Kjallarabollan.
21.11.2009 | 09:46
Einu sinni var gömul kona sem bjó í kjallara.
Hún var lítil og bústin og gekk undir nafninu kjallarabollan.
Það voru fáir sem vissu annað en að hún hefði búið í kjallaranum alla sína ævi.
Kjallarabollan var hrekkjótt og fannst mest gaman að læðast aftan að fólki og öskra í eyrun á því DAH !!!
Þeir sem lentu í þessu voru lengi að jafna sig því Kjallarabollan var raddsterk eins og ungverks óperusöngkona.
Einu sinni sat hún á bekk fyrir utan skóverkstæðið. Við fætur hennar lá kötturinn Marinó. Það var sól og blíðuveður. Maríuerla sat á bekknum hjá henni og var alls óhrædd við Marinó, enda steinsvaf hann og vissi hvorki í þennan heim né annan.
Strákpjakkarnir Nói og Bubbi gengu fram hjá. Þeir voru ekki barnanna bestir eins og sagt var.
Sáu þeir strax að nú væri gott tækifæri að hrekkja Kjallarabolluna.
Þeir lögðu á ráðin. Gengu svo að bekknum, hölluðu sér alveg að höfði gömlu konunnar, við sitthvort eyrað og öskruðu eins hátt og þeir gátu DAH !!!
Það var mikið fjölmenni við útförina. Hún dó bara úr hjartaslagi, alein á bekknum hjá skóverkstæðinu, sagði fólkið. Dó í svefni, það er gott að fara svoleiðis.
Og góðir voru þeir Nói og Bubbi að taka Marinó að sér. Já, batnandi mönnum er víst best að lifa.
.
.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.