Litla vekjaraklukkan - smásaga
5.12.2007 | 23:13
Einu sinni var lítil vekjaraklukka. Hún var ekki eins og venjuleg vekjaraklukka...
því hún átti afskaplega erfitt með það að vakna á morgnana... hún var eiginlega algjör svefnpurka...
Vekjaraklukkan var silfurgrá, með tveimur litlum bjöllum á höfðinu. Á milli bjallnanna var krómuð stöng og litlar mjóar fætur klukkunnar voru í stíl við þessa krómuðu stöng. Bakið á henni var svart.
Litla vekjaraklukkan var með fjóra vísa. Klukkustunda, mínútu og sekúnduvísi sem voru allir svartir. Fjórði vísirinn var silfurgrár og það var vísirinn sem stjórnaði því hvenær hún átti að vekja eiganda sinn.
.
.
Eftir að hafa verið sett saman á verkstæðinu var henni pakkað í lítinn hvítan pakka og síðan í annan stærri, brúnan og hún síðan send í búðina.
Hún stóð stillt á hillunni í búðinni, ásamt mörgum öðrum klukkum. Fólk kom og skoðaði klukkur, virti þær fyrir sér, tók þær upp og athugaði hvort þær væru nógu fallegar til að vera á náttborði.
Margar klukkur voru keyptar í viku hverri, en það var enginn sem gaf litlu klukkunni gaum. Enginn snerti hana, enginn skoðaði hana.
Hún var mjög kvíðin því að þurfa að vera allaf í búðinni, alla sína ævi. Hún var líka með áhyggjur af því að sá sem keypti hana myndi alltaf vilja vakna of snemma. Hún var viss um að hún myndi oft sofa yfir sig og þá yrði henni hent í ruslið.
Dag einn var dimmviðri, rigning og rok. Fátt fólk var á ferli, fólk hljóp framhjá búðarglugganum. Ekki nokkur sála hafði komið inn í búðina í marga klukkutíma.
En allt í einu opnaðist útihurðin hægt og rólega. Litla vekjaraklukkan leit upp. Inn um dyrnar steig kona með kolsvart sítt hár. Ómálað andlit hennar var fíngert og fagurt og líkami hennar nettur. Hreyfingar hennar voru mjúkar þegar hún gekk inn eftir búðargólfinu og skoðaði með áhuga fallegu hlutina sem voru í hillunum. Hún var greinilega ekkert að flýta sér. Strauk hendinni um rennblaut gljáandi hárið og reyndi að þurrka það.
Augun í henni voru mjög sérstök. Þau voru eins og stórir dropar sem lágu á hliðinni. Augun voru dökk og djúp og í þeim var glampi. Úr þeim var hægt að lesa mikla reynslu og kærleika.
Ó, hugsaði litla vekjaraklukkan , mikið vildi ég að þessi fallega kona keypti mig, hún er svo góðleg. Klukkan litla fylgdist með hverri hreyfingu fallegu konunnar þegar hún nálgaðist. Svo stóð hún loksins fyrir framan klukkuna. Tók hana upp og skoðaði í bak og fyrir.
Án þess að segja nokkuð, gekk konan að afgreiðsluborðinu og setti klukkuna þar. Tvöhundruð og fimmtíu krónur, sagði afgreiðslukonan. Konan borgaði og setti síðan klukkuna í handtöskuna sína.
Þegar heim var komið tók konan klukkuna silfurgráu upp úr töskunni og setti hana á náttborðið sitt,
klæddi sig í náttföt og skreið undir sæng. Hún teygði sig í klukkuna og stillti vekjarann á sjö.
Úff, hugsaði vekjaraklukkan, klukkan sjö... ég get bara ekki vaknað svona snemma, nú verður mér hent í ruslið á morgun.
Dökkhærða, fallega, netta konan slökkti ljósið.
Litla vekjaraklukkan var andvaka. Hún var svo hrædd um að sofa yfir sig og þá myndi nýi eigandi hennar sem lá þarna sofandi í rúminu, ekki vilja eiga hana og skila henni aftur eða henda henni. Hún bara gat ekki sofnað, litla vekjaraklukkan; ég verð bara vakandi í alla nótt, vek svo fallegu konuna klukkan sjö og síðan fer ég að sofa, hugsaði klukkan.
Góðan daginn, litla vekjaraklukka. Falleg mjúk, en örlítið dimm kvenmannsrödd smaug inn í drauma vekjaraklukkunnar.
Klukkan litla teygði sig og hristi... ooooo... ég vissi það... ég vissi það... ég svaf yfir mig...ooooo nú er ég búin að vera, hugsaði hún...
Ég vissi að þú værir svefnpurka, sagði fallega konan. Ég keypti þig ekki til að vekja mig. Ég keypti þig af því að þú ert svo falleg og góð, sagði konan og brosti. Ég þarf að hafa einhvern hjá mér til að geta talað við og sem skilur mig.
Ég veit að okkur á eftir að koma vel saman.
Og upp frá því stóð litla silfurgráa vekjaraklukkan á náttborði fallegu konunnar með kolsvarta síða hárið... og vaknaði aldrei fyrr en eigandi hennar bauð góðan daginn á hverjum morgni.
Athugasemdir
Hvar fær maður svona klukku? Góð saga.
Halldór Egill Guðnason, 5.12.2007 kl. 23:20
Krúttlegt - er þetta kínversk klukka?
Edda Agnarsdóttir, 6.12.2007 kl. 00:56
Jólagjöfin í ár!
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.12.2007 kl. 10:29
Vekjaraklukkusamband í nýrri vídd. Ég er hrædd um að samband mitt við mína sé ekki svona fallegt...
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 6.12.2007 kl. 22:37
Ég á líka eina sem sefur alltaf yfir sig.
gerður rósa gunnarsdóttir, 13.12.2007 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.