Hugsað til baka
27.11.2007 | 22:41
... ég var alinn upp í litlu sjávarþorpi... mikil einangrun og varla bílvegur fær úr þorpinu, nema yfir blásumarið... flóabáturinn Drangur kom tvisvar í viku, ef ég man rétt... þá stóðum við krakkarnir í fjörunni og góluðum "hey babiríbba, Drangur er að píbba"... dagblöðin kom oft í vikuskömmtum og ekkert sjónvarp... hlustað á ríkisútvarpið og bátabylgjuna...
... flestir karlarnir sjómenn og pabbi var sjómaður... maður sá hann ekki nema af og til, var á vertíð einhversstaðar annarsstaðar á landinu... þannig kom það til að flestir voru kenndir við mömmur sínar.... Böddi Hófu, Gilli Sigurveigar, Ægir Fjólu...
... ekki ætla ég að segja að hlutirnir hafi verið betri þá, síður en svo... en hef ekkert annað en skemmtilegar minningar og frekar áhyggjulaust líf...
... ég er með í smíðum ljóðakafla frá þessum árum sem ég skipti um í þrjá kafla... tvo um vini mína Bödda Hófu og Ægir Fjólu... sá þriðji verður svo um mig og mínar minningar frá þessum árum...
... allir sjómenn voru í svörtum duggarapeysum, eins og Kolbeinn kafteinn sjálfur... hann hefði fallið vel í þann hóp...
.
.
Karlarnir.
Að verða stór
gerðist ekki bara si svona
Það báru karlarnir með sér
sjóbrúnir í andliti
með skeggbrodda
og reynslumikil dimm augu
svo klárir
og vitrir
og sterkir
og duglegir til vinnu
vissu alltaf
hvað þeir áttu að gera
ekkert hik
á mínum mönnum
herðabreiðir
í svörtum
duggarapeysum
Athugasemdir
Ég er líka alin upp í sjávarþorpi og get speglað mig í þessu fallega og sanna (hvað svosem sannleikur fyrirstillir.....) myndbroti. Hlakka til að fylgjast með meiru.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 27.11.2007 kl. 22:47
Hlakka til að sjá framhaldið á ljóðabálknum. Þetta með viðurnöfnin virðist alveg horfið, eins og reyndar margt annað, en ég man alltaf best eftir einu nafni á manni sem ég hef ætíð vorkennt. Hann var sonur hennar Þuru og var aldrei kallaður annað en Steini Þuruskítur.
Halldór Egill Guðnason, 28.11.2007 kl. 10:51
Flottur Brattur!... bíð eftir framhaldinu
Arnfinnur Bragason, 28.11.2007 kl. 13:19
Kannast við lýsinguna, kem sjálfur úr þessum jarðvegi,hef hvergi kynnst þessari venju nema frá Siglufirði,var nokkrar vertíðir samtíma strákum þaðan sem allir voru kenndir við mæður sínar,og svo áfram með ljóðabálkin,þetta lítur vel út.Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 28.11.2007 kl. 21:37
Varð einu sinni inniluksa í sjávarþorpi og græddi ekkert smááááá!
Eignaðist tvo krakka með flottum Austfirðing, sem alltaf klæddist dökkblárri eöa svartri duggarapeysu.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 28.11.2007 kl. 22:10
Ólst líka upp í sjávarþorpi. Hlakka til að sjá framh.
Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.