Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Sá sem bjó til íslenskuna

... rosalega er það skrítið að tala um að "sofa yfir sig"... hafið þið pælt í þessu... og svo borðar maður líka yfir sig... það er eins og maður sé alltaf á lofti fyrir ofan sig...

Það er ekki nema von að maður sé undarlegur.

... en svo pissa litlu börnin undir... sá sem bjó til íslenskuna hefur örugglega ekki viljað segja að þau pissuðu yfir sig... ég er honum þakklátur fyrir það.


Annars finnst mér að sá sem bjó til íslenskuna hafi að mörgu leyti staðið sig býsna vel. Samt má finna að ýmsu... hann notar t.d. orðið hljóð einkennilega...

Dæmi; Ræðumaður þakkar gott hljóð... sem þýðir að ekkert heyrðist í áheyrendum... en svo allt í einu brotnar flaska og þá segir einhver; hvaða hljóð var nú þetta?

Er þetta ekki svolítil fljótfærni hjá þeim sem bjó til íslenskuna?
.

 broken%20wine%20bottle

.

 


Þarftu á vini að halda?

Hér hefst nýr þáttur á síðunni sem mun verða á dagskrá af og til og stundum.

Hann heitir "Brattur gefur hollráð, ókeypis".

Ef þú þarft á vini að halda, þá er besta ráðið að velja svona 10 manns í úrtökuhóp af þeim sem gætu kallast vinir þínir eða kunningjar.
Hafðu með þér baðvogina og láttu hvern og einn stíga á vigtina.

Skráðu niður nafn og þyngd hverrar manneskju í litla bláa dagbók sem kemst í rassvasann.

Því næst þegar heim er komið, skaltu færa nafn hvers og eins inn í Excel skjal ásamt símanúmeri.

Nr.1 er sá sem er léttastur nr. 2 er sá sem er næst léttastur o.s.frv.

Svo þegar kemur að því að þú þarft á vini að halda, þá hringir þú í þann sem er léttastur. Ef hann svarar ekki eða er vant við látinn, þá hringir þú í nr. 2

Því ef þú þarft á vini að halda, þá heldur þú alltaf á þeim sem léttastur er og færð síður í bakið. 

Þetta var ókeypis hollráð í boði Bratts.
.

he-aint-heavy-hes-my-supper

.


 


Af hverju er ég hryggur?

Var að velta því fyrir mér af hverju maður segir að einhver sé hryggur?

Af hverju er ekki sagt að maður sé læri eða kótiletta?

Svona getur þetta litið út í talmáli:

Brattur, hvað er eiginlega að sjá þig maður, af hverju ertu kótiletta?

Eins og þið sjáið þá breytir þetta aðeins íslenskunni... Bara svona að velta þessu fyrir mér.
.

 77165097_a114e323c2

.

 


Kastar grjóti úr glerhúsi

Nú beitir Jón Ásgeir gamalkunnri aðferð sinni í gegnum tíðina.

Ef á þig er ráðist þá skaltu gera gagnárás með tvöföldum krafti. Hann hefur einmitt verið snillingur að beina athyglinni annað ef að hann eða hans fyrirtæki hafa verið gagnrýnd.

Og svo talar hann um óvandaða fréttamennsku í "slúðurblaðinu New York Post".!!!

Merkilegt að heyra þetta frá eiganda Fréttablaðsins.

Þetta heitir á tærri íslensku að kasta grjóti úr glerhúsi.
.

 Glass%201

.


mbl.is „Skipulögð rógsherferð“ gegn fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að lesa vitlaust

Ahh... var ekki alveg búinn að þurrka gleraugun nógu vel þegar ég las þessa fyrirsögn... en ég las nefnilega..

Gott skítaveður á landinu.

Spurði svo sjálfan mig, hvernig getur skítaveður verið gott???

Svo sagði ég við sjálfan mig, Brattur þú ert nú meiri kjáninn, þetta er skíðaveður, ekki skítaveður... já sagði ég við Bratt ég get nú verið meiri kjáninn stundum, sérstaklega á morgnanna áður en ég er búinn að fá teið mitt... þegar við Brattur vorum að skiptast á þessum fallegu orðum kemur þá ekki Gísli askvaðandi inn til okkar... og þá var orðið verulega fjölmennt inni hjá okkur... eigum við ekki bara að slá í pönnukökur og spila avo Manna sagði Gísli borubrattur... jú, það leist okkur Bratti mjög vel á... við þutum því allir fram í eldhús, tókum til smjörlíki, egg og hveiti og lyftiduft og vanilludropa og sykur og byrjuðum að baka...

Þá segjum við Brattur nánast sem einn maður; (var svolítið fyndið) en Gísli hvað þýðir eiginlega askvaðandi?
Byrjar þá ekki Gísli á sínum langlokum um orð, að fyrri hluti orðsins ASK sé komið úr ensku og þýði þess vegna að SPYRJA... VAÐ er bara vað á á og andi er eins og heilagur andi...

Askvaðandi þýðir þess vegna; best er að spyrja andann þegar vaðið er yfir á.

Augun í okkur  Bratti ranghvolfdust undir þessum fyrirlestri... en svo stungum við upp í okkur heitri pönnuköku og þá leið okkur strax betur.
.

 pancake

.

Enn er þó stórri spurningu ósvarað... ég veit hver Brattur er og ég veit hver Gísli er...

EN hver er ég?


mbl.is Gott skíðaveður á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barr

Af hverju er allir að bera sitt barr?

Ég er orðinn svolítið leiður á að bera mitt. 

Er einhver sem nennir að bera mitt barr, bara í nokkra daga? 
.

128251432663765000

.

 


Frábær sigur

... þessi Taylor er nú meiri ruddinn og átti sko ekkert annað skilið en að fá rautt spjald fyrir þetta fólskubrot á Ronaldo...

En leikurinn var mjög spennandi. Leikmenn Newcastle börðust af grimmd. Gengu reyndar of langt á köflum... en United hélt haus og kláruðu dæmið.

Ekkert nema kraftaverk með öfugum formerkjum kemur nú í veg fyrir að Englandsmeistaratitilinn verði okkar.

Þarf að hringja í Alex á morgun til að vita hvort hann er ekki sammála mér (eins og alltaf).
.

telephone

.


mbl.is Ronaldo beið eftir Taylor í göngunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hans ræningi

Af hverju er talað um að sofa á verðinum? Ég skal segja ykkur allt um það;

 Einu sinni var ræningi sem hét Hans. Hann varð fyrir því óhappi að vera gómaður þegar hann var að ræna föndurbúð.

Honum var umsvifalaust dembt í tukthúsið. Þar sat hann á bak við rimla, sá aldrei sólina og lagði kapal allan daginn.

Hann dreymdi um frelsi og var ákveðinn í því að strjúka við fyrsta tækifæri.

Einn af fangavörðunum var kærulaus, svaf alltaf á vaktinni og hraut. Hans greyið ræningi varð alltaf svo syfjaður þegar fangavörðurinn hraut, að hann steinsofnaði líka.
.

 prisoner

.

Kvöld eitt gleymdi kærulausi fangavörðurinn að læsa klefanum hjá Hans eftir matinn. Nú vissi Hans að þetta var tækifærið sem hann hafði beðið eftir.

Þegar Hans var kominn út úr klefanum gekk hann að fangaverðinum þar sem hann svaf á bekk, til að athuga hvort hann væri ekki alveg sofnaður.

Þegar Hans ræningi heyrði hroturnar í fangaverðinum varð hann strax ógurlega syfjaður... hann hreinlega hrundi yfir fangavörðinn og steinsofnaði.

Þegar vaktaskiptin urðu um morguninn komu  menn að Hans þar sem hann...

... svaf á verðinum.
.

prisoner

.

 


Tærnar og hælarnir

Gott kvöld,

Nú hefst þátturinn "Býr bavíani hér"... þáttur í anda Sherlock Holmes þar sem stækkunarglerinu er beint að orðum og orðtökum.

Tölum örlítið um orð sem tengjast búknum okkar;

Oft er talað um að hæla einhverjum? Ég verð nú að hæla þér fyrir dugnaðinn Dengsi minn.

Svo er talað um að vera á hælunum og þá er ekki hægt að hæla manni vegna þess að þá er maður með allt niður um sig.

Þá er talað um að vera á tánum... mér finnst ég alltaf vera á tánum en á sama tíma er ég á hælunum líka.

Svo er maður á herðablöðunum þegar maður hefur fengið sér einum og mikið í tána. Undir slíkum kringumstæðum hafa Íslendingar oft gefið hvor öðrum kinnhest eða jafnvel einn á kjammann.

En svo hefur vafist fyrir mér orðið bumbult, átta mig ekki alveg á því hvort og þá hvernig það tengist líkama okkar.

En kannist þið við skylt orð, bumbuull... ?

Jú, bumbuull er þessi illræmda naflaló sem var í fréttunum fyrir stuttu.

Þættinum er lokið.

Brattur, alltaf með tærnar rétt hjá hælunum.
.

 SherlockSmall

.

 


Haugalýgi - sönn saga?

Vitið þið af hverju talað er um að eitthvað sé haugalýgi?

Það skal ég segja ykkur.

Öggi var öskukarl. Hann hafði gaman af að spjalla við fólk. Hann sagði fólki oft hvaða verðmæti hann fann á öskuhaugunum. Það var með ótugtarlegum ólíkindum hverju fólk gat hent.

Einu sinni fann ég kórónu með ekta gimsteinum, sagði Öggi við Stjönu frænku sína þegar hann var í síðdegiskaffi hjá henni í pásu frá öskustörfunum.

Einu sinni fann ég tvíhöfða þurs sem einhver var hættur að nota, hann var sprelllifandi blessaður, sagði Öggi við Mána á pósthúsinu.

Einu sinni fann ég milljón rúblur í nokkrum strigapokum sagði hann við Steinsýn sparisjóðsstjóra.

Allir vissu að þessar sögur voru lýgi en fólkið hafði gaman að hlusta á Ögga öskukarl segja frá ævintýrum sínum.

Sögurnar áttu allar upptök sín á á öskuhaugunum og því kallaðar haugalýgi.

Og þá vitið þið það. Þið verðið síðan að gera upp við ykkur hvort að þessi útskýring er haugalýgi eða blákaldur sannleikur.
.

04288fe196c2331d8bb7e109133956cc_large

.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband