Síðasti veiðitúrinn
2.9.2007 | 01:11
Veit ekki hvort ég á að þreyta fólk með enn einni sögunni frá veiðitúrunum mínum í sumar... en ætla að gera það samt... þó að ekki væri nema fyrir sjálfan mig að eiga í minningunni... við vorum sem sagt nokkrir félagar að veiða í Laxá í Laxárdal seinnipartinn 30.ágúst og allan 31.ágúst. Veðrið var einstaklega gott, logn og hlýtt, en þó smá regngusur af og til, eingöngu til að hleypa lífi í ánna...
...við stóri Björn bróðir minn vorum saman til að byrja með... og gekk nokkuð vel... veiddum fallega fiska og runnum saman við vatnið og umhverfið, ekki síst þegar við vorum með fisk á samtímis og um leið flugu fjórir svanir rétt yfir höfuð okkar eins og þeir væru að kveðja okkur í lágflugi...
... um kvöldið var drukkið púrtvín og borðaðir himneskir ostar og sungið fram á nótt... besta lagið var tvímælalaust Hudson Bay... þar sem við vorum feikigóðir, þó ég segi sjálfur frá...
... vögguvísan "Dvel ég í draumahöll..." sveif út yfir sogið um klukkan tvö um nóttina og fiðrildin, flugurnar og fuglarnir... leyfðu sér að stoppa um stund og hlusta og gleyma sér eitt andartak í stilltum flóanum... sem minnti um leið á eilífðina... spegilsléttur flöturinn djúpur og dularfullur...
Stóri Björn þurfti að fara að sinna erindum um hádegið daginn eftir... skildi Bratt bróður eftir einan í heiminum... og þá voru góð ráð dýr... Brattur er reyndar þannig gerður að hann kann vel við sig einn, er svona lóner, eins og sagt er í kúrekamyndunum...
... hann fór því að kanna nýjar slóðir, veiðistaði þar sem hann hefur aldrei reynt að kasta fluga á í 11 ár, eða frá því hann byrjaði að veiði í þessum draumaheimi sem Laxáradalur er...
... fór því upp fyrir alla þekkta veiðistaði, gekk langar leiðir yfir hraun og kjarr og síðan þéttan skóg, vissi ekki hvort hann nokkurn tíman myndi komast til baka... en var alveg sama, hann var að leita að einhverju nýju ... eitthvað sem tosaði í hann svo mikið að hann þurfti ekki endilega að vera viss um að komast til baka úr þessum leiðangri...
... eftir langt labb kom svo veiðimaðurinn að ánni... sveittur og kaldur, því það var rigning allan tímann... áin blasti við og þarna rétt ofar var spegill og í þessum spegli var fiskur, það var veiðimaðurinn með á hreinu... þokan hafði læðst upp dalinn og gerði þessa kvöldstund en óraunverulegri... eftir tvö þrjú köst kom hvellur... urriðinn hafði tekið og dansaði á sporðinum um ánna... veiðimaðurinn horfði agndofa á... smyrill flaug yfir ánna að elta smáfugl... þetta reyndist vera hrygna og henni var sleppt... næst kom hængur og hann fór í plastpokann á bakinu... og svo sjá þriðji sem dansaði urriðadansinn af miklum krafti og sleit sig svo lausan... maðurinn hafði lent í ævintýri á stað sem aldrei hafði verið til og myndi aldrei verða til aftur...
... veiðimaðurinn óð í land og horfið til himins, það var lágskýjað og rigningin hafði færst í aukana... það var eins og hann væri ekki í þessum heimi... hann rölti upp að bílnum orðinn gegnblautur, hugsaði um allt það sem hann hafði gert í lífinu og hvað hann hafði ekki gert...
... gekk frá veiðidótinu, þó enn væri nóg eftir að veiðitímanum... hann var saddur, hann hafði fengið nóg... keyrði niður dalinn í þokunni, blautur og þreyttur... hlustaði annarshugar á leiðinni niður í veiðihús á Cohen syngja; The Last Waltz...
.. og hann hugsaði; væri kannski enn tími til að gera eitthvað nýtt í þessu lífi?
Athugasemdir
Já, þeir eru bara brattir sumir veiðigæjarnir . Þakka smemmtilega sögu. Hefði viljað hlusta á Hudson Bay sungna af ykkur drengjum , einnig hefði ég viljað sjá sporðdansinn um alla ánna. Læt mína veiðisögu flakka einhvern daginn
Rannveig Margrét Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 02:08
Bjartur, heitir þú annars ekki Bjartur. Góð veiðisaga.......ég hlakka svo til að fá þig og finna straumana frá þér......Max er abbó
kloi, 2.9.2007 kl. 02:30
Cohen er bestur...þvílík ljóð sem hann semur. En mjög svo skemmtileg viðisaga hjá þér...skrifuð af mikilli tilfinningu. Já, það er gott að vera einn með sjálfum sér úti í náttúrunni og ekki verra að fá smá rigningu.
Lífið er svo stutt, eigum að njóta hverrar mínútu !
Vilborg er komin á skrið með Ketilásinn hún var að skrifa um það sem hún er búin að athuga á síðuna sína.
kv. Magga
Hulda Margrét Traustadóttir, 2.9.2007 kl. 11:41
Brattur minn..... þú þreytir mig aldrei. Ég er meira að segja alveg að fá veiðidellu eftir sumarið..... bara af frásögnum þínum.
Anna Einarsdóttir, 2.9.2007 kl. 11:43
Flottur penni Brattur.....góð saga og vel "tengd" við tilfinningar. Bestu kveðjur norður.
Vilborg Traustadóttir, 2.9.2007 kl. 11:57
Skemmtileg og vel skrifuð saga Brattur bloggvinur. Takk.
Marta B Helgadóttir, 2.9.2007 kl. 17:59
... já, gott fólk, veiði er ekki bara veiði eins og þið kannski sjáið... þetta snýst um umhverfið... leitina að fiskinum, snýst um veður, birtuna og síbreytileikann sem verður á öllum hlutum úti í náttúrunni eftir því hvernig vindarnir blása... snýst um það að vera einn, snýst um það að vera með félögunum og að gleyma sér smá stund...
... takk fyrir góðar athugasemdir...
Brattur, 2.9.2007 kl. 20:56
Góður Brattur.
Halldór Egill Guðnason, 2.9.2007 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.