Hver yrkir í gegnum mig ?
15.8.2009 | 11:25
Ég er nokkuð viss um að það er einhver sem yrkir í gegnum mig.
Í morgun vaknaði ég og þá var þessi vísa tilbúin í kollinum á mér.
Ekki gerði ég hana, það eitt er víst, því ég var steinsofandi þegar hún varð til.
Enda skil ég ekkert í því hvert höfundurinn er að fara:
Stirður er á mér skrokkurinn
skakkur og snúinn lokkurinn
Skildi hann hleypa okkur inn
sænski skíta kokkurinn?.
.
Þekkt er að framliðnir drekki í gegnum lifandi fólk. Ég man eftir því fyrir mörgum árum þegar hlustendur voru að hringja inn á útvarpsstöðvarnar í Þjóðarsálina og slíka þætti. Þá hringdi kófdrukkinn maður inn og sagði farir sínar ekki sléttar. Það var verið að drekka í gegnum hann og hann réði ekki neitt við neitt... það heyrðist líka í konu á bak við hann sem sagði að þessi sem drykki í gegnum manninn hennar hefði meira að segja hent henni út í vegg rétt áðan... Þau voru í mestu vandræðum með þennan anda sem notfærði sér eiginmanninn með þessum hætti.
Ég vona að sá sem yrkir í gegnum mig sé ekki mjög drykkfeldur.
Athugasemdir
hey, það vantar 'R' í fyrirsögnina.
vísa sem ég hef birt áður og er samin af pabba æskuvinar míns. Á líklega vel við Björgólfsfeðgana og fleiri. Hét ruglið þeirra ekki Samson?
Samson hefur saddan kvið
sínar garnir fullar
Ropar, hóstar, ræskir sig
rekur við og drullar
Brjánn Guðjónsson, 15.8.2009 kl. 14:37
Hvað gerir blogg skemmtilegt ?: Að lesa svona færslur og athugasemdir :)
kveðja
Finnur Bárðarson, 15.8.2009 kl. 15:23
Góður Brjánn... eina sem ég skrifaði í færslunni var fyrirsögnin og ég klúðraði henni... ....
Brattur, 15.8.2009 kl. 16:55
Þetta hljómar svolítið eins og Anna hafi ort þetta.... hefurðu spurt hana út í þetta?
Hrönn Sigurðardóttir, 15.8.2009 kl. 23:11
Ja, þú segir nokkuð Hrönn... nú hefur Anna réttarstöðu grunaðra...
Brattur, 16.8.2009 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.