Færsluflokkur: Dægurmál
Þetta verður góð vika.
24.1.2010 | 21:02
Strákarnir okkar senda mann ýmist niður í kjallara eða langt upp á himininn.
Held þeir eigi eftir að vinna fleiri leiki í vikunni.
Þessi mynd frá því í gær er svo skemmtileg þó maðurinn á henni sé það kannski ekki alveg.
.
.
Alexander: Hljótum að stefna á undanúrslitin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gungan
18.1.2010 | 22:28
Einu sinni var maður sem var hræddur við allt. Hræddur við veðrið, hræddur við sólina, hræddur við tunglið, hræddur við vatnið og eldinn.
Hann var hræddur við öll dýr. Kóngulær, ljón, ánamaðka, sæhesta og hænur.
Hann var því alltaf kallaður Gungan.
Gungan bjó ein í fallegu húsi fyrir utan þorpið við hliðina á ánni.
Einu sinni var hún á gangi meðfram árbakkanum. Hinumegin við ána voru börn að leika sér með bolta... allt í einu sér Gungan að boltanum er sparkað út í ána.
Eitt barnanna reynir að teygja sig í boltann en dettur út í. Gungan sér þegar straumurinn tekur barnið með sér, það sekkur en skýtur upp neðar. Gungan byrjar að hlaupa meðfram árbakkanum og reynir að fylgja barninu eftir með augunum.
Áður en hún veit sjálf af stekkur Gungan út í ána og hugsar ekkert út í það að hún kann ekki að synda. Kraflar ofan í vatnið með höndunum og hjólar með fótunum af öllu afli. Hún nálgast barnið og nær að grípa í hettuna á rauðri úlpunni, heldur höfði barnsins upp úr vatninu og lætur sig reka með straumnum. Allt í einu eru Gungan og barnið komin út úr straumnum í lygnt vatn. Hún finnur fyrir botninum og nær að standa upp og ganga í land með barnið í fanginu.
Þau leggjast í grasið og barnið grætur. Það er lifandi hugsar Gungan... og ég, ég bjargaði því... ég er engin Gunga ég er hugrakkur. Maðurinn finnur fyrir mikilli og óvæntri hamingju. Hjarta hans er að springa af gleði.
Allt í einu heyrast hróp og köll. Gungan sér hvar hópur fólks kemur hlaupandi og lögreglan fremst í flokki. Lögreglan kastar sér á hann, grípur um úlnlið hans, veltir honum á grúfu og handjárnar.
Fólkið hrópar ókvæðisorðum að Gungunni; barnaníðingur, aumingi, morðingi, GUNGA.
Svo er hann leiddur í handjárnum að lögreglubílnum. Hann sér hvar móðir barnsins situr í grasinu og faðmar barnið. Hún lítur upp og horfir á hann. Það er hatur í augum hennar.
.
.
Dægurmál | Breytt 19.1.2010 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ronni
16.1.2010 | 14:22
Við Ronni lentum í smá ævintýri í nótt. Ronni er gestur á heimilinu, grár feitlaginn köttur.
Þar sem nokkuð er um ketti í húsinu þarf hver og einn að finna sér pláss og helga sér land.
Ronni hefur valið baðherbergið. Þar hefur hann fundið sér fleti hjá ofninum þar sem hann lætur sig dreyma um sól og sumar og hagamýs.
Ronna þykir sopinn rosalega góður. Hann stekkur upp í baðkarið þegar hann verður þyrstur og sleikir dropana sem þar hafa orðið eftir þegar einhver hefur verið í sturtu.
Í nótt vaknaði ég og rölti fram á baðherbergi. Ronni var hálf sofandi, reyndi að mjálma en það kom bara svona hljóð út úr honum eins og úr falskri ryðgaðri munnhörpu, djúpu tónarnir.
En svo vaknaði hann og stökk upp í baðkarið og bað um vatn... mjáaááaááááa...
Ég, varla vakandi, teygði mig í kranann og skrúfaði frá... en sturtan fór þá í gang og bleytti okkur báða verulega mikið... ég varð alveg hundblautur... en ég get varla sagt það um Ronna þar sem hann er köttur... en hann varð semsagt alveg eins og ég hundblautur og stökk með látum upp úr baðkarinu og þaut fram.
Í morgun hefur Ronni alveg forðast mig og tekur alltaf smá sveig framhjá mér þegar við mætumst. En ég held að hann hafi nú samt haft lúmskt gaman af þessu þar sem ég blotnaði meira en hann... það er glott á kattarkvikindinu sem virðist bara ekki ætla að fara af í bili.
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að kúra
15.1.2010 | 22:52
Að kúra er sjálfsagður siður
Það má ekki leggja hann niður
Gott með sér sjálfum
og böngsum og álfum
En þó sérstaklega með yður
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég og baunagrasið.
15.1.2010 | 00:02
Ég vaknaði upp við það að ég var að klifra upp baunagras... ég var ekki lengur ég heldur Jói.
Af því að ég var búinn að gleyma sögunni um Jóa og baunagrasið vissi ég ekkert hvað ég átti að gera.
Ég ákvað samt af einskærri forvitni og þrátt fyrir að ég væri lofthræddur, að halda áfram að klifra upp grænt baunagrasið.
Það hlyti að vera spennandi að sjá hvar það endaði og hvað væri þarna uppi.
Mér datt í hug að þarna væri allt morandi í englum og kannski Lykla Pétur og Jesús sjálfur... sá yrði nú glaður að sjá mig.
Ég klifraði í gegnum skýin og furðaði mig á því hvað það væri heitt... allt í einu heyrði ég hlátur, hlátur í börnum ... ég var greinilega að nálgast toppinn... það var eitthvað skemmtilegt í gangi þarna uppi...
Baunagrasið teygði enda sinn inn um dyr sem voru á himninum. Ég togaði mig áfram og yfir þröskuldinn, lagðist á bakið og dæsti.
Þegar ég rankaði við mér stóðu tveir litlir englar yfir mér og horfðu á mig.
.
.
Hvað ert þú að gera hérna skrítni maður... ég veit það ekki svaraði ég og brosti... en þið, hvað eruð þið að gera hérna ???
Við eigum heima hérna en erum á leiðinni til jarðarinnar sögðu englarnir, stelpa og strákur... við eigum bráðum að fara að fæðast... já, sagði ég, það líst mér vel á...
Megum við koma með þér þegar þú ferð aftur niður baunagrasið, spurðu litlu englarnir. Já, það megið þið svo sannarlega, svaraði ég.
Ég tók stelpuna í fangið en strákurinn hoppaði upp á bakið. Síðan renndum við okkur niður baunagrasið.
Þegar niður var komið vorum við stödd á akri. Það var sól og golan var hlý. Neðan við akurinn var skógur. Skringilegir fuglar í öllum regnbogans litum flugu um loftin og sungu af hjartans list.
Ekkert hús var sjáanlegt og engin mannvirki.
Litlu englarnir gengu að mér og kysstu mig á sitthvora kinnina. Takk fyrir farið góði maður. Bless.
Svo hlupu þau hlægjandi eftir akrinum í átt að skóginum og hurfu úr augnsýn.
Bless hvíslaði ég út í hlýja goluna... bless.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verum betri.
13.1.2010 | 23:33
Já öll vitum við og finnum fyrir því að tíminn flýgur og tíminn líður hratt.
Í argaþrasi dagsins þá gleymum við stundum að njóta lífsins. Gleymum að hver sekúnda er gulls ígildi. Hvert skref sem við tökum og hvert orð sem við segjum skiptir miklu máli. Kannski ekki fyrir heiminn en fyrir okkar heim, okkar umhverfi, okkar fólk og okkur sjálf.
Ég gleymi aldrei orðum geimfarans forðum sem var spurður að því hvað honum hefði þó merkilegast við að fara út í geiminn. Hann svaraði;
Það að sjá jörðina okkar, bláa ljómandi fallega, það var yndislegt, en ég fékk sting í hjartað að vita hvað við erum vond hvort við annað á þessari litlu jörð.
Við erum ein á agnarsmárri kúlu og erum alltaf í stríði, deyðum og meiðum... þetta er svo heimskt.
Mér dettur þetta einmitt í hug núna þegar við Íslendingar berjum hver á öðrum með orðum í rifrildi um peninga... ljót orð falla sem betur væri ósögð.
En þar sem þessi færsla er orðin full hátíðleg ætla ég að enda með tveimur góðum spakmælum.
Það er gott fyrir mig að vera ég, það er gott fyrir þig að vera þú. En það er best fyrir okkur að vera við !
Hvar væri heimurinn án þín og líf þitt án mín !
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hættur að drekka !
11.1.2010 | 21:10
Jæja, þá kom að því.
Ég er hættur að drekka... en byrjaður að reykja í staðinn
Það er reyndar smá plott í gangi... sparnaðarplott.
Ég ætla að spara 324.850- kr. á þessari ráðagerð.
Hvernig fer ég að þessu, spyrjið þið.
Jú... ég hætti fljótlega að reykja aftur, þá græði ég 890.- kr. á dag x 365 = 324.850.- kr. á ári.
Eftir þetta þá ætla ég aftur að byrja að drekka minn bjór og það kostar ekki neitt, því ég keypt bjórinn hvort sem er áður en ég hætti að reykja
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Með eða á móti ???
8.1.2010 | 21:15
Ég hélt fyrir nokkrum dögum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
Nú held ég, held ég, að þeir séu orðnir á móti, held ég.
Þeir vilja nú heyrist mér EKKI leyfa okkur að kjósa um lögin.
Þurfti aðeins að rifja upp í huganum þegar ég horfði á Illuga Gunnarsson í fréttunum áðan í hvaða flokki hann væri.
Það er einhver viðsnúningur í loftinu... menn eru farnir að segja allt aðra hluti en fyrir fáum dögum síðan.
Minnir mig á það þegar ég svaf til fóta hjá sjálfum mér.
.
.
Lög um þjóðaratkvæði samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Kosið milli forsetans og stjórnarinnar.
6.1.2010 | 19:58
Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður í raun atkvæðagreiðsla um hvort menn vilji hafa þessa ríkisstjórn áfram eða forsetann.
Sá aðili sem "tapar" verður að segja af sér.
Merkilegt að samkvæmt könnun Capacent í dag þá er meirihluti þjóðarinnar samþykkur Icesave lögunum. Tilfinning sem ég hef haft undanfarna daga.
Nú þurfum við að fara að tala um tvö hrun eins og við tölum um fyrri- og seinni heimstyrjöldina. Nú komum við til með að tala um "Bankahrunið" og "Forsetahrunið"
.
.
Meirihluti andvígur ákvörðun forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 7.1.2010 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Huglaus forseti.
5.1.2010 | 20:33
Ég skammast mín fyrir huglausan forseta.
Hann hugsaði bara um eigin vinsældir en ekki hag þjóðarinnar þegar hann neitaði að skrifa undir lögin í dag. Hann er hluti af útrásarliðinu og hefur hagsmuna að gæta í málinu, enda tekur hann þessa ákvörðun til að reyna að líta betur út í sögubókunum.
Hann brast kjark á ögurstundu til að taka rétta ákvörðum fyrir þjóð sína.
Ólafur Ragnar Grímsson, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tala allir um að nú verði hægt að sætta þjóðina. Eru þessir menn ekki jarðtengdir ?
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn bera mesta ábyrgð á hruninu. Fyrst skemma þeir og svo skemma þeir fyrir þeim sem eru að reyna að byggja landið upp að nýju.
Ætlar fólk að láta þá fíflast með sig mikið lengur ?
Ég held að nú verði sundrungin meiri og klofningur þjóðarinnar meiri en nokkur tíma fyrr. Það á að fara að etja þjóðinni saman í kosningabaráttu um Icesave, en málið hefur reynst okkur öllum mjög erfitt hingað til.
.
.
Gríðarlega sterk viðbrögð erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)