Vöðludansinn

Ég bjó til nýjan dans í veiðiferðinni í vikunni. Vöðludansinn. Það var þannig að ég óð stríðan streng út í Maríuhólma. Þar er góður veiðistaður. Maríuhólmi var hinsvegar á kafi í vatni. En þó ekki nema svona fet þar niður á botn. Fljótlega setti ég í fisk. Ég gat ekki geymt fiskinn í hólmanum, af því að hann var á kafi í vatni (líklega er það þá ekki hólmi lengur) Ég nennti ekki að vaða strauminn til baka aftur með fiskinn, vildi veiða meira á þessum stað.

Ég var með plast inn á bakinu á veiðivestinu. Og þá hófst dansinn. Nokkur fjöldi áhorfenda streymdi að til að fylgjast með. Þar voru 3 aðrir veiðimenn, nokkrar húsendur og tveir óðinshanar. Til þess að komast í plastið á bakinu á veiðivestinu, var ég fyrst að fara úr regnjakkanum sem ég var með utanyfir. Úti var þónokkur rigning svo ég varð að vera fljótur að athafna mig til þess að verða ekki hundvotur í úrhellinu. Mér tókst að smokra mér úr regnjakkanum eftir langan tíma og vefja honum um hálsinn, því ekki gat ég haldið á honum og veiðistönginni og fiskinum, öllu í einu. Ég var með veiðistöngina á milli hnjánna og fiskinn í annarri hendi. Með lausu hendinni varð ég að klæða mig úr flíkunum,þarna í miðri ánni. Meðan ég var í þessu brasi þá einhvernvegin sneri ég alltaf í hringi, þið vitið, eins og maður gerir þegar maður klæðir sig úr peysu án þess að nota hendurnar.

Þegar regnjakkinn var kominn utan um hálsinn þá þurfti ég að komast úr hálfu vestinu! Þýðir, að ég þurfti ekki að fara úr því öllu, bara helmingnum, þ.e. annarri erminni, svo ég komi þessu nú út úr mér. Þá loksins gat ég teygt mig í rennilásinn að hólfinu sem geymdi plastpokann. Ég stakk fisknum í pokann og batt fyrir og kom honum fyrir í hólfinu og klæddi mig í vestið. En þá datt regnjakkinn sem hafði verið vafinn um hálsinn í ánna. Ég dró hann gegnblautan úr ánni og hafði engin önnur ráð en að klæði mig í hann aftur og hefja veiðar að nýju. Þeir veiðimenn sem voru í landi og fylgust með sögðu að ég hafi verið a.m.k. hálftíma í þessu brasi. Líklega hefði ég bara verið 10 mínútur að fara í land og til baka aftur. En það var erfitt að hætta þegar dansinn var byrjaður. Einnig sögðu þeir félagar mínir hafa haldið að ég væri að reyna að klæða mig úr vöðlunum í miðri á án þess að blotna.

Hvaða lærdóm getur maður svo lært af þessu; ég held engan... ég verð alltaf sami kjáninn...


Unginn flýgur úr hreiðrinu

Það kemur alltaf sá tími að ungarnir fljúga úr hreiðrinu. Ungarnir mínir flugu burtu fyrir löngu, eða þannig. En þeir fóru ekki langt. Búa stutt frá okkur svo við sjáum þá af og til með litlu ungana sína og það er gott.

Þegar dóttir mín var að slíta sig að heiman var ekki laust við að manni þætti það erfitt, enda finnst manni börn aldrei nógu stór til að fara undan verndarvængnum og fljúga út í víðáttuna þar sem margskonar hættur bíða, en veit samt innst inni að það er einmitt það sem þau þurfa að gera.

Þetta ljóð fann ég í dóti hjá mér um daginn.

 

Skórinn

Þegar ég kom út
í morgun

fann ég strigaskó
á stéttinni

þú hafðir
yfirgefið hreiðrið
kvöldið áður
með dót þitt
í poka

ég tók slitinn
skóinn
og hélt honum
að mér

kannski
kæmir þú seinna
að vitja hans

 


Bloggfærslur 25. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband