Skarphéðinn Skata - fyrri hluti
16.12.2007 | 22:23
... hér kemur söguleg skáldsaga um það hvernig Skatan varð til...
Skarphéðinn Skata var bróðir hennar Laufu sem Laufabrauðið er nefnt eftir.Fleiri voru í þessum systkinahópi og má hér minnast á Patrek Pipar sem fann upp piparkökurnar, en hans saga verður sögð síðar.
Skarphéðinn Skata öfundaði Laufu fyrir þá frægð sem henni hafðí hlotnast vegna þessarar þunnu ómerkilegu köku sem hét í hausinn á henni, Laufabrauð.
Laufa var vinsæl á mannamótum og oft var henni boðið í veislur í jólamánuðinum þar sem hún hélt erindi um Laufabrauðið sitt og hvernig best væri að ná því þunnu, bragðgóðu og fallega útskornu.
Orðið ER-indi var að vísu ekki komið til sögunnar á þessum tíma, en þá var notað orðið VAR-indi yfir slíkar ræður.
Skarphéðinn Skata var yngri en Laufa. Hann var með stórt höfuð, mikið enni, stingandi augnaráð, uppbrett kartöflunef og stóra bumbu. Hann var nákvæmlega jafn heimskur og hann leit út fyrir að vera.
Sumarið sem hann var 33 ára notaði hann til að klóra sér í hausnum. Hvernig gæti hann eiginlega öðlast eilífa frægð eins og Laufa systir?
Hann vildi láta minnast sín í mannkynssögunni fyrir eitthvað svipað afrek. Að á hverju ári, ákveðinn dag myndu allir nefna nafn hans og borða eitthvað sem hann hefði fundið upp sjálfur.
Sumarið sem hann klóraði sér sem mest í hausnum sat hann á steini niður í fjöru á hverjum degi, klóraði og klóraði og leysti vind í leðurbuxurnar sínar með reglulegu millibili.
Þegar líða tók á sumarið var farinn að stíga upp úr buxnastrengnum rosaleg fýla, sambland af svita Skarphéðins Skötu og viðrekstri hans frá því um vorið. Lyktin var svo svakaleg að jafnvel mávar tóku stóran sveig á flugi sínu framhjá Skarphéðni á steininum.
.
.
Einn daginn um miðjan ágúst, klæjaði hann alveg rosalega, fyrst í vinstri og svo í hægri rasskinninni. Hann stakk höndunum undir buxnastrenginn og klóraði fast með löngum, skítugum nöglunum.
En kláðinn bara jókst og þetta endaði með að Skarphéðinn Skata reif sig úr buxunum og henti þeim í fjöruna.
Hann dýfði sárum afturendanum í sjóinn og ranghvolfdi í sér augunum af sælu þegar köld aldan lék við botninn á honum. Allt í einu sá hann útundan sér að buxurnar voru á hreyfingu í flæðarmálinu, eins og þær væru lifandi þarna í sjónum. Hann greip í skálmarnar og snéri upp á þær, þar til þær stóðu í spíss gegn honum. Lifandi buxurnar streittust á móti, spíssinn rann í gegnum samanherpta fingur hans og þessi ótrúlega skepna sem þarna hafði fæðst í fjörunni synti á haf út. Skarphéðinn Skata stóð stjarfur eftir með rauðan rass og horfði í augun á þessari skepnu um leið og hún renndi sér í gegnum öldurnar og hvarf í hafið.
... framhald...
Athugasemdir
Hvað ætlar þú að borða á heilgan Þollák?
Ingibjörg Friðriksdóttir, 16.12.2007 kl. 22:35
... ég reikna með að borða bananasplit...
Brattur, 16.12.2007 kl. 22:38
Hafðu jarðaber sitt hvoru megin.
Ég mun allavega minnast sögunnar um tilkomu skötunnar, þega Þorláksmessa rennur upp. Í leðurbrækurnarhahahahahahahahahahaahaaaaaaaaaaaa!
Ingibjörg Friðriksdóttir, 16.12.2007 kl. 23:26
Ég bíð eftir framhaldinu.Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 17.12.2007 kl. 07:19
Spennandi mín vegna má Skarphéðinn Skata hvíla í sinni fýlu á degi Þorláks, sem og aðra daga
Arnfinnur Bragason, 17.12.2007 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.