Bakkabræður eru ættaðir frá Ólafsfirði !
31.10.2009 | 11:38
Ég var að fletta í bókinni Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri eftir Jón Árnason. Rakst ég þar á mjög athyglisverðan kafla um ævilok Bakkabræðra.
Hefst nú frásögnin;
Ævilok tveggja bræðranna, Eiríks og Jóns urðu að annar þeirra dó í hrísbyrðinni, en af hinum beit hákall handlegginn og varð það hans dauðamein. Þriðji bróðirinn, Gísli, drukknaði í Stafá, þar sem nú heitir Gíslavað. Enginn maður annar hefur svo menn viti drukknað í þeirri á sem er mjög lítil og aðskilur Fljót frá Sléttuhlíð. Fjórði bróðirinn, Þorsteinn, maður einsýnu Gróu, bjó á Bakka til elliára.
Sumir segja faðir bræðranna hafi heitið Björn Ingimundsson, ættaður úr Ólafsfirði og hafi búið á Bakka nálægt 1600.
Sagt er að kona Gísla hafi heitið Anna
.........................................................................................................................................................
Það er margt fróðlegt og skrítið í þessari frásögn. Í fyrsta lagi að Bakkabræður heita samkvæmt þessari sögu Gísli, Eiríkur, Jón og Þorsteinn. Það hef ég aldrei heyrt áður.
Í öðru lagi að þeir bræður eru ættaðir frá Ólafsfirði. En það kemur nú svo sem ekki á óvart.
Svo vissi ég ekki að Gísli hefði átt konu og með þessu ljómandi fallega nafni líka.
.
.
Athugasemdir
Það er illt verk Brattur minn að eyðileggja dulúðina yfir sveitfesti Bakkabræðra. Reyndar vona ég nú að enginn trúi þér.
Bestu kveðjur!
Árni Gunnarsson, 31.10.2009 kl. 14:05
Þetta er nú ekki spurning um að trúa mér eða ekki... spurningin er hvort fólk trúir Jóni Árnasyni og hans heimildarmönnum !
Brattur, 31.10.2009 kl. 15:40
Gísli & Anna hljómar skemmtilega- það hljómar kunnuglega hehe
Ragnheiður , 2.11.2009 kl. 00:43
hét Jón ekki Helgi?
ég sem hélt þeir væru úr Svarfaðardal, bræðurnir
Brjánn Guðjónsson, 2.11.2009 kl. 19:48
Eru þetta ekki bara einhverjir allt aðrir Bakkabræður?
Hrönn Sigurðardóttir, 2.11.2009 kl. 20:59
Jú akkúrat Jón hét einmitt Helgi...
Það er svolítið kjánalegt að segja Gísli, Eiríkur, Jón og Þorsteinn
En voru kannski líka til Bakkasystur ?
Brattur, 3.11.2009 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.