Af Páli Sófussyni og Óla Þorsteins
26.5.2010 | 00:16
Hunangsflugan átti heima í Reynitrénu rétt hjá kartöflugarðinum.
Í kartöflugarðinum var borg ánamaðka.
Þar giltu engar umferðareglur og enginn vissi hvað snéri fram eða aftur.
Svo fór að rigna. Ánamaðkarnir skriðu upp úr blautum holum sínum. Þá komu þrír hettumávar og átu þá alla.
Hettumávarnir flugu síðan í burtu. Þeir hefðu aldrei komið við sögu ef ekki hefði rignt.
Hunangsflugan hefði heldur ekkert komið við sögu nema af því að hún átti heima rétt hjá kartöflugarðinum.
Þessi saga hefði ekki orðið neitt, neitt nema af því að Óli Þorsteins plantaði Reynitrénu fyrir tuttugu og sjö árum og Páll Sófusson stakk upp kartöflugarðinn ellefu árum síðar.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Saga án boðskaps og án endis
22.5.2010 | 01:02
Hann stóð útí í garði með teygjubyssu... skaut á alla fugla sem flugu yfir og öskraði á þá;
Og hafðu það ófétið þitt.
Á meðan sat Bonna nágrannakonan við eldhúsgluggan með Öldu frænku og hneykslaðist...
Sjáðu hann Kobba vitleysing, af hverju lætur hann ekki þrestina í friði... honum væri nær að skjóta þessar stóru hunagnsflugur sem eru allt að drepa... ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá eru það stórar hunangsflugur...
Á meðan konurnar horfðu á Kobba skjóta fugla með teygjubyssu kom Pósturinn hjólandi eftir götunni með ábyrgðarbréf... hann hjólaði framhjá húsinu hans Kobba og framhjá Öldu og Bonnu nágrannakonu og nam ekki staðar fyrr en fyrir framan húsið hjá Óla organista...
Kobbi hætti að skjóta og kerlingarnar hlupu frá eldhúsglugganum inn að stofuglugganum til að fylgjast með Póstinum afhenda Óla organista ábyrgðarbréfið.
.
.
Óli kvittaði fyrir bréfinu og opnaði það á stéttinni. Pósturinn horfði á hann, kerlingarnar horfðu á hann og Kobbi vitleysingur horfði á hann...
Óli las bréfið, horfði til himins og spennti greipar... áhorfendur voru ekki vissir um hvort hann brosti eða hvort hann var með grátstafina í kverkunum...
Það var eins og heimurinn stæði á öndinni... þröstur lyfti sér af grein og flaug yfir Kobba vitleysing og skeit. Hann hitti beint ofan í hálsmálið... Kobbi ærðist, bölvaði og ragnaði og reyndi að þurrka af sér skítinn. Á sama andartaki hringdi síminn hjá Bonnu nágrannakonu meðan Alda vinkona hellti kaffi í bolla og kveikti sér í sígarettu...
Þau misstu öll af því þegar konan hans Óla organista kom út á stétt, las bréfið og sló hans svo utanundir...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mjög stutt dýrasaga
20.5.2010 | 22:03
Einu sinni var hundur sem hélt að hann væri köttur og köttur sem hélt að hann væri kanína og kanína sem hélt að hún væri broddgöltur og broddgöltur sem hélt að hann væri sebrahestur og sebrahestur sem hélt að hann væri skarfur og skarfur sem hélt að hann væri kind og kind sem hélt að hún væri belja og belja sem hélt hún væri asni og asni sem hélt að hann væri forseti Íslands.
THE END
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Svertingi eða Framsóknarmaður
19.5.2010 | 23:57
Mágur minn er hvítur Íslendingur.
Hann komst reyndar að því um daginn að hann er svertingi. Hann var hjá tannlækni sem tók myndir í gríð og erg af tönnunum og tannrótunum og tautaði sífellt við sjálfan sig; Ja hérna, þetta er merkilegt, þetta er alveg stórmerkilegt.
Mágur minn vissi ekkert hvað var í gangi og gat ekkert almennilega spjallað við tannlækninn þar sem hann var með munninn fullan af tannlæknadóti.
Svo þegar tannlæknirinn var búinn að mynda og taka dótið út úr munninum gat mágurinn loksins spurt; Hvað er í gangi ???
Jú félagi, svaraði tannlæknirinn þú ert með bognar rætur eins og Afríkubúar ekki eins og hvítir menn !
Þið haldið kannski að ég hafi orðið fyrir áfalli að heyra þetta ? Nei ég er algjörlega næstum því fordómalaus og fagnaði því bara að fá svertingja í fjölskylduna.
Hrósaði reyndar happi yfir því að mágurinn hefði ekki verið að upplýsa það að hann væri Framsóknarmaður.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Líkur og Ólíkur
17.5.2010 | 20:42
Einu sinni var maður sem hét Ólíkur. Hann átti bróður sem hét Líkur. Þeir voru ekkert líkir bræðurnir.
Einn daginn var Ólíkur ekkert líkur sjálfum sér og spurði Lík bróður sinn; Líkur bróðir er þetta virkilega ég ? Nei, Ólíkur bróðir þetta ert ekki þú, þetta er ég.
Já, ég vissi það ég er ekkert líkur sjálfum mér sagði Ólíkur og hélt út í heim að leita að sjálfum sér.
Líkur var hinsvegar miklu líklegri en Ólíkur og fór því bara heim og lagði sig. Heimildum ber hinsvegar ekki saman um það og segja sumir að í raun og veru hafi hann verið Ólíkur en það hafi verið Líkur sem hélt að hann væri Ólíkur.
Endar nú þessi skemmtilega saga um bræðurnar Ólík og Lík.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Öll þessi orð
15.5.2010 | 10:04
Eitt það mikilvægasta sem maður gerir í samtölum við aðra, er að hlusta, því ef maður hlustar ekki þá er ekkert samtal, bara einræða.
Allt sem maður segir hefur verið sagt áður eða hvað ? Það skiptir máli í hvaða röð orðin eru sögð.
Tökum þessa síðustu setningu, notum sömu orð en ruglum röðinni. Þá lítur hún svona út;
Í máli það eru hvaða sögð orðin skiptir. Þetta skilur ekki nokkur maður ? Við verðum því að vanda okkur þegar við tölum.
Það eru til rosalega mörg orð í íslenskunni. Það er hægt að búa til fallegar sögur eða falleg ljóð úr þessum orðum bara ef þeim er raðað rétt. Ljóðin og sögurnar liggja í óröðuðum orðunum. Kúnstin er að raða þeim rétt upp. Hér er nokkrum orðum raðað upp svo úr verður lítil saga eða ljóð;
Stjörnurnar mínar.
Um nóttina gengum við
út í niðdimmt myrkrið
vissum ekkert hvert
við ætluðum
héldumst í hendur
og dáðumst að
stjörnunum
þær blikuðu á
dimmbláum himninum
eins og þær vildu
vísa okkur veginn
ég horfði í augun þín
stjörnurnar mínar
og var tilbúinn
að fylgja þér
á heimsenda
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tyggjó
13.5.2010 | 12:09
Ég nota tyggjó talsvert mikið. Finnst gott að stinga upp í mig tyggjói og japla á því. Gefur ferskt bragð í munn og hreinsar öndunarfærin og heilann.
En ég er ekki einn um það að nota tyggjó. Enda sjáið þið mikið framboð af allskonar tyggjói í öllum búðum. Matvörubúðum, sjoppum, bensínstöðvum, jafnvel byggingavöruverslunum.
Einu staðirnir sem ég man eftir að selja ekki tyggjó eru kirkjur landsins. Mér finnst að þær eigi að selja tyggjó líka eins og allir aðrir. Prestarnir gætu gengið um með hatt og selt tyggjó, með ríflegri álagningu og grætt á tá og fingri.
.
.
Til eru frægir menn sem nota tyggjó; ég er ekkert frægur. Maður er ekkert frægur þegar það eru nánast bara kettirnir manns sem þekkja mann.
En oft hef ég þakkað Guði mínum fyrir að vera ekki frægur. Skildi Guð nota tyggjó ? Eða Lykla Pétur og allir englarnir ? Og hvað með Kölska sjálfan ? Hann hlýtur að japla, Fjandakornið.
Sá frægasti sem ég man eftir að er forfallinn tyggjóisti er Sir Alex Ferguson framkvæmdastjóri Manchester United. Maður sér það á kjömmunum á honum hvort hann er æstur eða rólegur, í góðu skapi eða vondu.
Ég veit ekki hvort það sést eins vel á mér þegar ég tygg... þarf að skoða mig í spegli.
Búinn að skoða... ég virðist pollrólegur.
Ekki hef ég kynnt mér sögu tyggjósins í þaula en var það ekki Ameríkaninn sem kom fyrstur með það til landsins á stríðsárunum ? Aðaltegundin var lengi vel Wrigleys; tyggjóplötur, gular, grænar, hvítar. Nú er Extra allsráðandi í litlum bitum... ábyggilega til að spara flutningskostnað.
.
.
Svo kom að því að ÞEIR settu nikotín í tyggjóið til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Það var algjör snilld.
Ætli það sé ekki hægt að setja allskonar dót í tyggjó til að láta fólk hætta hvaða ósiðum sem er ?
Setja t.d. "Hólmstein" í tyggjó til að fólk hætti að vera Sjálfstæðismenn. Eða "Afhomm" til að rétta bátinn af. Eða "Sannleikskorn" til að fólk hætti að ljúga ?
Svo mætti setja efni í tyggjó sem lætur fólk byrja á einhverju (maður má ekki bara hætta að gera eitthvað).
Dettur í hug "Skúr" svo maður skúri oftar. "Dug" svo maður verði duglegri og "Hunang" svo maður angi eins og Hun.
Eitt veldur mér heilabrotum varðandi tyggjóið. Það var einu sinni kallað tyggigúmmí. Nú heitir það bara tyggjó... tóku þér gúmmíið úr ?
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Frakkaskáldið
12.5.2010 | 20:45
Hann sat á kaffihúsinu og sötraði heitt súkkulaði. Það var rigning úti og regnvatnið rann niður gluggann. Á diski fyrir framan hann var kleina sem hann var hálfnaður með.
Hann var með blað og penna á borðinu. Blaðið var autt. Hingað hafði hann komið til að yrkja ljóð.
Honum fannst hann ekki vera raunverulegur. Það var enginn raunveruleiki sem hann lifði í. Hann var sögupersóna í skáldsögu og það var einhver að lesa um hann í sögunni. Þannig leið honum meðan hann starði á dropana renna stríðum straumi niður rúðuna.
.
.
Þegar komið var að lokun, hneppti hann að sér svörtum frakkanum sem var allt of stór og gekk eins og skuggamynd út í rigninguna.
Þegar þjónustustúlkan tók af borðinu sá hún blaðið sem frakkaskáldið hafði skilið eftir. Hún tók það upp og las í hálfum hljóðum.
Ég er farinn úr þessari bók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flókin ást
10.5.2010 | 21:49
... átti í erfiðleikum með að lesa þetta orð í dag...
ÁSTjarnarkirkja.
... var lengi að fatta hvernig ást þetta var...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þar sem ég hvíli mín lúnu bein - sögulok.
8.5.2010 | 10:49
Við skildum við Hamar þar sem hann hafði tekið við græna steininum úr hendi dökkhærðu stúlkunnar.
Hann varð hamingjusamur í lífinu, eignaðist börn og buru og giftist Þuru.
Það var þó eitt sem angraði hann af og til. Hann sá svo eftir fallegu beinunum sem hann hafði gefið dökkhærðu stúlkunni.
Eftir því sem árin liðu ágerðist þrá hans að sjá og eignast beinin aftur.
Oft hafði hann gengið um fjöruna sína og sest á rekaviðardrumbinn og velt fyrir sér hvort hann ætti að nota óskina einu sem falin var í græna flata steininum.
Hann var farinn að dreyma beinin á nóttunni, þau töluðu til hans;
Pabbi viltu fara með okkur í fjöruna og sýna okkur æðarkolluna og ungana þeirra. Pabbi það var svo gaman að fara í göngutúra með þér; Pabbi viltu sækja okkur.
Hann vaknaði sveittur einn morguninn eftir svona draum. Klæddi sig í skyndi og stakk græna steininum í vasann.
Þegar hann var sestur á rekaviðardrumbinn í fjörunni, tók hann græna steininn upp. Hann hélt honum upp að andlitinu og sagði;
Ég óska mér að fá beinin mín aftur.
.
.
Elding lýsti upp gráan morgunhiminninn og nokkrum sekúndum seinna rauf þruma morgunkyrrðina, það byrjaði að rigna, algjört úrhelli.
Daginn eftir hafði stytt upp og sól skein í heiði.
Við hliðina á rekaviðnum lá lítill strigapoki, hauskúpa af manni og hrúga af beinum.
Sjórinn kyssti ströndina blíðlega þegar æðarkolla synti hjá með ungana sína.
Dægurmál | Breytt 9.5.2010 kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)