Færsluflokkur: Ljóð

Á skammdegisbrún

... seinnipartinn í gær keyrði ég leiðina Akureyri - Húsavík... sem ég hef gert ótal sinnum áður... bæði í vinnuferðum sem og sem ferðamaður.... eða veiðimaður... klukkan var eitthvað á milli 16:00 - 17:00 og það var byrjað að skyggja...

... stoppaði aðeins og teygði úr mér við Ljósavatn og smellti mynd...

.

LjósavatnA

. 

Á skammdegisbrún

Dofnar dagur
fölblátt
verður blátt
blátt verður dimmblátt
dimmblátt svart

lýsist máni
kvikna stjörnur
dansa norðurljós
á himni

dönsum við
inní myrkrið

 


Melrakkinn

... ég var eiginlega að uppgötva það í kvöld að ég er ekki týpískur karlmaður... held ég, hef svosum ekki gert neinar rannsóknir á því... ég t.d. hef aldrei haft áhuga á bílum, eins og langflestir karla hafa... bílar hjá mér heita ekki nöfnum eins og Subaru... Toyota eða eitthvað slíkt... ég hef ekki hugmynd um hvernig svoleiðis bílar líta út... ég þekki bíla af því að þeir eru rauðir eða bláir eða hvítir... ég er t.d. spurður; hvernig bíl átt þú... og þá segi ég auðvitað; ég á hvítan bíl... svo er kannski spurt um hestöfl... eru kannski ekki hestöfl í bílum í dag? ég hef náttúrulega ekki hugmynd um það...

...ég hef hinsvegar átt góða spretti í bílaumræðunni... fór einu sinni með bilaðan bíl á verkstæði... hafi heyrt eitthvað hljóð í nokkra mánuði þarna fram í þar sem vélin er, held ég... karlinn í bláa samfestingnum á verkstæðinu  spurði bísperrtur ; hvað er svo að góurinn... þá mundi ég æðislega flott orð; altanitor... hafði heyrt á tal manna um bíla og þeir töluðu um altanitor... reyndar hljómar þetta eins og söngvari; tenór og alt... "Ég held það sé helv... altanítórinn sagði ég kokhraustur og rétti honum lyklana...

... sá í bláa samfestingnum tók mig á orðinu... þegar ég náði í bílinn aftur... þá var rukkað fyrir nýjum altanitor... en hljóðið þarna fram í þar sem vélin er... það var ekki horfið...

... ég hef heldur ekkert gaman að því að smíða, eða mála, eða nota skrúfjárn og rörtangir... rörtangir, t.d. ná alltaf að klípa mig þegar ég held á þeim... eftir að hafa notað hamar, þá er ég oftar en ekki með bláar neglur... not my cup of tea...

Melrakkinn.

Ég er ekki góður smiður
Ég kann ekki að bora í vegg
Ég er eins og mjúkur viður
Oft með þriggja daga skegg

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki

Ég er oft í hvítum sokkum
Og svörtum buxum eins og kol
Ég skarta ekki ljósum lokkum
Mér finnst ég flottur í rauðum bol

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki

Ég þarf mörgu og miklu að sinna
Og dunda mér við flest
Reyni úr ullinni að spinna
Allt sem fínast er og best

Ég er alltaf á miklu flakki
Ég er sléttunnar Melrakki


Hangikjötsilmur

... ég hef ekki bloggað sé ég síðan 7. október... búinn að flakka mikið um allt land á þessum tíma... hlakka mikið til þegar þessi törn er búin og ég get farið að skrifa meira aftur... fer á þriðjudaginn að vinna á Þórshöfn og verð fram á miðvikudag... 

... nú þegar farið er að dimma, kemur einkennileg tilfinning í ljós hjá mér... ég er farinn að hlakka til jólanna... enda ekki nema rúmir tveir mánuðir þangað til þau koma... ég hef nú aldrei verið neitt jólabarn... en þegar ég borðaði hangikjöt um helgina, með grænum baunum og uppstúf... þá kviknaði einhver tilhlökkun í mér... og ég sem vil helst ekki að forleikur jólanna byrji fyrr en í byrjun desember... jólaskraut... jólalög o.þ.h.

... ég ætla samt ekki neitt að fara að syngja jólalög í vinnunni á morgun... en kannski ég kaupi mér góðan pott til að búa til uppstúf... það er það eina sem mig vantar fyrir jólin...

 

Aðfangadagur. 

 

Mikið
var mjöllin mjúk
í firðinum forðum
alvöru jólasnjór

í stofunni var allt klárt
gervitréð
bómullarkirkjan

allir pakkarnir
Prins Valiant
til: þín
frá: mér
 
Fimm á Fagurey
pakkar með slaufum

tryllingslegur ilmurinn
úr eldhúsinu
blindfullir kökudunkar
hálfmánar
vanilluhringir
laufabrauð

svindl - og
kornflekskökubirgðir
minni en mamma hélt

klukkan sex
heims um ból
helg eru jól

heilagt

tíu mínútum síðar
bein
á hátíðarborðinu

etinn heimatilbúinn ís
smyglað Machintosh
drukkið jólaöl
framundir morgun
með bóklestrinum

ó, hver dýrðlegt var
að sofna þá

 


Stjörnurnar mínar

... jæja... tíminn heldur áfram að líða og við sandkornin reynum okkar besta til að njóta þess sem í boði er...ótrúlegt að við skulum yfirleitt eyða tímanum í að þrasa við annað fólk, jafnvel og kannski oftast við fólk sem okkur þykir vænt um... ekki það að ég sé eitthvað betri í þeim málum en aðrir... en mikið held ég að við getum öll horft í eigin barm... og reynt á hverjum degi að hafa það bara ósköp notalegt með þeim sem við elskum... stundum held ég að það sé ótrúlega létt að láta sér líða vel... bara slaka á og njóta...

Stjörnurnar mínar.

Um nóttina gengum við
út í niðdimmt myrkrið  
vissum ekkert hvert
við ætluðum
héldumst í hendur
og dáðumst að
stjörnunum

þær blikuð á
dimmbláum himninum 
eins og þær vildu
vísa okkur veginn

ég horfði í augun þín
stjörnurnar mínar

og var tilbúinn
að fylgja þér
á heimsenda


Sundlaugin í Varmahlíð lokuð

... held hér áfram með smá stemmingu frá unglingsárunum...

...vinur minn kom oft mikið við sögu... hann var alltaf að gera eitthvað skemmtilegt... enda var hann mjög skemmtilegur og uppátækjasamur... aldrei með nein illindi eða svoleiðis... en yfirvaldið var samt ekki alltaf sátt við það sem þessi góði vinur tók uppá... hann var til dæmis alltaf að sulla í vatni og fór oft í sundlaugar, þó þær væru lokaðar, jafnt að degi til sem og að næturþeli... ýmist í öllum fötunum, eða kviknakinn...

... við fórum á böll í Húnaveri og einnig í Miðgarði... rétt hjá Miðgarði var sundlaug....

 

Sundlaugin í Varmahlíð lokuð.

Þú varst sæll eins og
Adam í Paradís
þegar löggurnar
leiddu þig nakinn
á milli sín
með þetta fræga bros
og afslappaða augnaráð
gegnum mannfjöldann
sólskynið og rykið
inn í Svörtu Maríu

allt sem þú hafðir
unnið til saka
var að synda alsber
frjáls og pínulítið fullur
í sundlauginni

þvílíkur glæpur
þessir skagfirsku
laganna verðir
höfðu greinilega
aldrei heyrt
minnst á
Woodstock

 


Johnnie Walker

... já, ég geng með það í maganum að gefa út 2 ljóðabækur einhvertíma á næstunni... ég á efnið nokkuð klárt í aðra bókina, en það er einhverskonar þema um æskuna... um vin minn í barnæsku og svo um annan vin á unglingsárunum... og um það sem við vorum að bralla saman á þessum árum... sú bók á að vera myndskreytt...

... seinni ljóðabókin sem ég er að hugsa um að gera, er gjörsamlega í Guðshúfu ennþá, þ.e. ekki komið að getnaði og ekkert líf að fæðast, en sem komið er... en það verður einhverskonar þemabók... kannski sjálfsæfisaga í ljóðum og ekkert dregið undan!

... nú er ég búinn að setja pressu á mig með því að segja hér frá því hvað mig langar að gera í ljóðaútgáfu... á næstu 2-3 árum...

... ég hef áður birt einhver örfá ljóð frá unglingaárakaflanum... hér kemur eitt;

 Johnnie Walker.

Fyrsta fylleríið var mest ímyndun
sonur Ringsteds á brekkunni
gaf okkur sitthvorn sopann
af Johnnie Walker
við veltumst um og hlógum
eins og hálfvitar
þóttumst ekkert skilja
í okkar haus

Gjóuðum þó augunum í laumi
til stelpnanna
til að athuga hversu mikið
við hefðum unnið okkur
í álit á þeim bæjunum

Og það var ekki laust
við aðdáunarblik
í dreymnum augum meyjanna
sem hafði þau áhrif
að við urðum ennþá fyllri
lögðumst niður í götuna
með lappirnar upp í loft
augun stjörf
og lafandi tungu
 

Dóum;
Svona bráðabirgðadauða
í þeirri fullvissu
að Flórens Næturgali
veitti okkur hjúkrun

En þegar engin skipti
sér að okkur
stóðum við upp
þegar lítið bar á
dustuðum af okkur rykið
og röltum heim
reynslunni ríkari
fóstbræðurnir;

Johnnie og Walker

 

 


Halldór tuðari

... það er langt síðan þátturinn "Ort upp í bloggvini" hefur verið á ferðinni... það er því ekki úr vegi að rifja upp út á hvað hann gengur... ég skrifa texta sem ég kalla At-kvæði um einhvern bloggvin og læt líta út fyrir að þetta sé stutt bréf frá viðkomandi... en þetta er hinsvegar fullkominn skáldskapur um viðkomandi sem ég set niður... hingað til held ég að ég hafi ekki móðgað neinn, svo ég held þessu bara áfram þar til einhver stoppar mig...

 Nú er komið að stórbloggvininum Halldóri tuðara... mjög skemmtilegur og bráðhress bloggari sem lætur sér ekkert óviðkomandi... er einnig sleipur í skák, hagmæltur og syngur og dansar eins og engill....

 

Það er margt sem maður dundar sér við
ég hef rosalega gaman af því að skoða fugla
skemmtilegast er náttúrulega að sjá flækingsfuglana

meðal sjaldgæfra fugla
sem hef ég séð eru
Lappajaðrakan; A Bar-tailed Godwit
Sportittlingur; A Lappland Bunting
Kanaduðra; A Long-billed Dowitcher

samt held ég alltaf mest upp á
gamla góða spóann
að heyra hann vella á fögrum sumardegi
er eitt það fegursta sem ég veit

Kveðja, Halldór (tuðari) 

 

 


Afi

... afi gamli var að mörgu leiti merkilegur karl... 10 barna faðir, verkamaður og kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn, til að vera öruggur með vinnu....

... hann var harðjaxl og dugnaðarforkur og hugsaði mest um að hafa nóg handa sér og sínum... þegar ég var að vaxa úr grasi ásamt fjölda annarra barnabarna hans, þá var hann farinn að reskjast og hafði áhyggjur af ungviðinu... okkur krökkunum... passaði uppá að við kæmum snemma heim á kvöldin og hljóp gjarnan á eftir okkur til að reka okkur heim... krakkarnir uppnefndu hann "afi á hlaupum"...

...eftir að hann hætti að vinna bjó hann heima hjá okkur...  það var skrítið að sjá gamla manninn vera verkefnalausan, hann sem alltaf hafði unnið myrkrana á milli... hann kunni ekki að hætta að vinna... gleymi því aldrei að hann setti innkaupatösku við útidyrnar á kvöldin til að hafa hana tilbúna fyrir næsta dag þegar hann færi út í búð að kaupa matföng...

... eina sem ég á eftir frá honum afa mínum er gamalt barómet... ekkert sérlega fallegt fyrir þá sem sjá það bara svona rétt augnablik... en ég hef aldrei séð fallegar barómet...

Afi.

Mig undraði
styrkur glersins
í barómetinu
þegar þú
þrumaðir í það
með krepptum
hnúunum

Regn - breytilegt - bjart

Þú stilltir vísinn aftur
og við strákarnir sáum
á svip þínum

að líklega myndi hann bresta á
að norðaustan
með kveldinu.

 

 


Að vera ríkur

... peningar eru ekki allt... en það er samt vont að vera án þeirra... ég vildi heldur gráta í nýjum Mercedes Benz heldur en gömlu Skóda... sagði góð kona einu sinni... það má kannski alveg skrifa undir það... en þegar mest á reynir þá gera peningar ekkert gagn... maður kaupir ekki hamingjuna né heilsuna fyrir peninga... ung fréttakona sagði einu sinni við Alla ríka á Eskifirði... Aðalsteinn, ertu ekki ríkur? Alli var farinn að eldast og svaraði ungu fréttakonunni; nei... ég er ekki ríkur, það ert þú sem ert rík, þú ert ung og þú átt allt lífið framundan... hann vissi, sá gamli að unga konan var rík... hann átti bara peninga...

 

Bóndinn.

Hann stakk
höndum sínum
í nýplægða jörðina
lyfti fullum
lófum
til himins
lét jarðveginn
renna milli
fingra sér
 

hugsaði glaður
í bragði;

ég er moldríkur!


Og svo skein sólin

... síðbúið sumarfrí hjá mér er nú á enda og við tekur vinna og aftur vinna... ég hlakka til að byrja aftur og er búinn að hlaða batteríin vel, held ég... búinn að tæma hugann með allskonar uppátækjum og tilbúinn í slaginn aftur... hugsanlega þýðir það líka minna blogg hjá mér... en við sjáum hvað setur með það...

... úti blása svalir haustvindar, en þó eftirsjá sé í sumrinu, þá er alltaf eitthvað til að hlakka til þegar veturinn gengur í garð... og svo áður en við vitum er komið sumar aftur...

.... en er ekki líka málið að lifa í núinu, lifa daginn í dag; eða eins og John Lennon sagði í texta; tíminn líður meðan þú ert upptekin að gera framtíðarplönin...

Og svo skein sólin

Það varð hvellur
svo stór
að hann lifði
um aldir

Þá varð þögn
svo djúp
að það sást
ekki í botn

Þá blésu vindar
svo grét himinn

og vatnið óx og óx
og grasið óx og óx

Þá varð hvellur
svo stór
þá komst þú

og svo skein sólin

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband