Tærnar og hælarnir
2.3.2009 | 20:08
Gott kvöld,
Nú hefst þátturinn "Býr bavíani hér"... þáttur í anda Sherlock Holmes þar sem stækkunarglerinu er beint að orðum og orðtökum.
Tölum örlítið um orð sem tengjast búknum okkar;
Oft er talað um að hæla einhverjum? Ég verð nú að hæla þér fyrir dugnaðinn Dengsi minn.
Svo er talað um að vera á hælunum og þá er ekki hægt að hæla manni vegna þess að þá er maður með allt niður um sig.
Þá er talað um að vera á tánum... mér finnst ég alltaf vera á tánum en á sama tíma er ég á hælunum líka.
Svo er maður á herðablöðunum þegar maður hefur fengið sér einum og mikið í tána. Undir slíkum kringumstæðum hafa Íslendingar oft gefið hvor öðrum kinnhest eða jafnvel einn á kjammann.
En svo hefur vafist fyrir mér orðið bumbult, átta mig ekki alveg á því hvort og þá hvernig það tengist líkama okkar.
En kannist þið við skylt orð, bumbuull... ?
Jú, bumbuull er þessi illræmda naflaló sem var í fréttunum fyrir stuttu.
Þættinum er lokið.
Brattur, alltaf með tærnar rétt hjá hælunum.
.
.
Athugasemdir
Íslenskt mál: "Þættinum hefur borist bréf" :-)
Alltaf gaman að svona pælingum :-)
Einar Indriðason, 3.3.2009 kl. 07:41
Þetta er alveg bráðskemmtilegt. Etu búin að leita orðskýringa í nýju orðabókinni á netinu?
Góðar kveðjur til þín, Brattur min, - (er sjaldan inni núorðið....og þess vegna svona ógnarlega hátíðleg).
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.3.2009 kl. 21:42
Það er orðið framorðið, Ingibjörg. sagði Árni Böðvars hérna um árið.
Mig langar að biðja þáttinn um að útskýra orðasambandið að „mæla gólflistana“
Ingibjörg Friðriksdóttir, 3.3.2009 kl. 22:10
Ný orðabók á netinu? Ekki hef ég séð hana... nota bara orðabókina í toppstykkinu...
Að mæla gólflistana verður tekið fyrir mjög fljótlega, eða við annan ostbita eins og maðurinn sagði...
Brattur, 4.3.2009 kl. 08:04
Orðið "bumb-ult" er yfirleitt notað um bumbuull (naflaló) sem dettur-veltur sjálf úr naflanum og þá sem hespa eða hnykill, til rýma fyrir nýrri. Kona að austan benti Tuðaranum á að ef manni væri orðið "bumbult", væri kominn tími til að fara í bað og skola úr naflanum. Meðalnafli tekur ekki nema fjögurra til fimm daga "hnykil" (er y eða einfalt i í þessu orði, ha? )og því ljóst að talsvert er til í þessari ábendingu að austan. Annars er orðabókin í toppstykkinu á þér, Brattur minn, alveg nóg hverjum manni og konu. Þú verður bara að gæta að því að hafa hana ávallt opna og aðgengilega fyrir okkur hin.
Halldór Egill Guðnason, 4.3.2009 kl. 08:41
Ég brenn í skinninu, enda að kenna ungum börnum sem gott hafa af því að auðga málskilning sinn.
ég var einu sinni vel slompuð í Njálsbúð og það gekk alveg fjöllunum hærra, að ég hefði enn einu sinni farið yfir strikið og mælt gólflistana þarna niður í Vestur Landeyjum. Alltaf langað að vita samhengið í því.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 4.3.2009 kl. 14:19
Halldór... ótrúlegt hvað þessi kona að austan býr yfir mikilli þekkingu, man varla eftir þætti um íslenskt mál í útvarpinu í gamla daga þar sem hún kom ekki við sögu...
Ingibjörg ... gott að fá meiri upplýsingar um "að mæla gólflistana" áður en það verður tekið fyrir í þættinum.
Brattur, 4.3.2009 kl. 18:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.