Erilsöm nótt
1.6.2009 | 11:38
Ég lenti í bardaga í nótt.
Dreymdi að ég var að flýja undan ljóni. Ég datt, ljónið kom að mér hægum skrefum og byrjaði að gæða sér á tánum á mér. Ég vaknaði sveittur og reis upp þetta var allt svo raunverulegt. Leit niður á tærnar á mér og sjá, þarna voru fjórir litlir kettlingar að naga á mér tærnar.
Ég rak þá alla fram úr og reyndi að sofna aftur.
Eftir smá stund voru þeir allir komnir upp í aftur. Þeir þóttust eiga þetta rúm alveg eins og ég. En ég gaf mig ekki og setti þá alla niður á gólf aftur. Setti púða fyrir þar sem auðveldast var fyrir þá að komast upp, vafði sængina hróðugur um tærnar og setti svo teppi yfir allt þannig að þetta átti að vera erfiður varnargarður að fara yfir.
Þetta tókst, þeir komu ekki uppí aftur og ég sofnaði með sigurbros á vör.
Ég vaknaði þó fljótlega aftur við það að eitthvað mjúkt straukst við kinn mína. Ég opnaði bara annað augað og taldi; einn, tveir, þrír og fjórir.
Litlu ljónin höfðu skriðið meðfram rúminu og fundið sér uppgönguleið rétt við hausinn á mér. Alexandra, Natalía, Tevez og Ronaldo læddust fram hjá mér og héldu að ég vissi ekkert af þeim. Þau lögðu sig til fóta og sofnuðu vært eins og ég.
.
.
Athugasemdir
Ekki er hægt að hugsa sér notalegri uppvöknun, fjögur stykki til fóta og trýni við vanga. Er þessi á myndinni einn af þeim ?
Finnur Bárðarson, 1.6.2009 kl. 17:06
Já Finnur, þetta er hann Tevez saklaus á svipinn að vanda
Brattur, 1.6.2009 kl. 17:42
Hann er alveg dásamlegur kisi á að líta
Ragnheiður , 1.6.2009 kl. 23:42
Hann má þó eiga það þessi Tevez að fallegur er hann greyið.
Jón Halldór Guðmundsson, 3.6.2009 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.