Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Áramótaávarp
31.12.2009 | 14:10
Jæja enn eitt árið næstum því búið.. vonandi hefur maður gert eitthvað gott á árinu... og lært eitthvað af mistökunum sem maður gerir líka... því vill maður ekki alltaf gera betur og betur á hverju ári ? Hvar endar þetta eiginlega ?
Ég nálgast nú nýárshliðið
á tímanum þangað hef riðið
Ég oftast var góður
Hvorki illur né óður
Brátt árið er allt saman liðið
Kveð árið með koníakstári
Kannski ég flöskuna klári
Á morgun samt upp rís
og fæ mér svo lakkrís
Á splunkunýju ári
.
.
Gleðilegt ár !
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laufabrauðsagan seinni hluti.
27.12.2009 | 11:13
Þegar brauðið kláraðist kallaði Ólafur hátt og hvellt svo heyrðist til næstu húsa Laufa... brauð... meira brauð og aftur Laufa, brauð, komdu með brauð vinan mín. Urðu konur í næstu húsum mjög forvitnar og langaði að vita hvernig það brauð væri sem Ólafur kallaði svo hátt á og fóru heim til þeirra hjóna og sögðu: Af hverju kallar hann Óli alltaf Laufa-brauð, Laufa-brauð? Var þeim sögð sagan og báðu þær Laufu þegar um uppskriftina og var það auðsótt mál, ef þær lofuðu því að enginn utan fjarðarins fengju nokkurn tíma að sjá hana. Þær lofuðu því og nefndu brauðið Laufabrauð eftir kalli Ólafs.
.
.
Seinna þegar Ísland var albyggt kvisaðist það út að á Ólafsfirði væri til sérstök tegund brauðs er borðað væri á jólum eingöngu og þætti gott. Þingeyingar vildu gjarnan komast yfir uppskriftina og eigna sér hana, enda manna ánægðastir með lífið og þykjast gjarnan upphafsmenn alls.
Til dæmis má nefna að þegar Kaupfélag Þingeyinga var stofnað, fyrst allra kaupfélaga á Íslandi að þeirra mati, var kaupfélag Ólafsfirðinga löngu komið á hausinn.
Þingeyingar gerðu út leiðangur til Ólafsfjarðar og stálu uppskriftinni af gamalli ekkju lasburða. En þegar þeir rifu blaðið úr uppskriftabókinni hennar varð eftir setning neðst þar sem stóð kúmen eftir smekk. Þess vegna sjá menn og vita að upprunalegt Laufabrauð er með kúmeni en önnur ekki. Þingeyskt Laufabrauð er því bara plat. (Varist eftirlíkingar)
.
.
Ef þú vilt fá ekta Laufabrauð verður þú að snúa þér til einhvers góðs Ólafsfirðings sem gerir brauðið eftir uppskriftinni hennar Laufu gömlu.
Til gamans má geta að bróðir Laufu var Skarphéðinn Skata hann fann upp skötuna. Þá var Patrekur pipar einnig bróðir þeirra, en sá fann upp piparkökuna. Þeirra saga verður sögð síðar. Ýmsa aðra siði sérstaka höfðu Ólafsfirðingar á jólum. Skal hér eitt dæmi tekið til gamans í lokin.
Til að skemmta börnum sínum um jólin var sú nýbreytni tekin upp er fólk af öpum komið fór að setjast að í nálægum byggðum að farinn var leiðangur til bæjar eins skammt frá er Akureyri hét. Þar voru fengnir nokkrir sveinar, oftast þrettán, að láni til að skemmta krökkum Ólafsfirðinga. Fólk það er á Akureyri bjó þótti mjög skrýtið og sérkennilegt og ekki þótti það beint stíga í vitið og því tilvalið skemmtiefni.
.
.
Eftir ein jólin voru sveinar þessir sendir í fyrsta skiptið einir heim, gangandi yfir Tröllaskagafjöllin. Sem vita mátti rötuðu þeir ekki heim, villtust á fjöllum og eru þar enn.
Þeir koma þó til byggða einu sinni á ári um þetta leiti árs og litlu börnin kalla þá jólasveina.
.Ég kalla þá nú bara Akureyringa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heylagur
24.12.2009 | 13:21
Kannast fólk við orðið "Heylagur" ?
Nú, ekki ? Þá skal ég segja ykkur smávegis um þetta skrítna orð.
Eins og þið hafið þegar gert ykkur grein fyrir þá er þetta ekki sama orðið og heilagur sem kennt er við andann. Það orð er annars mjög merkilegt og ég held þið ættuð að velta því fyrir ykkur í smá stund áður en þið farið að sofa í kvöld. Þar sem er heilagur staður, talar maður ekki og stígur til jarðar hljóðlaust, dáist að því sem fyrir augun ber og fyrir því sem ekki sést en maður skynjar.
Heilagur maður er mjög heilagur.
Heylagur með yppsiloni er hinsvegar knippi af þurrkuðu heyi sem búið er að flétta í tíkarspena eins og Lína Langsokkur var með. Í endann breiðir heyið úr sér og er eins og sópur sem galdrakerlingar fljúga á um bláan himinninn.
Álfar og huldufólk notuðu heylag til að banka ryk úr rósóttum rúmteppum.
Rúmteppin voru hengd út á snúru og barin sundur og saman, oftast í sunnangolu og sólskini.
Og þá var Heylagið sungið á meðan :
Heylagur, heylagur
Bankaðu nú fast
Teppið og rósirnar allar
Heylagur, heylagur
Út um tvist og bast
meðan að grauturinn mallar
Með þessum þjóðlega fróðleik sendi ég bloggvinum mínum, þjóðinni allri og mannkyninu í heild mínar frómustu óskir um gleðirík jól. Vona ég að sem flestir fá handklæði í jólagjöf.
Munum að við lifum á lítilli kúlu í alheiminum og ævi okkar líður sem augnablik í eilífðinni.
Hættum svo að henda tyggjói út um allt.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleymdi jólasveinninn
20.12.2009 | 09:03
Það er engin leið að segja til um hvað jólasveinarnir eru margir. Jólasveinar einn og átta benda til þess að þeir hafi verið 9, ekki rétt ?
En oft er líka talað um að þeir séu 13 og Stúfur sá sem síðastur kemur til byggða.
Ég hef hinsvegar fyrir því traustar heimildir að þeir hafi verið 14 !
Og ég veit líka hvað fjórtándi jólasveininn heitir... jamm... hann heitir Rúfur.
Eftirfarandi sögu fann ég uppi á fjöllum um daginn... sagan var skrifuð á kálfskinn og var greinilega blaðsíða úr skýrslu jólasveinanna til Grýlu og Leppalúða anno 1777.
Þegar við 12 jólasveinarnir vorum komnir til byggða föttuðum við að við fundum hvergi jólaölið sem Grýla mamma hafði gert handa okkur . Við leituðum í öllum bakpokum en fundum ekkert.
Hver bar allt jólaölið ? Spurðum við og klóruðum okkur í skegg. Var það á þér ? Var það á þér? Spurðum við hvor annan og alla í einum kór.
Loks segir Kertasníkir... nú man ég... það var allt á Rúi og Stúi.
Líkur nú tilvitnunin í kálfskinnið.
Jólasveinarnir voru ekki betri í stafsetningu en það að þeir kunnu ekki að skrifa nöfnin sín rétt. Gleymdu f-inu í Rúfi og Stúfi.
Og þá vitum við hvaðan orðatiltækið "Allt á rúi og stúi" er komið.
Já, svona hljómar þessi ótrúlega saga... en sönn er hún og engin lygi hér á ferðinni Steingrímur.
Þetta eru einu heimildirnar um hann Rúf... gleymda jólasveininn... hann kemur til byggða á jóladag en gefur engum í skóinn vegna þess að það er ekki nokkurt barn sem setur skóinn sinn út í glugga eftir að Stúfur hefur verið á ferðinni.
En nú er bara að prufa það og sjá hvað gerist. Passið bara að hafa ekki allt á rúi og stúi.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laufabrauðsagan 1.hluti
18.12.2009 | 22:12
Jæja, þá er komið að árlegri jólasögu... alltaf sama sagan. Þetta er fyrri kapítuli.
Sagan um uppruna Laufabrauðsins.
Nokkru áður en Ingólfur strokumaður frá Noregi fann Ísland, hafði sest að fólk og hafið búsetu í miðju steinhjarta Tröllaskagans. Engin vissi hvaðan þetta fólk hafði komið. Talið er þó, vegna hárrar greindarvísitölu og mikillar útgeislunar stofnsins að það hafi ekki verið komið af öpum eins og aðrir sem jörð þessa byggja. Tilgátur eru á lofti um að það hafi verið komið langt að, jafnvel frá fjarlægum sólkerfum. Fólk þetta settist að í frjóum og afskekktum firði með háum fjöllum allt í kring. Fjörðinn nefndu þau Ólafsfjörð eftir foringja sínum, Ólafi Bekk.
Ólafur Bekkur átti konu eina, mikinn skörung og skemmtilega. Hún kunni líka ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu blessunin. Kvenmaður þessi hét Laufa og bar eftirnafn manns sín. Laufa Bekkur hét hún því fullu nafni. Hún var ætíð góð við kallinn sinn og hugsaði um hann af einstakri natni og ást. Ólafur Bekkur sást því aldrei öðruvísi en brosandi út að eyrum.
Seinna umbraust, sem kallað er, F-ið í nafninu Laufa í G og þaðan er nútímanafnið Lauga komið. Þetta merka brauð sem hér er um fjallað, ætti því að heita Laugabrauð, en ekki Laufabrauð.
.
.
Laufa var góður kokkur, eldaði og bakaði ýmislegt er þeir sem síðar komu til landsins höfðu aldrei séð hvað þá smakkað og var margt af því tengt jólahátíðinni. Enginn vissi reyndar í þá daga af hverju þeir voru að halda jólin hátíðleg. Heimsumbólið var aldrei sungið af því að það var ekki enn búið að semja það. En þó voru til jólalög og þeirra vinsælast var Þrumarasöngurinn.
Þruma - þruma - þruma
við skulum klóra suma
undri herðablaðið
eftir jólabaðið.
Brauð var steikt um jól og borðað með jólamatnum ásamt öli sem karlmennirnir brugguðu. Sagt er að þegar Ólafur hafi verið orðinn hýr og kátur eftir stífa drykkju, hafi hann étið manna mest af kjöti með Þora baunum og niðurstúf... niðurstúfur var svört sósa ekki ósvipuð þeirri hvítu sósu sem við í dag köllum uppstúf... niðurstúfurinn var bara miklu sætari. Þora baunirnar eru náttúrulega bara grænu baunirnar sem við köllum núna Ora baunir. En í þá daga voru það bara hinir hugrökkustu sem þorðu að borða þessar grænu baunir, Þora baunirnar. Liturinn á þeim skelfdi.
Hefð var fyrir því að borða hanginn skarfa á Aðfangadag. Með skarfinum voru snæddar barða kartöflur (það var áður en fólk fór að stappa kartöflur) með njólauppstúf.
Ef að skarfurinn var vel hanginn, ljúffengur og bragðsterkur sögðu menn; þetta er nú meiri skarfurinn.
Best þótti þó Óla kallinum þunna brauðið er elskulega Laufa hans hafði steikt uppúr feiti og kláraðist það ætíð fyrst allra kræsinga af borðum.
Það eina sem Ólafi fannst betra en Laufabrauðskaka með sméri, voru tvær Laufabrauðskökur með sméri.
Framhald.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flibbahnappur
16.12.2009 | 23:47
Mér finnst skrítið hvað lítið er gert úr flibbahnöppum í viðskiptum í dag.
Af hverju heyrir maður aldrei svona auglýsingar;
"Vorum að taka upp nýja sendingu af flibbahnöppum"
"Komdu elskunni þinni á óvart með glitrandi flibbahnapp á flibbahnappadaginn"
"Láttu flibbahnappana tala"
Ég á mjög lítið af flibbahnöppum og langar rosalega í svoleiðis í jólagjöf, helst þráðlausan.
En snúum okkur nú aftur að flibbahnappakvæðinu:
Nú er hún Gunna á nýju skónum,
nú eru að koma jól
Siggi er á síðum buxum,
Solla á bleikum kjól
Ég er alltaf í síðum buxum og í svörtum skóm með hvítum doppum en skil ekki af hverju Gunna og Siggi voru á skónum og á buxunum.
Minnir mig svolítið á manninn sem prumpaði á sig.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Reiknisþraut
14.12.2009 | 23:08
Það eru allar tölur svo stórar í dag en sumar þó litlar.
Las það í símaauglýsingu að maður getur eignast 160.000 vini... prísa mig eiginlega sælan að eiga ekki svo marga vini.
Ef ég keypti jólagjafir handa þeim öllum og hver gjöf kostaði 1.000 kr. þá myndi ég eyða 160.000.000 milljónum í jólagjafir. Heppinn er ég að eiga fáa vini... það er svo miklu ódýrara.
Og talandi um litlar og stórar tölur þá var það í fréttunum að fótboltafélagið West Ham kostaði bara 10,6 milljarða íslenskar krónur. Svipuð upphæð og Búnaðarbankinn var seldur á fyrir örfáum árum... þetta eru nú bara smáaurar... það er ekki fyrr en maður heyrir orð eins og "þúsundmilljarðar" að maður leggur við hlustir.
Og enn um tölur. Fyrrverandi vinur minn Christiano Ronaldo gerir 3.000 magaæfingar á dag enda sést það á naflaumhverfi pilts.
Ég er nýbyrjaður að gera magaæfingar eftir laaaaaaaaaaaaaaannnnnnnnnnnnnngggggggtttttt hlé.
Ég geri 30 æfingar á dag og byrjaði í gær... þetta tók mig 5 mínútur... ef ég næ að komast upp í 3.000 æfingar á dag eins og Ronaldo fyrrverandi vinur minn, hvað tæki það mig þá margar mínútur eða klukkustundir ?
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Iðar
12.12.2009 | 11:12
Einu sinni var maður sem hét Iðar.
Hann var afdalabóndi og bjó í Skinni í Litlahreppi.
Þegar hann kom í bæinn í verslunartúr tóku allir eftir honum. Hann var mjög hávaxinn og einnig mjög hárvaxinn. Rautt sítt hár og skeggið svo mikið að ekkert sást í andlitið nema dökkblá augun.
Þegar hann talaði þá opnaðist rifa í miðju skegginu og munnurinn kom í ljós. Röddin var djúp og mikil, rám og minnti helst á hrút með hálsbólgu.
Fólkið hvíslaði sín á milli; hver er þetta eiginlega ?
Jú, þetta er hann Iðar í Skinninu var svarið.
.
.
Iðar tók einu sinni upp á því að fara að stunda messur í bænum. Hann hafði unun af því að hlust á sálmana sem kirkjukórinn söng. Iðar lærði smám saman textana og söng með í huganum. En svo þegar tíminn leið þá fór hann að syngja upphátt. Fyrst var þetta bara svona raul en fljótlega var hann farinn að syngja af fullum krafti.
Iðar söng hátt og snjallt. Það var eins og hundrað hrútar væru saman komnir. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig "Bjargið aldan borgin mín" hljómar úr munni hundrað hrúta.
Þessi söngáhugi Iðars varð brátt vandamál. Kirkjugestir voru hættir að heyra í kirkjukórnum og kvörtuðu við prest og kórstjóra undan honum.
Iðar var kallaður á fund. Iðar minn, sagði séra Gaukur varfærnislega. Er nokkur möguleiki á því að þú gætir aðeins lækkað róminn þegar þú syngur ? Kirkjukórinn á í mestu erfiðleikum með að yfirgnæfa þig. Já, já svaraði Iðar, ef ég má vera meðhjálpari þá skal ég alveg hætta að syngja.
Eftir töluvert japl, jamm, fuður og baktjaldamakk var Iðar boðið að vera meðhjálpari einu sinni í viku en þó með einu skilyrði. Hann yrði að raka af sér skeggið og snyrta hár sitt.
Það var fjallmyndarlegur maður sem kom í ljós þegar allt hárið hafði verið fjarlægt af Iðar. Það leið ekki á löngu þar til hann giftist henni Valdínu í kirkjukórnum.
Eignuðust þau dreng sem skírður var Yðar.
Líkur nú sögunni af Iðar í Skinninu.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
H karl
10.12.2009 | 23:47
Eins og alþjóð veit þá er ég ekki meira hræddur við neitt eins og hákarla.
Þó hef ég borðað hákarl en hákarl hefur aldrei borðað mig. Þetta sem hrjáir mig held ég að sé kallað fóbía.
Þegar ég er að synda í sundlaug þá kemur það fyrir að ég sé skugga bregða fyrir og er næstum því viss um að þar er hákarl á ferð.
Einu sinni var ég valinn í Olympíulandsliðið eftir að hafa forða mér frá hákarli í Laugardalslauginni. Ég útskýrði hinsvegar fyrir hinum tékkneska Vladimir Stanislav landsliðsþjálfara að ég gæti ekki komið með á Olympíuleikana því ég synt bara svona hratt þegar hákarl væri á eftir mér.
Það er enn allt fullt af Icesave í útvarpinu þegar maður opnar það... minnir mig svolítið á Víetnam í denn... en þá mátti maður ekki opna gula ferðaútvarpið án þess að heyra hvað margir hefðu fallið þann daginn í Víetnam... en svo eftir nokkur ár verðum við næstum því búin að gleyma Icesave...
Ég meiddi mig á fingri í dag... var að bera þunga kassa og klemmdi einn puttann á mér illa... þetta var baugfingur vinstri handar... en svo þegar leið á kvöldið þá var allur verkurinn í löngutönginni... Þá komst ég að því að ég get gert mistök... ég hélt ég hefði meitt mig á baugfingri en svo reyndist þetta vera langatöng eftir allt saman... svona getur maður verið mannlegur...
Ég bið íslensku þjóðina afsökunar á þessum mistökum.
.
.
Í næsta þætti mun ég gagnrýna nýtt ljóð eftir sjálfan mig sem heitir Þjófabálkur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Steingrímur er maðurinn
7.12.2009 | 22:54
Mikið svakalega hefur hann Steingrímur staðið sig vel fyrir land og þjóð síðan hann komst í stjórn.
Það er greinilegt að hann hefur lagt hart að sér að bjarga þjóðinni úr þeirri klípu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn komu okkur í.
Stundum þegar ég heyri fréttir og það er minnst á fjármálaráðherra þá hugsa ég augnablik; hver er aftur fjármálaráðherra í dag ? Já, það er hann Steingrímur J. svar ég svo sjálfum mér.
Fyrir mér er Steingrímur J. nefnilega forsætisráðherra landsins og sá eini sem ég kem auga á að hafi það sem til þarf að bera til að leiða okkur út úr ógöngunum.
Hann er heiðarlegur og klár og hefur þrek til að standa upp í hárinu á kexruglaðri stjórnarandstöðunni sem n.b. er sú alversta stjórnarandstaða sem uppi hefur verið.
Ekkert vandamál af hálfu VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |