Færsluflokkur: Ljóð

Fyrirhyggjumaðurinn

Ég hef alltaf öfundað fyrirhyggjufólk... fólk sem hugsar hvernig það ætlar að komast til baka úr þeirri ferð sem það leggur upp í... fólk sem er til fyrirmyndar og með allt sitt á hreinu...

... ég er ekki beint þessi manngerð... ég get verið óskipulagður og göslast stundum í gegnum hlutina... en ég er oft heppinn í því sem ég geri... hlutirnir ganga vel þrátt fyrir að ég hugsi ekki í upphafi fyrir öllu... og oft er ég líka hálfgerður klaufi... eins og t.d. í veiðinni, það eru ekki margir sem hafa verið með fisk á og staðið upp á bakkanum og stigið í holu og farið kollhnís afturábak út í á og landað svo fiskinum á eftir... (ég sem get varla farið venjulegan kollhnís)... eða verið á bakkanum og stigið út í vatn sem sýndist vera grunnt, en var svo hyldýpi þegar ég ég steig út í vatnið og gjörsamlega hvarf á bólakaf... en svo var fiskur á hjá mér þegar ég steig upp aftur...

... ég rakst á gamlan texta um þetta sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um svona fyrirmyndarmann... en þegar ég fór að skoða hann betur, þá sá ég að ég stend líklega bara undir öllu því sem ég skrifaði um þennan mann, nema einu... og hvað skyldi það nú vera? (síðast erindið undanskilið)

Finnbogi fyrirmynd.

Þetta er maður
sem bakkar alltaf inní stæði
fyrirhyggjumaður

Þetta er maður
sem mætir alltaf á réttum tíma
stundvís maður

Þetta er maður
sem skuldar engum neitt
skilvís maður

Þetta er maður
sem er alltaf þveginn og strokinn
snyrtilegur maður

Þetta er maður
sem syndir á hverjum morgni
líkamsræktarmaður

Þetta er maður
sem nagar

samvisku mína


Unginn flýgur úr hreiðrinu

Það kemur alltaf sá tími að ungarnir fljúga úr hreiðrinu. Ungarnir mínir flugu burtu fyrir löngu, eða þannig. En þeir fóru ekki langt. Búa stutt frá okkur svo við sjáum þá af og til með litlu ungana sína og það er gott.

Þegar dóttir mín var að slíta sig að heiman var ekki laust við að manni þætti það erfitt, enda finnst manni börn aldrei nógu stór til að fara undan verndarvængnum og fljúga út í víðáttuna þar sem margskonar hættur bíða, en veit samt innst inni að það er einmitt það sem þau þurfa að gera.

Þetta ljóð fann ég í dóti hjá mér um daginn.

 

Skórinn

Þegar ég kom út
í morgun

fann ég strigaskó
á stéttinni

þú hafðir
yfirgefið hreiðrið
kvöldið áður
með dót þitt
í poka

ég tók slitinn
skóinn
og hélt honum
að mér

kannski
kæmir þú seinna
að vitja hans

 


Brattur og bróðir hans

... jæja, þá er ég kominn heim og verð í einn dag heima!... það er búið að vera mikið at á mér og ofboðslega gaman... er búinn að vera í veiði í tveim ám, fara í fjallgöngu með gömlum skólabróður og syni hans og yndislegri 16 ára frænku minni sem ég var nú bara að kynnast í fyrsta skiptið... Við gengum sem sagt upp á Múlakolluna í Ólafsfirði, sem er fjallið þar sem jarðgöngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur fara í gegnum... minn gamli skólabróðir og vinur sem var með mér er búinn að búa í Svíþjóð síðan árið 1981... sonur hans, tvítugur strákur, sem með okkur var heitir því skemmtilega nafni Magnús Múli,og þess vegna var þetta fjall fyrir valinu... við fórum þessa fjallgöngu á föstudeginum, en þá um kvöldið og síðan daginn eftir var síðan bekkjarmót á Ólafsfirði... við vorum líka að sýna okkar gömlu bekkjarfélögum að það er ýmislegt hægt að gera þó aldurinn færist yfir og vorum gríðarlega stoltir af okkur þegar til byggða var komið aftur... ég ætla nú ekki að fara út í nein smáatriði um það sem síðan gerðist um helgina, en mikið rosalega skemmti ég mér vel...

... annað sem ég gerði í vikunni var að taka upp á disk veiðilagið "Fílhraustir drengir" með honum bróður mínum... við sömdum lag og texta saman bræðurnir og er það í fyrsta skipti sem við höfum lagt saman í púkk hvað þetta varðar og vonandi gerum við meira af því í framtíðinni... við erum með þessum boðskap að reyna að leiðrétta þann misskilning að það að vera í veiði sé bara glens og grín og fyrir hvern sem er... formlegur útgáfudagur lagsins verður á morgun og athöfnin fer fram á bökkum Laxár í Laxárdal þar sem diskurinn verður áritaður meðan birgðir endast, en við erum einmitt að fara á morgun að veiða í þessari perlu og verðum fram á fimmtudag...

... lagið er vals svo hægt sé að dansa við ráðskonurnar í veiðihúsunum og veiðifélagarnir geta tekið undir í viðlaginu... við bræður syngjum fyrstu tvö erindin til skiptis og blöndum svo því síðasta saman... sumir segja að raddir okkar séu líkar...

... en sem sagt, smá forskot á sæluna, hér er textinn og lagið er komið á spilarann hér fyrir neðan...

Fílhraustir drengir


Fólk heldur að það sé frí
Að fara í veiði
Lúxus leti líf
Upp á heiði
En ekki er þar allt sem sýnist vera
Og alla daga meira en nóg að gera

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Á morgnanna við vöknum
Stundum snemma
Klukkan átta og jafnvel fyrr
Þeir sem nenna
Í nesti tökum orkuríkan lager
Kassa af góðum bjór og flösku af Jager

Því það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Trítlum eins og dvergar sjö
Að ánni
Með stöng og flugubox
Og með í tánni
Köstum flugum fimlega í strauminn
Í dag við látum rætast drauminn

Það er hörkupuð
Að vaða stríða strengi
Við flugnasuð
í kaldri ánni lengi
það bara fyrir hrausta drengi

Já, það er streð og puð
Að stríða vaða strengi
Og aðeins fyrir hrausta drengi
Já, fílhrausta drengi


Í nógu að snúast

... þessi vika verður viðburðarík hjá mér... nú um hádegið er ég að fara af stað með veiðidótið mitt í skottinu... meiningin er seinnipartinn í dag að syngja inn eitt veiðilag með stóra bróður, sem þó er töluvert yngri en ég... síðan í fyrramálið rennum við inn í Fljót og köstum flugu fyrir silung... á fimmtudaginn ætla ég svo að heimsækja nokkra félaga sem eru að veiða í Fnjóská og kannski taka nokkur köst þar og reyna við lax... á föstudaginn er svo planað að ganga upp á Múlakolluna í Ólafsfirði með gömlum bekkjarfélögum og sprella svo með þeim alla helgina...

... þegar maður er í veiði þá er ekki alltaf stutt í klósett....

Syndin

Ég horfi á lækinn
liðast hjá
langt upp í fjalli
þar má sjá
yrðlinga hlaupa og leika sér
og krumma tína krækiber

Börnin á bænum hlægja hátt
hófdynur hests í fjarska lágt

af eintómri ánægju

og það er syndin

spræni ég sperrtur
upp í vindinn

 

 


Fjörkálfurinn Anna

Hin lífsglaða og síkáta Anna Einarsdóttir, bloggvinur minn numero uno, er að fara í svaðilför á morgun... eitthvað svo helvíti líkt henni... ég ætla að nota tækifærið og þakka henni fyrir alla skemmtunina í sumar... það er ekki hægt annað en að kútveltast um úr hlátri þegar Anna er í essinu sínu... hún er ótrúlega fljót að hugsa... held að hún sé með tvo stóra heila, en ekki eins og ég bara með einn lítinn... og svo koma vísur og ljóð í fossum frá henni... Gullfossum....

... Anna er mikið náttúrubarn... held hún hafi verið (fjör-) kálfur í fyrra lífi...

... Anna, þetta er engin minningargrein... bara svona góða ferð sending til þín....Wink

 

Einu sinni þegar ég var
að sækja beljurnar
upp í hólf
þá brast á þessi svarta þoka

ég var rétt komin að
gömlu trébrúnni
þegar allt varð blint 

ég sá ekki handaskil
og beljurnar bauluðu órólegar
neituðu að fara lengra

þá birtist við hlið mér huldumaður
með ljóst hrokkið hár
og leiddi mig yfir brúna
kýrnar gengu hljóðlega
yfir á eftir okkur


kveðja, Anna


Í Miðgarði

... auðvitað fór ég á nokkrar útihátíðir um verslunarmannahelgar... man vel eftir einni árið 1969 þegar við strákarnir leigðum kálf og fórum alla leið frá Ólafsfirði í Húsafell... þá var ég bara 15 ára rétt að verða 16... man mest eftir Trúbrot og Rúnari Júl. á sviðinu... ótrúlega flottir... og góð músík... man ekki eftir slagsmálum eða einhverju veseni... of fullir krakkar voru látnir sofa úr sér í einhverjum kjallara þarna rétt hjá svæðinu... man eftir að fólk sat í grasinu og spila á gítara og söng... þetta var bara gaman... man einnig eftir samskonar skemmtunum seinna í Húnaveri, í A-Húnavatnssýslu  og Miðgarði í Skagafirði... Einn besti vinur minn var sætur og mikið kvennagull... hann fór oft á kostum á svona hátíðum... þetta samdi ég löngu seinna um ævintýri okkar eina ágústnótt á tjaldstæði í Skagafirði...

Í gulu tjaldi.

Ég hafði ekki
náð mér í dömu
þetta svarta ágústkvöld

samt var allt troðfull
af sætum skvísum
en þær sáu mig ekki
Það var eins og ég væri
ósýnilegur

það var annað með þig
þær voru á þér
eins og kókós á bollu

ég tölti því dapur í bragði
heim í tjald
sofnaði fljótt
aleinn

um nóttina vaknaði
ég við hnoðið í pokanum þínum
við hliðina
aftur og aftur
fékk ég stuð í bakið
frá taktföstum hreyfingum ykkar

ég sofnaði
fljótlega aftur
og missti af hamingjusömum
endalokunum

morguninn eftir
þegar við snæddum morgunverð;
Vodka og sviðakjamma

spurði ég;
"hver var hún?"

"veit ekki
sá aldrei framan í hana"
svaraðir þú

glottir við tönn
og bættir við;

það er fallegt
myrkrið
í honum Skagafirði
finnst þér það ekki?

 


Veganesti

Nú um miðjan ágúst ætlum við gamli gagnfræðaskólabekkurinn, árgerð 1953 ,að hittast í okkar gamla heimabæ, Ólafsfirði... það verður náttúrulega til þess að maður fer að rifja ýmsa hluti upp, gramsa í gömlum koffortum og blása rykið og kóngulóarvefi af myndum og pappírum... mér gekk ágætlega í skóla, en þegar unglingurinn blés upp í mér... þá fór ýmislegt úrskeiðis um tíma...

...ég vildi einu sinni hætta í skóla, man ekki hvort ég var 15 eða 16 ára... það fór allt á annan endann, mamma og pabbi kölluðu til prest til að ræða við strákinn og reyna að snúa honum!... en hann hélt við sinn keip... eða svona næstum því... skólastjórinn hans var lítill og snaggaralegur náungi, mikill listamaður og sterkur persónuleiki,  gat alveg verið mjög strangur... sá ungi leit upp til hans... litli skólastjórinn kallaði nemandann sinn sem vildi hætta í skóla, á sinn fund.

Þetta atvik og þessi fundur snertu mig mjög mikið og ég í miðjum unglingnum fór að hugsa hvort ég væri virkilega að gera rétt... auðvita snéri hann mér aftur inn í skólann og er ég honum ævarandi þakklátur fyrir það... og það veganesti sem ég fékk út í lífið frá mínum gamla skólastjóra...þetta ljóð lýsir því sem gerðist.

 Veganestið.

Hann horfði
Íhugull
Yfir gleraugun sín

Litli skólastjórinn
Með fallega upprúllaða skeggið
Og spurði lífsleiða
Nemandann sinn
Með Jimi Hendrix hárið:

Ætla þú að verða
Einn af þeim
sem alltaf gefst upp?

Það færist glott
Yfir reynsluríkt
Andlit mannsins
Sem eitt sinn var
Lífsleiði nemandann
Þegar hann rifjar þetta upp

Hann veit
Að þessi orð
Fengu hann
Til þess að þrauka
Lengur en

Jimi


Tilraun

... jæja, nú er ég að prufa smá nýjung, en það er upplestur á ljóðum... fyrir valinu var ljóðið Kexmylsnuljóðið, sem nýverið hlaut verðlaun í ljóðasamkeppninni, "Versta ljóðið heima hjá Halldóri"

... ég er sem sagt búinn að lesa það inn og setja á spilarann hérna að neðan... njótið vel...


Ægir sendi mér bréf

Þá er komið að honum Ægi bloggvini mínum í þættinum "AT-kvæði, ort upp í bloggvini"... nenni ekki að útskýra út á hvað málið gengur núna, en svona lítur þetta út frá kappanum.

 

Ég er alsekki matvandur maður
þó verð ég að viðurkenna
að ég borða sjaldan fisk

einu sinni ætlað ég að bæta úr því
og keypti mér skötusel

sminkaði hann með hvítlauksolíu
og henti á grillið

konan hljóp til vara út í búð
og keypti pylsupakka

svo borðuðum við grillaðar pylsur
og drukkum hvítvín með

sátum þétt saman og horfðum
á skötuselinn malla á grillinu

Kveðja Ægir,


Skrítið fólk

Ég hef gaman af skrítnu fólki, enda sjálfur stór dularfullur. Eitt af því sem ég hef haft gaman að gera, er að semja lög við textana mína og syngja inn á disk. Sá sem hefur séð um að útsetja lögin og spilar undir í þeim öllum og syngur bakraddir, er enginn annars en Jón nokkur Víkingsson, kannski betur þekktur sem Johnny King. Ég er stórskrítinn, segir Johnny oft við mig og ég kinka kolli, ekki mótmæli ég því. En þú ert helvítis snillingur, segi ég þá. Þú ert sjálfur helvítis snillingur, hreytir Johnny út úr sér á móti.

Þegar ég fer í upptöku til Johnny, þá er ég bara með texta og laglínu í farteskinu og stundum eina vatnsflösku; aldrei mjólkurkex... maður syngur ekki vel með mjólkurkex í hálsinum. Síðan setjumst við niður við skemmtarann hans Jóns Víkingssonar og byrjum að raula og útsetja. Það tekur okkur svona 3 klukkutíma að útsetja búa til undirleik og syngja lagið inn, allt klárt þá, svo einfalt er þetta.

Ég samdi texta sem heitir Tréð og lag við... ég vildi ná fílingnum að við píanóið sætu tvær fyllibyttur á bar, það er komið undir morgun og allir aðrir löngu farnir heim... þeir eru orðnir tregafullir og slompaðir.

Við Johnny King erum því að þykjast vera fullir þegar við sungum þetta... við hefðum kannski betur verið fullir!???

Lagi er á spilaranum hér að neðan.

Tréð.

Má ég alltaf þér
vera eins og tré
sem er ætíð á sama stað 
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þegar úti er regn
allt er þér um megn
viltu koma ég verð þitt skjól
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þú ert falleg og blíð
renna tárin þín stríð
ég verð að eilífu hér fyrir þig
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

Þegar sólin skín
þú ert brosmild og fín
þá er tré svo skínandi grænt
þegar vindurinn blæs
þú veist hvar ég er
komdu og sestu við hliðina á mér

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband