Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Rass-muss

Ég var að keyra úti á landi í dag þegar ég sá ref standa rétt við þjóðveginn og súpa sitt "morgunte" úr spegilsléttum polli rétt við þjóðveg númer 1.

Refurinn var snjóhvítur, með stórt, loðið skott. Verulega fallegur.

Þá fór ég að hugsa; af hverju er talað um að skjóta ref fyrir rass ?
Eftir nokkrar vangaveltur þá sá ég fyrir mér hvernig þetta orðtak varð til:

Einu sinni var bóndi sem hét Rassmuss. Hann var aldrei kallaður annað en bara Rass.
Rass bóndi átti hænur í öllum regnbogans litum . Öllum hænunum hafði Rass gefið nafn.
Þær hétu nöfnum eins og Brussa, Kátína, Greyið, Falleg, Nöldra og Spákonan.
.

hen

.

Nótt eina komst refur í hænsnabúið og drap helminginn af hænunum. Aumingja Rass grét sárt þegar hann sá vinkonur sínar liggjandi í blóði sínu í hænsnakofanum.
Hann jarðaði þær hverja og eina í nokkrum gröfum og setti kross við hvert leiði með nöfnum hænanna.

Síðan sótti hann Tryggva (hestinn sem hann skírði í höfuðið á Trigger) og þaut af stað áleiðis að Litla Koti en þar bjó refaskyttan Bergur Bergs.

Rass sagði Bergi Bergs frá ódæðisverkinu sem refurinn hafði framið.
Viltu fara og skjóta þennan þrjót fyrir mig, sagði Rass með grátstafina í kverkunum.

Það var ekki hægt að neita bón þessa sorgmædda manns.

Og þannig fór að Bergur Bergs "Skaut ref fyrir Rass".

Smáa letrið : Gæti þetta ekki hafa verið svona ?
.

fox

.

 


Hvernig verða börnin til ?

Einu sinni var maður sem hét Hans.  Hann átti strigaskó. Sólarnir á skónum voru orðnir mjög slitnir og lítil göt farin að myndast á þá. Maðurinn ákvað því að fara með skóna til skósmiðs.

Á leiðinni til skósmiðsins gengur hann fram hjá skóbúð og sér rosalega fallega strigaskó í glugganum. Hann ákveður að fara inn og skoða þá nánar.
Afgreiðslustúlkan kemur með þá... mátaðu þessa númer fjörutíu og þrjú sagði hún... hann fór úr gömlu skónum og smeygði sér í þá nýju... þeir smellpössuðu. Hvað kosta þeir; spurði hann... sautján þúsund og fimmhundruð... svaraði afgreiðslustúlkan...

Nei takk, sagði hann... of dýrir fyrir mig. Um leið og hann segir það gengur eigandi verslunarinnar framhjá... hávaxinn maður með yfirvaraskegg... leit út eins og ljóðskáld sem aldrei hafði samið neitt að viti...

Þú færð þá á fjórtán og níu sagði hann og brosti... þessir skór voru framleiddir fyrir þig og eru að biðja um að fá að þjóna þér... ja, ég veit ekki sagði Hans... nei þú veist ekki, greip eigandinn fram í... en skórnir vita hvað þeir vilja...

Hans rótaði í veskinu sínu... ég er bara með þrettán þúsund kall á mér... OK sagði eigandinn... díll...

Hann tók gömlu skóna af Hans og henti þeim í ruslakörfu... Hans horfði á eftir þeim með eftirsjá... klæddi sig í nýju skóna og reimaði...
.

110606-Running-Shoes1-NF_1163192332
.

Afgreiðslustúlkan sem hafði fylgst með allan tímann rétti út höndina... Hans heilsaði henni...
Þetta voru nú ekki svo stór viðskipti að við þurfum að innsigla þau með handabandi, sagði hún og hló... ég var bara að biðja þig um að rétta mér þrettán þúsund krónurnar... Hans roðnaði og brosti kjánalega... svo sagði hann alveg óvart... viltu koma með mér í bíó í kvöld ?  Honum fannst það ekki vera hann sem sagði þetta... það var einhver annar sem talaði í gengum hann.

Þú segir nokkuð, svaraði afgreiðslustúlkan... þessu hef ég nú aldrei lent í áður... jú... veistu hvað ég er bara alveg til í það...

Svona er sagan af því þegar hann Hans eignaðist skóbúð.

Hann giftist nefnilega afgreiðslustúlkunni sem var einmitt dóttir eigandans og eignaðist með henni fimm börn.

Þetta var sagan af því hvernig börnin verða til.


Fyrirmynd

Þetta er almennileg fyrirmynd.

Ég hef ekki sópað að mér verðlaunapeningum í íþróttum í gegnum tíðina. En þarna er sjénsinn... eina sem maður þarf að gera er að verða 100 ára og þá mun gull vefjast um hálsinn í bunkum.

Ég óska Ruth Frith og fjölskyldu innilega til hamingju með gullið.

En í hverju ætti ég þá helst að keppa ?

Ég er að spá í 4 x 100 metra boðhlaupi.
.

020-running

.


mbl.is Hundrað ára setur heimsmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð minn góður !

Við köllum stundum á hann Guð af minnsta tilefni. Hugsum ekkert út í það að hann er kannski að einbeita sér að Afganistan, Írak, Indlandi, Sómalíu, Ísrael, Palistaníu, Al-Qaeda og Framsóknarmönnunum tveimur sem fóru til Noregs.

En við hugsum bara um okkur sjálf og hrópum í tíma og ótíma;

Guð minn góður!

Ég er sko ekki barnanna bestur í þessu.

Guð kemur þjótandi þegar hann heyrir í okkur en sér svo að það er ekkert að. Úlfur, úlfur hugsar hann og kemur svo kannski ekki þegar við þurfum mest á honum að halda.

Ég fer í sturtu á hverjum morgni. Tók eftir því fyrir nokkru að eftir sturtuna voru hár af mér í sturtubotninum. Guð minn góður!  hrópaði ég upp í huganum, ég er að verða sköllóttur !
Ég sem er með svo þykkt og fallegt hár... hræðilegt, hræðilegt. Það færi mér sko ekki vel að vera sköllóttur... Bubbi er fínn svoleiðis... en ég, vá nei, ég yrði sko ömurlegur.

Annars finnst mér Bubbi heppinn, sjampóið er orðið svo dýrt.
.

bold

.

Í hvert skipti sem ég fór í sturtu eftir það, þá taldi ég hárin til að fylgjast með þróuninni. Það voru alltaf 10 hár sem lágu við fætur mínar. Hvorki fleiri né færri.

Svo sagði konan mín mér að við þessu væri til ráð... ég skyldi taka B-vítamín, það myndi stöðva hárlosið.

Nú er ég búinn að taka B-vítamín í 3 daga, var að koma úr sturtu og viti menn, þetta virkar !
Það voru bara 9 hár í sturtubotninum í morgun.

Nú fer ég glaður inn í þennan dag og passa mig á því að segja ekki Guð minn góður... en í þessu eins og mörgu öðru er best að taka einn dag fyrir í einu.


Jafningjafræðsla

Auglýsing :

Verð með námskeið í  því að búa til jafning (uppstúf - hvíta sósu) fyrir jólin.

Námskeiðið stendur í 10 vikur og er á sunnudagsmorgnum kl. 08:00 og kostar aðeins kr. 100.000.-

90 % afsláttur fyrir Framsóknarmenn og jólasveina.

Áhugasamir skrái sig hér á síðunni.

 Hafið með ykkur sleif.

.

 hangilaerisneidar_jol_2002_myndrun

.

 


Augnablik

Jæja, það er bara kominn október án þess að ég bæði sérstaklega um það.

Maður getur stundum orðið eftir í september og er bara rólegur þar og ekkert að spá í að mánuðurinn sé búinn.

Þannig er ég stundum.

Svo áður en ég veit af vakna ég einn daginn og þá er kominn Aðfangadagur. Ég veit að þetta á eftir að gerast með þessum hætti bráðlega, sjáið þið til.

Mér finnst stundum svo gaman að vera til að ég tími ekki að sofa... en samt finnst mér svo gott að leggja mig... en rétt bara svona augnablik... er maður ekki skrítinn ?

Stundum langar manni að taka augnablikið og stinga því í vasann... hafa það með sér hvert sem maður flækist og njóta þess aftur og aftur... og það er reyndar hægt... maður getur pakkað augnablikinu inn og geymt í huganum... og kallað það fram aftur og aftur sér til ánægju...

En nú er best að fara að drífa sig í október eins og þið hin...

Næ ykkur eftir.............................  augnablik.

.

blink_of_an_eye

.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband