Færsluflokkur: Dægurmál

Ó

... þá er komið að því að skoða Ó...

Ó gegnir gríðarlegu miklu hlutverki í Íslensku máli.

Alli vita að magi er annað en ómagi.
Vinsæll er vinsælli en óvinsæll.
Ólafur væri lítill án ó-sins.

En ættum við ekki að reyna að nota ó-ið miklu meira. Dæmi;

Greifi - Ógreifi = Sá sem ekki er greifi; Getur t.d. bara verið óbreyttur lögfræðingur.

Sakna - Ósakna = Að sakna ekkert. Ég ósaknaði þín.

Þoka - Óþoka = Bjart veður.

Strigakjaftur = Óstrigakjaftur; Sá sem talar fallega.
.
fool

.
Straumönd - Óstraumönd; Allar aðrar endur en straumendur.

Linnulaust - Ólinnulaust; Hann barði ólinnulaust á hurðina. Hann stóð sem sagt bara með hendur í vösum og horfði á hurðina.

Hár - Óhár = Lágvaxinn. Hann er frekar óhár blessaður.

Kýr - Ókýr = Naut

Svo er hægt að nota Ó-ið á undan öðru Ó-i og þá verða mínus og mínus plús;

Hann er svakalega Óómyndarlegur = Sem sagt mjög myndarlegur.

Möguleikarnir eru sko óendanlegir... æfið ykkur næstu daga að búa til ný orð með ó-inu og auðgið málið okkar.

Óver and out.

Ó-Brattur = Flatur.
.

 The_Sad_Clown

.


Vaknaður einu sinni enn

... rosalega er allt að verða jólalegt í kringum mig... inni eru jólagardínur komnar upp, jólasokkar og seríur, rauð epli í skál... úti er nýfallin mjöll eins og henni hafi verið stráð yfri tréin og húsin til skreytingar...

Dagurinn er að teygja úr sér, rétt nývaknaður... hundurinn hrýtur að sinni alkunnu list... og klukkan á veggnum tifar letilega. Það er pínulítið eins og tíminn hafi hægt á sér í morgunsárið.

Samt er eins og síðustu jól hafi verið í gær.
.

 Stjarna

.

Eins og þið sjáið þá er einhver værð yfir mér. Mér finnst gott að vita af því að tíminn er ekkert að flýta sér núna. Við ætlum á þessu heimili að steikja Laufabrauð í dag. Ég er spenntur fyrir því. Það hef ég aldrei gert áður þó ég sé örugglega einhver mesti Laufabrauðskall á landinu. Ég get hakkað það í mig eins og kálfur þar til það klárast.

En ég skar út Laufabrauð í denn... með hnífi hjá afa og ömmu. Það var áður en hið stórbrotna Laufabrauðshjól var fundið upp. Á því heimili og í þeirri sveit hétu gardínur ekki gardínur, heldur garðínur...
Í dag ætla ég sem sagt að rifja upp leikni mína með hnífinn og Laufabrauðið.

Ég ætla dagsins að njóta
Fyrst ég er hættur að hrjóta
Í Laufabrauð sker
Á það fæ mér smér
Hjá sjálfum mér svaf ég til fóta
.

Jólagluggatjöld

.


Sagan af Hólma

... það er með ólíkindum hvað sumir geta lent í...

Einu sinni var maður sem hét Hólm. 

Það var alltaf verið að stríða honum og skora hann á hólm.
Honum leiddist þessi stríðni og breytti nafninu sínu í Hólmi.

Þá kom æðarkolla og gerði hreiður í hausnum á honum.
.

2379551151_eba973c4d4 

.

 


Skrítnar limrur

Limrur geta verið ansi skemmtilegar... það eru reyndar til ýmsar útgáfur af limrum, en það vissi ég nú ekki fyrr en ég fór að fletta í bók sem heitir "Nýja limrubókin".

Hér eru dæmi úr henni.

Ég hitti rússneskan húlígan,
en hvorki rödd hans né útlit man
    né annað neitt
    en nafnið eitt
sem var Nitschkopratartschenzipratskian.

Og önnur...

Þegar Steinn var að yrkja til Stínu
öll stefin úr hjarta sínu,
    þá varð honum það
    til þrautar að
hann þurfti að minnast á svo miklu
fleira í lokin en nokkurt viðlit var að segja í síðustu línu.

2193552995_9c3df425eb

 


Fislétt myndagetraun

... flaug yfir landið þvert og endilangt í dag...

... tók þessa mynd út um flugvélarglugga... og þá er spurt;

Hvað heitir þessi leið þar sem vegur þessi liggur?

.

 Staður

.


Stuttur draumur

... mig dreymdi skrítinn draum og stuttan fyrir nokkru ...

... ég var í vinnunni þegar að mér gengur miðaldra kona í pels, sauðdrukkin... hún segir;

Heitir þú ekki Guðmundur? Og bætir við; var pabbi þinn ekki eldri en þú?

Ég hló góðlátlega og sagði; eru feður ekki yfirleitt eldri?

Lengri var nú draumurinn ekki.

Hvað segi þið... hvað þýðir þessi draumur?
.

DreamingNewDreams

.


Laufabrauðssagan 2.hluti

 Þegar brauðið kláraðist kallaði Ólafur hátt og hvellt svo heyrðist til næstu húsa „Laufa... brauð... meira brauð“ og aftur „Laufa, brauð, komdu með brauð vinan mín“. Urðu konur í næstu húsum mjög forvitnar og langaði að vita hvernig það brauð væri sem Ólafur kallaði svo hátt á og fóru heim til þeirra hjóna og sögðu: „Af hverju kallar hann Óli alltaf  Laufa-brauð, Laufa-brauð“?  Var þeim sögð sagan og báðu þær Laufu þegar um uppskriftina og var það auðsótt mál, ef þær lofuðu því að enginn utan fjarðarins fengju nokkurn tíma að sjá hana. Þær lofuðu því og nefndu brauðið Laufabrauð“ eftir kalli Ólafs.  
.
 

LeedsWomen

.
Seinna þegar Ísland var albyggt kvisaðist það út að á Ólafsfirði væri til sérstök tegund brauðs er borðað væri á jólum eingöngu og þætti gott. Þingeyingar vildu gjarnan komast yfir uppskriftina og eigna sér hana, enda manna ánægðastir með lífið og þykjast gjarnan upphafsmenn alls.
Til dæmis má nefna að þegar Kaupfélag Þingeyinga var stofnað, fyrst allra kaupfélaga á Íslandi að þeirra mati, var kaupfélag Ólafsfirðinga löngu komið á hausinn. 
 
 Þingeyingar gerðu út leiðangur til Ólafsfjarðar og stálu uppskriftinni af gamalli ekkju – lasburða. En þegar þeir rifu blaðið úr uppskriftabókinni hennar varð eftir setning neðst þar sem stóð „kúmen eftir smekk“. Þess vegna sjá menn og vita að upprunalegt Laufabrauð er með kúmeni en önnur ekki. Þingeyskt Laufabrauð er því bara plat. (Varist eftirlíkingar)
.

painting-40_Large 

.


Ef þú vilt fá ekta Laufabrauð verður þú að snúa þér til einhvers góðs Ólafsfirðings sem gerir brauðið eftir uppskriftinni hennar Laufu gömlu.
Til gamans má geta að bróðir Laufu var Skarphéðinn Skata – hann fann upp skötuna. Þá var Patrekur pipar einnig bróðir þeirra, en sá fann upp piparkökuna. Þeirra saga verður sögð síðar.
  Ýmsa aðra siði sérstaka höfðu Ólafsfirðingar á jólum. Skal hér eitt dæmi tekið til gamans í lokin.

Til að skemmta börnum sínum um jólin var sú nýbreytni tekin upp er fólk af öpum komið fór að setjast að í nálægum byggðum að farinn var leiðangur til bæjar eins skammt frá er Akureyri hét. Þar voru fengnir nokkrir sveinar, oftast þrettán, að láni til að skemmta krökkum Ólafsfirðinga.  Fólk það er á Akureyri bjó þótti mjög skrýtið og sérkennilegt og ekki þótti það beint stíga í vitið og því tilvalið skemmtiefni.  
.
myvatn_jolasveinar-461myvatn_jolasveinar
.
Eftir ein jólin voru sveinar þessir sendir í fyrsta skiptið einir heim, gangandi yfir Tröllaskagafjöllin. Sem vita mátti rötuðu þeir ekki heim, villtust á fjöllum og eru þar enn.
Þeir koma þó til byggða einu sinni á ári um þetta leiti árs og litlu börnin kalla þá jólasveina.
  

.Ég kalla þá nú bara Akureyringa.


Laufabrauðssagan

Nú er komið að endurflutningi.  Birti þessa sögu á svipuðum tíma í fyrra. Þessi saga "þroskast" og tekur breytingum milli ára. Birti hana í tveim hlutum. Hér kemur fyrri hlutinn.

Sagan um uppruna Laufabrauðsins.

Nokkru áður en Ingólfur strokumaður frá Noregi fann Ísland, hafði sest að fólk og hafið búsetu í miðju steinhjarta Tröllaskagans. Engin vissi hvaðan þetta fólk hafði komið. Talið er þó, vegna hárrar greindarvísitölu og mikillar útgeislunnar stofnsins að það hafi ekki verið komið af öpum eins og aðrir sem jörð þessa byggja. Tilgátur eru á lofti um að það hafi verið  komið langt að, jafnvel frá fjarlægum sólkerfum.  Fólk þetta settist  að í frjóum og afskekktum firði með háum fjöllum allt í kring. Fjörðinn  nefndu þau Ólafsfjörð eftir foringja sínum, Ólafi Bekk.

Ólafur Bekkur  átti konu eina, mikinn skörung og skemmtilega. Hún kunni líka ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu blessunin. Kvennmaður þessi hét Laufa og bar eftirnafn manns sín. Laufa Bekkur hét hún því fullu nafni. Hún var ætíð góð við kallinn sinn og hugsaði um hann af einstakri natni og ást. Ólafur Bekkur sást því aldrei öðruvísi en brosandi út að eyrum. 
Seinna umbraust, sem kallað er,  F-ið í nafninu Laufa í G og þaðan er nútímanafnið Lauga komið. Þetta merka brauð sem hér er um fjallað,  ætti því að heita Laugabrauð, en ekki Laufabrauð. 
.

 laufabrau01

.
Laufa var góður kokkur, eldaði og bakaði ýmislegt er þeir sem síðar komu til landsins höfðu aldrei séð hvað þá smakkað og var margt af því tengt jólahátíðinni. Enginn vissi reyndar í þá daga af hverju þeir voru að halda jólin hátíðleg. Heimsumbólið var aldrei sungið af því að það var ekki enn búið að semja það. En þó voru til jólalög og þeirra vinsælast var Þrumarasöngurinn.

Þruma - þruma - þruma
við skulum klóra suma
undri herðablaðið
eftir jólabaðið.


Brauð var steikt um jól og borðað með jólamatnum ásamt öli sem karlmennirnir brugguðu. Sagt er að þegar Ólafur hafi verið orðinn hýr og kátur eftir stífa drykkju, hafi hann étið manna mest af kjöti með Þora baunum og niðurstúf... niðurstúfur var svört sósa ekki ósvipuð þeirri hvítu sósu sem við í dag köllum uppstúf... niðurstúfurinn var bara miklu sætari. Þora baunirnar eru náttúrulega bara grænu baunirnar sem við köllum núna Ora baunir. En í þá daga voru það bara hinir hugrökkustu sem þorðu að borða þessar grænu baunir, Þora baunirnar.  Liturinn á þeim skelfdi. 

Hefð var fyrir því að borða hanginn skarfa á Aðfangadag. Með skarfinum voru snæddar barða kartöflur (það var áður en fólk fór að stappa kartöflur) með njólauppstúf. 
Ef að skarfurinn var vel hanginn, ljúffengur og bragðsterkur sögðu menn; þetta er nú meiri skarfurinn.
Best þótti þó Óla kallinum þunna brauðið er elskulega Laufa hans hafði steikt uppúr feiti og kláraðist það ætíð fyrst allra kræsinga af borðum.

Það eina sem Ólafi fannst betra en Laufabrauðskaka með sméri, voru tvær Laufabrauðskökur með sméri. 

Framhald.
.

 Skarfur

.


Tilgangurinn

... hann bylti sér í rúminu... hann gat ekki sofnað... hann vildi ekki sofna... hann var alveg við það að uppgötva stóra leyndarmálið... um hvað þetta allt snérist, af hverju fæddumst við, af hverju dóum við, af hverju var heimurinn til... hver var tilgangurinn með þessu öllu...

... það var svo ótrúlega stutt í það að hulunni væri svipt frá augum hans, fannst honum... svörin voru öll handan við hornið... en hvernig sem hann streðaði við að komast fyrir þetta horn, þá náði hann því ekki...

... hann fór fram úr, gekk eftir ganginum fram í stofu... náði í kerti í skúffu og kveikti á því... slökkti öll ljósin í húsinu... fann hvernig kertaljósið róað hann... smám saman tæmdist hugurinn... það hvarf allt... fólk... vinnan... dýr... bílar... raddir... orð... allt nema eitt orð... tilgangur... það sveiflaðist eins og pendúll í höfði hans... tilgangur - tilgangur... gangurinn til... gangurinn til... gangurinn til... himnaríkis?... var svarið að koma?
.

 pit_and_pendulum

.

Hann gekk aftur til baka eftir ganginum í átt að svefnherbergisdyrunum... það slokknaði á kertinu... hann sá ekki neitt... en augu hans opnuðust í myrkrinu... jááááá... hvíslaði hann spenntur út í loftið... þetta er svona einfalt... hann sá hvernig í öllu þessu lá...

Hann lagðist á koddann... fann að nú myndi hann sofna strax... lokaði augunum... sá fyrir sér eitt orð í huganum sem sveiflaðist fram og aftur...

TILGANGUR - TILGANGUR


Hvað er ég?

... þú ert það sem þú borðar er sagt...

... ég borða;

...lambakjöt, naut og svín, kjúkling, gæs, sveppi, agúrkur, kartöflustöppu, tómata, epli, vínber, ís, appelsínur, súkkulaði, skyr, rúsínur, gráfíkjur, lúðu, pylsur, ýsu, silung, hrísgrjón, kornfleks, hákarl...

... ég borða eiginlega allt nema plast...

... ég hef komist að því að ég er krókódíll...

.

crocodile

.

... en kannski borða krókódílar ekki gráfíkjur?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband