Fréttir af mér og Sir Alex og nýju sláttuvélinni.

Jæja, nú hef ég ekki bloggað í dágóðan tíma. Við vorum að vinna á Skagaströnd, þeim fallega stað, alla síðustu viku.

En nú er ég kominn heim í heiðardalinn.  Sé að a.m.k. einn hefur haft áhyggjur af mér.

Það er best að byrja á því að afgreiða þennan úrslitaleik sem fram fór í síðustu viku þar sem við Man. United lutum í gras.
Veit að Sir Alex hefur verið að reyna að ná í mig en ég hef ekki mátt vera að því að svara honum.
Best að hringja í kallinn á eftir og heyra hljóðið í honum blessuðum.

Við vorum ansi slappir í þessum leik og jafnvel Darlington hefði unnið United á þessum degi.

Þá er það frá.
.

 brine-attack-soccer-ball

.

En að öðrum ævintýrum.

Við skötuhjúin fjárfestum í sláttuvél um daginn. Í gær var þokkalegt sláttuveður svo það var tilvalið að taka gripinn upp úr kassanum. Hún var ósamsett. Slatti af allskonar hlutum og skrúfum og slíku sem þurfti að raða saman.

Eftir að hafa skrúfað nokkrum sinnum vitlaust saman og tekið í sundur aftur og skrúfað saman aftur og eftir að betri helmingurinn kom og hjálpaði mér að leysa erfiðustu þrautina sem var pínulítið plaststykki sem ég vissi bara ekkert hvar ætti að koma, þá var komið að því að setja bensín og olíu á þessa fallegu vél. Það þarf líklega ekki að taka það fram að hún var í United litunum, eldrauð og sókndjörf.

Ég vildi endilega að við fengjum okkur sláttuvél með drifi, þ.e. hún keyrir sjálf og maður bara stýrir henni. Það var samþykkt með öllum atkvæðum.

Grasið í garðinum var orðið ansi hátt en þessi frábæra vél er með hæðarstillingum. Það er hægt að hækka og lækka hjólin eftir því sem maður vill.  Slátturinn byrjaði nokkuð vel. Rauða sláttuvélin þeystist um lóðina og ég bara stýrði með annarri og leit ábyggilega út fyrir að vera grobbinn.
.

 GRASS

.

Nágranninn gekk fram hjá og veifaði. Kom svo skömmu síðar trítlandi með sláttuvél, frekar ómerkilega. Ég brosti í kampinn. Ég hafði sett pressu á hann svo hann sem hafði ætlað að eiga náðugan eftirmiðdag hafði séð sig tilneyddan til að fá lánaða sláttuvél svo hann yrði nú ekki eftirbátur minn.

Nú nálguðust við, ég og rauða sláttuvélin, stóra grenitréð. Ég var enn slakur og með aðra hönd á stýrinu eins og Bjössi á mjólkurbílnum. Ég áttaði mig ekki á því að ég þurfti að beygja mig svona mikið. Vélin æddi áfram og ég kunni ekki að stoppa hana og ekki kom til greina að sleppa taki á henni, þessari nýju rauðu fallegu sláttuvél. Hún dró mig því eiginlega í gegnum grenitréð og barrnálarna stungust í andlitið og allan kroppinn.

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að stóra grenitréð gæti verið svona andstyggilegt.

Nú lít ég út eins og gatasigti og kemst ekki út úr húsi nema með lambhúshettu. Og er ekki frekar asnalegt að vera með lambhúshettu úti núna þegar sólin skín og það er komið gleðilegt sumar?
.

163cc-Lawn-Mover-Grass-Cutter-

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

lol

Óskar Þorkelsson, 31.5.2009 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband