Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Mari - létt draugasaga

... einu sinni var maður sem hét Mari...

... á sama tíma var draugur sem hét Lafmundur... Lafmundur var myrkfælinn... hann átti enga vini sem hann gat leitað til þegar hann þurfti sem mest á því að halda... á köldum vetrarnóttum þegar tungl óð í dimmum villtum skýjum...

Og af því að draugar geta fylgst með þeim sem eru lifandi, þá fór Lafmundur draugur að leita að lifandi mannveru sem hann gæti hugsað sér að yrði félagi hans þegar sú færi yfir móðuna mikla...

... þið þekkið orðið lafhræddur... það er einmitt ættað frá draugnum okkar... vera skíthæddur, lafhræddur eins og draugurinn Lafmundur...

... Lafmundur var búinn að leita í mörg ár, en aldrei fann hann neinn sem honum leist á, fyrr en allt í einu að hann las í 24 Stundum um mann sem vann hjá Hagstofunni... sá maður hét Mari... allan ársins hring fór hann eftir vinnu niður að tjörn og gaf öndunum brauð... hvort sem það var gott veður eða vont... dimmt eða bjart... oft var hann einn, sagði hann í viðtalinu... og óhræddur þrátt fyrir allt myrkur...

.

 weather4

.

Já, hugsaði Lafmundur draugur. Íslenskur andavinur, kjarkmikill, vingjarnlegur, en samt örlítið væskilslegur... why not... svo fletti hann upp í skránni með dánardægri hans Mara... ohh... hann átti eftir að lifa í 25 ár í viðbót... hann nennti ekki að bíða svo lengi eftir honum...
Það væri bara best að fá hann strax... flýta aðeins fyrir dauða hans... þó hann vissi að það væri ekki vinsælt á æðstu stöðum...

Daginn eftir þegar Mari fór niður að tjörn, var dimmt og kalt... skafrenningur... en hann lét það ekki á sig fá og hóf að henda brauði með sólþurrkuðum tómötum í endurnar... hann var svangur og stakk upp í sig bita... honum fannst allt í einu eins og það væri einhver fyrir aftan hann og snéri sér við... hann varð skelfingu lostinn þegar hann sá Lafmund standa þarna og glotta...

Brauðið stóð í honum, hann gat ekki andað... féll á hnén, datt fram fyrir sig...

... svo dó Mari.

.

 DavidHockneyInsidethecastleweb

.

 


Próf

.

 lefton_lefton_figurines_no_box_P0000014627S0077T2

.

Nú ætla ég að segja ykkur söguna af því þegar ég var lítill drengur og átti að fara í lestrarpróf.
Ekki veit ég hvernig þessi próf eru gerð í dag, en í þá daga var lagt fyrir blað sem átti að lesa af og kennarinn var með skeiðklukku... svo var lesið eins hratt og maður gat og helst rétt þar til tíminn var búinn...  þetta var hrikaleg keppni við klukkuna og spenna í loftinu...

Próf

"Farið þið með faðirvorið
drengir mínir
þá gengur ykkur vel"

Svo mælti mín guðhrædda amma.

Lestrarpróf  í skólanum
og við með í maganum

krakkarnir kölluð inn í skólastofuna
í stafrófsröð.

Faðir vor þú sem ert á himni...

Þér rétt blað
í sveitta lófa.
Ógnvaldurinn á borðinu:

Skeiðklukkan.

... því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu am...

BYRJA!

En faðir vor
breytti litlu.
Okkur gekk ekkert betur.
Vorum svona
fyrir ofan og neðan
miðjumenn.

En helvítið hún Pálína
efst eins og alltaf.

Ekki vissum við til
að hún færi með bænir.

 


Mörgæsamaðurinn

... hann var kominn upp í rúm... tók með sér mörgæsabókina sína...  það var svo notalegt að skríða undir sængina og draga upp að höku... hann hafði klætt sig í kjól og hvítt eins og venjulega á föstudagskvöldum...

Honum fannst fátt betra þessi kvöld en að vera undir sænginni og lesa um mörgæsirnar sem vöppuðum um í fimmtíu stiga frosti á Suðurskautslandinu... ...hann var þakklátur Guði fyrir að hafa ekki látið sig fæðast sem mörgæs... undir sænginni leið honum eins og mörgæsarunga á fótum mömmu sinnar með heitan maga hennar yfir sér...

... þrátt fyrir að hann var feginn að vera ekki mörgæs, blundaði í honum draumur um að fara í ferð á Suðurskautslandið og dvelja meðal mörgæsa... hann hafði ekki imprað á þessu við nokkurn mann... var viss um að hann yrði talinn galinn...

... það var bara einhver þrá í honum að kynnast þessum dýrum betur... einhver vöntun myndu sálfræðingar segja...

... hann lagði frá sér bókina og lokaði augunum... sá fyrir sér mörgæsahóp þjappa sér saman í nístings vindi... hópurinn myndaði hring, dýrin hlýjuðu hvort öðru...

... hann teygði sig í auka sængina og faðmaði hana að sér...

.

 pingvin03

.


Ljóðavíma

... nú er ég í einhverjum ljóðaham... mér finnst gaman að taka mér ljóðabók í hönd og fletta henni... oft rekst maður á miklar perlur, svo fallegar að maður fer í vímu... ljóðavímu...

... mér finnst gömlu skáldin flottust... Steinn Steinarr í uppáhaldi, Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Jónas Hallgrímsson og já, Halldór Laxness sem var betra ljóðskáld en skáldsagnahöfundur að mínu mati...

Hér er kvæði eftir einn sem ég nefndi ekki hér að ofan... einhverjir kannast kannski við það aðrir ekki eins og gengur... um hann var sagt;

Hann var mikill persónuleiki, harður og viðkvæmur í senn, opinskár
og meinfyndinn í skáldskap sínum. Hann hafði alltaf mikla samúð
með öllum minni máttar hvort sem það voru dýr eða menn.
Ljóð hans eru  mælsk og ljóðræn og orðfærið er auðskilið.

.

 

 þorsteinn_erlingsson

.

Hér er ljóðið: (reyndar bara fyrra erindið)

Sólskríkjan.

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein -
ó ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

Vitið þið eftir hvern þetta er, án þess að googla?

.

2527861855_6a6ef86dfd

.


Fiðrildið

Eins og fiðrildi
þú flögraðir
inn í líf mitt

Ég hafði aldrei
fundið slíka ást
því brosið þitt

það lýsti
upp allan heiminn
eins og bál

Ó, ástin mín
þú gleður
mína sál

.

 adc-6-butterflies-small

.


Himneskur fótbolti

Váááá.... Liverpool... Chelsea... nú nötrið þið í hnjánum... United með vængbrotið lið... stjórnuðu leiknum í kvöld eins og sá sem valdið hefur...

... himneskur fótbolti a la Manchester United...

.

 stairway_to_heaven

.

Ég hlakka svo til að mæta Púllurunum 13. september... fer þá í bakaríið og kaupi mér muffins með súkkulaði til að halda upp á sigurinn...

.

muffins

.


mbl.is Alex Ferguson: Spiluðum frábæran fótbolta á köflum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar að versla í Tiffany

... sá smá brot af viðtali við J.K. Rowling í sjónvarpinu áðan... þá sem skrifaði Harry Potter bækurnar... hún er orðin svo rík að hún getur verslað jólagjafirnar í Tiffany... verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað Tiffany er... en það er greinilega búð sem selur rándýrar vörur...

Þá fór ég að hugsa um allt það sem ég hefði geta orðið... og jafnvel orðið ríkur á því...

Hefði geta orðið atvinnumaður í fótbolta... var nokkuð seigur í hægri bakverðinum...
Hefði geta orðið stórmeistari í skák... já, bara sleipur í skákinni einu sinni...
Hefði geta orðið maraþonhlaupari... hljóp einu sinni heilt maraþon og nokkrum sinnum hálft...
Hefði geta orðið járnmaður... atvinnu Ironman... keppti nokkrum sinnum í þríþraut... hlaupa, hjóla synda...
Hefði geta orðið skáld... já, kannski get ég enn orðið skáld, moldríkt skáld... ég ætla að spá aðeins betur í það... ég held ég sé alveg að fá hugmynd sem slær í gegn...

Og þá get ég framvegis gert jólainnkaupin í Tiffany... hvað langar ykkur í, í jólagjöf?

.

96832

.

Smáa letrið; Slá í gegn, slá í gegn, af einhverjum völdum hefur það reynst mér um megn Whistling.


Afi

Afi gamli fylgdist vel með veðrinu eins og flestir Íslendingar gerðu og margir gera enn.
Hann og amma áttu 10 börn. 
Þegar þau voru hætt að vinna, þá bjuggu þau heima hjá foreldrum mínum. Afi vildi passa upp á okkur strákana og var iðulega úti á kvöldin að leita að okkur til að segja okkur að koma heim.
Klukkan er langt gengin í níu, sagði hann, þegar hún var rúmlega átta. Aðrir krakkar kölluðu hann afa á hlaupum vegna þess að hann var alltaf á fullu að leita að okkur.

Heima hjá okkur var lítið barómet sem sá gamli sló fyrnafast í til að sjá hvort breytingar á veðri væru í nánd... við vorum alltaf dauðhrædd um að hann myndi brjóta það, svo fast var slegið.

Afi 

Mig undraði styrkur
glersins í barómetinu
þegar þú þrumaðir
í það með hnúunum

Regn - breytilegt - bjart

Við strákarnir
sáum á svip þínum

að líklega myndi
hann bresta á
að norðaustan

með kvöldinu

.

 2066940

.

 

 


Skemmtikraftar

Já, stoltur var maður að sjá strákana okkar taka við silfurverðlaununum áðan.

Gaman að sjá þá brosa á pallinum, þrátt fyrir smá svekkelsi. En það er líka gott að vera pínu spældur vegna taps í úrslitaleik á Ólympíuleikunum. Það þýðir að menn vilja meira og þessir strákar eru flestir ungir og eiga örugglega eftir að næla sér í gullið síðar.

Ég er búinn að skemmta mér rosalega vel að horfa á þá alla keppnina. Þvílíkir skemmtikraftar og þvílík breidd sem við erum með í þessu landsliði núna.

Guðmundur þjálfari kom á óvart með vali á markverði sem fáir þekktu fyrir. Björgvin stóð sig frábærlega í markinu. Ingimundur sem einnig var ekki þekkt nafn fyrir kom gríðarlega á óvart. Rosaleg vinnsla í vörninni hjá honum. Hinir allir stóðu sig líka feykilega vel og koma með silfrið heim.

Aftur felldi maður tár við verðlaunaafhendinguna núna eins og þegar við lögðum Spánverjana.
Handboltinn er skemmtilegur. Hraður, miklar sveiflur og tilfinningar.

Ég er kátur, ég er stoltur Íslendingur.

.

 ballons

.

 


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta

Ég gekk fyrir hornið á barnum og fékk svalann haustvindinn í fangið... nú hugsaði ég, hann er barátta í dag... ég hefði kannski átt að klæða mig í lopapeysuna. En ég var bara í stutterma bol og þunnum svörtum jakka.

En ég ætlaði ekki að ganga langt. Ætlaði bara út í búð að kaupa mér Camembert og blandaða berjasultu. Koma svo við í ríkinu og kippa einni rauðri með.

Inni í mér var líka barátta... átti ég að kaupa mér Nóa súkkulaði með hnetum og rúsínum og kannski tveggja lítra epla Cider?

Ég var nýbúinn að ákveða að hætta að borða súkkulaði, alveg fram að næstu páskum. En nú langaði mig svo rosalega í Nóa súkkulaði.

Á endanum ákvað ég að kaupa súkkulaði, en bara með rúsínunum og sleppa hnetunum, þær eru bæði fitandi og óhollar.

.

lopapeysa-asa-01

.



Ég hugsaði enn meira um lopapeysuna á heimleiðinni, vildi hún kæmi svífandi af himninum og dytti á kollinn á mér. Þvílíkur kuldi.

Við hornið á barnum byrjaði að snjóa. En baráttunni var lokið. Fyrsti snjór vetrarins sveif í logni til jarðar, stór snjókorn eins og munstur í lopapeysu úr Svarfaðardal.

Ég bjó til spor númer fjörutíu og þrjú alla leið að dyrunum heim.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband