Færsluflokkur: Dægurmál

Þar sem ég hvíli mín lúnu bein

Einu sinni var maður sem aldrei gat farið neitt nema að hafa beinin sín með í poka. Maðurinn hét Hamar.

Hamar safnaði fallegum beinum af dýrum, fuglum, kindum, hestum, fiskum og bara öllum beinum sem hann rakst á þegar hann var á gangi úti í náttúrunni.

Hann átti nokkur uppáhaldsbein og hafði þau í litlum strigapoka. Pokann bar hann alltaf á öxlinni þegar hann fór út úr húsi.

Hann gekk oft um sandfjöruna og settist á stóran rekaviðardrumb sem var hálfur á kafi í þurrum sandinum. Þar opnaði hann pokann og tók beinin upp úr honum. Raðaði þeim snyrtilega í kringum sig og talaði við þau.
Eruð þið þreytt greyin að kúldrast svona í pokanum, sagði hann blíðum rómi.

Komið þið út og hvílið ykkur.

Sjáið þið bara æðarkolluna með alla ungana sína, mikið eru þeir fallegir litlu hnoðrarnir, hvar skildi nú pabbinn vera, hélt hann áfram og skimaði eftir blika á haffletinum.

Þennan stað kallaði hann í huganum; Staðurinn sem ég hvíli mín lúnu bein.
.

 getfile

.

Dag einn þegar hann kom í fjöruna sá hann að mannvera sat á rekaviðnum hans. Hún horfði niður fyrir sig og virtist vera að gráta. Hamar gekk að manneskjunni, ræskti sig og hvíslaði; er eitthvað að ?
Ég er búin að týna börnunum mínum sagði mannveran og leit upp. Hamar sá að þetta var ung stúlka; hún var með kolsvart hár og dökk augu sem voru á floti í tárum.

Börnunum þín sagði Hamar... ert þú ekki full ung til að eiga börn ? Ég bara kalla þau börnin mín en þau eru bara bein svaraði stúlkan og snökti.
Nú,  ertu að safna beinum eins og ég sagði Hamar... ég skal bara gefa þér mín bein bætti hann við og rétti henni pokann. Hún tók við honum.
Opnaðu pokann og skoðaðu þau sagði Hamar... stúlkan gerði það og tók andköf.... þau eru svo falleg.... ertu viss um að þú tímir að gefa mér þau... já, já ég á miklu fleiri heima svaraði Hamar og sá að stelpan var öll að hressast...  takk, nú er ég glöð sagði hún og brosti eins og sá brosir sem tekur gleði sína aftur.

Ég ætla að gefa þér eina gjöf líka sagði dökkhærða stúlkan við Hamar... hér er steinn, sagði hún og rétti honum flatan dökkgrænan stein... þetta er lukkusteinn og ef þú berð hann alltaf á þér verður þú hamingjusamur í lífinu... og þar að auki veitir hann þér eina ósk þegar þegar þú vilt...
.

pebble-beach-driftwood
 .

Framhald.


Beikon

Þegar við viljum gleðja aðra þá föllum við stundum í þá gryfju að gefa eitthvað sem OKKUR þykir gott, því við hugsum að það sem okkur þykir gott þykir öðrum gott líka, það hlýtur bara að vera þannig.

En eins og við vitum líka, þá höfum við ekki alltaf á réttu að standa, sem er bara hið besta mál.

Þessa sögu sagði maður mér í dag sem hefur verið kaupmaður í langa tíð, mjög góður kaupmaður og vandaður í alla staði. Gefum honum orðið;

Í nágrenni við búðina mína bjó gamall maður. Hann hringdi alltaf í mig og pantaði það sem hann þurfti í matinn. Ég tók matvælin til, setti í kassa og sendi heim til hans. Svona gekk þetta í langan tíma. Einn daginn rakst ég á gamla manninn þar sem hann sat á bekk í garðinum sínum. Ég stoppaði við grindverkið og spjallaði aðeins við hann um heilsuna og veðrið. Spurði svo að lokum hvort allt væri ekki í lagi varðandi heimsendingarnar á matnum. Jú, svaraði gamli maðurinn; það er allt í góðu en áttu aldrei til gott beikon ?
Beikon, sagði ég hissa; ég vel alltaf sjálfur besta beikonið fyrir þig það sem er með minnstu fitunni.
Já en,  svaraði gamli maðurinn... mér finnst beikon sem er feitt miklu betra.
.

 beicon%20normal

.

 


G.E. Hannesson

Hér sit ég og horfi út um eldhúsgluggann. Búinn að fara út á verönd og anda að mér sumrinu, þvílíkur dagur, þvílíkt veður.

Sumardagurinn fyrsti hefur svo oft verið kaldur og langt frá því að minna nokkuð á sumarið en núna ber hann svo sannarlega nafn með rentu.

Lítum á lítið sumarkvæði eftir G.E. Hannesson;

Nú leika sér kisur og kálfar
Kolsvartir krummar og álfar
Á himninum situr
Hann Guð alvitur
Og heldur að við séum bjálfar

Já hann Guð er ekki öfundsverður af sínu hlutskipti. Við hérna á jörðunni erum svo óþekk og brjótum allar reglur sem hann setti okkur, oft á dag... hugsið ykkur, íbúafjöldi jarðar er 6 milljarðar, já takk 6 milljarðar... þetta er ekki neinn venjulegur leikskóli... og í venjulegum leikskóla eru a.m.k. 6 fóstrur eða hvað það nú heitir og það er brjálað að gera hjá þeim.

Nei Guð er sko ekki neinn venjulegur maður (eða kona ?) og afar sjaldgæfur... mér finnst hann standa sig prýðilega miðað við umfang verkefnisins.

Góðir hálsar og einnig þið sem eruð með hálsbólgu; látum G.E. Hannesson eiga síðasta orðið;

Hvar væri ég án þín ?
Indæla ástin mín.
Hvað væri fluga án suðs ?
Hvar værum við án Guðs ?
.

windowcat

.

Gleðilegt sumar ! 

 


Stjórnarbylting

Það er greinilega orðin stjórnarbylting á Íslandi. Forsetinn ræður yfir ríkisstjórninni og segir bara og gerir ALLT sem honum sýnist.

Á erlendri grundu og í erlendum fjölmiðlum talar hann og hegðar sér eins og sá sem valdið hefur. Mér sýnist hann líka vera farinn að trúa því sjálfur að hann stjórni Íslandi einn en ekki Alþingi eða ríkisstjórn.

Eigum við ekki að fara að setja kallinn með ljósu lokkana í þjóðaratkvæðagreiðslu ?
.

monkey-thinking

.


mbl.is Óábyrgt að draga fjöður yfir goshættuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar fótanuddtæki

Þar sem fótanuddtækið mitt bilaði í gær auglýsi ég hér með eftir notuðu fótanuddtæki. Ég nota það daglega svo ég er hálf vængbrotinn eða eins vængbrotinn eins og maður sem ekki er engill getur verið.

Flest þessara gömlu tækja voru blá á litinn en mitt bilaða er bleikt. Og þar sem ég er svo vanafastur þá get ég ekki farið í fótanuddtæki ef það er blátt eða grænt.

Er einhver úti í hinum stóra heimi sem á bleikt fótanuddtæki sem hann getur selt mér ?
.

toose

.


Peppe

Einu sinni var maður sem hét Peppe.

Þið mynduð kannski halda að hann hefði verið Spánverji eða Ítali og hefði heitið fullu nafni Giuseppe og bara verið kallaður Peppe? En svo var ekki.

Peppe var Íslendingur og hann var róni enda uppnefndur af mönnum og málleysingum og aldrei kallaður annað en Pepperóni.

Það er þannig að þegar að maður hættir að vera venjulegur og verður róni þá breytist margt, sagði Peppe einu sinni við mig þar sem við sátum á bekk rétt hjá andapollinum. Hvað meinar þú Peppe sagði ég með minni mjúkustu röddu.

Jú, maður hættir að þurfa að þrífa sig og getur gengið um í grútskítugum fötum og verðið með skítugan hárlubba og skegg niður á bringu. Síðan þarf maður ekki á virðingu annarra að halda, hún bara hverfur, vinirnir hverfa. Svo er það einn og einn sem er aumingjagóður eins og þú sem nennir að tala við mig... það dugar mér alveg og svo sambúðin með Trölla.

Trölli var hundur, svona meðalhundur að stærð með rosalega stórt höfuð og kjaft eins og flóðhestur.
Hann var loðinn,  dökkbrúnn og hvítur að lit og vék aldrei frá húsbónda sínum. Þeir voru drykkjufélagar. Fullir saman, þunnir saman, skítugir saman.

En Peppe, sagði ég. Hvernig stendur á þessu nafni þínu Peppe ? Þetta er ekki íslenskt nafn. Nei, rétt er það ég átti að heita Pétur eins og hann afi en þegar ég var skírður þá stamaði afi, sem hélt á mér undir skírn, svo mikið að hann gat aldrei sagt annað en Pep Pe, Pep Pe. Prestinum fannst það svo flott nafn að hann tók það gott og gilt og svo hló Peppe ógurlega svo sást í svartar tennurnar í gegnum kafþykkt skeggið.

Annars er það mitt mottó í lífinu að maður eigi aldrei að gera flugu mein því að þá fá fuglarnir og fiskarnir minna að borða sagði Peppe um leið og hann stóð upp af bekknum og danglaði fæti í Trölla sem sofið hafði við fætur hans á meðan.

Hann gekk í burtu án þess að kveðja. Endurnar á pollinum gáfu frá sér aðvörunarkvak þegar þær sáu Trölla skakklappast meðfram bakkanum.
Eftir sat ég og vissi ekki hvort mér fannst lífið flóknara eða einfaldara en áður.
.

Duck_007_019

.

 


Bræðurnir og dúfurnar

Einu sinni voru tveir bræður. Þeir hétu Feill og Greipar.

Feill var rauðhærður og freknóttur en Greipar bróðir hans var ljóshærður og bláeygður.
Þeir bjuggu heima hjá mömmu og pabba í litlu fallegu húsi ekki langt frá þorpinu.

Foreldrar þeirra voru  bændur og lifðu á dýrum þeim sem þau höfðu og grænmetinu sem þau ræktuðu.
Á bænum voru geitur og hænur og hestar og kindur og kýr og kanínur.
Feill og Greipar áttu dúfnabú. Þeir höfðu skyldum að gegna á bænum. Þeir þurftu að gefa kanínunum og hænunum, moka fjósið, reka kýrnar, setja niður kartöflur og kál og reita svo arfann úr garðinum.
.

potatos
.
Verkefnin voru mörg á hverjum degi en þegar þeim var lokið fór allur tíminn í dúfurnar. Þeim fannst gaman að halda á þeim og láta þær borða úr lófanum og tala við þær.
Allar báru þær nöfn eins og Elding, Babú, Hvöss, Máni og Sól.

Einn dag var úrhellisrigning. Þrumur og eldingar og brjálað veður. Pabbi og mamma voru ekki heima, höfðu farið inn í Dalina að skoða aligæsir sem þau langaði að kaupa.

Feill og Greipar voru hjá dúfunum þegar óveðrið skall á. Þeir settu þær strax í pappakassa og hlupu með þær heim í hús.

Óveðrið stóð í tvo daga. Ekkert heyrðist frá mömmu og pabba. Strákarnir slepptu dúfunum lausum. Þær flögruðu um allt húsið og skitu þar sem þeim sýndist.

Þegar mamma og pabbi komu loksins heim var húsið allt í rúst.

Foreldrarnir voru ekki kát með heimkomuna þegar þau sáu útganginn á húsinu.
Þau horfðu á drengina og vissu varla sitt rjúkandi ráð. Loks sagði pabbi við mömmu.

Ég skal taka Feil og setja hann í bað meðan þú lætur Greipar sópa.

Líkur hér sögunni af bræðrunum og dúfunum þeirra.
.

 aaaaa

.


Hillan

Hann stóð í bókahillunni, hélt á risastórum fiski og brosti fallega þótt hann væri ljótur og dvergur þar að auki. Fiskurinn var nærri því jafnstór og hann. Augu fisksins störðu tóm út í loftið. Hann var dauður.

Langt og mjótt nef dvergsins teygði sig í gegnum kolsvartan hárlubbann. Á höfðinu bar hann einskonar Mexícanahatt.

Rétt hjá honum á sömu hillunni sat álfastelpa. Hún var í rauðum kjól og með rauðan hatt sem allur var skreyttur ávöxtum. Í vinstri hendi hélt hún á rauðbrúnum fugli. Hún brosti til dvergsins.

Bak við álfastelpuna var önnur lítil álfastelpa og sú hélt á hjarta. Hvítu hjarta með rauðum doppum. Hún stóð rétt hjá bangsanum í smekkbuxunum. Bangsinn var með svört augu og svart nef. Hann starði út í loftið með þreytubrosi enda hafði hann aldrei á ævinni sofið. Hann vissi ekki af þeim möguleika.

Í hillunni var líka broddgöltur. Hann var með veiðistöng og reyndi að fiska í rykinu vongóður á svip.  Við hlið hans sat grænn engill. Hann var líka brosandi eins og nágrannar hans. Hann var með stór tindrandi augu og litla vængi. Á höfðinu bar hann hárband úr gulli.

Reykelsi, fleiri hjörtu í allskonar útgáfum, leðurhálsmen og armband, rúnir í leðurtuðru, Völuspá og útlendir smápeningar í plastpoka lágu hér og hvar á hillunni. 

Skemmtileg hilla hugsaði ég og teygði mig í Sauðavöluna, setti hana á höfuðið, fór með þuluna, bar fram spurninguna og lét Völuna falla á litla skrifborðið mitt.

Bungan kom upp.

Á eftir gekk ég að glugganum og horfði út. Mikið rosalega var tunglið fullt.
.

 full_moon

.


Tölurnar duttu.

Ég var að grobba mig um daginn að hafa fest tölur í buxur. Það hefði ég ekki átt að gera.
Ég mátti vita að Guð fylgdist með mér og myndi stríða mér á þessu og sýna mér í leiðinni hvað ég væri ófullkominn.

Nú eru tölurnar dottnar af báðum buxunum, þeim brúnu og þeim gráu.

Mikið rosalega er ég spældur... ég sem vandaði mig svo mikið.

En eigum við ekki bara að kenna tvinnanum um ?

Nú ætla ég að fara í veiðidótið og ná mér í girni.  Ætli það sé ekki alveg skothelt ?

Skoðum að lokum hvað G.E. Hannesson segir um þennan dag:

Þessi dagur kemur aldrei aftur og það sem þú gerðir ekki í dag verður kannski aldrei gert.
.

 img-thing?

.

Best að drífa sig út með ruslið.


Myndarlegur ?

Þegar karlmönnum tekst að festa tölur í buxur þá er stundum sagt;

Mikið rosalega ertu myndarlegur.

Ég afrekaði það í dag að festa, ekki eina tölu, heldur tvær tölur í gráu buxurnar mínar og þær brúnu líka.

Leit svo í spegil á eftir og varð fyrir töluverðum vonbrigðum.
Ég hafði bara nánast ekkert lagast.

Ég er samt ekki frá því að það hafi verið smá grobbblik í vinstra auga.
.

button4

.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband