Laufabrauðsagan 1.hluti

Jæja, þá er komið að árlegri jólasögu... alltaf sama sagan. Þetta er fyrri kapítuli.

Sagan um uppruna Laufabrauðsins.

Nokkru áður en Ingólfur strokumaður frá Noregi fann Ísland, hafði sest að fólk og hafið búsetu í miðju steinhjarta Tröllaskagans. Engin vissi hvaðan þetta fólk hafði komið. Talið er þó, vegna hárrar greindarvísitölu og mikillar útgeislunar stofnsins að það hafi ekki verið komið af öpum eins og aðrir sem jörð þessa byggja. Tilgátur eru á lofti um að það hafi verið  komið langt að, jafnvel frá fjarlægum sólkerfum.  Fólk þetta settist  að í frjóum og afskekktum firði með háum fjöllum allt í kring. Fjörðinn  nefndu þau Ólafsfjörð eftir foringja sínum, Ólafi Bekk.

Ólafur Bekkur  átti konu eina, mikinn skörung og skemmtilega. Hún kunni líka ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu blessunin. Kvenmaður þessi hét Laufa og bar eftirnafn manns sín. Laufa Bekkur hét hún því fullu nafni. Hún var ætíð góð við kallinn sinn og hugsaði um hann af einstakri natni og ást. Ólafur Bekkur sást því aldrei öðruvísi en brosandi út að eyrum. 
Seinna umbraust, sem kallað er,  F-ið í nafninu Laufa í G og þaðan er nútímanafnið Lauga komið. Þetta merka brauð sem hér er um fjallað,  ætti því að heita Laugabrauð, en ekki Laufabrauð. 
.

 laufabrau01

.
Laufa var góður kokkur, eldaði og bakaði ýmislegt er þeir sem síðar komu til landsins höfðu aldrei séð hvað þá smakkað og var margt af því tengt jólahátíðinni. Enginn vissi reyndar í þá daga af hverju þeir voru að halda jólin hátíðleg. Heimsumbólið var aldrei sungið af því að það var ekki enn búið að semja það. En þó voru til jólalög og þeirra vinsælast var Þrumarasöngurinn.

Þruma - þruma - þruma
við skulum klóra suma
undri herðablaðið
eftir jólabaðið.


Brauð var steikt um jól og borðað með jólamatnum ásamt öli sem karlmennirnir brugguðu. Sagt er að þegar Ólafur hafi verið orðinn hýr og kátur eftir stífa drykkju, hafi hann étið manna mest af kjöti með Þora baunum og niðurstúf... niðurstúfur var svört sósa ekki ósvipuð þeirri hvítu sósu sem við í dag köllum uppstúf... niðurstúfurinn var bara miklu sætari. Þora baunirnar eru náttúrulega bara grænu baunirnar sem við köllum núna Ora baunir. En í þá daga voru það bara hinir hugrökkustu sem þorðu að borða þessar grænu baunir, Þora baunirnar.  Liturinn á þeim skelfdi. 

Hefð var fyrir því að borða hanginn skarfa á Aðfangadag. Með skarfinum voru snæddar barða kartöflur (það var áður en fólk fór að stappa kartöflur) með njólauppstúf. 
Ef að skarfurinn var vel hanginn, ljúffengur og bragðsterkur sögðu menn; þetta er nú meiri skarfurinn.
Best þótti þó Óla kallinum þunna brauðið er elskulega Laufa hans hafði steikt uppúr feiti og kláraðist það ætíð fyrst allra kræsinga af borðum.

Það eina sem Ólafi fannst betra en Laufabrauðskaka með sméri, voru tvær Laufabrauðskökur með sméri. 

Framhald.
.

 Skarfur

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þúrt zwo zkemmtilega lýginn alltaf...

Steingrímur Helgason, 19.12.2009 kl. 00:30

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

já, svona var það víst til forna

Brjánn Guðjónsson, 19.12.2009 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband