverfult...

... Tíminn; já, en ég er ekkert að flýta mér... ég ferðast alltaf á sama hraðanum... þú verður bara að kunna á mig og njóta þess að ferðast með mér... það eru allir að ferðast með mér... ekki láta þér leiðast, njóttu ferðarinnar... láttu þig dreyma...

 Ég; já.... dreyma... það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd... best að fara að leggja sig...

.

 sleeping_bunny2

.

 


Skarphéðinn Skata - seinni hluti

Mannkertið fór heim til sín og sagði fólki söguna af buxunum sem lifnuðu við og syntu á haf út. Fólk hló að þessari lygasögu Skarphéðins og taldi að nú væri hann endanlega orðinn ga ga.

 

Nokkru fyrir jól voru menn svo að veiðum. Drógu þeir þá mjög sérkennilegan fisk úr sjó.

Þeir sáu fljótt að augun í skepnunni voru alveg eins og tölurnar sem höfðu verið í buxunum hans Skarphéðins og spíssinn, eða sporðurinn á skepnunni, sem hann hafði talað um að hefði runnið út úr höndunum á sér, var alveg eins og hann hafði lýst.

 

Sjómennirnir fóru beint heim til Skarphéðins Skötu um leið og þeir komu að landi og sýndu honum fiskinn. Og það fór ekki milli mála,þarna voru buxurnar hans lifandi, en dauðar, komnar aftur.

 

Eigum við ekki að éta fiskinn sögðu menn. Nei, sagði Skarphéðinn, við étum ekki buxurnar mínar. Kemur ekki til mála. Ég vil grafa þær. Og það var engu tauti við hann komið. Skarphéðinn hélt sína jarðarför og gróf buxurnar í fjörukambinn.

 

Þegar komið var að jólum, hafði geisað óveður í marga daga og ekki gefið á sjó. Var orðið matarlítið þegar dagurinn áður en jólin byrjuðu rann upp. Ekki vildu menn borða jólamatinn of snemma.

Datt þá einhverjum í hug að grafa upp fiskinn eða buxurnar hans Skarphéðins Skötu og sjá hvort ekki mætti seðja hungur sitt á þeim.

 

Var þetta grafið upp og farið með inn í eldhús og fleygt í pott. Gaus þá upp þessi svakalega fýla svo fólk þurfti að flýja hús. En hungrið var svo mikið að fólk lét sig hafa það að fara aftur inn að hlóðunum og veiða upp buxnafiskinn og smakka á.

Og viti menn, þetta var ekki vont, alls ekki eins vont og lyktin. Færum Skarpa einn bita sagði einhver. Og honum var færður bitinn. Hann var glaður að fá matarbita og þakkaði fyrir sig og spurði hvað þetta væri. Þá var honum sögð öll sagan og allur sannleikurinn. Skarphéðinn reiddist í fyrstu en svo, þrátt fyrir heimsku sína og einfeldni, sá hann að kannski væri þarna kominn hlutur, matur, sem gæti gert hann frægan. Hann sagði: Ég fyrirgef ykkur ef ég má nefna fiskinn í höfuðið á mér, hann varð þó til úr buxunum mínum, ekki satt? Þetta samþykktu allir með glöðu gleði. En, sagði þó einhver, það er ekki hægt að kalla fisk Skarphéðinn, nei greip Skarphéðinn frammí. En finnst ykkur ekki kúl að nota millinafnið mitt, Skata?

.

 rokke2

. 

 Jú, þetta fannst öllum kúl svo það var samþykkt og meira að segja Laufa systir smellti kossi á kinn bróður síns. Hún var stolt og ánægð með afrek hans. Eftir þetta veiddust margar skötur og voru grafnar í fjörukambinn heima hjá Laufu sem fann upp Laufabrauðið og Skarphéðni Skötu sem fann upp Skötuna. Daginn fyrir Aðfangadag hvert ár eftir þetta hittust allir í þorpinu í félagsheimilinu Stybbunni og borðuðu Skötuna sína við langborð. Og þá var nú Skarphéðinn Skata heldur betur í essinu sínu.

  .ke_hjon.


Skarphéðinn Skata - fyrri hluti

... hér kemur söguleg skáldsaga um það hvernig Skatan varð til...

Skarphéðinn Skata var bróðir hennar Laufu sem Laufabrauðið er nefnt eftir.

Fleiri voru í þessum systkinahópi og má hér minnast á Patrek Pipar sem fann upp piparkökurnar, en hans saga verður sögð síðar.

 

Skarphéðinn Skata öfundaði Laufu fyrir þá frægð sem henni hafðí hlotnast vegna þessarar þunnu ómerkilegu köku sem hét í hausinn á henni, Laufabrauð.

 

Laufa var vinsæl á mannamótum og oft var henni boðið í veislur í jólamánuðinum þar sem hún hélt erindi um Laufabrauðið sitt og hvernig best væri að ná því þunnu, bragðgóðu og fallega útskornu.

Orðið ER-indi var að vísu ekki komið til sögunnar á þessum tíma, en þá var notað orðið VAR-indi yfir slíkar ræður.

 

Skarphéðinn Skata var yngri en Laufa. Hann var með stórt höfuð, mikið enni, stingandi augnaráð, uppbrett kartöflunef og stóra bumbu. Hann var nákvæmlega jafn heimskur og hann leit út fyrir að vera.

Sumarið sem hann var 33 ára notaði hann til að klóra sér í hausnum. Hvernig gæti hann eiginlega öðlast eilífa frægð eins og Laufa systir?

 

Hann vildi láta minnast sín í mannkynssögunni fyrir eitthvað svipað afrek. Að á hverju ári, ákveðinn dag myndu allir nefna nafn hans og borða eitthvað sem hann hefði fundið upp sjálfur.

 

Sumarið sem hann klóraði sér sem mest í hausnum sat hann á steini niður í fjöru á hverjum degi, klóraði og klóraði og leysti vind í leðurbuxurnar sínar með reglulegu millibili.

 

Þegar líða tók á sumarið var farinn að stíga upp úr buxnastrengnum rosaleg fýla, sambland af svita Skarphéðins Skötu og viðrekstri hans frá því um vorið. Lyktin var svo svakaleg að jafnvel mávar tóku stóran sveig á flugi sínu framhjá Skarphéðni á steininum.

.

vikk

  .       

Einn daginn um miðjan ágúst, klæjaði hann alveg rosalega, fyrst í vinstri og svo í hægri rasskinninni.  Hann stakk höndunum undir buxnastrenginn og klóraði fast með löngum, skítugum nöglunum.

 

En kláðinn bara jókst og þetta endaði með að Skarphéðinn Skata reif sig úr buxunum og henti þeim í fjöruna.

Hann dýfði sárum afturendanum í sjóinn og ranghvolfdi í sér augunum af sælu þegar köld aldan lék við botninn á honum.  Allt í einu sá hann útundan sér að buxurnar voru á hreyfingu í flæðarmálinu, eins og þær væru lifandi þarna í sjónum. Hann greip í skálmarnar og snéri upp á þær, þar til þær stóðu í spíss gegn honum. Lifandi buxurnar streittust á móti, spíssinn rann í gegnum samanherpta fingur hans og þessi ótrúlega skepna sem þarna hafði fæðst í fjörunni synti á haf út. Skarphéðinn Skata stóð stjarfur eftir með rauðan rass og horfði í augun á þessari skepnu um leið og hún renndi sér í gegnum öldurnar og hvarf í hafið.

 

... framhald...


Lygasögur af veðurofsa

... oft er það sem menn ýkja frásagnir af vondum veðrum... 

 .... einhvernvegin svona spjölluðu þrír bændur saman hér um árið....

Björn bóndi:

... einu sinni gerði svo rosalegt veður að allt túnið flettist af og var í rúllum á hlaðinu þegar ég kom út um morguninn... ég var heilt ár að rúlla þökunum á sinn stað aftur...

Hannes bóndi:

Þetta er nú ekkert... einu sinni var svo rosalega hvasst að hausinn fauk af mér þegar ég var að hlaupa út í fjárhús... ég smellti honum bara á þegar ég var kominn í útihúsin, gaf kindunum, tók hausinn af mér aftur og hljóp heim til baka svo rokið sliti nú ekki af mér hausinn aftur... 

Guðjón bóndi:

... þetta er nú ekkert, árið 1946 var svo hvasst á Eyjafirðinum að Hrísey slitnaði upp með rótum og rak inn allan Eyjafjörðinn og strandaði loksins inn við Akureyri...

... nei, nú lýgur þú... hrópuðu hinir tveir þá....

... já, sagði Guðjón bóndi, ég er aðeins að skrökva... þetta var ekki 1946... þetta var 1947....

 

.

 hrisey

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband