Raggi ruslahaugur

Raggi ruslahaugur var hann kallaður.

Hann var eins og gangandi ruslahaugur. Hárið mikið og úfið, stóð beint út í loftið, skítugt.
Hann var með stórt bogið nef og blá augu sem voru full af visku. Hann var með stórt hökuskarð í útstæðri hökunni og spékopp sem var alltaf fullur af skít á vinstri kinn. Raggi lyktaði þó ekki eins og ruslahaugur, nei þvert á móti lyktaði hann eins og ilmvatnsbúð. Hann keypti rakspíra og konuilmvötn á tveggja vikna fresti og naut þess að úða þessum vötnum á sig í tíma og ótíma.

Raggi var langur. Var það sem kallað er sláni. Hann var alltaf í dökkbrúnum buxum með gati á rassinum svo sást í gular nærbuxurnar. Hann var oftast í grænni og svartri skyrtu, köflóttri.
Þegar hann fór út úr húsi sveipaði hann yfir sig pýramídagulum Mokkajakka sem Óli Greipur hafið gefið honum fyrir 28 árum.

Dag einn þegar Raggi var í fótabaði að horfa á matreiðsluþátt í sjónvarpinu, þá var bankað á útidyrnar.
Fótabað var eina baðið sem Raggi fór í, að öðru leyti var hann ekki mikið fyrir vatn. Hann átti ekki von á neinum, svo þetta hlaut að vera sölumaður. Hann teygði sig í óhreint viskustykki  og þurrkaði á sér tærnar.
.

 drawings-2

.

Fyrir utan stóð maður, feitur, skeggjaður, gráhærður. Hvað get ég gert fyrir þig ? spurði Raggi. Ég er kominn til að ná í Mokkajakkann minn svaraði sá feiti og hló.

Raggi horfði í grá augun feita mannsins og sagði; ert þetta þú Óli... ert þetta þú Óli Greipur ???

Já, Ragnar ruslahaugur, þetta er ég... og ekki reyna að segja við mig; Þú hefur ekkert breyst !

Komdu inn gamli, nú skulum við opna flösku ég hef hvorki heyrt þig né séð síðan þú gafst mér Mokkajakkann forðum... abababbb... sagði Óli, lánaði... ég gaf þér ekki jakkann, ég lánaði þér hann.

Um nóttina sátu þeir félagar í stofunni heima hjá Ragga ruslahaug, drukku rauðvín og sögðu hvor öðrum lífssögu sína. Þeir hlógu og þeir grétu og þeir sungu við kertaljós... fóru fram í eldhús, steiktu egg og beikon og nöguðu kjúklingaleggi sem orðið höfðu afgangs fyrr í vikunni.

Um það leyti þegar fólk fór til vinnu um morguninn sigraði svefninn Óla Greip þar sem hann lá í rauða sófanum í stofunni... Raggi náði í pýramídagula Mokkajakkann og breiddi yfir hann, renndi höndunum í gegnum skítugan stífan lubbann og hugsaði; best að fara að leggja sig líka.
.

 5240428607_9428dbe850

.


Orð í tíma töluð

Ójafnréttið stingur sér niður á hinum ólíklegustu stöðum... jafnvel hefur það grafið um sig í íslensku máli án þess að nokkur hafi tekið eftir því... fyrr en nú, að ég vil benda ykkur á hvað er að gerast;

Ef sagt er að maður (karlmaður) sé kaldur... þá er meint að hann sé svalur, kúl... töffari.

Ef það sama er sagt um konu, þ.e. að hún sé köld... þá er hún sko ekki svöl... nei, ekki aldeilis, þá er meint að konan sé eins og járnklumpur, hjartalaus... miskunnarlaus... heimsskautajökull.

Ef talað er um að karlmaður sé mjúkur... þá er átt við að hann sé ekki karlremba heldur hafi eiginleika sem konum líkar við... þ.e. duglegur við húsverkin og vökvar jafnvel Aloe Vera plöntuna í stofunni.

Ef kona er sögð mjúk, þá er allt annað uppi á teningnum eins og við vitum... þá er ekki átt við að hún sé dugleg að vaska upp eða dugleg að spinna ull ... nei, mjúka konan er nefnilega í þéttari kantinum meðan mjúki karlinn getur hæglega verið tágrannur.
.

MillerThinMen-big 

.
En konur hafa samt, síðustu áratugina, náð mjög langt í jafnréttinu... en það hefur ruglað íslenskuna í ríminu og mig líka... á Alþingi er kona ávörpuð; Frú forseti... Ég verð alveg að viðurkenna að ég er ekki alveg að ná þessu... svo eru konur orðnar prestar líka, mýgrútur af konuprestum út um allt... hvort á maður þá að segja hún presturinn eða hún prestan ?

Þar sem ég er bæði mjúkur og kaldur karl þá er ég alveg til í að aðlaga mig að þessum breytingum í íslensku máli... en eitt mun ég aldrei geta sagt, jafnvel þó að konur geti einhvern tímann orðið það;

En það er;

Hún afinn.
.

sontu_tea_cup

.


Áskorun til forseta Íslands.

Nú er farið að nefna Ólaf Ragnar, Lúkas, Jesús og Framsóknarflokkinn í sömu andrá.

Ég ætla nú að taka upp hanskann fyrir Jesús vin minn og biðja menn um að vera ekki að bendla hann oftar við Framsóknarflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn berjast hinsvegar hatrammri baráttu um forseta vorn. Báðir vilja þeir eignast gersemið og er baráttan mjög tvísýn.

Sjálfum finnst mér Ólafur meiri Sjálfstæðismaður í dag heldur en Framsóknarmaður. Það kæmi mér ekkert á óvart þó Ólafur Ragnar byði sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á næsta landsþingi.

Ólafur er nefnilega búinn að sjá að hann nær að öllum líkindum ekki kjöri ef hann fer í forsetaframboð einu sinni enn. Það yrði ferkar sneypulegt fyrir hann að enda forsetaferilinn á því að vera hafnað af þjóðinni.

Því skora ég hér og nú á Ólaf Ragnar Grímsson að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Óli, viltu bjalli í mig út af þessu máli, ég er með nokkra góða punkta handa þér í þetta plan... þú lest bara inn á talhólfið mitt eða smessar á mig ef þú nærð ekki í mig. (Ég er enn með sama númerið).
.

 crop_500x

.

ps - Bjarni Ben. má alls ekki frétta af þessu.

 


mbl.is Forsetinn er týndi sonurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2/3 ætla að samþykkja Icesave.

Ég gerði skoðanakönnun í heita pottinum, kvöld eitt fyrir skemmstu.

Við vorum þrír karlar í pottinum, ég, Palli og maður sem ég þekki ekki en leit út fyrir að heita Magnús.

Ætlið þið að samþykkja Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni ? spurði ég.

Palli sagði hiklaust JÁ en maðurinn sem leit úr fyrir að heita Magnús var óákveðinn. (Hann vildi kynna sér málið betur, gat nú verið).

Ég sagði JÁ eins og Palli.

Þessi skoðanakönnun bendir því til þess að 2/3 Íslendinga ætli að samþykkja Icesave lögin en 1/3 er óákveðin... enginn á móti. Þar kom að því að við Íslendingar stæðum saman.

Að lokum, þar sem langt er nú um liðið síðan ég hóf raust mína upp hér á blogginu, langar mig að rifja upp þessa fallegu barnasögu sem ég lærði árið tvöþúsund og Icesave eitt;

Einu sinni var broddgöltur sem hélt að hann væri eiturslanga, einu sinni var eiturslanga sem hélt hún væri kind, einu sinni var kind sem hélt hún væri gíraffi, einu sinn var gíraffi sem hélt hann væri nashyrningur, einu sinni var nashyrningur sem hélt að hann væri tófa, einu sinni var tófa sem hélt hún væri asni og einu sinn var asni sem hélt að hann væri forseti Íslands.
.

SOMETHING-DONKEY

.


mbl.is Icesave-málið ekki það stórt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp á hól og bak við stól.

Það eru nokkrir hlutir sem mig vantar en þó vantar mig ekki neitt.

Ég hef verið að leita að búð sem selur ról en það virðist bara engin vera með þetta.

Þegar ég klæddi mig í morgun og var kominn á mitt ról þá tók ég eftir því að það var komið gat á það. Það er ekki nema von að rólið manns slitni með tímanum. Maður fer á það á hverjum einasta drottins degi. Það er bara rétt um blánóttina sem maður fer af því og leggur það við rúmgaflinn.

Ef einhver veit um búð sem selur ról þá má hann láta mig vita.

En ég vil bar eitt ról því það getur farið illa fyrir þeim sem eru gráðugir og vilja eiga mörg ról... við skulum muna hvernig fór fyrir henni Grýlu...

Nú er hún Grýla gamla DAUÐ gafst hún upp á rólunum.
.

hronn1

.

Annað sem ég er í smávandræðum með er látúns hálsgjörð. Eins og alþjóð veit þá eigum við kött sem heitir Snati. Mig langar svo rosalega að gefa honum látúns hálsgjörð í jólagjöf.

Í jólastússinu á heimilinu finnst okkur voðalega notalegt að spila jólalög.

Eins og alþjóð veit þá er Snati ekki eini kötturinn á heimilinu... nei við eigum líka Kötlu, Tevez, Alexöndru, Tígra, Freknu, Gretti og Hróa Kött. Ég var næstum því búinn að gleyma Depli gamla en hann er svo sjaldan heima.

Köttunum finnst líka rosalega gaman að hlusta á jólalögin. Í leiðinni eru þeir að æfa sig í því að fella jólatréð. Þeir ráðast á blóm sem er svona einn metri á hæð og skella því í gólfið. Þeir iða í skinninu og hlakka rosalega til jólanna. Geta varla beðið eftir því að við setjum jólatréð upp. Við vorum að hugsa um að skreyta það ekki neitt, hafa bara toppinn á því þessi jólin.
.

 hangir

.

Það er þó eitt jólalag sem kettirnir þola ekki og eru reyndar skíthræddir við og það er náttúrulega;

"Út með jólaköttinn"

Ég get nú stundum verið stríðnari en púkinn á fjósbitanum og á það til að syngja ÚT MEÐ JÓLAKÖTTINN... hann hefur unnið heljarmikið tjón... út með jólaköttinn... kvikindið er loðið eins og ljón...  svona upp úr þurru. Þá tvístrast kattahjörðin og skýst á bak við sófa og stóla... það er svakalega gaman.

En það er best að enda þetta jólaguðspjall á þessum heimsþekkta jólasálmi.

Úti grimmur vetur, ógnarkalt
Frost og hríðarbál.
Í húsi mínu hef ég allt.
Sem gleður mína sál.
Þar malar köttur, hrýtur tík
og feg
urð þín er engu lík
Ekkert þarf ég fyrir jól
nema hlýju þína og skjól.
.

 

tvíburar

.

 


Mennirnir hennar Grýlu.

Það voru einhverjir menn að tala um Grýlu í útvarpinu í morgun.

Ég keyrði eftir þjóðveginum snemma í morgun. Það var niðdimmt en stjörnurnar voru þó komnar á fætur og vísuðu veginn. Nei, ég segi nú bara svona til að vera skáldlegur. Auðvitað lýstu bílljósin mér veginn.

En áfram með söguna.

Í þessu útvarpsspjalli kom ýmislegt í ljós sem ég hafði ekki vitað um áður.

Grýla var tvígift. Fyrri maður hennar hét víst Boli en sá seinni Leppalúði. Vissulega kannaðist ég við Leppalúða en á Bola hef ég aldrei heyrt minnst.

Í útvarpinu kom fram að Leppalúði var ekki pabbi jólasveinanna, hann var bara fósturpabbi þeirra. Ég held að Boli hafi heldur ekki verði pabbi neins.

Nei, Grýla var víst svona lauslát. Hún átti jólasveinana einn og átta og þrettán með fullt fullt fullt af mönnum.
.

 grylaogfelagar

.

Þegar heim var komið um kvöldið sagði ég konunni frá því hvað ég hafði heyrt í útvarpinu. Konu minni fannst ótúlegt hvað Grýla hafi haft mikinn séns miðað við útlitið.

Nú er ég að spá í það hvaða gæjar þetta voru sem áttu jólasveinana með henni Grýlu.

Það þarf ég að rannsaka... læt ykkur vita um leið og ég hef upplýsingar um það.

 

 

 

 

Nú er ég búinn að rannsaka og niðurstaðan kemur á óvart.

Grýla var þrígift. Fyrst giftist hún Bola, næsti hét Gusti og svo giftist hún Leppalúða sem er samkvæmt mínum heimildum, pabbi jólasveinanna. Nú er ég ánægður. Hef alltaf kunnað svo vel við Leppalúða.

Grýla át víst bæði Bola og Gusta.

Þessi saga endar því vel.


Pósturinn - allur pakkinn

Ég fór með pakka á pósthúsið í morgun.

Það er greinilega langt síðan ég hef sent pakka. Ég fékk nefnilega spurningu frá afgreiðslukonunni sem ég hafði aldrei fengið áður.

Viltu rúmfreka sendingu eða skráða sendingu ? spurði hún.

Ég hafði ekki hugmynd hvora gerðina ég vildi og spurði á móti hver væri munurinn.

Eftir langa útskýringu afgreiðslukonunnar komst ég að því að ég gæti valið um það hvort að pakkinn týndist eða þá að hann kæmist örugglega á leiðarenda.

Ég valdi þann kost að kaupa undir pakka sem týndist ekki... en það var töluvert dýrara en að kaupa undir pakka sem átti að týnast.

Fór svo í framhaldinu að velta fyrir mér hvers konar fólk velji þann kostinn að borga undir pakka sem á að týnast ???
.

package

.


Af mér og Alex, járnsmiðum og svörtum köttum.

Já, vissulega hafa þessir leikir á útivelli í haust verið erfiðir. United hefur kastað frá sér sigrum á móti Everton og Fulham en í leiknum gegn Sunderland þá náðum við stigi og við Sir Alex erum bara nokkuð sáttir. Að ná jafntefli við svörtu kettina á leikvangi ljósins er ekki svo slæmt, ha ?
.

 Sir Alex Ferguson looks on as United battle to a fourth straight away draw in the league

.

Gleymum ekki að Sunderland missti unninn leik niður í jafntefli á Anfield um daginn. Og talandi um Liverpool vini mína þá eru þeir í 18. sæti og fallsæti í dag, alveg eins og ég óttaðist í byrjun leiktíðarinnar. Þeir eiga þó léttan leik fyrir höndum í dag þegar þeir mæta Blackpool og með sigri fara þeir úr 18. sæti í það 9.
ÁFRAM LIVERPOOL !!!

Ég hef reyndar alltaf haft taugar til Blackpool svo ég held með þeim líka í dag.
ÁFRAM BLACKPOOL !!!

En það er fleira en gengi Liverpool sem liggur þungt á mér þessa dagana.

Sunderland gengur undir gælunafninu "Svörtu kettirnir". Það eru einmitt kettir eða réttara sagt katta óvinir sem valda mér hugarangri á þessum fallegu haustdögum. Reynitréð í garðinu er fallegra en nokkurt málverk eftir Kjarval eða Moussepore þar sem það stendur virðulegt í horninu sínu, fölgrænt og haustgult skreytt eldrauðum berjum sínum.

Kettir landsins eiga í vök að verja þessa dagana. Hvert sveitarfélagið af öðru gerir nú harkalegar árásir á þessi dásamlegu dýr og vilja setja þau í bönd og skerða frelsi þeirra og lífsgæði á allan hátt. Í hruninu er mikið talað um jafnræðisregluna; þ.e. að allir eigi að fá sömu meðferð fyrir lögum. Af hverju gildir jafnræðisreglan ekki um ketti líka ?

Það er talað um að kettir pissi og kúki út um allt. Gera járnsmiðir það ekki líka ? Þá meina ég þessar litlu svörtu pöddur sem við köllum járnsmiði en ekki þessa stóru í bláu vinnugöllunum. Ég veit ekki annað en að þeir litlu svörtu pissi og kúki út um allt. Ekkert sveitarfélag hefur set reglur um að að járnsmiðir eigi að vera í bandi og eyrnamerktir. Hvar er jafnræðisreglan núna, ha ???

Af hverju setja sveitafélög ekki reglur um járnsmiðið, köngulær, ánamaðka, farfuglana og kvefbakterínu, ha ???
.

Reynitréð

.


Orðlaus

Mig langaði að yrkja til þín ljóð
og nota til þess orð sem segja sögur.
En hvernig get ég sagt hvað þú ert góð ?
Og hvernig get ég sagt hvað þú ert fögur ?

Ég finn að orðin sem ég nota vil
þau eru ekki í þessum heimi til.
Sem geta sagt hve elska ég þig heitt
Ég ákvað því að segja ekki neitt.

.

 rose

.


Mjúki kúrinn

Eins og alþjóð veit þá byrjaði ég í aðhaldi eða megrun á miðvikudaginn var, 2. september.

Nú á þriðja degi reis ég upp og steig á vigtina og viti menn, 1400 grömm farinn, 1,4 kíló, takk fyrir, góðan daginn, gleðilegt sumar.

Þið eruð eflaust forvitin að vita út á hvað þessi kúr gengur ?

Ég kalla þetta "´Mjúka kúrinn"

Hann gengur út á það að pína sig ekki mikið, vera ekki með tóman maga og garnagaul og grípa svo í gulrót til að seðja hungrið.
.

 rabbit_eating_carrot_lg_clr

.
Mjúki kúrinn gengur út á að að borða ekkert nammi, kex eða kökur og sleppa gosi. Þetta er ekkert flókið... en um helgar má maður fá sér gos með matnum ef maður vill og smá nammi en ekki leggjast í nammisukk samt.
Ég verð að viðurkenna að ég er Appelsínkall (Vallaskall) og finnst ískalt Appelsín rosalega gott og ískaldur perucider dásamlegur. Ég stenst heldur aldrei langt lakkrísrör, og ís með dýfu.

En meðfylgjandi því að sleppa namminu, kexinu, kökunum og gosinu, þarf maður náttúrulega að hreyfa sig aðeins meira, fara oftar í sund og synda lengra t.d. eða þá að fara út að ganga með Femínu sem er satt best að segja of þybbin, blessunin en ég hef ekki sagt það við hana svona beint út og vona að hún lesi ekki bloggið mitt.

Ég hef á þessum þremur dögum lést um 466,66666666666666666666666 gröm að meðaltali á dag. Það þýðir að eftir 191,14588774 daga verð ég orðinn 0 kíló. Ég verð að muna að hætta aðeins fyrr í megruninni.

Annars er það eitt sem ég hef áhyggjur af... nú minnkar maður og minnkar en maður veit ekki alveg hvað það er sem minnkar... eru það tærnar eða maginn eða jafnvel heilinn ???

Það er nákvæmlega það sem ég óttast, kannski er heilinn á mér að minnka.
.

 SHERLOCKCHANDLERMODEL

.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband