Færsluflokkur: Dægurmál

Fiskisaga fyrir unga.

Flýgur fiskisagan... hvaða saga er það hu?

Einu sinni var fiskur. Hann var öðruvísi en allir aðrir fiskarnir í sjónum, hann var gulur og þybbinn, með fjólublá augu. Hann vissi ekki sjálfur hvernig fiskur hann var. Hann átti líka við annað vandamál að glíma. Hann var nefnilega oft sjóveikur í vondum veðrum. Þá varð honum flökurt og gubbaði grænu.

En hann vildi mikið vita hvernig fiskur hann væri og hvort hann ætti mömmu og pabba eða aðra ættingja.

Hann synti því um sjóinn á milli hinna fiskana og spurði; er ég ýsa? Fiskarnir hristu sporðinn, en það þýðir nei á fiskamáli. Er ég karfi, er ég þorskur, er ég ufsi  er ég marhnútur, er ég lax?

En allir fiskarnir hristu bara sporðana sína og vissu ekkert hvernig fiskur þetta var.

Að lokum hitti litli guli sjóveiki fiskurinn gamlan steinbít. Hann var aðeins með þrjár stórar tennur uppi í sér, mógular.

Þú er svokallaður Korpulafi, en þeir eiga sko heima í Suðurhafi, sagði steinbíturinn og hélt áfram; þú hefur villst að heiman, því nú ert þú langt norður í Atlantshafi. Þú ert sjóveikur af því að þú þolir illa þennan kalda sjó, lítli Korpulafi. Þú verður að vera í hita.

Guli fiskurinn varð mjög glaður að heyra hver hann væri. Kærar þakkir gamli steinbítur sagði hann. Í hvaða átt er Suðurhaf? Steinbíturinn benti í hina áttina með stærstu tönninni, þarna sagði hann. Þú þarf að synda í þrjár vikur og þrjá daga, þá kemur þú heim til þín. Drífðu þig nú af stað og passaðu þig á hákörlunum.

 

Að vera fiskur

er sko enginn leikur

sérlega ef maður

er sjóveikur

.

 fish2

 


Talandi steinar

Er hægt að segja þeim sem aldrei segir neitt að þegja?

Við segjum oft, steinþegi þú, eða grjóthaltu kj...

Einu sinni rakst ég reyndar á steinvölu sem talaði... ég var á gangi í fjöru og tók hana upp... ætlaði að fleyta kerlingar með henni... var kominn í fleytikerlingastellinguna og var að fara að henda þegar hún hrópaði...

Ekki henda mér, ekki henda mér... ég hætti snarlega við í miðri sveiflu... og leit á svartan steininn í hendi mér... furðu lostinn... og sagði; hva... talandi steinn...

Já, sagði steinninn, ég tala... allir steinar tala... það eru bara ekki allar manneskjur sem geta heyrt í okkur...

Ó, sagði ég... hvernig fólk er það sem getur heyrt ykkur steinana tala...

Það er bara fjólublátt fólk sem getur heyrt í okkur... sagði litla steinvalan...

En ég er ekki fjólublár... sagði ég hálf hneykslaður... jú, vinur minn, þú ert sko fjólublár...

Ég leit á hendur mínar og hrökk við... þær voru fjólubláar... ég stakk steininum í vasann og hljóp að bílnum... móður og másandi settisti ég í bílstjórasætið og leit í spegilinn... var þetta ég?... fjólublátt skelkað andlit... svitastorkið...

...ég vaknaði við það að kötturinn sleikti mig í framan... úff, hvað ég var feginn, þetta var bara draumur...

Ég rölti fram í eldhús á móti rjúkandi kaffiilminum... þar sat ástin mín og drakk morgunkaffið sitt og las blað... horfði á mig og sagði; æi... ertu þá loksins vaknaður kallinn minn, ég vildi ekki vekja þig...

... þú svafst eins og steinn...

.

 Stone-Sets

.

 


G

Skrítið í seinni tíð hvað stafurinn G hefur verið notaður á undan ýmsum nöfnum.

G-mjólk
G-rjómi
G-8 (einhver alþjóðleg karlasamtök)

Má ekki fara búast við G-bjór, G-brennivíni og G-rabarbarasultu?

Vinur minn heitir Gísli, hann benti mér á þetta og sagði jafnframt að hann vildi skíra landið okkar upp á nýtt.

Og hvað vildi hann svo að landið myndi heita?

Jú, auðvitað:

G-Ísland

.

letter-g

.

 

 

Smáa letrið: Gísli vinur minn er nú ekki með háan húmorstandard. Ég vildi bara að þið vissuð það.


Óþekktur höfundur

Öll þekkjum við höfundinn sem kallar sig "Óþekktur höfundur"... hann hefur samið marga spekina og mörg stórfengleg ljóðin.

Hér kemur ein spekin eftir þennan geðþekka höfund. Bara ansi gott hjá kappanum.

Mér hefur alltaf fundist augnablikið, þegar maður vaknar á morgnana, vera unaðslegasta augnablik sólarhringsins. Þótt þreyttur sé veit maður að hvað sem vera skal getur gerst.
Það, að það gerist að heita má aldrei, er aukaatriði. Möguleikinn er fyrir hendi.

.

wisdom

.


Verð að slá Önnu

Lenti í ýmsu undarlegu um helgina í garðvinnunni...

... við Anna vorum að mæla með málbandi... svona málbandi sem skýst inn í sig þegar maður sleppir... stórhættulegt verkfæri... nú, nú þegar við vorum búin að mæla hvað mölin átti að vera breið... þá sleppi ég endanum eins og kjáni, málbandið þeyttist með svaka afli inn í sjálft sig og gataði lófann á þessari elsku.

Nú, er hún slösuð, blessunin svo ég get ekki mælt með Önnu lengur.

Svo bar Anna 100 kíló af þörungaáburði á moldina áður en þökurnar voru lagðar... eitthvað fauk á húðina á henni af áburðinum svo líklega fer að vaxa gras á henni.

Nú dugar ekki lengur að slá bara lóðina í kringum húsið.

Nú verð ég að slá Önnu líka.

.

 756409643_b02695708b

.

 

 


Gaman að lifa

Svakalega góð helgi að verða búin og vinnan framundan í vikunni... verður brjálað að gera alla vikuna, en svo er stefnan fljótlega sett norður á Tröllaskagann í heimahagana...  á fótboltamót... Nikulásarmót... skrítið nafn á fótboltamóti... en það er saga á bak við það sem ég segi vonandi síðar.

Kannski keyrum við Fljótin, sem er ein fallegasta leið sem ég keyri... við stoppum líklega á há Lágheiðinni og teygjum úr okkur... á þeirri leið er hús, Miðbær, sem einu sinni var í miðjum heimabæ mínum, Ólafsfirði... í þessu húsi fæddist ég... er semsagt af svokallaðri Miðbæjarætt.

.

677772968_4c4b03f921

.

Það er alltaf eitthvað til að hlakka til í þessu lífi... en svo má ekki gleyma að njóta daganna sem líða þar til það sem maður hlakkar til rennur upp... þeir geta verið svo frábærir líka...

Við tökum með okkur veiðistangir og reynum að veiða þorsk, ýsu eða ufsa á bryggjunni... á þeim stað hékk ég öllum stundum ungur strákur með vinum mínum... veiddum þessar tegundir og þar að auki rauðmaga, steinbít, lúðu, kola og náttúrulega þann skrautlegasta marhnút... en maður hirðir ekki marhnútinn... heldur skyrpir upp í hann og biður hann um að gefa sér vænan fisk og svo er honum sleppt í sjóinn aftur...

.

marhnutur

.


Vart og Úð

Vart og Úð voru hjón. Þau voru á gangi inni í skógi.

Allt í einu greip Úð í handlegginn á manni sínum og sagði;  Ó, Vart... ég held ég hafi séð eitthvað hlaupa þarna á milli trjánna... Sástu úlf Úð? Sagði þá Vart og pírði augun.

Þau stóðu grafkyrr og héldu niður í sér andanum. Þegar loksins þau hleyptu svo andanum út aftur, sáu þau grilla í stór gul augu hjá stórum gömlum trábol sem lá á hliðinni á jörðinni.

Vart tók upp riffilinn og miðaði... nei, nei, hrópaði þá rödd... ekki skjóta þetta er bara ég, hann Hjörtur litli.

.

hardwoodForest

 

Þú ert að plata Hjörtur litli, sagði Vart... þú ert ekki með gul stór augu...Ég er ekki með gul augu, þetta eru nýju sólgleraugun mín... sagði ræfilsleg röddin bak við trjábolinn...

Stattu þá upp Hjörtur litli, sagði Úð titrandi röddu... og viti menn, Hjörtur litli stóð þarna upp og hélt á nýju sólgleraugunum sínum og veifaði.

Þú ferð nú vart að skjóta mig Vart... er það? Sagði Hjörtur litli sposkur... og rölti til þeirra... hefur þú nokkuð séð Sam Úð... hélt Hjörtur litli áfram og þau brustu í hlátur öll þrjú og ætluðu aldrei að geta hætt.

Vart, Úð og Hjörtur litli settust svo á trjábolinn og úðuðu í sig gráfíkjum sem þau hjónin höfðu haft með sér.

 

 


Snúum þessu við

... ég þurfti að tvílesa þessa frétt... aðeins 20% viðmælenda konur... það er ekki nema von að við fáum brenglaða mynd af þjóðfélaginu með þessum hlutföllum...

... mikið væri nú sniðugt hjá fjölmiðlum að hafa "viku konunnar" í fréttum... og snúa hlutföllunum alveg við... karla bara 20% og konur 80%...  held það yrði fróðlegt að sjá hvernig fréttirnar litu út þá...

.

reading-the-news

.

 

 


mbl.is Mun minna talað við konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til eru fræ

Fann þessa fallegu mynd á netinu... fannst þetta klassíska ljóð Davíðs Stefánssonar passa við.

Til eru fræ

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

lubomir_bukov_shadows-of-past-bw-frame

.


Austur á bóginn

Eftir að hafa ryksugað, horft á Arsenal og drukkið bjór heima hjá Zteingrími ákváðu Magnús fíll og Hanni Bali að halda austur og heimsækja austfjarðarbóginn hann Val... Magnús fíll skokkaði í gegnum alla Mývatnssveitina og þeytti rana... Hanni Bali sat á baki hans og veifaði til mannfjöldans... hann dreifði fílakaramellum á báðar hendur... nokkrar mýflugur eyddu síðustu andartökum lífs síns í rana Magnúsar.

.

 548594092_f605ac6817

.

Hanni Bali vildi ólmur fara í Jarðböðin og bað Magnús að bíða úti á  meðan. Með svalandi drykk lagði Hanni Bali sig út af í hlýju vatninu. Hann var nærri sofnaður þegar stór alda skall á nefinu á honum og fyllti það gjörsamlega. Hanni Bali spratt á fætur og saup hveljur. Fólk öskraði og hrópaði... Hanni Bali sá þá hvar Magnús Fíll kom skjögrandi  niður í lónið og settist með miklum látum í heita vatnið... saup og spítti vatninu í allar áttir. Frissi gamli frá Faraldsfæti sem hafði verið að svamla um á vindsæng, þeyttist nú eins og steinn sem fleytir kellingar og hvarf út úr lóninu og út í hraun þar sem mamma hans var að baka rúgbrauð.

.

 elly-bath

.

Hanni Bali skammaði Magnús eins og hund sem er illa hægt við fíla. Fóru þeir uppúr, leigðu 33 handklæði til að þurrka Magnúsi.

Hálf sneypulegur þrammaði Magnús af stað í austurátt. Hanni Bali sat brúnaþungur uppi á honum og tuggði síðustu fílakaramelluna.

Magnús greyið þoldi illa lyktina af hverunum í Námaskarði og varð Hanni Bali að binda hnút á ranann meðan þeir hlupu fram hjá gráum og ólgandi drulluhverunum.

Sættust þeir félagar heilum sáttum eftir að vera lausir við hverafnykinn. Smellti Hanni Bali kossi á gráan ranann. Magnús brosti og fann hvernig hamingjustraumur þaut eftir rananum og niður í tær.

Í kvöldkyrrðinni barst ljúfur fílasöngur útí mosagróið hraunið.

Í næsta kafla ná þeir félagar svo vonandi á leiðarenda til Austfjarðar bógsins Vals.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband