Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Gullfiskaleitin 2.kafli

... litli karlinn tölti af stað í átt til lækjarins tæra sem rann niður kjarrivaxna hlíðina... fuglar sátu á hverri grein og sungu, þeir voru hamingjusamir í dag... litli karlinn beygði sig niður og týndi stór og safarík stjörnuber upp í sig... hann spurði lækinn; átt þú nokkuð gullfiska að gefa mér, ég er svo einmana í húsinu mínu í skóginum og vantar vini til að horfa á og tala við... lækurinn tæri og spræki sagði; nei ég á enga gullfiska handa þér litli karl, en hérna í næsta dalverpi er vitra grenitréð sem getur vísað þér leiðina að gullfiskunum... þú skalt ganga þarna upp að stóra steininum, þar sérðu fjóra stíga eða götur... ein þessara gata liggur að vitra grenitrénu, hinar þrjár eru allar villigötur... þú skalt banka blíðlega á steininn, fjórum sinnum og hann hjálpar þér að velja réttu leiðina...

... litli karlinn stakk nokkrum stjörnuberjum upp í sig í viðbót og lækurinn bauð honum að svala þorsta sínum... hann tók svo stefnuna á stóra steininn og hugsaði... hvernig á stór steinn að hjálpa mér að finna réttu leiðina og hvað gerist ef ég vel ekki einu réttu leiðina og lendi á villigötum?...


Ævintýri

... einu sinni var lítill kall sem bjó í pínulitlu rauðu húsi inni í skógi... við hliðina á húsinu hans var tjörn... litla kallinn langaði mikið í gullfiska í tjörnina sína... hann lagði því af stað með nokkrar kexkökur og ávaxtasafa í malnum sínum... hann gekk lengi lengi þar til hann kom að fallegri lind... hann spurði lindina; átt þú nokkuð fallega gullfiska til að gefa mér... en af því að hann vissi að lindir tala ekki hátt, þá lagðist hann á bakkann og setti litla eyrað sitt að vatninu... þá heyrði hann tæru lindina tala; nei, kæri vinur, ég á ekki gullfiska handa þér, farðu þarna upp í hlíðina og talaðu við lækinn sem rennur þar, stundum á hann fiska... litli kallinn þakkaði lindinni fyrir svarið og hélt trítlandi af stað til lækjarins...

... þetta var byrjunin á ævintýrinu "Litli karlinn, tjörnin hans og leitin að gullfiskunum"... kannski kemur framhald, kannski ekki... ég er kominn í smá, já bara smá, kannski viku... bloggfrí, verð á svo miklum þeytingi næstu dagana að ég kemst lítið í bloggið... ef ég kemst þá skoða ég ykkur kæru bloggvinir og hendi inn misgáfulegum athugasemdum...


Og svo skein sólin

... síðbúið sumarfrí hjá mér er nú á enda og við tekur vinna og aftur vinna... ég hlakka til að byrja aftur og er búinn að hlaða batteríin vel, held ég... búinn að tæma hugann með allskonar uppátækjum og tilbúinn í slaginn aftur... hugsanlega þýðir það líka minna blogg hjá mér... en við sjáum hvað setur með það...

... úti blása svalir haustvindar, en þó eftirsjá sé í sumrinu, þá er alltaf eitthvað til að hlakka til þegar veturinn gengur í garð... og svo áður en við vitum er komið sumar aftur...

.... en er ekki líka málið að lifa í núinu, lifa daginn í dag; eða eins og John Lennon sagði í texta; tíminn líður meðan þú ert upptekin að gera framtíðarplönin...

Og svo skein sólin

Það varð hvellur
svo stór
að hann lifði
um aldir

Þá varð þögn
svo djúp
að það sást
ekki í botn

Þá blésu vindar
svo grét himinn

og vatnið óx og óx
og grasið óx og óx

Þá varð hvellur
svo stór
þá komst þú

og svo skein sólin

 


Þakkarávarp

... Skákþing bloggara með tattoo var haldið um helgina... ef að öll skákmót væru svona skemmtileg, væri skák vinsælasta íþróttagrein í heimi...

... ég ætla að byrja að segja frá því þegar við Halldór Tuðari... nein, annars, ég held ég sleppi því... ég segi frekar frá því þegar Ægir, nei, held ég sleppi því líka... kannski ég segi bara frá því þegar Anna... neibb, best ég vindi mig bara í þakkarávarpið...

... ég vil þakka öllum keppendum fyrir þessa miklu skemmtun, sem ég mun aldrei gleyma...

... húsráðandanum honum Ægi (Seasons in the sun) þakka ég fyrir hlýlegar móttökur og fyrir að vera ekki í skotapilsi... bið að heilsa Klóa

... eftirlitsdómaranum Halldóri (Dancing Queen) þakka ég sérlega vel unnin störf, en hann var í því vandasama hlutverki að hafa eftirlit með yfirdómaranum (undirrituðum) og var það ærið starf, svo ég vitni orðrétt í Halldór; "ég hef aldrei lent í öðru eins"...

... ég vil þakka austfjarðarþokunni, henni Kristjönu, fyrir neglurnar, þær voru í öllum regnbogans litum og hlaut hún fyrstu verðlaun í keppninni, þrifalegustu neglurnar... þeir eru enn eins og stjörnur fyrir augum yfirdómarans...

... Eddu þakka ég fyrir að finna upp nýjung í skákinni og hlaut hún verðlaunin "fallegasti afleikurinn" þegar hún drap eigið peð, schnilld...

... Imba stóð undir væntingum, ekki síst í atriðinu Einkadansinn... það voru tilþrif í lagi...

... Arnfinnur fær sérstak hrós fyrir matföngin... nú verð ég alltaf svangur þegar ég lít á myndina af honum... hann syngur líka skrambi vel... og er með fína sveiflu í dansinum... sérstaklega í The Road To Hell... Arnfinnur mig dreymdi þig í nótt...

...Björg átti lipra spretti og kom með sjálfsmynd í fullri stærð sem vinning... alla karlana langaði í hana (myndina) , en það var kona sem fór með hana heim í kranabíl... þ.e.a.s. myndina...

... að lokum þakka ég formanni okkar henni Önnu sérstaklega fyrir að eiga þessa brilljant hugmynd að koma þessari keppni á og fyrir að brjóta EKKI stofuborðið heima hjá honum Ægi... einnig þakka ég Önnu fyrir aukaverðlaunin "Vinarbandið"... sem ég hlaut fyrir... ja ég veit ekki hvaðBlush

Kæru bloggarar með tattoo...

TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - TAKK - 

...ykkar... Brattur

... komnar eru upp hugmyndir um næsta mót, eins og að spila norskt rommý (í stað skákarinnar ) og að verða með námskeið á mótinu í ZORBA dansi... förum yfir það síðar...

 


Eitruð peð

... jæja þá er undirbúningur minn fyrir stóra skákmótið, skákmót bloggara með tattoo, að hefjast... ég er að pakka keppnisbúningnum niður í tösku, en þarf að passa mig á að hafa nóg pláss fyrir góða skapið, því eins og Arnfinnur bloggvinur segir; góða skapið getur tekið svo helv... mikið pláss...

... árið 1972 var sögufrægt einvígi um heimsmeistaratitilinn í skák haldið í Reykjavík, nánar tiltekið í Laugardalshöllinni... það var mikil spenna og rómantík sem sveif yfir borginni á þessum tíma og í skákheiminum öllum...

... þeir sem mættust voru Boris Spassky, þáverandi heimsmeistari frá Sovétríkjunum, sem þá voru og hétu, og svo Robert James Fischer... kallaður Bobby... Spassky var mikill herramaður og ekki mikil læti í kringum hann... Bobby var hinsvegar óþægi strákurinn og stöðugt til vandræða... ég hélt með Fischer, það var eitthvað rosalega heillandi við þennan stormsveip sem fór sínar eigin leiðir...

... í þriðju skák einvígsins (held það hafi verið hún, en skrifa þetta bara eins og ég man það)... þá var komið út í endatafl og skákin steindautt jafntefli, keppendur með sinn biskupinn hvorn á borðinu og örfá peð... þá kemur þruman... Fischer drepur svokallað eitrað peð... Spassky lokar biskupinn inni og vinnur skákina... hvernig í ósköpunum stóð á því að Fischer lék þessum leik sem allir sáu að var tapleikur... því er erfitt að svar, en kannski var það vegna þess að hann þoldi ekki lognmollu... þoldi ekki jafntefli... það varð að vera allt eða ekkert....

... þannig hef ég undirbúið mig, hugsa bara "allt eða ekkert"... eigi skal haltur ganga þó af sé höfuðið... nú finn ég að ég er að verða mannýgur og tilbúinn í slaginn...

Skák 

... aðrir keppendur hafa verið að undirbúa sig með ýmsum hætti... farið í Yoga, keypt ný lök á rúmin sín til að sofa betur, og jafnvel stangað hús til að hrista upp í heilasellunum á sér...

...ég veit að þegar út í keppnina verður komið verður öllum brögðum beitt...ég segi hér eitt að lokum til væntanlegar keppenda TATTOO mótsins...

... ekki drepa peðin mín... þau eru öll eitruð...


Fiskisúpa með pastaskrúfum

... það er ekki nóg að veiða og setja fiskinn í frystinn... heldur er það beinlínis skylda sérhvers veiðimanns að borða það sem hann veiðir... og nú er ég að tala um sportveiðimenn...

... ég er svo heppinn að finnast silungur góður og borða ýmist ofnbakaðan, eða þá í fiskisúpu... nú tók ég einn urriða út úr frystiskápnum í morgun og hann er á leiðinni í súpu í kvöld... ég ætla að koma með þessa uppskrift hérna, en hún er mjög einföld (hentar mér sérstaklega vel að hafa hlutina einfalda)... og fljótgerð..

... síðan þegar sest er að borðum þá grobba ég mig ekki ósjaldan og segi eitthvað svona; ja, þessi var nú veiddur á Peacock nr. 10 við Varastaðahólmann... og er svona frekar góður með mig...

En hér kemur uppskriftin:

Blaðlaukur - gulrætur - steinselja - hvítlaukur - karrý - paprikuduft - súputeningar - hvítvín (mysa gengur alveg) - rjómi - pastaskrúfur - silungur (eða lax)

Aðferð:

Blaðlaukur, gulrætur, steinselja og hvítlaukur er látið krauma í potti.  Karrý og paprikudufti er bætt útí ásamt fjórum súputeningum. 25cl af hvítvíni (mysu) er bætt útí ásamt 75 cl. af rjóma. 1bolli af soðnum pastaskrúfum er settur útí og suðan látin koma upp. Látið sjóða í 4. mín. Fiskurinn er skorinn í teninga eða sneiðar og settur útí í blálokin... soðið í 1 til 2 mín. eftir að fiskurinn fer útí. Miðað er við 80gr. af fiski á mann. Gott að bera fram nýbakað brauð með súpunni. Venjulegur skammtur af súpu er fjórir á hvern lítra.

Þetta er uppskriftin, en uppskriftir eru bara til að styðja sig við, ég spila þetta bara af fingrum fram og set smá skammt af tilfinningum útí... hef t.d. meira af pastaskrúfum en uppskriftin segir og þær mega ekki vera fullsoðnar þegar þær fara útí súpuna...

... mæli með þessu, fljótlegt og gott... þ.e.a.s. ef fólk á annað borð kann að meta fiskisúpur...


Rassborukallinn


Í sundinu sér maður stundum skrítið fólk, skrítið fólk er reyndar alsstaðar, en í sundi getur það verið enn
skrítnara vegna þess að það er lítið klætt og maður sér vöxt þess miklu betur, og hann getur verið skrítinn vöxturinn, það er hægt að klæða af sér bumbuna, en í sundinu, þá er ekkert til hjálpar, hvort sem maður er í sundskýlu,stuttbuxum eða sundbol... sannleikurinn kemur nakinn í ljós...

... sumir koma trítlandi út úr búningsklefunum og halda þétt utan um sjálfa sig eins og þeir séu hræddir um að annars fari þeir eitthvað annað en þeir ætluðu... framan á þessu fólki stendur; afsakið að ég skuli vera til, afsakið að ég skuli trufla...og svo renna þeir sér niður í pottinn og það eina sem sést til þeirra eftir það er nefið sem rétt stendur uppúr...

... aðrir koma með bringuna vel framstæða, (þá er ég ekki að meina konur neitt sérstaklega) og á þeim stendur; hér er ég, er ég ekki flottur... farið frá og dáist að mér...

... það er einn kall sem kemur af og til í sundlaugina sem ég syndi alltaf í... hann er mjög einbeittur í því
sem hann gerir... kemur út í rauðum stuttbuxum, þær ná niður að hnjám, en ná ekki alveg upp fyrir rassboruna, svo hún fær að njóta sín vel, því flestum sundlaugagestanna verður starsýnt á svona miklar rassborur... vinurinn gengur beint að braut nr. 2 og stingur sér... alveg sama þó á þeirri braut sé manneskja að synda og enginn á öllum hinum brautunum...

...nei, rassborumaðurinn á braut nr. 2... svo syndir hann yfir og syndir þá í kaf sem á vegi hans verða, hann hefur m.a. synt mig, sjálfan Tarzan apabróður a la Brattur í bólakaf... ég fór nærri því úr axlarlið svo harður var áreksturinn, en sá í rauðu stuttbuxunum tók ekki einu sinni eftir mér... ég reyni því að nota braut nr. 2 eins lítið og ég get, en verð þó að gera það oftar en ég kýs, þar sem sundæfingar eru oft á hinum brautunum... í hverjum snúningi gjóa ég því augunum upp á bakkann og athuga hvort ég sé
rassborukallinn í rauðu stuttbuxunum á leiðinni...

... "vinur" okkar dvelur samt ekki lengi í lauginni... rútínan er þessi: sturta, beint út og stinga sér á braut
nr. 2 og synda tvær ferðir... já, tvær ferðir... og svo beint upp úr og í sturtu og klæða sig og þá er sundferðin búin...

... ég var búinn að lofa sjálfum mér og reyndar öðrum því að ég myndi synda daglega þar til ég yrði níræður... var svona eiginlega að hugsa hvort ég yrði þá kominn á næsta stig í tilverunni og orðinn; rassborukall...


Síðasti veiðitúrinn

Veit ekki hvort ég á að þreyta fólk með enn einni sögunni frá veiðitúrunum mínum í sumar... en ætla að gera það samt... þó að ekki væri nema fyrir sjálfan mig að eiga í minningunni... við vorum sem sagt nokkrir félagar að veiða í Laxá í Laxárdal seinnipartinn 30.ágúst og allan 31.ágúst. Veðrið var einstaklega gott, logn og hlýtt, en þó smá regngusur af og til, eingöngu til að hleypa lífi í ánna...

...við stóri Björn bróðir minn vorum saman til að byrja með... og gekk nokkuð vel... veiddum fallega fiska og runnum saman við vatnið og umhverfið, ekki síst þegar við vorum með fisk á samtímis og um leið flugu fjórir svanir rétt yfir höfuð okkar eins og þeir væru að kveðja okkur í lágflugi...

... um kvöldið var drukkið púrtvín og borðaðir himneskir ostar og sungið fram á nótt... besta lagið var tvímælalaust Hudson Bay... þar sem við vorum feikigóðir, þó ég segi sjálfur frá...

... vögguvísan "Dvel ég í  draumahöll..." sveif út yfir sogið um klukkan tvö um nóttina og fiðrildin, flugurnar og fuglarnir... leyfðu sér að stoppa um stund og hlusta og gleyma sér eitt andartak í stilltum flóanum... sem minnti um leið á eilífðina... spegilsléttur flöturinn djúpur og dularfullur...

Stóri Björn þurfti að fara að sinna erindum um hádegið daginn eftir... skildi Bratt bróður eftir einan í heiminum... og þá voru góð ráð dýr... Brattur er reyndar þannig gerður að hann kann vel við sig einn, er svona lóner, eins og sagt er í kúrekamyndunum...

... hann fór því að kanna nýjar slóðir, veiðistaði þar sem hann hefur aldrei reynt að kasta fluga á í 11 ár, eða frá því hann byrjaði að veiði í þessum draumaheimi sem Laxáradalur er...

... fór því upp fyrir alla þekkta veiðistaði, gekk langar leiðir yfir hraun og kjarr og síðan þéttan skóg, vissi ekki hvort hann nokkurn tíman myndi komast til baka... en var alveg sama, hann var að leita að einhverju nýju ... eitthvað sem tosaði í hann svo mikið að hann þurfti ekki endilega að vera viss um að komast til baka úr þessum leiðangri...

... eftir langt labb kom svo veiðimaðurinn að ánni... sveittur og kaldur, því það var rigning allan tímann... áin blasti við og þarna rétt ofar var spegill og í þessum spegli var fiskur, það var veiðimaðurinn með á hreinu... þokan hafði læðst upp dalinn og gerði þessa kvöldstund en óraunverulegri... eftir tvö þrjú köst kom hvellur... urriðinn hafði tekið og dansaði á sporðinum um ánna... veiðimaðurinn horfði agndofa á... smyrill flaug yfir ánna að elta smáfugl... þetta reyndist vera hrygna og henni var sleppt... næst kom hængur og hann fór í plastpokann á bakinu... og svo sjá þriðji sem dansaði urriðadansinn af miklum krafti og sleit sig svo lausan... maðurinn hafði lent í ævintýri á stað sem aldrei hafði verið til og myndi aldrei verða til aftur...

... veiðimaðurinn óð í land og horfið til himins, það var lágskýjað og rigningin hafði færst í aukana... það var eins og hann væri ekki í þessum heimi... hann rölti upp að bílnum orðinn gegnblautur, hugsaði um allt það sem hann hafði gert í lífinu og hvað hann hafði ekki gert...

... gekk frá veiðidótinu, þó enn væri nóg eftir að veiðitímanum... hann var saddur, hann hafði fengið nóg... keyrði niður dalinn í þokunni, blautur og þreyttur... hlustaði annarshugar á leiðinni niður í veiðihús á Cohen syngja; The Last Waltz...

.. og hann hugsaði; væri kannski enn tími til að gera eitthvað nýtt í þessu lífi?

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband