Færsluflokkur: Ljóð

Jimi

Mér datt í hug í atvik í skóla þegar ég var unglingur og varð leiður á náminu og ætlaði að hætta í skóla. Skólastjórinn minn var Kristinn G. Jóhannsson myndlistamaður með meiru sem nú er búsettur á Akureyri.
Oft geta lítil atvik haft varanleg áhrif á mann og verið manni gott veganesti út í lífið.

Hann spjallaði við piltinn og sagði m.a. við hann þessi orð;

Ætlar þú að verða einn af þeim sem alltaf gefst upp?

Ég hrökk við og spurði mig sömu spurningar... og svaraði sjálfum mér í hljóði;

Nei ég ætla ekki að verða einn af þeim.

Þetta ljóð varð svo til löngu síðar:

Veganestið.

Hann horfði íhugull
yfir gleraugun sín
litli skólastjórinn
með upprúllaða skeggið
og spurði lífsleiða nemandann sinn
með Jimi Hendrix hárið

Ætlar þú að verða einn af þeim sem alltaf gefst upp?

Það færist glott
yfir reynsluríkt andlit mannsins
sem eitt sinn var lífsleiði nemandinn
þegar hann rifjar þetta upp

Hann veit að þessi orð
fengu hann til að þrauka

lengur en
Jimi

.

 lulu_hendrix

.
 


Stundir

Það eru stundir
sem eru betri en aðrar

Á daginn er ég einn á ferð
innan um manngrúann
með aðeins eitt markmið

Að koma til baka
á þann stað sem
ég yfirgaf um
morguninn

eiga kvöld heima

Eiga mínar bestu stundir
stundirnar með þér

.

 HOUSE%20DRAWING

.


Áfengt ljóð

Ég drakk í mig nóttina
bleikan himinninn
kyrrðina og þig

fann hvernig
sekúndur og mínútur
sumarnæturinnar

seitluðu
um æðar mínar
og fylltu mig

lagðist á koddann
ölvaður af gleði

.

 919559888_a46e330276

.


Við svona tjarnir

Það er við svona tjarnir  sem maður staldrar við á ferð sinni og nýtur
þagnarinnar í náttúrunni.

Stígur út úr bílnum og hvílir bensínfótinn nokkrar mínútur... teygir úr sér...
...andar að sér fersku lofti...
... yndislegur þrastarsöngur... rífur þögnina...

Það er við svona tjarnir sem ég hugsa um þig...

Þegar við sungum tvö út í vornóttinni - Ég veit þú kemur í kvöld til mín -

Það er við svona tjarnir sem ég vil ekki vera án þín.

Tjörnin

.

 


Snigillinn

Einu sinni var flygill

uppi á honum var snigill

þá kom þar að íslenskur hani

en það var hans ljóti vani

að borða litla snigla

og ost sem var að mygla

og drekka glas af víni

með stóru ljótu svíni

þessa nótt þeir drukku

rauðvín úr sultukrukku

og gleymdu að éta snigil

sem spilaði á flygil

.

 snail

.


Við Kleifarhorn

Gerði einu sinni ljóðabálk um æskuvin minn og ævintýri okkar
þegar við vorum strákar. Við brölluðum margt en eitt af því sem okkur
þótti skemmtilegast að gera, var að veiða silung.
Hér kemur fyrsti kaflinn i þessum bálki.

Við Kleifarhorn.

Það er júní
Það er nótt

vakna klukkan fjögur
klæða sig í skyndi

fram í þvottahúsi
bíður veiðistöngin
klár í slaginn
stinga sér í strigaskó
hnýta reimar
rjúka út

hnusa út í loftið
veiðilykt í andvaranum

þú vinur minn
tilbúinn við hliðið
eins og um var samið
ekkert talað
báðir æstir
báðir ungir

hjólað á fullu
út í Kleifarhorn
hlaupið
á fjörusteinum
út að Klettunum

háflæði
sjórinn útblásinn
eins og ófrísk kona;
fullur af lífi

og við báðir
þráðum að kasta út
finna silunginn
taka blinkið
kippa í
sveigja stöng
strekkja línu

sjá' ann stökkva
draga að landi
blóðga
rautt kalt blóð
litar hendur
ilmar betur
en nokkur rós

og við svo sælir
og við svo ungir
og við


svo miklir veiðimenn

.

 800px-Midnight_Sun_in_Itivdleq_fjord

.

 


Malda

Þá er komið að barnatímanum. 
Hér er vísa um músina Möldu sem hefur verið týnd í mörg ár...
Þegar hún fór að heiman var hún klædd í bláar kakíbuxur, í grænni hettuúlpu og með rauðan skúf í peysu.
Krakkar, ef þið sjáið hana... skuluð þið gefa henni ávaxtakaramellu... því það er það besta sem hún fær.

Malda.

Einu sinni var mús sem hét Malda
mýslan var úti  í norðankalda
hún hljóp yfir hvítan snjóinn
en svo hvarf hún Malda í móinn.

 .

mouse1

 

.

 


Vor í vetur

... það er blankalogn úti núna, vorilmur í loftinu... Skógarþröstur syngur af innlifun á toppi hæsta trésins í götunni... vorið er yndislegt... boðar betri tíð með blóm í haga... en þó þessi vetur hafi verið grimmur... með miklum snjó og hrikalegum hvassviðrum, þá er búið að vera vor hjá mér í allan vetur...

...fallegt, hlýtt, yndislegt vor...

Vor í vetur.

Vindurinn bankaði 
kalt á gluggann

inni í hitanum slógu
hjörtun í takt

það skipti ekki máli
hvort það snjóaði
endalaust

raunar áttu þau
enga ósk heitari

en að hús þeirra
fennti í kaf 

.

 Spring_Romance-157x153

.


Perlan og dagurinn

... hér er ljóð sem heitir Perlan og dagurinn.

Dagarnir færi manni ýmislegt... stundum eitthvað allt annað en maður reiknaði með... stundum gott, stundum ekki eins gott... stundum mjöööööög gott...Smile

... og þá er maður nú kátur og glaður...Smile

Allir eiga sinn uppáhaldsdag í lífinu... ég á minn...

 

Perlan og dagurinn.

Hve mjúkur þú varst
kæri vinur
og hugsaðir hlýlega
um mig.

Þú færðir mér
allt sem ég vildi
ég þakklátur
verð alltaf þér.

Hún dvelur hjá mér
alla daga
Perlan
sem fékk ég frá þér.

.

1169062531214_c3_01

.


Rólegt kvöld

... í kvöld er ég rólegur... dagurinn í dag er sérstakur fyrir mig...

LÍFIÐ VEÐUR ALDREI SVO ILLT
AÐ ÞAÐ SÉ EKKI VERT AÐ LIFA ÞVÍ
OG ALDREI SVO GOTT
AÐ AUÐVELT SÉ AÐ LIFA ÞVÍ.

  .

 Sól-Bn-A

 

.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband