Tjakkurinn
17.6.2008 | 23:40
Þið þekkið söguna um manninn sem var að keyra út á landi. Það sprakk (punkteraði) á bílnum hjá honum. Hann leitaði í bílnum en fann engan tjakk.
Hann ákvað því að ganga á næsta bæ og biðja bóndann að lána sér tjakk. Á leiðinni fór hann að hugsa.
.
.
"Þetta er örugglega einhver afdankaður bóndi sem býr þarna, skapvondur og vitlaus. Ætli hann vilji nokkuð lána mér tjakkinn sinn"?
Á leiðinni að bænum hélt hann áfram að hugsa á sömu lund. Þessum bónda rugludalli er ábyggilega ekkert um það gefið að fá ókunnuga heim á hlað. Hann verður ábyggilega bara pirraður út í mig og neitar að lána mér tjakk.
Á þessum nótum hugsaði okkar maður stöðugt. Hann var orðinn öskuillur þegar hann bankaði á dyrnar á bænum. Þegar saklaus bóndinn kom til dyranna, öskraði vinurinn áður en bóndinn gat sagt eitt einasta orð.
"Eigðu þennan helv... tjakk þinn bara sjálfur...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heiðarleikinn
17.6.2008 | 20:17
Heiðarleikinn er hollur ferðafélagi.
Rakst á nokkrar tilvitnanir um heiðarleikann.
Hér eru sýnishorn af því sem mér fannst best.
Engin manneskja er með nógu gott minni til að ná góðum árangri sem lygari. (Abraham Lincon)
Ef þú segir alltaf satt þarft þú ekki að muna neitt. (Mark Twain)
Öll lifum við aðeins einu sinni; ef við erum heiðarleg, þá er nóg að lifa einu sinni. (Greta Garbo)
Segðu alltaf sannleikann. Ef þú getur ekki alltaf sagt sannleikann, ekki ljúga. (NN)
.
.
Vertu heiðarlegur við sjálfan þig, þá mun lífið strjúka þér um vangann. (Brattur)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Orðatiltæki
17.6.2008 | 10:45
Þættinum hefur borist bréf.
Hvað þýðir orðið orðatiltæki og hvaða tæki er það sem verið er að tala um?
Orðatiltæki er ansi hentug græja þegar fólk er að halda ræðu. Sama hvort er á aðalfundi Seðlabankans, í afmæli sægreifa, eða í brúðkaupi Bubba byggis.
Þú setur orðatiltækið á öxlina á þér og í miðri ræðu hvíslar þú; hvað á ég að segja núna?
Og orðatiltækið svarar að bragði; Margur verður af aurum api.
.
.
Ekki er blessað tækið gallalaust. Ef gestir koma í heimsókn og þú færð spurninguna; hvað segir þú gott? ...og maður svarar náttúrulega; allt fínt... þá á tækið það til að grípa fram í og segja; Nei, hann segir ekki allt gott... hann er að drepast í öxlinni, er með hausverk og hefur ekki klippt neglurnar á tánum lengi, hvernig getur hann sagt allt gott?
Því er best að geyma orðatiltækið í orðatiltektaskápnum meðan gestir eru í heimsókn, því það er ekki hægt að slökkva á því.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)