Færsluflokkur: Ljóð

Krían

... Krían er mikill uppáhaldsfugl hjá mér... þar sem ég ólst upp var hálfstálpaður kríuungi kallaður "skjatti"...

... samdi lag og texta fyrr í vetur um hana...  hér kemur textinn...

Krían

Þegar hríð og stormar hvæsa
Þegar niðdimmur veturinn er
Þá ert þú í öðru landi
Óralangt í burtu frá mér

En þú kemur aftur
Aftur og  aftur
Vilt baða þig í birtunni
við blóðrautt sólarlag

.

kria

.

Þú kemur aftur
Aftur og aftur
Þú fögur flýgur
Fimlega hjá mér
 
Þá er sumarið loks komið
Ég kátur í hjartanu verð
Hugfanginn að þér dáist
Þar til þú í haust aftur ferð


Í aldanna skaut

Depill

 

 

Depill sá lipri köttur

Læðist loðinn um gólf

 

Síðasti dagur ársins

Og klukkan að verða tólfist2_2592853_old_clock

 

 

Konan við arineldinn

Vefur sig þétt Inn í feldinn

 

 

Femina

Hundurinn liggur og dottar

Karlinn

vindilinn tottar

Nú árið er horfið á braut

 

sigar

Liðast reykur Í aldanna skaut

 

 


Tvær sálir

Svo undarlegt er sálir mætast tvær
sem þekkjast síðan einhvern tíma fyrr
þar birtist sanna ástin, alveg tær
og hugurinn er sáttur, glaður, kyrr 

 

SvartengiSól

.


Þú verður að standa þig!

... er ekki alltaf pressa á okkur að standa okkur og gera betur á hverjum degi?... ég er nokkuð viss um að allir upplifi það af og til að kvöldi dags, að þeir hefðu nú getað gert betur... og lofa sjálfum sér að gera betur á morgun...

Þú verður að standa þig. 
 

Liðið er sumar
Komið dimmt haust
Allt rennur áfram
Endalaust 

Í sorg og í gleði
Við fellum tár
Verða að einu
Öll liðin ár 

Þú verður að standa þig
Þú verður að vanda þig
Þú verður að standa þig 

Og gera betur
Í dag en í gær              

Hamingjan sanna
Staldrar um stund
Svo er hún rokinn
Á annarra fund

Oft er í fangið
Vindurinn hvass
Þá snýrðu þér undan
Hann lemur þinn rass 

Þú verður að standa þig
Þú verður að vanda þig
Þú verður að standa þig 

Og gera betur
Í dag en í gær            

.

 foxes

.


Að keyra um í málverki

... mér leiðist aldrei að keyra um landið, enda eins gott, ég er mikið á ferðinni... nýt landslagsins og birtunnar... litirnir á himninum margbreytilegir og oft eins og maður sé staddur inni í miðju málverki...

... þessi mynd var tekin í morgun í Langadalnum...

 

.

 Sólarupprás

 

.

Sólin.

Hún teygði sig feimin
yfir fjallstoppana
hugsaði hlýtt til jarðarinnar

litla mannveran
horfði agndofa á

 

 


Syrgjandi sveinar

Við erum jólasveinar
og þvælumst um öll fjöll
við erum miklu fallegri
en þessi ljótu tröll

við þekkjumst á loðnum lúkunum
og spengilegum búkunum
og það er mynd af okkur
á öllum jóladúkunum

.

 jolasveinar7

.
við borðum hangisauð
yfirleitt á jólunum
og örþunnt Laufabrauð
en mamma datt úr rólunum

 orn_gryla%20200

 .

hún hætti svo að góla
á ekkert er að stóla
nú er hún gamla Grýla dauð
já, mamma er hætt að róla


Litla vekjaraklukkan - smásaga

Einu sinni var lítil vekjaraklukka. Hún var ekki eins og venjuleg vekjaraklukka...
því hún átti afskaplega erfitt með það að vakna á morgnana... hún var eiginlega algjör svefnpurka...

Vekjaraklukkan var silfurgrá, með tveimur litlum bjöllum á höfðinu. Á milli bjallnanna var krómuð stöng og litlar mjóar fætur klukkunnar voru í stíl við þessa krómuðu stöng. Bakið á henni var svart.

Litla vekjaraklukkan var með fjóra vísa. Klukkustunda, mínútu og sekúnduvísi sem voru allir svartir. Fjórði vísirinn var silfurgrár og það var vísirinn sem stjórnaði því hvenær hún átti að vekja eiganda sinn.

.

 Vekjaraklukka

Eftir að hafa verið sett saman á verkstæðinu var henni pakkað í lítinn hvítan pakka og síðan í annan stærri, brúnan og hún síðan send í búðina.

Hún stóð stillt á hillunni í búðinni, ásamt mörgum öðrum klukkum. Fólk kom og skoðaði klukkur, virti þær fyrir sér, tók þær upp og athugaði hvort þær væru nógu fallegar til að vera á náttborði.

Margar klukkur voru keyptar í viku hverri, en það var enginn sem gaf litlu klukkunni gaum. Enginn snerti hana, enginn skoðaði hana.
Hún var mjög kvíðin því að þurfa að vera allaf í búðinni, alla sína ævi. Hún var líka með áhyggjur af því að sá sem keypti hana myndi alltaf vilja vakna of snemma. Hún var viss um að hún myndi oft sofa yfir sig og þá yrði henni hent í ruslið.

Dag einn var dimmviðri, rigning og rok. Fátt fólk var á ferli, fólk hljóp framhjá búðarglugganum. Ekki nokkur sála hafði komið inn í búðina í marga klukkutíma.

En allt í einu opnaðist útihurðin hægt og rólega. Litla vekjaraklukkan leit upp. Inn um dyrnar steig kona með kolsvart sítt hár. Ómálað andlit hennar var fíngert og fagurt og líkami hennar nettur. Hreyfingar hennar voru mjúkar þegar hún gekk inn eftir búðargólfinu og skoðaði með áhuga fallegu hlutina sem voru í hillunum. Hún var greinilega ekkert að flýta sér. Strauk hendinni um rennblaut gljáandi hárið og reyndi að þurrka það.
Augun í henni voru mjög sérstök. Þau voru eins og stórir dropar sem lágu á hliðinni. Augun voru dökk og djúp og í þeim var glampi. Úr þeim var hægt að lesa mikla reynslu og kærleika.

Ó, hugsaði litla vekjaraklukkan , mikið vildi ég að þessi fallega kona keypti mig, hún er svo góðleg. Klukkan litla fylgdist með hverri hreyfingu fallegu konunnar þegar hún nálgaðist. Svo stóð hún loksins fyrir framan klukkuna. Tók hana upp og skoðaði í bak og fyrir.

Án þess að segja nokkuð, gekk konan að afgreiðsluborðinu og setti klukkuna þar. Tvöhundruð og fimmtíu krónur, sagði afgreiðslukonan. Konan borgaði og setti síðan klukkuna í handtöskuna sína.

Þegar heim var komið tók konan klukkuna silfurgráu upp úr töskunni og setti hana á náttborðið sitt,
klæddi sig í náttföt og skreið undir sæng. Hún teygði sig í klukkuna og stillti vekjarann á sjö.
Úff, hugsaði vekjaraklukkan, klukkan sjö... ég get bara ekki vaknað svona snemma, nú verður mér hent í ruslið á morgun.
Dökkhærða, fallega, netta konan slökkti ljósið.

Litla vekjaraklukkan var andvaka. Hún var svo hrædd um að sofa yfir sig og þá myndi nýi eigandi hennar sem lá þarna  sofandi í rúminu, ekki vilja eiga hana og skila henni aftur eða henda henni. Hún bara gat ekki sofnað, litla vekjaraklukkan; ég verð bara vakandi í alla nótt, vek svo fallegu konuna klukkan sjö og síðan fer ég að sofa, hugsaði klukkan.

Góðan daginn, litla vekjaraklukka. Falleg mjúk, en örlítið dimm kvenmannsrödd smaug inn í drauma vekjaraklukkunnar.

Klukkan litla teygði sig og hristi... ooooo... ég vissi það... ég vissi það... ég svaf yfir mig...ooooo nú er ég búin að vera, hugsaði hún...

Ég vissi að þú værir svefnpurka, sagði fallega konan. Ég keypti þig ekki til að vekja mig. Ég keypti þig af því að þú ert svo falleg og góð, sagði konan og brosti. Ég þarf að hafa einhvern hjá mér til að geta talað við og sem skilur mig.

Ég veit að okkur á eftir að koma vel saman.

Og upp frá því stóð litla silfurgráa vekjaraklukkan á náttborði fallegu konunnar með kolsvarta síða hárið... og vaknaði aldrei fyrr en eigandi hennar bauð góðan daginn á hverjum morgni.

 

 


Hugsað til baka

... ég var alinn upp í litlu sjávarþorpi... mikil einangrun og varla bílvegur fær úr þorpinu, nema yfir blásumarið... flóabáturinn Drangur kom tvisvar í viku, ef ég man rétt... þá stóðum við krakkarnir í fjörunni og góluðum "hey babiríbba, Drangur er að píbba"...  dagblöðin kom oft í vikuskömmtum og ekkert sjónvarp... hlustað á ríkisútvarpið og bátabylgjuna...

... flestir karlarnir sjómenn og pabbi var sjómaður... maður sá hann ekki nema af og til, var á vertíð einhversstaðar annarsstaðar á landinu... þannig kom það til að flestir voru kenndir við mömmur sínar.... Böddi Hófu, Gilli Sigurveigar, Ægir Fjólu...

... ekki ætla ég að segja að hlutirnir hafi verið betri þá, síður en svo... en hef ekkert annað en skemmtilegar minningar og frekar áhyggjulaust líf...

... ég er með í smíðum ljóðakafla frá þessum árum sem ég skipti um í þrjá kafla... tvo um vini mína Bödda Hófu og Ægir Fjólu... sá þriðji verður svo um mig og mínar minningar frá þessum árum...

... allir sjómenn voru í svörtum duggarapeysum, eins og Kolbeinn kafteinn sjálfur... hann hefði fallið vel í þann hóp... 

 

 Had_crie

.

Karlarnir.

Að verða stór
gerðist ekki bara si svona

Það báru karlarnir með sér

sjóbrúnir í andliti
með skeggbrodda
og reynslumikil dimm augu

svo klárir
og vitrir
og sterkir
og duglegir til vinnu
vissu alltaf
hvað þeir áttu að gera
ekkert hik

á mínum mönnum

herðabreiðir
í svörtum
duggarapeysum

 

 


Fjallið

... það getur verið gaman að ferðast um landið á öllum tímum ársins... vegna vinnu minnar er ég mikið á ferðinni og dáist alltaf jafn mikið af litbrigðum himinsins og margbreytilega... í gærmorgun var ég á ferðinni í Húnavatnssýslum.. ský og litir tóku á sig allskonar myndir í morgunsárið... einhvertíma birti ég hér á síðunni ljóðið Fjallið... það kemur hérna aftur, mér fannst það einhvernvegin passa svo vel við þessa mynd...

 

.

Morgun

 Fjallið

Sjáðu fjallið þarna er það
það er svo hátt þú varla sér það
hirtu ekki um kaldann vindinn
haltu þráðbeint upp á tindinn

Þétt er morgun þokan gráa
Fjallið gerir menn svo smáa
Ekki yfir striti kvarta
Fylgdu alltaf þínu hjarta

Brött er brekkan vörðu grjóti
Öll er leiðin upp í móti
Á grýttu fjalli margur týnist
Það er lengra upp en sýnist

Um kvöld á fjallsins tindi stendur
Horfir yfir höf og lendur
Af þér heitur svitinn bogar
Himinhvolfið allt það logar

 


Tíminn

... nú er dimmt og hvasst úti... við sitjum inni í hlýjunni... og hlustum á hvernig rigningin lemur rúðurnar... við ráðum engu um það hvaðan  og hvernig vindarnir blása... en við getum skýlt okkur fyrir þeim og kuldanum inni í hlýjum húsunum...

... við kveikjum á kertum og hugsum til þeirra sem eiga ekkert skjól... hugsum til þeirra sem líður ekki vel... hugsum hvað við erum smá og lítil í eilífðinni... og hve tíminn er dýrmætur...

 CA6V4LIB

 .

Tíminn.

Hann vekur þig
að morgni
deplar auga
og svæfir þig um kvöld

Tíminn gamall og reyndur
en samt ungur sem barn

Það eina sem þú átt
 

Hann vekur þig að morgni
deplar auga
og svæfir þig um kvöld

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband