Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Þar sem ég hvíli mín lúnu bein

Einu sinni var maður sem aldrei gat farið neitt nema að hafa beinin sín með í poka. Maðurinn hét Hamar.

Hamar safnaði fallegum beinum af dýrum, fuglum, kindum, hestum, fiskum og bara öllum beinum sem hann rakst á þegar hann var á gangi úti í náttúrunni.

Hann átti nokkur uppáhaldsbein og hafði þau í litlum strigapoka. Pokann bar hann alltaf á öxlinni þegar hann fór út úr húsi.

Hann gekk oft um sandfjöruna og settist á stóran rekaviðardrumb sem var hálfur á kafi í þurrum sandinum. Þar opnaði hann pokann og tók beinin upp úr honum. Raðaði þeim snyrtilega í kringum sig og talaði við þau.
Eruð þið þreytt greyin að kúldrast svona í pokanum, sagði hann blíðum rómi.

Komið þið út og hvílið ykkur.

Sjáið þið bara æðarkolluna með alla ungana sína, mikið eru þeir fallegir litlu hnoðrarnir, hvar skildi nú pabbinn vera, hélt hann áfram og skimaði eftir blika á haffletinum.

Þennan stað kallaði hann í huganum; Staðurinn sem ég hvíli mín lúnu bein.
.

 getfile

.

Dag einn þegar hann kom í fjöruna sá hann að mannvera sat á rekaviðnum hans. Hún horfði niður fyrir sig og virtist vera að gráta. Hamar gekk að manneskjunni, ræskti sig og hvíslaði; er eitthvað að ?
Ég er búin að týna börnunum mínum sagði mannveran og leit upp. Hamar sá að þetta var ung stúlka; hún var með kolsvart hár og dökk augu sem voru á floti í tárum.

Börnunum þín sagði Hamar... ert þú ekki full ung til að eiga börn ? Ég bara kalla þau börnin mín en þau eru bara bein svaraði stúlkan og snökti.
Nú,  ertu að safna beinum eins og ég sagði Hamar... ég skal bara gefa þér mín bein bætti hann við og rétti henni pokann. Hún tók við honum.
Opnaðu pokann og skoðaðu þau sagði Hamar... stúlkan gerði það og tók andköf.... þau eru svo falleg.... ertu viss um að þú tímir að gefa mér þau... já, já ég á miklu fleiri heima svaraði Hamar og sá að stelpan var öll að hressast...  takk, nú er ég glöð sagði hún og brosti eins og sá brosir sem tekur gleði sína aftur.

Ég ætla að gefa þér eina gjöf líka sagði dökkhærða stúlkan við Hamar... hér er steinn, sagði hún og rétti honum flatan dökkgrænan stein... þetta er lukkusteinn og ef þú berð hann alltaf á þér verður þú hamingjusamur í lífinu... og þar að auki veitir hann þér eina ósk þegar þegar þú vilt...
.

pebble-beach-driftwood
 .

Framhald.


Beikon

Þegar við viljum gleðja aðra þá föllum við stundum í þá gryfju að gefa eitthvað sem OKKUR þykir gott, því við hugsum að það sem okkur þykir gott þykir öðrum gott líka, það hlýtur bara að vera þannig.

En eins og við vitum líka, þá höfum við ekki alltaf á réttu að standa, sem er bara hið besta mál.

Þessa sögu sagði maður mér í dag sem hefur verið kaupmaður í langa tíð, mjög góður kaupmaður og vandaður í alla staði. Gefum honum orðið;

Í nágrenni við búðina mína bjó gamall maður. Hann hringdi alltaf í mig og pantaði það sem hann þurfti í matinn. Ég tók matvælin til, setti í kassa og sendi heim til hans. Svona gekk þetta í langan tíma. Einn daginn rakst ég á gamla manninn þar sem hann sat á bekk í garðinum sínum. Ég stoppaði við grindverkið og spjallaði aðeins við hann um heilsuna og veðrið. Spurði svo að lokum hvort allt væri ekki í lagi varðandi heimsendingarnar á matnum. Jú, svaraði gamli maðurinn; það er allt í góðu en áttu aldrei til gott beikon ?
Beikon, sagði ég hissa; ég vel alltaf sjálfur besta beikonið fyrir þig það sem er með minnstu fitunni.
Já en,  svaraði gamli maðurinn... mér finnst beikon sem er feitt miklu betra.
.

 beicon%20normal

.

 


G.E. Hannesson

Hér sit ég og horfi út um eldhúsgluggann. Búinn að fara út á verönd og anda að mér sumrinu, þvílíkur dagur, þvílíkt veður.

Sumardagurinn fyrsti hefur svo oft verið kaldur og langt frá því að minna nokkuð á sumarið en núna ber hann svo sannarlega nafn með rentu.

Lítum á lítið sumarkvæði eftir G.E. Hannesson;

Nú leika sér kisur og kálfar
Kolsvartir krummar og álfar
Á himninum situr
Hann Guð alvitur
Og heldur að við séum bjálfar

Já hann Guð er ekki öfundsverður af sínu hlutskipti. Við hérna á jörðunni erum svo óþekk og brjótum allar reglur sem hann setti okkur, oft á dag... hugsið ykkur, íbúafjöldi jarðar er 6 milljarðar, já takk 6 milljarðar... þetta er ekki neinn venjulegur leikskóli... og í venjulegum leikskóla eru a.m.k. 6 fóstrur eða hvað það nú heitir og það er brjálað að gera hjá þeim.

Nei Guð er sko ekki neinn venjulegur maður (eða kona ?) og afar sjaldgæfur... mér finnst hann standa sig prýðilega miðað við umfang verkefnisins.

Góðir hálsar og einnig þið sem eruð með hálsbólgu; látum G.E. Hannesson eiga síðasta orðið;

Hvar væri ég án þín ?
Indæla ástin mín.
Hvað væri fluga án suðs ?
Hvar værum við án Guðs ?
.

windowcat

.

Gleðilegt sumar ! 

 


Stjórnarbylting

Það er greinilega orðin stjórnarbylting á Íslandi. Forsetinn ræður yfir ríkisstjórninni og segir bara og gerir ALLT sem honum sýnist.

Á erlendri grundu og í erlendum fjölmiðlum talar hann og hegðar sér eins og sá sem valdið hefur. Mér sýnist hann líka vera farinn að trúa því sjálfur að hann stjórni Íslandi einn en ekki Alþingi eða ríkisstjórn.

Eigum við ekki að fara að setja kallinn með ljósu lokkana í þjóðaratkvæðagreiðslu ?
.

monkey-thinking

.


mbl.is Óábyrgt að draga fjöður yfir goshættuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snædúfan

Mikið djöfull var hann eitthvað tómur í hausnum. Hann mundi bara ekki nógu mörg orð svo hann gæti talað hvað þá meira.

Hann sá bara fyrir sér tölur, mörg núll og helling af hinum tölunum öllum... er núll tala ? Spurði  hann sjálfan sig en vissi ekki svarið. Hann fór að hugsa um að ef að núll stæði fyrir framan einn þá væri núll ekkert en ef að núll stæði fyrir aftan einn þá væri núll skyndilega orðið mikilvægt...

Honum datt allt í einu í hug persneskt ljóð eftir óþekktan hjarðmann.

Nú þjóta skýin framhjá
Svo grimm og grá

Og Snædúfan í storminum
er ógnarsmá

Hún vill ei deyja og ekki þjást
því brjóst hennar er þanið út 
af heitri ást

Í hvítum kjól
hún finnur skjól

bak við úlfinn.

Hann vissi ekki af hverju honum datt þetta ljóð í hug. Hann hafði oft brotið heilann um merkingu ljóðsins. Það var í raun og veru auðskiljanlegt við fyrsta lestur en eftir því sem maður las það oftar þeim mun flóknara var það.

Það voru svo margar óskrifaðar línur í þessu ljóði... af hverju fór hún bak við úlfinn ? Sá úlfurinn hana og drap hana... eða var þetta kannski góður úlfur sem veitti henni hlýju og skjól þar til storminn lægði ? Og hvern elskaði Snædúfan ? Fann hún hann aftur ? Var það ást hennar sem gaf henni kraft til að lifa af storminn ? Hefði hún ekki elskað hefði hún bara gefist upp og látið storminn þeyta sér hvert sem verða vill ?

Hann áttaði sig á því að hann var hættur að hugsa um tölur.
.

Dove 

.

 


A la United

Þetta var frábær sigur a la United. Að skora á síðustu stundu og halda manni í spennu til síðustu sekúndu... við sem erum stuðningsmenn vitum að okkar menn gefast aldrei upp...

Nú verður framhaldið svona:

Chelsea tapar fyrir Tottenham á eftir þá verður bara eins stigs munur á liðunum.

Chelsea vinnur Stoke í næstu umferð EN tapar svo í næstsíðustu umferð gegn LIVERPOOL !!!
Vinnur svo Wigan í síðustu umferð og endar með 83 stig.

United vinnur svo þrjá síðustu leikina gegn Tottenham, Sunderland og Stoke og endar með 85 stig og verður meistari í 19 sinn sem er met.

LIVERPOOL er rosalega gott lið og ég myndi kaupa liðið strax ef ég fengi einhverstaðar kúlulán.
Þeir mega a.m.k. vita það Benitez, Axel, Gunni Nella, Rúnar og Guðjón Ármanns að ég stend með þeim þessa dagana.
.

Scholes: Signs new contract

.


mbl.is Scholes tryggði United dramatískan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sörinn og ég

Aldrei þessu vant má segja að United sé underdogs í þessum slag... mínir menn hafa verið að hiksta verulega í síðustu leikjum meðan City hefur verið á flugi.

Einn af heimilisköttunum heitir Tevez og var skírður í höfuðið á hinum eina sanna Carlos Tevez sem þá lék með okkur en fór illu heilli yfir til City... sé alltaf eftir honum... frábær leikmaður....

Það eru 4 stig í Chelsea sem eiga að leika við Tottenham í dag... það er ansi langsótt að United hafi möguleika á titlinum þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir... en við gefumst aldrei upp...

Heyrði aðeins í Sir Alex í morgun eins og venjulega fyrir leiki... hann var nokkuð slakur enda allt að vinna og engu að tapa í leiknum á eftir...

How is Alexandra ? spurði sörinn... en við eigum einmitt læðu hérna á heimilinu sem heitir í höfuðið á Sir Alex... hann eiginlega lítur á hana sem barnabarnið sitt...

Alexandra is fine... svaraði ég og svo spurði hann um eldgosið og bar Eyjafjallajökull bara nokkuð vel fram af Skota að vera... ég sagðí honum líka að Þorgerður Katrín væri búin að segja af sér en það kom honun ekkert á óvart... now you´re cleaning up... that´s good... sagði Sir Alex...

Svo heyrði ég að Giggsinn kallaði í hann... Sir are you going with us ???

Well Brattur my brave... I have to go... have a nice weekend and be happy as usual... we only live once... svo hló hann sínum diddlandi hlátri og var rokinn.
.

 Sir Alex Ferguson (left) and Roberto Mancini

.

 


mbl.is Stórleikir í úrvalsdeildinni í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar fótanuddtæki

Þar sem fótanuddtækið mitt bilaði í gær auglýsi ég hér með eftir notuðu fótanuddtæki. Ég nota það daglega svo ég er hálf vængbrotinn eða eins vængbrotinn eins og maður sem ekki er engill getur verið.

Flest þessara gömlu tækja voru blá á litinn en mitt bilaða er bleikt. Og þar sem ég er svo vanafastur þá get ég ekki farið í fótanuddtæki ef það er blátt eða grænt.

Er einhver úti í hinum stóra heimi sem á bleikt fótanuddtæki sem hann getur selt mér ?
.

toose

.


Peppe

Einu sinni var maður sem hét Peppe.

Þið mynduð kannski halda að hann hefði verið Spánverji eða Ítali og hefði heitið fullu nafni Giuseppe og bara verið kallaður Peppe? En svo var ekki.

Peppe var Íslendingur og hann var róni enda uppnefndur af mönnum og málleysingum og aldrei kallaður annað en Pepperóni.

Það er þannig að þegar að maður hættir að vera venjulegur og verður róni þá breytist margt, sagði Peppe einu sinni við mig þar sem við sátum á bekk rétt hjá andapollinum. Hvað meinar þú Peppe sagði ég með minni mjúkustu röddu.

Jú, maður hættir að þurfa að þrífa sig og getur gengið um í grútskítugum fötum og verðið með skítugan hárlubba og skegg niður á bringu. Síðan þarf maður ekki á virðingu annarra að halda, hún bara hverfur, vinirnir hverfa. Svo er það einn og einn sem er aumingjagóður eins og þú sem nennir að tala við mig... það dugar mér alveg og svo sambúðin með Trölla.

Trölli var hundur, svona meðalhundur að stærð með rosalega stórt höfuð og kjaft eins og flóðhestur.
Hann var loðinn,  dökkbrúnn og hvítur að lit og vék aldrei frá húsbónda sínum. Þeir voru drykkjufélagar. Fullir saman, þunnir saman, skítugir saman.

En Peppe, sagði ég. Hvernig stendur á þessu nafni þínu Peppe ? Þetta er ekki íslenskt nafn. Nei, rétt er það ég átti að heita Pétur eins og hann afi en þegar ég var skírður þá stamaði afi, sem hélt á mér undir skírn, svo mikið að hann gat aldrei sagt annað en Pep Pe, Pep Pe. Prestinum fannst það svo flott nafn að hann tók það gott og gilt og svo hló Peppe ógurlega svo sást í svartar tennurnar í gegnum kafþykkt skeggið.

Annars er það mitt mottó í lífinu að maður eigi aldrei að gera flugu mein því að þá fá fuglarnir og fiskarnir minna að borða sagði Peppe um leið og hann stóð upp af bekknum og danglaði fæti í Trölla sem sofið hafði við fætur hans á meðan.

Hann gekk í burtu án þess að kveðja. Endurnar á pollinum gáfu frá sér aðvörunarkvak þegar þær sáu Trölla skakklappast meðfram bakkanum.
Eftir sat ég og vissi ekki hvort mér fannst lífið flóknara eða einfaldara en áður.
.

Duck_007_019

.

 


Áfram Liverpool !

Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta en nú segi ég það.

ÁFRAM LIVERPOOL !

Þann 1. maí mun Chelsea spila á Anfield. Þetta er leikurinn sem skiptir öllu máli á leiktíðinni.

Liverpool vinnur þennan leik sem verður til þess að Manchester United verður Englandsmeistari í 19 . sinn. United hefur þá unnið deildina einu sinni oftar en Liverpool.

Liverpool þarf á sigri að halda í þessum leik til að ná hinu mikilvæga 4. sæti, Evrópusætinu.

Með hjálp Liverpool okkar ágætu granna verðum við meistarar í vor.

Snúið en dásamlegt.
.

 manchester_united_treble_trophies_premier_cup

.

 


mbl.is Ancelotti: Ekki gott að United féll úr Meistaradeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband