Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Græðgi
1.3.2009 | 11:02
Hef verið að velta því fyrir mér hvernig þjóð við Íslendingar erum.
Mér finnst við svo sundurlaus þjóð og hver höndin upp á móti annarri. Sumir eitthvað svo grimmir.
Hvað veldur þessu? Af hverju getum við ekki lifað í sátt og samlyndi svona næstum því a.m.k.?
Það er eitt orð sem kemur upp í hugann og það er orðið GRÆÐGI og ekki langt frá því orði er annað í sömu ætt, VÖLD.
Af hverju þarf fólk að eiga miklu meiri peninga en það getur eytt? Af hverju langar þann sem hefur 60% markaðshlutfall að stækka meira?
Af hverju var útgerðarmönnum gefinn fiskurinn sem syndir óveiddur í sjónum? Af hverju fengu bara útgerðarmennirnir kvótann en ekki sjómennirnir líka og þeir sem unnu í fiski í landi?
GRÆÐGI er svarið.
.
.
Nú þegar þjóðarskútan marar í hálfu kafi og við vitum ekki ennþá hvort hún sekkur, þá eru kosningar í nánd. Einmitt þegar við ættum að snúa bökum saman og einbeita okkur að því að koma skútunni okkar á flot. Eflaust verður þetta heiftúðleg kosningabarátta.
Þetta ástand minnir mig á söguna af manni sem lá banaleguna og ættingjarnir voru kallaðir til þegar dauðastundin nálgaðist. Við banabeð gamla mannsins var farið að rífast um peninga. Þessi samkoma endaði þannig að allt logaði í slagsmálum og lögreglan var kölluð til.
Það stefnir allt í það að mikil endurnýjun verði á þingi. Margir núverandi Alþingismenn hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að bjóða sig fram aftur.
Ég vona svo sannarlega að í komandi kosningum verði kosið nýtt fólk, heiðarlegt fólk með hugsjónir. Fólk sem vinnur að því að jafna lífskjörin í landinu. Fólk sem þurrkar út launamun kynjanna í eitt skiptið fyrir öll.
Ekki er ég enn búinn að gera upp hug minn hvað ég kýs í vor, þó er eitt á hreinu.
Flokkur sem viðheldur GRÆÐGI og ójöfnuði mun aldrei fá mitt atkvæði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)