Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Vildi ég væri gáfaðri
29.6.2007 | 22:30
... stundum er ég assgoti tregur...
ég hita mér stundum vatn í Mícróofninum í vinnunni, í teið mitt... þegar ég var að byrja á þessu þá var vatnið aldrei nógu heitt... þá datt mér í hug að stilla tímann á 2:30 mínútur í staðinn fyrir 2:15, ég vil hafa teið mitt vel heitt... en ég var aldrei almennilega sáttur við hitastigið samt... en þrátt fyrir það drakka ég í heilan mánuð, te í vatni sem var hitað í 2:30 mínútur... þá allt í einu datt mér það snjallræði í hug að setja tímann í 2:45 mín. og viti menn, þá var vatnið nákvæmlega eins og ég vildi hafa það... en af hverju tók það mig heilan mánuð að fatta þetta???
... svo er ég alltaf að lenda í því þegar ég ætla að opna hurðir; þegar að tosa, þá ýti ég, þegar maður á að ýta þá tosa ég og öfugt... hef stundum prufað að gera öfugt við það sem ég held... en það er ofast vitlaust hjá mér líka... ég tosa og tosa, þegar ég á bara að ýta... þegar ég set kreditkortið mitt í bensínsjálfsalana, þá set ég það alltaf rangt inn... farnar að myndast raðir við bensíndæluna áður en ég næ að byrja að dæla...
... ég var einu sinni í vinnu þar sem mikið áreiti var bæði af sölufólki og svo hringdi síminn stanslaust... það var því mjög gott að hafa "head set" á símanum svo maður gæti pikkað á tölvuna á meðan maður var að tala... einu sinni brá ég mér í kaffi... síminn hringdi stöðugt á meðan... ég hljóp inn að skrifborði, setti á mig gleraugun (hélt greinilega að þau væru head settið) og sagði hátt og snjallt "halló"...
Dægurmál | Breytt 30.6.2007 kl. 05:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er asnalegt að sofa.
26.6.2007 | 21:01
Það er svo skrýtið að þurfa að sofa.
Maður leggst endilangur upp í fleti sem kallað er rúm og missir meðvitund í marga klukkutíma. Heilu borgirna sofa, fólk í milljóna tali liggur meðvitundarlaust endilangt og veit ekkert af sér. Mér finnst þetta asnalegt ástand.
Það eru sérherbergi í öllum húsum, þar sem maður fer inn í til að missa meðvitund. Þú ferð úr fötunum og sefur nakinn eða í sérhönnuðum fötum til að missa meðvitund í... það eru sérstök þykk teppi sem þú breiðir yfir þig áður en þú missir meðvitund... og púði undir hausinn...og pokar ef þú ætlar þér að missa meðvitund í tjaldi... svo eru heilu húsinn með herbergjum sem fólk notar á ferðalögum til að missa meðvitund í og þarf jafnvel að panta sér tíma... "áttu nokkuð laust herbergi á fimmtudaginn, ég verð þarna á ferðinni og þarf að missa meðvitundi í 1 eða 2 nætur"... og svo safnast ferðalangarnir saman í þessi hús og missa meðvitund í stórum hópum
Þegar maður horfir á aðra sofa þá geta þeir verið ansi yndislegir; krakkagrislingarnir sem fyrr um daginn voru að gera mann brjálaðan með uppátækjum sínum, þau eru svo falleg og blíð þegar þau sofa að maður fær samviskubit að hafa skammað þau fyrr um daginn...
Það verða allir svo meinlausir þegar þeir sofa, jafnvel illmenni og rándýr...
allir svo saklausir....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvað eru flugur eiginlega að hugsa?
25.6.2007 | 21:43
Í dag ók ég frá Akureyri og upp í Mývatnssveit. Var að vinna þar fram eftir degi... renndi svo yfir Hólssandinn og til Húsavíkur og kláraði vinnudaginn þar.
Á heimleiðinni skall stór fluga á framrúðunni hjá mér... þá lenti ég í því að hugsa... og n.b. ég var ekki að borða mjólkurkex... ég hugsa nefnilega langmest og dýpst þegar ég er að borða mjólkurkex...
En þarna bara splass, flugugreyið bara ein gul skella á framrúðunni... hvað var fluguvitleysingurinn eiginlega að álpast yfir veginn... jú eins og við vitum öll sem ferðum um landið þá eru vegir bara örmjó strik í gegnum landslagið og miklar víðáttur til beggja handa... þá kemur einmitt að hugsun dagsins hjá mér... hvaða erindi gat flugan átt yfir veginn? Öll þessi víðátta sem var í hina áttina og enginn vegur þar, af hverju fór hún ekki þangað? Og það var meira að segja allt miklu fallegra og blómlegra í hina áttina...
Mikið væri nú gaman að komast að þessu...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gulli og ég
24.6.2007 | 11:31
Ég datt í lukkupottinn um daginn, mér bauðst hálfur dagur í veiði upp á urriðasvæðinu í Laxárdal. Þurfti að sjálfssögðu að borga, en í þessa perlu komast færri en vilja. Þetta voru 2 stangir á einum af bestu svæðunum í ánni. Ég þurfti því veiðifélaga og var svo heppinn að einn sá alskemmtilegast sem ég gat hugsa mér að fara með, hann Gulli var á lausu og til í að koma með. Við karlarnir verðum alltaf eins og litlir strákar þegar veiði framundan, okkur hlakkar svo til, verðum spenntir og æstir. Það er góð tilfinning að hafa þegar maður er ekki beint strákur ennþá.
Við Gulli hittumst um tvöleitið. Gulli er hættur að reykja, nema þegar hann fer að veiða... og veiðitúrinn var náttúrulega byrjaður þegar hann kom heim til mín. Við settumst því augnablik út á verönd svo Gulli gæti kveikt í fyrsta vindlinum. Veðrið var orði hryssingslegt, kaldur vindur að norðan, en við kærðum okkur kollótta. Við brunuðum svo af stað... upp í veiðihúsi var allt mjög rólegt. Flestir veiðimenn höfðu gefist upp í kuldanum og hætt veiðum. Það fannst okkur Gulla heldur augmingjalegt. Þarna var þó mættur maður sem hafði komið þarna í 25 ár samfellt og oft mörgum sinnum á ári. Þegar svona maður er í færi, þá notar maður tækifærið, spyr og hlustar með athygli og virðingu. Þetta er næstum því eins og að fá einkaviðtal við Guð. Ef maður fengi 5 mínútur með Guði, hvers myndi maður spyrja?
Ég hef bara veit í Laxánni í 10 ár og er því bara byrjandi. Gulli hefur nokkur ár framyfir mig, svo ég notaði tækifærið og bað hann að kenna mér á Ferjuflóann. Ég hef aldrei skilið Ferjuflóann. Og nú kemur að því að ég uppljóstra hversu galinn ég er.
Veiðiaðferð mín felst í því að horfa á og hlusta á vatnið. Ég horfi á rennslið, hvar eru grynningar, hvar er dýpi, hvar myndi ég liggja ef ég væri urriði. Vatnið er alltaf að segja manni eitthvað. Á sumum stöðum í ánni hef ég bara allsekki getað skilið vatnið. Ég hef horft á rennslið, ég hef hlustað, ég hef dýft hendinni ofan í það, en ekki náð að heyra það sem það er að reyna að segja. Ég veit að það hefði kannski komið eftir örfá ár, en til að flýta fyrir þá fær maður hjálp frá þeim sem eru lengar komnir. Gulli kenndi mér því á Ferjuflóann. Ég er því aðeins farinn að skilja hvað hann er að meina. Flesta aðra staði í ánni er ég farinn að skilja og þar veiði ég oftast vel.
"Farðu þarna uppfyrir brotið og kastaðu beint upp fyrir þig" sagði Gulli. Við veiðum mikið upstream, eða andstreymist eins og það heitir á íslensku. Ég kastaði púpunni eins og Gulli hafði sagt mér að gera. Og eftir örfá köst, sprenging í vatnsfletinum og stór urriði stökk upp úr vatninu.
Gulli lenti í ævintýri á Pollnestánni, þar sem stór fiskur tók þurrflugu, en sleit... þá gafst færi á því að setjast á bakkann og fá sér vindil og segja mér alla söguna af viðureigninni. Ég tók síðan fiska við Jóelsbakka og Bárnavík. Fallega fiska.
Við veiddum til tíu um kvöldið, þá var komið logn en ennþá kalt, um 4 gráður. En náttúran engu að síður stórbrotin. Tveir fálkar flugu hjá og lítill svartur lambhrútur jarmaði á bakkanum, hafði týnt mömmu sinni. Stóð þarna á bakkanum, horfði sorglegum augum á mig og jarmaði. Ég jarmaði á móti, en þá tók hann til fótanna... verð líklega að æfa jarmið mitt betur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Enn eitt meistaraverkið
23.6.2007 | 09:12
Hér kemur enn eitt meistaraverkið frá mér... bókmenntafræðingar munu eflaust halda því fram að ævi mín kristallist í þessu verki... og kannski er það rétt hjá þeim... lagið við textann er á spilaranum....
Hann gerir það vel.
Hann syngur fyrir frægðina
Hann syngur fyrir frægðina
Hann syngur fyrir frægðina
Og veit hann gerir það vel
Hann spáir fyrir veðrinu
Hann spáir fyrir veðrinu
Hann spáir fyrir veðrinu
Og veit hann gerir það vel
Hann veit
Hann veit
Hann gerir það vel
Hann veitt hann veit hann gerir það vel
Hann veit að sólin er heit
Dúbi dúbi dúbi dúbi dú
Dúbi dúbi dúbi dúbi dú
Hann bakar stundum heilsubrauð
Hann bakar stundum heilsubrauð
Hann bakar stundum heislubrauð
Og veit hann gerir það vel
Hann sefur lengi á morgnanna
Hann sefur lengi á morgnanna
Hann sefur lengi á morgnanna
Og veit hann gerir það vel
Hann veit
Hann veit
Hann gerir það vel
Hann veitt hann veit hann gerir það vel
Hann veit að sólin er heit
Dúbi dúbi dúbi dúbi dú
Dúbi dúbi dúbi dúbi dú
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flottur
23.6.2007 | 00:38
Steve Marriott var flottur söngvari með Small Faces... þeir voru svolítið spes þessir, hélt alltaf mikið upp á þá...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eilífðin
17.6.2007 | 22:44
Eilífðin.
Ég er ekki til
en þó merkust af öllu.
Þið vitið hvað ég heiti
en skiljið mig ekki.
Þið óttist mig
ég er eilífðin
og vef ykkur örmum.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fjallið
17.6.2007 | 00:36
Hér er textinn við lagið Fjallið sem er hérna á spilaranrum hjá mér. Það eru hinir geðþekku sjóarar í Roðlaust & Beinlaust sem syngja með.
Fjallið.
Sjáðu fjallið þarna er það
Það er svo hátt þú varla sérð það
Hirtu ekki um kaldann vindinn
Haltu þráðbeint upp á tindinn
Þétt er morgunþokan gráa
Fjallið gerir menn svo smáa
Ekki yfir striti kvarta
Fylgdu alltaf þínu hjarta
Brött er brekkan vörðuð grjóti
Öll er leiðin uppí móti
Á grýttu fjalli margur týnist
Það er lengra upp en sýnist
Um kvöld á fjallsins tindi stendur
Horfir yfir höf og lendur
Af þér heitur svitinn bogar
Himinhvolfið allt það logar
Ljóð | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rigning
13.6.2007 | 21:58
Maður er að verða svo helvíti þroskaður með árunum... mér finnst það t.d. þorskamerki hjá mér að óska þess að það fari að rigna þegar ekki hefur komið dropi úr lofti í marga daga og gróðurinn skrælnar og sumar litlu plöntunar mínar út í sveit meiri að segja deyja... einhverntímann vildi maður bara sól og aftur sól... fór til útlanda í sólalandaferðir og elskaði hita, strendur og sól. Nú finnst mér eiginlega betra að vera í svolitlum kulda, frísku lofti, já og stundum að vera úti í rigningunni... þetta leiðir hugan að ljóði sem ég samdi fyrir mörgum árum, þar sem ég ímyndaði mér það að þeir sem væru dánir, komnir yfir móðuna miklu, yrðu að regndropum og féllu til jarðar og viðhéldu lífinu og einn og einn dropi félli á mig...
Dropar.
Ég hugsa mér
ykkur sem
eruð farin
yfir móðuna miklu
sem regndropa.
Þið steypist
ofan úr himnaríki
til jarðar
vökvið og gefið
okkur líf.
Þegar ég geng útí
rigninguna og rokið
og droparnir
snerta
augu mín og varir
þá þykir mér svo
ósköp vænt um
ykkur.
Þegar ég verð
regndropi
þá ætla ég
að falla á þig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Að sofa vært við ána
10.6.2007 | 23:08
Smá viðbót við veiðipistilinn hér að neðan.
Á einni vaktinni vorum við 3 félagarnir á lélegasta veiðistaðnum í ánni.
Ég varð leiður á að standa út í á og kasta flugunni útí vonleysið.
Fór í land og lagði mig á bakkann. Í mjúkri sinunni og við mjúkan árniðinn sveif ég fljótlega inn í draumaheima. Og mig dreymdi að ég væri að veiða!
Í draumnum kastaði ég púpunni uppí strauminn og fylgdist grant með tökuvaranum; og viti menn hann fór í kaf og ég brást snöggt við og kippi stönginni upp. Ég vaknaði við þessi læti og hafði þá rifið upp gamlan hvannarstöngul sem var við hliðina á mér, með látum og hélt á honum í hendinni eins og veiðistöng! Ég hló smástund að sjálum mér og lagðist út af aftur og vaknaði ekki fyrr en félagi minn kom upp úr ánni og sprakaði í síðuna á mér og kallaði ræs gamla drusla! Mikið skrambi var þetta annars góð kría.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)