Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
Hillan
29.3.2010 | 22:50
Hann stóð í bókahillunni, hélt á risastórum fiski og brosti fallega þótt hann væri ljótur og dvergur þar að auki. Fiskurinn var nærri því jafnstór og hann. Augu fisksins störðu tóm út í loftið. Hann var dauður.
Langt og mjótt nef dvergsins teygði sig í gegnum kolsvartan hárlubbann. Á höfðinu bar hann einskonar Mexícanahatt.
Rétt hjá honum á sömu hillunni sat álfastelpa. Hún var í rauðum kjól og með rauðan hatt sem allur var skreyttur ávöxtum. Í vinstri hendi hélt hún á rauðbrúnum fugli. Hún brosti til dvergsins.
Bak við álfastelpuna var önnur lítil álfastelpa og sú hélt á hjarta. Hvítu hjarta með rauðum doppum. Hún stóð rétt hjá bangsanum í smekkbuxunum. Bangsinn var með svört augu og svart nef. Hann starði út í loftið með þreytubrosi enda hafði hann aldrei á ævinni sofið. Hann vissi ekki af þeim möguleika.
Í hillunni var líka broddgöltur. Hann var með veiðistöng og reyndi að fiska í rykinu vongóður á svip. Við hlið hans sat grænn engill. Hann var líka brosandi eins og nágrannar hans. Hann var með stór tindrandi augu og litla vængi. Á höfðinu bar hann hárband úr gulli.
Reykelsi, fleiri hjörtu í allskonar útgáfum, leðurhálsmen og armband, rúnir í leðurtuðru, Völuspá og útlendir smápeningar í plastpoka lágu hér og hvar á hillunni.
Skemmtileg hilla hugsaði ég og teygði mig í Sauðavöluna, setti hana á höfuðið, fór með þuluna, bar fram spurninguna og lét Völuna falla á litla skrifborðið mitt.
Bungan kom upp.
Á eftir gekk ég að glugganum og horfði út. Mikið rosalega var tunglið fullt.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tölurnar duttu.
27.3.2010 | 10:17
Ég var að grobba mig um daginn að hafa fest tölur í buxur. Það hefði ég ekki átt að gera.
Ég mátti vita að Guð fylgdist með mér og myndi stríða mér á þessu og sýna mér í leiðinni hvað ég væri ófullkominn.
Nú eru tölurnar dottnar af báðum buxunum, þeim brúnu og þeim gráu.
Mikið rosalega er ég spældur... ég sem vandaði mig svo mikið.
En eigum við ekki bara að kenna tvinnanum um ?
Nú ætla ég að fara í veiðidótið og ná mér í girni. Ætli það sé ekki alveg skothelt ?
Skoðum að lokum hvað G.E. Hannesson segir um þennan dag:
Þessi dagur kemur aldrei aftur og það sem þú gerðir ekki í dag verður kannski aldrei gert.
.
.
Best að drífa sig út með ruslið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sannfærandi.
21.3.2010 | 15:40
Mjög sætur sigur og aldrei í hættu.
Það er greinilega ekkert lið sem stoppar United í dag.
Sendi þeim félögum og vinum sem styðja Liverpool góðar kveðjur... en segi ekkert meira að svo stöddu.
Maður á ekki að sparka í liggjandi menn.
.
.
Það var sko hvorki hnoð né hark
Þegar hann Ji-sung Park
Skallaði í mark
United lagði Liverpool og endurheimti toppsætið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Myndarlegur ?
20.3.2010 | 22:56
Þegar karlmönnum tekst að festa tölur í buxur þá er stundum sagt;
Mikið rosalega ertu myndarlegur.
Ég afrekaði það í dag að festa, ekki eina tölu, heldur tvær tölur í gráu buxurnar mínar og þær brúnu líka.
Leit svo í spegil á eftir og varð fyrir töluverðum vonbrigðum.
Ég hafði bara nánast ekkert lagast.
Ég er samt ekki frá því að það hafi verið smá grobbblik í vinstra auga.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gáta
19.3.2010 | 21:09
Hér er fislétt gáta.
Þegar hann Al Gore deyr þá verður hann brenndur. Hann hefur ákveðið það.
Hvað heitir hann þá eftir þá aðgerð ?
.
.
Óðinshaninn
14.3.2010 | 23:34
Hann lagðist endilangur í sófann. Hann var einn í húsinu. Lokaði augunum og reyndi að sofna. Hann var yfir sig þreyttur.
Hann sá fyrir sér bjart tunglskin og dimm ský sem skyggðu það af og til. Vindurinn var hvass og það ýlfraði í þvottahúshurðinni.
Það var hrollur í honum og hann teygði sig í ullarteppið, reyndi að hugsa eitthvað hlýlegt. Hugsaði um grænan árbakka og Óðinshana syndandi í lítilli vík.
Honum hefur alltaf þótt Óðinshaninn fegurstur fugla. Það er svo mikil ást og samkennd meðal karlfuglsins og kvenfuglsins. Vinna ákveðin sín verk án þess að tala mikið. Einstaka lástemmt kvak heyrist í þeim þegar þau segja; ég elska þig.
Við þessar hugsanir hlýnaði honum undir teppinu og fann að nú gat hann sofnað. Hann hafði alltaf verið þannig að ef honum var kalt þá gat hann ekki fyrir nokkurn mun sofnað. Og ef honum var verulega kalt þá klæddi hann sig í lopasokka.
Hann hrökk við bank á útidyrnar... hann reis upp við dogg og leit á stofuklukkuna... hún var hálf fjögur. Hver gat eiginlega verið á ferðinni um hánótt ?
Hann opnaði dyrnar. Einhver hljóp í burtu frá húsinu og út í hríðarbylinn. Á stéttinni var stór bastkarfa vafinn rauðköflóttu sjali.
Hann lyfti bastkörfunni varlega og gekk inn í húsið. Setti körfuna á eldhúsborðið, hikaði við að taka sjalið af. Hann hugsaði um allar bíómyndirnar sem hann hafði séð og sögurnar sem hann hafði lesið. Það var alltaf barn í svona bastkörfum.
Hann teygði sig skálfhentur í sjalið og dró það að sér. Snéri höfðinu til hliðar og leit hálfvegis til baka í átt að körfunni.
Það var ekkert barn en í körfunni var bangsi og í hendi hans var miði. Hann tók miðann, setti upp gleraugun og las.
"Óðinshani"
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ánamaðkaheimspeki
13.3.2010 | 11:19
Jæja, þá er maður vaknaður einu sinni enn eins og stendur í blúskvæðinu.
Ég vaknaði í morgun eins og ég vaknaði í gær og ef ég vakna aftur á morgun þá hef ég vaknað þrjá daga í röð.
Maður er stundum svo ferskur á morgnana í hausnum en núna er ég bara með hausverk... ekki það að ég hafi verið á fylliríi í gær, nei þetta er bara svona óþarfa hausverkur... þrátt fyrir hann hef ég verið að hugsa ýmislegt eins og t.d. hvernig skyldu ánamaðkarnir hafa það... hvernig ætli það sé að vera ánamaðkur og vera alltaf á kafi í mold og drullu... þeir vita ekki einu sinni að það eru að koma Páskar... svo eftir langan vetur þegar greyin langar að koma upp á yfirborðið og kanna ástandið þá eru þeir étnir af hettumávum... hvers konar líf er þetta eiginlega... svo erum við mannfólkið að kvarta undan því hvað við erum blönk.
Já, svona var ég að hugsa í morgun. En núna finn ég að ég er að verða svangur og langar í te og ristað brauð með sveitaosti og ef ég væri ekki í aðhaldi þá fengi ég mér blandaða berjasultu ofan á.
Svo hugsaði ég aðeins um Guð í morgun líka... ég var að spá í af hverju enginn annar en hann heitir Guð... ætli mannanafnanefnd banni það ? En samt má heita Guðfinna og Guðgeir og Guðsteinn og Guðríður og Guðmundur, það verður bara alltaf að vera eitthvað fyrir aftan Guð.
Að lokum vona ég að dagurinn ykkar allra verði góður og ef að eitthvað bjátar á hugsið bara um ánamaðkana.
.
.
Betra er að vera blankur en ánamaðkur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sólskinið í Dakota
7.3.2010 | 23:02
Hef verið að hlusta á diskinn "Sólskinið í Dakota" með Baggalút.
Kom verulega á óvart, falleg lög og góður flutningur. Megas og Gylfi Ægisson eru gestasöngvarar á disknum.
Öll kvæðin (nema eitt) eru eftir Kristján Níels Júlíus eða K.N. eins og hann kallaði sig.
Þetta syngur Megas eins og honum einum er lagið.
Ég finn hve sárt ég sakna
Hve sorgin í hjartað sker.
Af sætum svefni að vakna
en sjá þig ekki hér;
því svipur þinn á sveimi
í svefni birtist mér.
Í drauma dularheimi
ég dvaldi í nótt hjá þér.
.
.
Dægurmál | Breytt 8.3.2010 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skjótum og njótum.
4.3.2010 | 20:12
Það hefur heldur ekki náðst samkomulag um lóuveiðarnar. Það er til fók sem er á móti lóuveiðum. Fólk sem hlustar bara á Björk og Sigurrós; fólk sem ég kalla nú bara viðkvæmninga.
Við eigum að nýta auðlindir okkar í botn og ekki láta lóuna sleppa. Við gætum byrjað á vísindaveiðum fyrst áður en við byrjum á fullu.
Nú þýðir ekkert fyrir okkur að vera viðkvæm fyrir dirrindíinu í lóunni... og látum heldur ekki einhverja útlendinga segja okkur hvað við eigum að gera.
Fyrir utan það hvað lóan fer illa með móana okkar.
Skjótum og njótum segi ég.
.
.
Ekki samkomulag um hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)