Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Brids
25.2.2010 | 21:32
Í haust fór ég að læra bridge eða brids eins og það er víst skrifað á íslensku.
Þetta er ótrúlega skemmtilegt spil. Það kom mér hinsvegar á óvart að maður segir kannski allt annað á spilin heldur en maður meinar. Svo bara segir maður allskonar hluti sem þýða allt annað en þeir líta út fyrir að þýða. Maður kallar t.d. meðspilara sinn Makker þó hann heiti kannski í raun og veru Guðmundur. Finnst ykkur það ekki magnað ???
Síðan er maður að segja ýmislegt á dulmáli sem hr. Makker á að skilja og andstæðingarnir reyndar líka... maður spyr t.d. hr. Makker á dulmáli hvað hann eigi marga ása með því að segja fjögur lauf !
(sumir nota fjögur grönd) það vita hinsvegar allir við borðið að þú ert að spyrja meðspilara þinn hvað hann eigi marga ása. Af hverju spyr maður þá ekki bara upphátt; Guðmundur minn hvað ertu með marga ása ? Af því að andstæðingarnir vita hvort sem er hvað maður er að spyrja hann um með því að segja fjögur lauf. Og af því að Guðmundur er góður maður, þá segir hann ekki við mig; ég er með tvo ása; nei hann segir fjóra spaða ! Það þýðir að Guðumundur Makker á tvo ása. Reyndar má maður ekkert tala svona í brids, maður notar spjöld sem maður leggur á borðið þar sem á stendur fjögur lauf o.s.frv.
Svo ef Guðmundur "opnar" á einu grandi þá gæti ég sagt tvö lauf sem kallað er Stayman eftir einhverjum bandaríkjamanni sem þóttist hafa fundið þessa sögn upp en það var víst einhver annar... gott ef það var ekki Svíi eða eitthvað svoleiðis.
Tvö laufin sem ég sagði við Guðmund þýða; Guðmundur minn áttu fjóra spaða eða fjögur hjörtu ?
Ég gæti líka sagt við grandinu hans Guðmundar; tvo tígla... það þýðir Guðmundur Makker, þú ÁTT að segja tvö hjörtu... Guðmundur má ekkert segja annað þó jafnvel hann langi til að segja tvo spaða.
Ég er smám saman að komast upp á lagið með að segja eitthvað allt annað en ég vildi sagt hafa.
En brids er margslungið spil og eftir því sem ég læri meira því minna finnst mér ég kunna.
Kennarinn minn sagði að það eina sem maður þyrfti að kunna til að geta spilað brids væri að kunna að telja upp að þrettán. Ég held ég sé næstum því búinn að ná því og þá er hálfur sigurinn unninn.
.
.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bak við tómarúmið
21.2.2010 | 20:54
Í gegnum næturhúmið
ég gekk á slitnum skóm
Fann bak við tómarúmið
Hvar tórði lítið blóm
Ég vatn því gaf að drekka
Því það var ósköp þyrst
Ég heyrði grát og ekka
Það vin sin hafði misst
Ég hafði ei margt að gefa
Þó hjartað væri hlýtt
Ég grátinn vildi sefa
Og strauk því létt og blítt
Ég hugsa oft um blómið
um það er ekki að fást
Því bak við tómarúmið
er ósköp lítil ást
.
.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Stjörnubjartur himinn
15.2.2010 | 22:18
Það er ekki langt síðan að pabbi dó. Hann var skemmtilegur maður, fróður og víðlesinn en fyrst og fremst var hann góður maður.
Hann vissi allt um stjörnur himinsins og stjörnumerkin, enda var hann skipstjóri og kunni að sigla og rata um höfin með því að horfa til himins.
Í kvöld þegar ég kom heim voru norðurljósin í essinu sínu og dönsuðu af hjartans list í kringum stjörnurnar... þá var mér hugsað til hans.
Ég staldraði við
í myrkrinu
og horfði
til himins
Norðurljósin bylgjuðust
blíðlega í loftinu
Eins og þau væru að
reyna að svæfa stjörnurnar
En stjörnurnar létu
ekki plata sig
og héldu áfram að skína
Og gott ef ein þeirra
blikkaði mig ekki
.
.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vaknaði dauður
13.2.2010 | 11:54
Hann hafði oft heyrt... einn daginn vaknar maður dauður...
Hið ótrúlega gerðist svo einn morguninn. Hann vaknaði dauður.
Hann var rosalega hissa, því á dauða sínum hafði hann ekki átt von. Hann hafði bara engan tíma til að vera dauður. Það var svo margt sem hann hafði ætlað að gera í dag og framtíðarplönin voru mörg.
Í dag hafði hann t.d. ætlað að baka pönnukökur handa fjölskyldunni. Nú myndu þau ekki fá ylvolgar pönnukökur... nei dagurinn hjá fjölskyldunni færi bara í það að gráta hann... eða myndi kannski enginn gráta ? Kannski myndi enginn sakna hans?
Hann hafði áhyggjur... það yrði ferlegt ef enginn myndi fella tár yfir honum svona nýdauðum.
Æi, góði Guð ekki taka mig strax, leyfðu mér að lifa lengur... nú sé ég hvað ég er vitlaus, nú sé ég hvað ég hef gert rangt... ég skal lifa miklu betra lífi ef þú hleypir mér aftur inn í lífið...
Allt í einu var Guð staddur við hlið hans... ertu svona lítill Guð ? Ég hélt þú værir miklu stærri.
Stærðin skiptir ekki máli, svaraði Guð... það er þinn innri maður sem annað hvort er stór eða lítill...
En snúum okkur að alvörunni, hélt Guð áfram... ef ég hleypi þér aftur inn í lífið þá verður þú að gera eitt fyrir mig... já, ekkert mál Guð minn góður... og hvað er það ?
Hann Lykla Pétur þarf að komast í sumarfrí og mig vantar ábyggilegan mann til að leysa hann af... og hvenær fer hann í sumarfrí ? spurði maðurinn. Eftir 30 ár svaraði Guð litli...
Maðurinn vaknaði upp með andfælum, sveittur frá hvirfli til ilja... þetta var skrítinn draumur, hugsaði hann... þetta var ekki draumur sagði þá Guð sem en stóð við rúmið... en nú þarf ég að drífa mig... sé þig eftir 30 ár við hliðið... og notaðu nú tímann vel... það eru ekki allir sem fá 30 ár gefins frá mér...
Hann horfði á eftir Guði sínum líða út um gluggann... dreif sig fram í eldhús og byrjaði að baka pönnukökur...
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Drekka prestar Kristal ?
12.2.2010 | 21:10
"Það sést hverjir drekka Kristal"
Þannig hljómar auglýsing um vatnsdrykk með sætu- og bragðefnum í.
Ég ákvað um daginn að fara að fylgjast með fólki og athuga hvort ég gæti pikkað þá útúr sem drykkju Kristal.
Ég sá engan sem ég gat verið alveg viss um að drykki Kristal.
Hvaða tegund fólks drekkur Kristal... kannski prestar af því að orðið byrjar á Krist... ??? Nei bara segi sonna... ég held að flestir prestar drekki grænt te... eða jafnvel "Kiwi and Strawberry" te... ég held að prestum finnist rauðvín líka gott... og púrtvín... held að margir þeirra séu talsverðir sælkerar...
En ég ætlaði svo sem ekkert að fara að tala um presta... ég var að spá í hvort það sæist utan á fólki hvað það drekkur...
Svo fann ég einn... hann var fullur... og hélt á bjórdós... og þá var ég viss um eitt... þegar farið verður að auglýsa bjór... þá verður örugglega auglýst...
"Það sést hverjir drekka bjór"
.
.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mafíósar
11.2.2010 | 00:10
Hvað erum við að fara að greiða atkvæði um ? Er InDefence í framboði ?
Þegar ég horfi á þessa mynd sem fylgir fréttinni, þá dettur mér einhverra hluta vegna í hug nöfn eins og Soprano og Don Corleone.
Af hverju líta þeir út eins og Mafíósar ?
.
.
Kosningabaráttan hófst í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Létt & Lagott
6.2.2010 | 14:41
Tónlist hefur mikil áhrif á okkur... við getum orðið döpur eða kát eða jafnvel ofsahress... fer eftir lögunum sem við heyrum...
Þetta lag er lítið og saklaust en kemur manni í gott skap... og ekki skemmir fyrir að það minnir mann á stórskemmtilegt Evrópumót í handbolta sem nú er nýafstaðið.
Hér er Niel Dimond höfundur lagsins og orginalinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mosagróinn steinn
2.2.2010 | 23:38
Við settumst upp við mosagróinn stein
Í kjarrinu við vorum bara ein
Við sungum saman undurfagurt lag
Höfðum lifað dásamlegan dag
Sumarnóttin hlý og skýin bleik
við gátum ekki tapað þessum leik
Úr augum þínum las ég fallegt ljóð
Yndisleg þú varst, svo blíð, svo góð
Hrossagaukur hreiður var að gera
Ég hvergi vildi annarsstaðar vera
Í nóttinni við sátum þarna ein
ástfangin við mosagróinn stein
.
.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)