Hvað eruð þið að pæla?
21.3.2009 | 10:23
Það er svo margt sem maður hugsar ekkert út í... nú, kunnið þið að spyrja... eins og hvað?
Hafið þið t.d. hugsað út í það hver það var sem fann upp rörtöngina?
Vissi það, þið hafið bara aldrei pælt í því.
Hafið þið einhvern tímann hugsað út í það hvernig blýið er sett inn í blýantana?
Vissi það, þið eruð aldrei að pæla í blýöntum... haldið þið kannski að þeir fæðist bara svona?
Af hverju hefur drullupollum fækkað á Íslandi svo þeir eru nánast í útrýmingarhættu?
Vissi það, þið eruð bara ekkert að pæla í drullupollum.
Þá spyr ég; hvað eruð þið eiginlega að pæla???
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Tvær sálir
19.3.2009 | 23:09
Svo undarlegt er sálir mætast tvær
sem þekkjast síðan einhvern tíma fyrr
þar birtist sanna ástin, alveg tær
og hugurinn er sáttur, glaður, kyrr
Svo ferðast þær um friðsæl ókunn lönd
og fá að njóta samvistar um hríð
þær ganga alltaf saman, hönd í hönd
og hjörtun slá í takti alla tíð
Að endingu þá skiljast þeirra leiðir
þær horfast lengi í augu, fella tár
að kveðja vin sinn, gamlar sálir meiðir
þær sakna og finna til í þúsund ár
Höf: AE/GG
.
.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Reynir
16.3.2009 | 21:30
Hver er þessi Reynir sem á svona mikið...
Enginn veit fyrr en Reynir á hvort vini áttu þá.
Þegar Reynir okkur á og erfiðleikar magnast þá.
Reynir.
Hann Reynir á rennandi á
Hann Reynir á allt sem má sjá
Hann Reynir á mig
Hann Reynir á sig
Hann Reynir á Reynir Á.
.
.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hugurinn
15.3.2009 | 11:26
Þá er komið að sunnudagshugvekjunni.
Hafði þið velt því fyrir ykkur hvað hugur ykkar er sterkur. Hann tekur ákvarðanir um hvert lappirnar á okkur ætla að ganga í dag. Hann tekur ákvarðanir um hvað við ætlum að segja í dag. Hann tekur ákvarðanir um hvað við ætlum að gera í dag.
Kannski segir hann; best að vera latur í dag. Og þá án þess að þú ráðir nokkuð við það hendir skrokkurinn sér upp í sófa og liggur þar í leti lungað úr deginum.
Kannski langar þig virkilega að slappa af í dag en þá er hugurinn ekki á sama máli og vill fara í sund. Það er sama hvað þú segir í sund skaltu fara því hugurinn ræður för.
Kannski ertu í megrun og ætlar virkilega að standa þig en hugurinn kallar á sælgæti. Það endar með því að þú úðar í þig súkkulaði og lakkrís þangað til þú færð sykursjokk.
.
.
Svo er sagt að hugurinn beri þig hálfa leið... þetta er náttúrulega alrangt... ég hef þurft að ganga sjálfur þangað sem ég vil fara og það er ég sem burðast með þennan blessaða huga daginn út og daginn inn.
En hann (hátt hreykir heimskur sér) situr í toppstykkinu og snýr mér í hringi sér til ánægju.
Með óskum um að dagurinn verði ykkur góður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
United í góðum málum!
14.3.2009 | 15:03
Það er ljúft að mega tapa fyrir litlu liðunum og vera samt öruggir með titilinn...
Skrítinn leikur annars þar sem United var betri aðilinn allan tímann en fá svo á sig nokkur aulamörk...
Rauða spjaldið á Vidic var náttúrulega rugl...
Það mætti svo skrifa langan kafla um dómarann í þessum leik en ég sleppi því... ég er í fínu skapi.
En ég hef örugglega kafla um þennan dómara í ævisögu minni sem á að heita
"Ég og Alex"
En til hamingju Liverpoolarar... það hefur verið svo erfitt hjá ykkur upp á síðkastið að ég bara samgleðst ykkur!
.
.
Brattur, aldrei sár... bara tapsár...
![]() |
Liverpool fagnaði stórsigri á Old Trafford |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kötturinn hjálpar í kreppunni
14.3.2009 | 11:30
Við erum með 2 ketti og 1 hund á heimilinu.
Sambúðin gengur ágætlega. Femína er vinur kattanna, en þeir eru aðeins að kýta sín á milli kattaskammirnar.
Rétt hjá okkur er einbýlishús sem er fokhelt. Við það hefur ekkert verið unnið síðan 6. ógurlega þegar kreppan tók völdin.
Katla litla er mjög prúð og fín en afskaplega feimin. Hún hleypur alltaf í felur þegar gestir koma í heimsókn og lætur lítið fara fyrir sér á meðan. Hún er heldur ekkert fyrir kass og kjamm og knús.
Depill, sá stóri fer sínar eigin leiðir. Hann hverfur út á vit ævintýranna í lengri eða skemmri tíma. Svo kemur hann heim og er svangur og vill kela við heimilsfólkið.
.
.
Nú var vont veður í nótt og hann úti... við höldum að hann hafi gist í einbýlishúsinu fokhelda og hann sé í raun fluttur þangað. Kemur bara annað slagið í heimsókn til okkar.
Nú var ég að hugsa hvort ég þurfi ekki að láta flytja lögheimili hans og láta póstinn vita. Láta síðan senda honum alla reikningana, rafmagnið, hitann, símann og allt heila klabbið.
Er þetta ekki gott ráð í kreppunni... láta gæludýrin borga?
Depill.
Ég þarf ekki lengur að geym´ann
Ég læt mér duga að dreym´ann
Eg læt svo yfirvöldin
senda fasteignagjöldin
á köttinn sem flutti að heiman
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Litli Liverpoolarinn
13.3.2009 | 17:46
Nú eru Liverpoolarar virkilega orðnir kvíðnir fyrir morgundeginum... um það segir í bundnu máli:
Litli Liverpoolarinn.
Ef þú getur ekki sofið
Og allt hjá þér er dofið
Fáðu þér þá hálfa
Töflu fyrir bjálfa.
Þú skelfur bara og svitnar
Þinn ótti vex og fitnar
Hjartsláttur þinn er hraður
Ertu mús eða maður?
Þú ert allt annað en keikur
Í framan ertu bleikur
Bumban þín er stór og hlý
Ertu frændi Sammy Lee?
Þú ert svo mikið flón
Í slitnum takkaskóm
And you´ll always, always, always
Walk alone.
.
.
![]() |
Benítez: Verðum að vinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sá sem bjó til íslenskuna
10.3.2009 | 21:59
... rosalega er það skrítið að tala um að "sofa yfir sig"... hafið þið pælt í þessu... og svo borðar maður líka yfir sig... það er eins og maður sé alltaf á lofti fyrir ofan sig...
Það er ekki nema von að maður sé undarlegur.
... en svo pissa litlu börnin undir... sá sem bjó til íslenskuna hefur örugglega ekki viljað segja að þau pissuðu yfir sig... ég er honum þakklátur fyrir það.
Annars finnst mér að sá sem bjó til íslenskuna hafi að mörgu leyti staðið sig býsna vel. Samt má finna að ýmsu... hann notar t.d. orðið hljóð einkennilega...
Dæmi; Ræðumaður þakkar gott hljóð... sem þýðir að ekkert heyrðist í áheyrendum... en svo allt í einu brotnar flaska og þá segir einhver; hvaða hljóð var nú þetta?
Er þetta ekki svolítil fljótfærni hjá þeim sem bjó til íslenskuna?
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þarftu á vini að halda?
9.3.2009 | 23:17
Hér hefst nýr þáttur á síðunni sem mun verða á dagskrá af og til og stundum.
Hann heitir "Brattur gefur hollráð, ókeypis".
Ef þú þarft á vini að halda, þá er besta ráðið að velja svona 10 manns í úrtökuhóp af þeim sem gætu kallast vinir þínir eða kunningjar.
Hafðu með þér baðvogina og láttu hvern og einn stíga á vigtina.
Skráðu niður nafn og þyngd hverrar manneskju í litla bláa dagbók sem kemst í rassvasann.
Því næst þegar heim er komið, skaltu færa nafn hvers og eins inn í Excel skjal ásamt símanúmeri.
Nr.1 er sá sem er léttastur nr. 2 er sá sem er næst léttastur o.s.frv.
Svo þegar kemur að því að þú þarft á vini að halda, þá hringir þú í þann sem er léttastur. Ef hann svarar ekki eða er vant við látinn, þá hringir þú í nr. 2
Því ef þú þarft á vini að halda, þá heldur þú alltaf á þeim sem léttastur er og færð síður í bakið.
Þetta var ókeypis hollráð í boði Bratts.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Af hverju er ég hryggur?
8.3.2009 | 19:56
Var að velta því fyrir mér af hverju maður segir að einhver sé hryggur?
Af hverju er ekki sagt að maður sé læri eða kótiletta?
Svona getur þetta litið út í talmáli:
Brattur, hvað er eiginlega að sjá þig maður, af hverju ertu kótiletta?
Eins og þið sjáið þá breytir þetta aðeins íslenskunni... Bara svona að velta þessu fyrir mér.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)