Guð minn góður !
10.10.2009 | 10:40
Við köllum stundum á hann Guð af minnsta tilefni. Hugsum ekkert út í það að hann er kannski að einbeita sér að Afganistan, Írak, Indlandi, Sómalíu, Ísrael, Palistaníu, Al-Qaeda og Framsóknarmönnunum tveimur sem fóru til Noregs.
En við hugsum bara um okkur sjálf og hrópum í tíma og ótíma;
Guð minn góður!
Ég er sko ekki barnanna bestur í þessu.
Guð kemur þjótandi þegar hann heyrir í okkur en sér svo að það er ekkert að. Úlfur, úlfur hugsar hann og kemur svo kannski ekki þegar við þurfum mest á honum að halda.
Ég fer í sturtu á hverjum morgni. Tók eftir því fyrir nokkru að eftir sturtuna voru hár af mér í sturtubotninum. Guð minn góður! hrópaði ég upp í huganum, ég er að verða sköllóttur !
Ég sem er með svo þykkt og fallegt hár... hræðilegt, hræðilegt. Það færi mér sko ekki vel að vera sköllóttur... Bubbi er fínn svoleiðis... en ég, vá nei, ég yrði sko ömurlegur.
Annars finnst mér Bubbi heppinn, sjampóið er orðið svo dýrt.
.
.
Í hvert skipti sem ég fór í sturtu eftir það, þá taldi ég hárin til að fylgjast með þróuninni. Það voru alltaf 10 hár sem lágu við fætur mínar. Hvorki fleiri né færri.
Svo sagði konan mín mér að við þessu væri til ráð... ég skyldi taka B-vítamín, það myndi stöðva hárlosið.
Nú er ég búinn að taka B-vítamín í 3 daga, var að koma úr sturtu og viti menn, þetta virkar !
Það voru bara 9 hár í sturtubotninum í morgun.
Nú fer ég glaður inn í þennan dag og passa mig á því að segja ekki Guð minn góður... en í þessu eins og mörgu öðru er best að taka einn dag fyrir í einu.
Athugasemdir
Sé þig nú ekki fyrir mér sköllóttan. Þetta er eitthvað Mega B
Finnur Bárðarson, 10.10.2009 kl. 17:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.